lls nam útflutningur á óunnum afla úr landi á árinu 2019 44.727 tonnum samanborið við 47.212 tonn árið 2018. Óunninn fiskur fer eftir tveimur leiðum úr landi, annars vegar beint af fiskiskipi í gáma og hins vegar frá fiskvinnslum í gáma. Mynd / HKr.
Fréttaskýring 30. mars 2020

Óunninn afli úr landi

Guðjón Einarsson

Sala á óunnum fiski frá Íslandi á sér langa sögu en hefur hvað eftir annað vakið upp harðar deilur, nú síðast í haust bæði á Alþingi og í fjölmiðlum. Samkvæmt nýjum tölum Fiskistofu nam útflutningur á óunnum fiski tæpum 45 þús­und tonnum á síðasta ári sem er heldur minna en á árinu á undan. Þorskur, ýsa og karfi eru uppi­staðan í þessum útflutningi.

 

Siglingar íslenskra fiskiskipa með botnfisk og flatfisk á erlendan markað tíðkuðust frá því snemma á 20. öldinni og náðu hámarki árin 1988 og 1989 þegar siglt var með 46 þúsund tonn af botnfiski á erlendar hafnir hvort árið. Nokkrum árum áður hófst útflutningur á ísfiski með nýju sniði þegar farið var að flytja óunninn fisk utan í gámum með flutningaskipum. Árið 1982 nam gámaútflutningurinn 2.000 tonnum en jókst í 73.000 tonn árið 1986 og í 92.000 tonn árið 1990. Á árunum 1986-1990 voru flutt út milli 50 og 60 þúsund tonn af óunnum þorski ýmist með gámum eða fiskiskipum og heildarútflutningurinn komst upp í 150.000 tonn á ári. Eftir það minnkaði ísfiskútflutningurinn nokkuð hratt og var komin niður fyrir 60.000 tonn árið 1997.

Íslenskir fiskmarkaðir voru þá komnir til sögunnar og hefur það vafalaust haft sín áhrif. Útgerðir sem ekki voru tengdar fiskvinnslu þurftu ekki lengur að leita út fyrir landsteinana til þess að freista gæfunnar á fiskuppboðum, þótt aðrir teldu hag sínum betur borgið með því að halda tryggð við erlendu uppboðsmarkaðina.

Lítils háttar samdráttur milli ára

Nú liggja fyrir hjá Fiskistofu upplýsingar um útflutning á óunnum afla á árinu 2019. Alls nam hann 44.727 tonnum samanborið við 47.212 tonn árið 2018. Erfitt er um samanburð við árin þar á undan að sögn Fiskistofu. Ástæðan er sú að óunninn fiskur fer eftir tveimur leiðum úr landi, annars vegar beint af fiskiskipi í gáma og hins vegar frá fiskvinnslum í gáma. Nýjustu tölur Fiskistofu sameina hvort tveggja, en eldri tölur ná einungis yfir þann afla sem fór beint af fiskiskipi í gáma.

Ýsa og þorskur til Bretlands

En hvernig skiptist þessi útflutningur eftir tegundum og markaðslöndum? Eins og sést á meðfylgjandi töflum nam útflutningur á óunnum þorski 8.000 tonnum á árinu 2019 sem er rúmlega 2.600 tonna samdráttur frá fyrra ári. Hins vegar jókst ýsuútflutningurinn á sama tíma um nálægt 2.000 tonn og nam 9.000 tonnum. Þessi aukning í ýsu vakti öðru fremur umræðurnar síðastliðið haust. Bretlandi er langstærsti kaupandi óunninnar ýsu frá Íslandi og nam hlutur Breta 95% af heildinni. Hins vegar dreifist þorskurinn aðallega á þrjú lönd, Bretland sem er með tæpan helming og síðan Þýskaland og Holland.

Karfi til Þýskalands og Frakklands

Karfi er sú tegund sem mest er flutt út af sem óunninn fiskur eða um 14.000 tonn og fer hann fyrst og fremst til tveggja landa. Þýskaland tekur upp undir tvo þriðju af heildinni og Frakkland stærstan hluta af því sem eftir er. Þýskaland tekur líka megnið af ufsanum og Pólland næsta á eftir. Í umræðunni síðastliðið haust var því haldið fram að Pólverjar væru farnir að sækja í auknum mæli í óunninn fisk á Íslandi til þess að vinna þar ytra, en tölur Fiskistofu gefa til kynna að kaup þeirra hafi þvert á móti minnkað úr 3.000 tonnum í 2.000 tonn milli áranna 2018 og 2019.

