Núverandi útbreiðsla ávaxtaflugutegundarinnar Bactrocera dorsalis.
Fréttir 19. febrúar 2019

Ágengum og skaðlegum tegundum flugna fjölgar í Evrópu

Vilmundur Hansen

Ávaxtaflugur sem upprunnar eru í Asíu og sagðar vera ágengustu tegundir ávaxtaflugna í heiminum greindust í fyrsta sinn lifandi í Evrópu á síðasta ári. Lifandi flugur voru greindar á ræktarlandi á tveimur stöðum á Ítalíu.

Þrátt fyrir að ekki hafi greinst nema átta lifandi eintök af tegundinni, sem gengur undir heitinu Bactrocera dorsalis á latínu, er talið áhyggjuefni og hætta sögð á að flugurnar geti fjölgað sér hratt. Viðkoma flugnanna er hröð og allt að tíu kynslóðir á ári við góð skilyrði og getunnar til að lifa við fjölbreytt umhverfisskilyrði.

Alvarlegur skaðvaldur

Dauðar flugur af tegundinni finnast iðulega í ávaxtasendingum frá Asíu. Flugurnar eru upprunnar og algengar í Asíu og í Afríku þar sem þær hafa dreift hratt úr sér. Þær hafa einnig fundist í ávaxtarækt í suðurríkjum Bandaríkjanna.

Á hverju ári veldur lirfa tegundarinnar miklum skaða í ávaxta- og matjurtarækt og í sumum tilvellum eyðileggur hún 100% uppskerunnar sé ekki gripið til skordýraeiturs og efnavarna til að halda henni í skefjum. Flugurnar leggjast meðal annars á banana, mangó og avakadó auk þess sem lirfur þeirra hafa fundist í innfluttum tómötum, eplum og perum til Evrópu.

Ekki er vitað með vissu hvernig flugurnar sem greindust lifandi á Ítalíu bárust út á akrana en talið er að lirfur þeirra hafi borist til landsins með ávöxtum og eins og lirfum er tamt umbreyst í fullvaxnar flugur og flogið á akurinn þar sem þær veiddust í flugnagildru.