Íslenski flotinn veiddi 68% af makrílafla sínum í alþjóðlegri lögsögu í ár en aðeins 32% í íslenskri lögsögu.
Íslenski flotinn veiddi 68% af makrílafla sínum í alþjóðlegri lögsögu í ár en aðeins 32% í íslenskri lögsögu.
Fréttaskýring 6. nóvember 2020

Makríllinn fjarlægist Ísland

Höfundur: Guðjón Einarsson

Það er visst áhyggjuefni að makrílstofninn skuli hafa breytt göngumynstri sínu í sumar og sveigt að mestu frá Íslandsmiðum. Aðeins 4% stofnsins gerðu sig heimakomin í íslenskri lögsögu í ár samanborið við 17-18% síðastliðin tvö ár og 38% árið 2017. Ekki þykir þó ástæða til að örvænta enn sem komið er.

Kristján Freyr Helgason, aðalsamningamaður Íslands í viðræðum við aðrar þjóðir um veiðar úr sameiginlegum uppsjávarstofnum, bendir á í samtali við Bændablaðið að sveiflur í dreifingu makrílstofnsins hafi sést áður. Því sé of snemmt að draga nokkrar ályktanir af þessari þróun um framhaldið.

Óleyst ráðgáta

Vísindamenn hafa ekki fullnægjandi skýringar á því hvers vegna makrílstofninn gekk að megninu til norður í Noregshaf að lokinni hrygningu í vor í stað þess að beygja að hluta til vesturs í átt til Íslands eins og hann hefur gert undanfarin ár. Anna Heiða Ólafsdóttir, sérfræðingur á Hafrannsóknastofnun og leiðangursstjóri á rannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni í makrílleiðangrinum í sumar, sagði í viðtali í Fiskifréttum í september sl. að engin augljós merki væru um að breytingar á hitastigi eða átumagni í sjónum hefðu valdið þessari þróun. Vísindamenn í mörgum löndum væru nú sameiginlega að leggja höfuðið í bleyti til að reyna að leysa ráðgátuna um far makrílsins.

Ekkert heildarsamkomulag um veiðar

Tilkall þjóða til kvóta úr sameigin­legum stofnum byggist einkum á tvennu, annars vegar á veru fiskistofnanna í lögsögu viðkomandi ríkis og hins vegar á veiðum ríkisins úr viðkomandi stofni. Ekkert heildarsamkomulag er um nýtingu makríkstofnsins. Staðan er þannig að frá árinu 2014 hefur ríkt samkomulag milli Evrópusambandsins, Noregs og Færeyja um að þessir aðilar úthluti sjálfum sér einhliða 84,4% af þeim makrílkvóta sem Alþjóðahafrannsóknaráðið telur óhætt að veiða úr stofninum hverju sinni. Það sem af gengur eða 15,6% er skilið eftir fyrir Ísland, Rússland og Grænland. Ísland hefur ekki sætt sig við þessa skilmála og hefur sett sér einhliða kvóta upp á 16,5% af ráðlögðum heildarafla. Þar við bætast svo veiðar Rússa og Grænlendinga þannig að heildaraflinn hefur farið verulega fram úr tillögum vísindamannanna.

Bretar nú sjálfstætt strandríki

Nýjustu viðræður viðkomandi þjóða um stjórn veiða úr makrílstofninum fóru fram í síðustu viku og báru þær þess merki að samkomulag Evrópusambandsins, Noregs og Færeyja rennur út í lok þessa árs þegar Bretar ganga úr ESB. Bretar tóku þátt í viðræðunum í fyrsta sinn sem sjálfstætt strandríki. Ekki náðist samkomulag um heildstæða stjórnun veiðanna frekar en áður og var viðræðunum frestað fram í seinni hluta nóvember.

