Þó spár hafi verið gefnar út um samdrátt í efnahagsmálum á heimsvísu af OECD og fleiri stofnunum, þá taka menn gjarnan fram að í öllum þessum spám sé nær algjör óvissa um framvinduna.
Fréttaskýring 05. júlí 2020

Versti efnahagsskellurinn vegna COVID-19 á enn eftir að koma í ljós

HKr.
Heimsbyggðin er enn ekki farin að upplifa verstu efnahagslegu afleið­ingarnar af COVID-19 ef marka má spár OECD. Samkvæmt áætluðum tölum var mest atvinnuleysi á Spáni eftir 1. ársfjórðung 2020, eða 13,9%. Þá kom Frakkland með 7,8% og í þriðja sæti var Kanada með 6,3% atvinnuleysi. Á evrusvæðunum sem samanstendur af 17 ESB ríkjum, þá var atvinnuleysið að meðaltali 7,2%. 
 
Í lok fyrsta ársfjórðungs var uppsagna í kjölfar vandræða fyrirtækja út af lokunum vegna COVID-19 ekki farnar að gæta mjög. Í spá OECD um annan ársfjórðung er greinilega farið að meta inn í tölurnar áhrif af uppsögnum og gjaldþrotum fyrirtækja. Þá er Spánn kominn í 19% atvinnuleysi að meðaltali og Bandaríkin komin upp í annað sætið með 17,5% atvinnuleysi. Í þessari sviðsmynd er meðaltalsatvinnuleysi OECD ríkjanna 11,4%, en minnst eru áhrifin af COVID-19 sögð í Japan en þar er atvinnuleysi á öðrum ársfjórðungi 2020 metið 3,6%. 
 
Mat OECD er að á þriðja ársfjórðungi verði atvinuleysið á Spáni komið í 22% og lækki í 13,5% í Bandaríkjunum en verði 12,4% í Frakklandi sem er þar í þriðja sæti. OECD löndin eru þá að meðaltali með 10,6% atvinnuleysi. 
 
Á fjórða ársfjórðungi er búið að reikna áhrif af annarri bylgju COVID-19 inn í spána. Samkvæmt því yrði Spánn kominn með 25,5% atvinnuleysi að meðaltali og Bandaríkin með 16,9%. Í þriðja sæti er komið Bretland með 14,3% og Frakkland er þar í fjórða sæti með 13,7% atvinuleysi. Evruríkin eru þar talin verða með 12,6% atvinnuleysi að meðaltali og OECD ríkin það sama. Japan er sem fyrr lægst með 4% atvinnuleysi. 
 
Hægur viðsnúningur á næsta ári
 
OECD áætlar að á fyrsta árs­fjórðungi 2021 fari örlítið að draga úr atvinnuleysinu og sýnir þar Spán með 24% atvinnuleysi, Bandaríkin með 13,6% og Frakkland í þriðja sæti með 12,4%, en Bretland í því fjórða með 11,8%.
 
Undir lok næsta árs er gert ráð fyrir áframhaldandi minnkun atvinuleysis, en eigi að síður yrði það meira en við upphaf COVID-19. Spánn verður þar að mati OECD með 20% atvinnuleysi, Frakkland með 10,3%, Evrusvæðin með 10,2% og Bandaríkin með 10%. Samkvæmt þessari spá yrðu OECD löndin komin niður í 8,9% atvinuleysi að meðaltali í árslok 2021.