Samherji er langumsvifamesta íslenska fyrirtækið á erlendri grund. Á myndinni eru Cuxhaven og Berlin, nýjustu togarar DDFU, dótturfyrirtækis Samherja í Þýskalandi.
Fréttaskýring 10. desember 2019

Íslendingar umsvifamiklir í útgerð erlendis

Guðjón Einarsson

Íslendingar stunda útgerð fiskiskipa í að minnsta kosti þrettán löndum auk Íslands. Aflaverðmætið var áætlað yfir 100 milljarðar króna fyrir fjórum árum.

Íslenskir útgerðarmenn teygja anga sína víða um heiminn. Í erindi sem Kristján Hjaltason hélt á Sjávarútvegsráðstefnunni í Reykjavík árið 2014 kom fram að Íslendingar kæmu að útgerð nálægt 65 fiskiskipa erlendis ýmist með því að eiga fyrirtækin að öllu leyti eða að hluta. Flest þessara skipa eru togarar eða uppsjávarskip en þarna eru líka smærri bátar. Lausleg áætlun Kristjáns benti til að þessi skip veiddu yfir 500 þúsund tonn á ári, eða sem svaraði nálægt helmingi af ársafla íslenskra skipa.

Aflaverðmætið sagði hann að gæti numið yfir 100 milljörðum króna. Nýrra mat liggur ekki fyrir. Löndin sem um ræðir eru Þýskaland, Pólland, Bretland, Frakkland, Spánn, Eistland, Noregur, Færeyjar, Grænland, Kanada, Síle, Máritanía og Namibía.

Samherji langstærstur

Samherji er langumsvifamesta fyrirtækið á erlendri grund. Langt er síðan Samherji haslaði sér völl í útgerð í Þýskalandi, eða árið 1995.

Dótturfyrirtækið DFFU í Cuxhaven, sem er að fullu í eigu Samherja, á tvo nýsmíðaða frystitogara, Cuxhaven og Berlin. Þá tengist Samherji sjávarútvegi í Póllandi með eignarhaldi þýska dótturfyrirtækisins DFFU í pólska útgerðarfyrirtækinu Atlantex en það fyrirtæki gerir út þrjá togara samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Samherja. Breska útgerðarfyrirtækið Onward Fishing Company með aðsetur í Aberdeen í Skotlandi hefur verið í eigu Samherja frá árinu 1996 og gerir út einn togara. Félagið á auk þess helmingshlut, á móti hollenskri útgerð, í breska útgerðarfélaginu UK Fisheries sem gerir út tvo togara og er annar þeirra stór og glæsilegur frystitogari sem afhentur var nýsmíðaður á síðasta ári. UK Fisheries keypti sjávarútvegsfyrirtæki í Frakklandi og á Spáni nálægt áramótunum 20210/2011 og gera þau félög út nokkur skip.

Færeyjar, Noregur og Kanada

Auk þess á Samherji hlut í útgerðinni Framherja í Færeyjum sem hann tók þátt í að stofna árið 1994 ásamt Færeyingum. Framherji er eitt af stærstu útgerðarfélögunum í Færeyjum og gerir út þrjá togara. Enn er svo að nefna að dótturfélög Samherja í Þýskalandi keyptu árið 2014 um 20% hlut í Nergaard, einu af stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum Noregs. Við það tækifæri kom fram að félagið gerði m.a. út fimm togara og væri með 440 manns í vinnu. Loks má svo nefna að Samherji á hlut í sjávarútvegsfyrirtæki í Kanada sem gerir út frystitogarann Newfoundland Pioneer. Þá eru ótalin umsvif Samherja við Afríkustrendur sem nánar verður vikið að hér á eftir. Fram hefur komið að meira en helmingur af tekjum Samherja komi frá erlendri starfsemi félagsins.

Eistland, Grænland og Síle

Af umsvifum annarra íslenskra útgerða erlendis má nefna að fyrirtækið Reyktal sem skráð er í Eistlandi og Óttar Yngvason stendur að hefur um árabil gert út nokkra rækjutogara sem upprunalega veiddu á Flæmingjagrunni við Kanada en hafa í seinni tíð verið mikið í Barentshafi og við Grænland eftir að dró úr rækjuveiði á fyrstnefnda svæðinu.