Íslendingar náðu sínum kvóta

Þótt makrílstofninn hafi sniðgengið Íslandsmið að verulegu leyti í ætisgöngu sinni norður í höf í sumar kom það ekki í veg fyrir að Íslendingar næðu aflaheimildum sínum að stærstum hluta. Samkvæmt tölum Fiskistofu nam aflinn í ár um 152 þúsund tonnum sem samsvarar nokkurn veginn úthlutun ársins en óveiddur 20 þúsund tonna kvóti frá fyrra ári veiddist heldur ekki nú og flyst áfram til næsta árs.

68% veiddust í Síldarsmugunni

Sú breyting varð hins vegar á veiðimunstrinu að 68% aflans eða 106 þúsund tonn veiddust í alþjóðlegum lögsögunni austan Íslands sem í daglegu tali er kölluð Síldarsmugan. Aðeins 32% aflans eða 45 þúsund tonn veiddust innan íslenskrar lögsögu. Til samanburðar má nefna að ríflega helmingur makrílafla Íslendinga árið 2019 veiddist innan lögsögu okkar.

Þrátt fyrir að íslensku uppsjávarveiðiskipin hafi sem betur fer áfram haft aðgang að makrílnum í alþjóðlegu lögsöginni ollu þessar breytingar á göngumynstri hans óneitanlega erfiðleikum og óþægindum því mun lengra var að sækja aflann en áður eða lengst austur í haf. Til að bregðast við þessum breyttu aðstæðum var til dæmis myndað eins konar veiðifélag fjögurra skipa sem lönduðu makríl hjá Síldarvinnslunni í Neskaupstað. Samstarfið byggðist á því að því að hverju sinni var afla þeirra allra dælt um borð í eitt skip sem síðan flutti hann til vinnslu. Skiptust skipin um að taka aflann um borð. Þetta kom í veg fyrir að skipin væru að sigla með smáslatta í land um langan veg og tryggði einnig að hráefnið kæmist sem fyrst í land til vinnslu.

Smábátar fengu ekkert

Sá hluti fiskveiðiflotans sem fór hins vegar algjörlega á mis við makrílinn í ár var smábátarnir. Makríllinn gekk ekki upp að ströndinni í sumar og fjöldi smábátaeigenda sem á undanförnum árum hefur fjárfest í búnaði til þessara veiða sat eftir með sárt ennið. Makrílafli smábáta náði hámarki árið 2016 þegar hann nam 8.300 tonnum. Síðan fór hann minnkandi og var kominn í 2.000 tonn á árinu 2019. Á þessu ári hefur aðeins 8 tonna makrílafli verið skráður á smábátaflotann.

Nýr nytjafiskur

Óhætt er að segja að makríllinn sé nýr nytjafiskur við Ísland þótt heimildir séu um að hann hafi alltaf annað slagið fundist hér við land. Þannig er það rifjað upp í ritinu Nytjafiskar við Ísland eftir Hreiðar Þór Valtýsson að mikið magn af makríl hafi verið tilkynnt mörg ár í röð í kringum 1900 og á hlýja tímabilinu milli 1926 og 1945 og svo öðru hverju í litlu magni þess á milli og síðar.

Eftir hrun síldarstofnanna varð mjög lítið vart við makríl hér við land allt fram undir 1990 en þá fór hann að sjást æ oftar, segir í ritinu. Árið 2007 var magnið orðið það mikið að síldveiðiflotinn fór að lenda í vandræðum vegna meðafla af makríl og upp úr því fóru íslensku uppsjávarskipin að sækja sérstaklega í makrílinn af fullum krafti.

„Happdrættisvinningur“

Sem dæmi um það hve hratt veiðarnar þróuðust má nefna að árið 2006 nam makrílafli Íslendinga 4 þúsund tonnum, árið eftir jókst hann í 36 þúsund tonn og árið 2008 rauk hann upp í 112 þúsund tonn. Útflutningsverðmæti makrílafurða nam rúmum 600 milljónum króna á hrunárinu 2008, en átti síðan eftir að margfaldast á árunum þar á eftir. Var það mál manna að þessi „happdrættisvinningur“ í kjölfar efnahagshrunsins hefði ekki getað komið á betri tíma. Makríllinn átti sinn þátt í því að milda höggið af þessu áfalli þótt aukinn ferðamannastraumur til Íslands hafi auðvitað vegið þar þyngst.

