Burstaormar.
Fréttir 15. janúar 2020

412 nýjar tegundir greindar 2019

Vilmundur Hansen

Þrátt fyrir þá staðreynd að líffræðileg fjölbreytni eigi undir högg að sækja í heiminum og að á hverju ári fækki dýra- og plöntutegundum í heiminum er það svo að enn eru að finnast tegundir sem ekki hafa verið greindar áður.

Á síðasta ári skráði Náttúru­gripasafnið í London 412 tegundir lífvera sem ekki hafði verið lýst áður. Meðal nýskráðra lífvera eru fléttur, snákar, útdauðar risaeðlur og bjöllur.

Fleiri tegundir deyja út en greinast

Þrátt fyrir þessar góðu fréttir segja sérfræðingar í líf­fræðilegri fjölbreytni að því miður deyi fleiri tegundir út á hverju ári en greinast sem áður óþekktar. Einnig er sagt líklegt að margar tegundir deyi út áður en þær eru greindar og því ekkert vitað um þær.

Fundur og greining nýrra lífvera er alltaf spennandi og veitir vísindunum aukna innsýn í þróun lífsins og hversu mikið við eigum enn ólært um margbreytileika lífsins.

Bjöllur í meirihluta

Af nýgreindum tegundum árið 2019 eru bjöllur í meirihluta, alls 171 tegund. Ein af þessum bjöllutegundum, Nelloptodes gretae, sem fannst á síðasta ári í Japan, Malasíu, Kenía og Venesúela, var nefnd í höfuðið á sænska umhverfisverndarsinnanum Gretu Thunberg.

Meðal annarra dýrategunda sem greindust eru átta eðlutegundir, fjórir fiskar og ein slöngutegund auk vespu, margfætlu, lúsar, snigils og nokkurra fiðrilda. Meðal útdauðra tegunda sem greindar voru eru snjáldurmús, eitt pokadýr og tvær tegundir af risaeðlum. Þá greindust einnig tólf tegundir burstaorma sem lifa djúpt á botni Kyrrahafsins.

Á síðasta ári voru einnig greindar sjö nýjar plöntutegundir og sjö nýjar fléttur. 

Erlent