Mynd/Matís Eva Margrét Jónudóttir, starfsmaður Matís, á vettvangi í Birkihlíð.
Fréttir 22. nóvember 2019

Áskorun að skýrsla um örslátrunarverkefni Matís verði birt

smh
Félag sauðfjárbænda í Rangár­vallasýslu hefur sent áskorun til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, Landssamtaka sauðfjárbænda, Bændasamtaka Íslands og Matís ohf. þar sem hvatt er til þess að niðurstöður úr svokölluðu örslátrunarverkefni Matís verði gefnar út. Í verkefninu var grundvöllur tillagna Matís fyrir heimaslátrun kannaður á bænum  Birkihlíð í Skagafirði í nóvember á síðasta ári.
 
Í bréfi Félags sauðfjárbænda í Rangárvallasýslu kemur enn fremur fram áskorun um breytingar á lögum þar sem leyfisveitingar fyrir heimaslátrun til sölu verði rýmkaðar og einfaldaðar. 
 
Niðurstöður ekki verið birtar
 
 „Haustið 2018 fór Matís af stað með verkefni undir forystu Sveins Margeirssonar, þar sem grundvöllur örsláturhúss var kannaður í formi heimaslátrunar. Tekin voru sýni í ferlinu og úr afurðunum og vinnsluferlið allt kannað og metið. Vitað er að niðurstöður liggja fyrir, en hafa ekki verið birtar,“ segir í bréfi félagsins.
 
Leyfisveitingar rýmkaðar
 
„Stjórn Félags sauðfjárbænda í Rangárvallasýslu skorar á landbúnaðarráðuneytið, Landssamtök sauðfjárbænda, Bændasamtök Íslands og Matís ohf. að beita sér fyrir því að niðurstöður úr verkefninu um örsláturhús sem Matís fór af stað með haustið 2018 verði kynntar. Jafnframt að möguleikar á örsláturhúsi eða leyfisveitingum fyrir heimaslátrun til sölu verði rýmkaðar og einfaldaðar, þó þannig að ávallt sé gætt að heilnæmi og öryggi matvælanna. Hvetur stjórn félagsins til þess að öllum ráðum verði beitt í þessu máli og þurfi lagabreytingar til, verði unnið að gerð þeirra,“ segir í áskorun félagsins. 
Erlent