Íslendingar koma nokkuð við sögu í grænlenskum sjávarútvegi. Þar er fyrst og fremst um að ræða Brim, Síldarvinnsluna og Ísfélag Vestmannaeyja. Brim á hlut í Arctic Prime Productions sem rekur fiskvinnslur á þremur stöðum á Grænlandi, í Quaqortoq, Nanortaliq og Kummiut, og á ennfremur í útgerðarfélagi sem gerir út nokkur skip. Þá á Ísfélag Vestmannaeyja hlut í útgerðinni Pelagic Greenland á móti stórfyrirtækinu Royal Greenland. Þetta félag gerir út tvö uppsjávarskip, Tuneq og Tasilaq, sem áður voru íslensk. Síðast en ekki síst er svo að nefna útgerðina Polar Pelagic sem Síldarvinnslan í Neskaupstað á að þriðjungi á móti Grænlendingum. Félagið gerir út Polar Amaroq, sem er eina grænlenska uppsjávarskipið sem er að veiðum allt árið. Skipið landar á Íslandi eins og önnur grænlensk uppsjávarskip, enda engin aðstaða á Grænlandi til þess að taka á móti uppsjávarfiski til bræðslu. Fleiri Íslendingar hafa reynt fyrir sér í Grænlandi en ekki allir haft erindi sem erfiði.

Loks skal svo nefna þátttöku HB Granda, nú Brims, í sjávarútvegi í Chile til margra áratuga. Félögin heita Friosur og Pesca Chile og gera út samtals átta fiskiskip auk reksturs á fiskiðjuveri.

Þess má geta að Vísir hf. haslaði sér völl í sjávarútvegi í Kanada um tíma og átti tæpan helming í stórfyrirtækinu Ocean Choice International (OCI) en seldi sinn hlut árið 2017. Þá áttu Finnur B. Harðarson og fleiri stærstan hlut í kanadíska fyrirtækinu Nataqnag sem gerði út þrjá togara við Austur-Kanada en svo mun ekki vera lengur eftir því sem næst verður komist.

Veiðar við Afríkustrendur

Íslendingar hafa stundað veiðar á makríl, hrossamakríl og sardínellu úti fyrir ströndum Marokkó og Máritaníu í Vestur-Afríku í rúma tvo áratugi eða frá því að Sjólaskip hófu þar veiðar árið 1997. Aðrir Íslendingar fylgdu svo í kjölfarið. Tíu árum síðar, eða árið 2007, keypti Samherji rekstur Sjólaskipa, sex verksmiðjuskip og tvö þjónustuskip, og hóf útgerð þar syðra. Ári seinna stofnaði einn Sjólaskipamanna, Haraldur Jónsson, útgerðina Úthafsskip sem nú gerir út þrjú verksmiðjuskip við Vestur-Afríku, sem heita Victoria, Gloria og Navigator. Þar er einnig togarinn Sóley sem tveir Íslendingar tengjast, þeir Páll Eyjólfsson skipstjóri og Jóhann Gunnarsson útgerðarstjóri, en aðaleigandinn mun vera hollenskur eða belgískur. Árið 2013 bárust svo fréttir af því að Samherji væri í viðræðum við rússnesku útgerðina Murmansk Trawl Fleet um sölu á útgerð Samherja við Afríku og gekk sú sala eftir. Samherji hætti þó ekki alveg Afríkuveiðunum því fyrirtækið hefur veitt við strendur
Namibíu á undanförnum árum eins og kunnugt er.

Upphaf Namibíuveiða

Þróunarhjálp Íslands við Namibíu hófst árið 1990 og fólst m.a. í hafrannsóknum, sjómannafræðslu og tæknilegri ráðgjöf ýmiss konar. Samhliða því kom fram áhugi heimamanna á því að komið yrði á laggirnar sjávarútvegsfyrirtæki sem sæi fólki fyrir vinnu. Ráðgjafarfyrirtækið Nýsir tók það verkefni að sér og til varð sjávarútvegsfyrirtækið Seaflower í bænum Luderitz. Namibíska ríkisfyrirtækið Fishchor lagði inn í fyrirtækið tvo spænska togara sem Namibíumenn höfðu tekið að ólöglegum veiðum í landhelgi og gert upptæka. Jafnframt var tekið fé að láni til að endurbyggja frystihúsið á staðnum. Íslenskar sjávarafurðir komu inn í þetta verkefni sem meðeigendur og söluaðilar á afurðunum auk þess sem fyrirtækið lagði til togara frá Íslandi. Þar með voru skipin orðin þrjú. Nokkur fjöldi Íslendinga réði sig til starfa hjá fyrirtækinu sem yfirmenn á skipunum og í fiskvinnslunni og framkvæmdastjórinn var íslenskur. Reksturinn gekk vel. Íslendingar ráku fyrirtækið í tíu ár en í kringum aldamótin vildu heimamenn taka alfarið við og keyptu íslensku meðeigendur sína út. Þar með var afskiptum Íslendinga af Seaflower lokið.

Eftirsótt sérþekking

Eins og að framan greinir koma Íslendingar víða við í sjávarútvegi utan landsteinanna og er þó hvergi nærri allt upptalið. Allmargir Íslendingar standa að smábátaútgerð í Norður-Noregi og mjög víða í heiminum eru íslenskir skipstjórnarmenn við stjórnvölinn á erlendum skipum. Sérþekking Íslendinga á sjávarútvegi er víða eftirsótt og verður vafalaust áfram.

Erlent