Önnur verðmætasta fisktegundin

Á árunum 2011-2014 skilaði mak­ríll­inn á bilinu 20-24 milljörðum króna ár hvert í þjóðarbúið í útflutningsverðmætum. Árið 2011 var þessi nýi nytjafiskur til dæmis önnur verðmætasta fisktegundin við Ísland, næst á eftir þorski. Á þessum árum var ársaflinn á bilinu 150-170 þúsund tonn.

Þótt ekki drægi úr afla á árunum þar á eftir hrapaði útflutningsverðmæti makrílafurða um helming í kjölfar þess að Rússlandsmarkaður, aðalmarkaðssvæði Íslendinga í makríl, lokaðist vegna gagnkvæmra refsiaðgerða vesturlanda og Rússlands.

Munar um minna

Á árinu 2019 nam verðmæti makríls frá Íslandi 19 milljörðum króna eða 7% af heildarútflutningi sjávarafurða það ár. Aflinn var nokkru minni en árin á undan eða 120 þúsund tonn. Áætlað hefur verið að makrílvertíðin á þessu ári muni skila um 25 milljörðum króna. Það munar um minna.

Nýr fuglaflensufaraldur farinn að stórskaða alifuglaeldi víða um lönd
Fréttaskýring 4. mars 2021

Nýr fuglaflensufaraldur farinn að stórskaða alifuglaeldi víða um lönd

Fuglaflensa hefir skotið upp kollinum annað slagið í gegnum árin, en nú er óttas...

Örlagavaldur kríu og lunda
Fréttaskýring 2. mars 2021

Örlagavaldur kríu og lunda

Sandsíli við Ísland er í lægð. Stofninn hefur minnkað og nýliðun er lítil. Ástæð...

„Ekki einhver dulræn heimsendaspá eða hræðsluáróður – Þetta er raunveruleiki“
Fréttaskýring 19. febrúar 2021

„Ekki einhver dulræn heimsendaspá eða hræðsluáróður – Þetta er raunveruleiki“

Ekkert lát á landhremmingum auðmanna á bújörðum vítt og breitt um jarðkringluna
Fréttaskýring 29. janúar 2021

Ekkert lát á landhremmingum auðmanna á bújörðum vítt og breitt um jarðkringluna

Ásælni auðmanna í land, og þá einkum ræktarland um allan heim, jókst verulega í ...

Sögulega lítið hráefni í boði
Fréttaskýring 29. janúar 2021

Sögulega lítið hráefni í boði

Móttaka fiskimjölsverksmiðja á hráefni dróst saman um 6% á síðasta ári. Magn sem...

Vetni gæti leikið stórt hlutverk í að draga úr loftmengun í umferð og iðnaði
Fréttaskýring 19. janúar 2021

Vetni gæti leikið stórt hlutverk í að draga úr loftmengun í umferð og iðnaði

Nokkrir bílaframleiðendur eru nú að skoða möguleika sína að þátttöku í kapphlaup...

Stór hluti heimsaflans úr ólöglegum, óskráðum og stjórnlausum veiðum
Fréttaskýring 19. janúar 2021

Stór hluti heimsaflans úr ólöglegum, óskráðum og stjórnlausum veiðum

Áætlað er að 20–50% af fisk­aflanum úr heimshöfunum komi frá ólöglegum, óskráðum...

Iðnaðarhampur – ein planta sem uppfyllir allar þarfir mannkyns?
Fréttaskýring 5. janúar 2021

Iðnaðarhampur – ein planta sem uppfyllir allar þarfir mannkyns?

Iðnaðarhampur er afar marg­slungin planta sem hefur oft verið á milli tannanna á...