Hversu hátt hlutfall?

En hversu stór hluti er þessi útflutningur af heildarveiðinni? Umreiknað í slægðan afla til samræmis við útflutningstölurnar má ætla að óunninn afli úr landi hafi verið í kringum 10% af heildarbotnfisk- og flatfiskaflanum á árinu 2019. Hlutfallið er hins vegar mjög mismunandi eftir tegundum. Þannig nam þorskurinn 3,5% af heildarþorskaflanum á síðasta ári, af ýsu voru flutt út 18% af heildarýsuveiðinni, af ufsanum 10% og af karfanum 26%. Hlutfall útflutnings í gámum af sumum flatfisktegundum er mun hærra eða 40% í skarkola og 55% í þykkvalúru en magnið er líka mun minna.

Rökin gegn gámafiskinum

Fiskvinnslufyrirtæki sem ekki reka útgerð og eru því háð framboði hráefnis á fiskmörkuðum og í beinum viðskiptum við óskylda aðila hafa ávallt barist hart fyrir því að hömlur væru settar á útflutning á óunnum fiski. Samtök þeirra, sem nú heita Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda (SFÚ),  vilja að sá fiskur sem nú fer beint í gáma til útflutnings verði boðinn upp á íslenskum fiskmörkuðum svo allir geti boðið í hann. Þá fullyrða þau að aukning sé einnig í útflutningi á óunnum fiski sem keyptur sé á fiskmarkaði og síðan fluttur út í gámum.

Arnar Atlason formaður SFÚ hefur bent á að það séu hags­munir þjóðarinnar í heild að verðmætasköpun úr sameiginlegri auðlind hennar verði sem mest innanlands. Hann hefur haldið því fram að ætla megi að fluttur sé út óunninn fiskur að verðmæti 10 milljarðar króna á ári. Verðmætaaukning við vinnslu hér heima gæti að hans mati numið 20-40% eða sem svaraði 2-4 milljörðum króna. Um það bil einn starfsmaður væri á bak við hver 100 tonn og færu 50.000 tonn óunnin úr landi töpuðust 500 störf í fiskvinnslu að ótöldum afleiddum störfum.

SFS á móti hömlum á útflutning

Jens Garðar Helgason formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) kveðst setja spurningamerki við þennan útreikning. Útflutningur  óunninn fiskur fer eftir tveimur leiðum úr landi, annars vegar beint af fiskiskipi í gáma og hins vegar frá fiskvinnslum í gáma. á óunnum fiski hafi mjög lengi verið einn af þeim valkostum sem sjávarútvegsfyrirtæki hafi haft til að ráðstafa afla á sem hagkvæmastan hátt hverju sinni. Þessi takmarkaði útflutningur hafi verið sveiflukenndur eftir gengi krónunnar og aðstæðum á mörkuðum. Sem dæmi nefnir hann að þegar Rússlandsmarkaður lokaðist á  einu augabragði fyrir nokkrum árum hafi þrengst mjög um markað fyrir frystar karfaafurðir og karfinn leitað í auknum mæli óunninn úr landi. Sumar fisktegundir séu það lágt verðlagðar fullunnar að ekki borgi sig að vinna þær hérlendis.

„Ég veit að íslenskir útgerðarmenn og fiskverkendur reyna af fremsta megn að hámarka þau verðmæti sem þeir fá fyrir afurðir sínar. Þær miklu fjárfestingar sem stofnað hefur verið til upp á síðkastið í nýjum og öflugum frystihúsum eru ekki vísbendingar um að verið sé að stuðla að því að fiskvinnslan flytjist úr landinu, þvert á móti,“ sagði Jens Garðar Helgason.

Hömlur í fortíðinni

Í gegnum tíðina hafa stjórnvöld öðru hverju gripið til ýmissa ráða til þess að hamla gegn útflutningi óunnins fisks, svo sem með því að skammta það magn sem flytja mátti út, með því að setja kvótaálag á þennan afla og með því að skylda útgerðir til að tilkynna hann fyrirfram svo innlendir aðilar hefðu tækifæri til að gera tilboð í hann. Núna eru engar slíkar hömlur í gildi og það mátti skilja á Kristjáni Þór Júlíussyni sjávarútvegsráðherra fyrr í vetur að engar breytingar á því væru í bígerð.