Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Baldur bústjóri við gegningar.
Baldur bústjóri við gegningar.
Fréttaskýring 23. ágúst 2019

Fyrstu holdanautin á leið til bænda

Höfundur: Vilmundur Hansen

Að Stóra-Ármóti er rekin einang­r­­unarstöð þar sem er verið að rækta upp nýjan stofn holdanauta. Alls hafa 23 gripir af kyninu Aberdeen Angus fæðst á stöðinni. Fyrstu fimm nautin verða send til bænda fljótlega en kvígurnar eiga að mynda ræktunarhjörð við einangrunarstöðina. 

Fyrirtækið sem rekur einang­r­unarstöðina heitir Nautgripa­ræktarmiðstöð Íslands ehf. og er að jöfnum hluta sameign Bændasamtaka Íslands, Landssambands kúabænda og Búnaðarsambands Suðurlands.

Baldur Indriði Sveinson, bústjóri á einangrunarstöðinni, sér um daglega starfsemi stöðvarinnar og hefðbundnar gegningar sem fylgja gripahaldinu. Hann hefur starfað við stöðina frá upphafi og tók þátt í að girða hana af og byggja húsnæðið. „Í dag er ég fjósamaður og mikið í því að fóðra, sópa og skafa skít.“

Baldur Indriði Sveinson, bústjóri á einangrunarstöðinni Stóra-Ármóti.

Holdanautastofninn uppfærður

„Markmiðið með starfseminni er að uppfæra, ef þannig er hægt að komast að orði, holdanautastofninn í landinu. Einangrunarstöðin er ný útgáfa af einangrunarstöðinni í Hrísey sem margir kannast við frá fyrri tíð. Húsakynni einang­r­unarstöðvarinnar í Hrísey eru orðin gömul og ónothæf til að fara út í nýtt verkefni þannig að það var ákveðið að byggja upp nýja stöð og aðlaga hana nýju kröfum,“ segir Baldur.

Einangrunarstöðin í Hrísey tók til starfa árið 1975 og hýsti gripi af Galloway, Angus og Limousine-kyni sem voru fluttir inn sem sæði og alin þar. Svínaræktarfélag Íslands var með starfsemi þar um tíma og þar var einnig rekin einangrunarstöð fyrir gæludýr. Stöðin hætti starfsemi 2016.

Einangrunarstöðin Stóra-Ármóti.

Baldur segir að enn sé til sæði í frosti úr nautunum í Hrísey og að bændur noti það til sæðinga annað slagið og meðal annars til að undirbúa sig fyrir móttöku á erfðaefninu sem verður til við eldið að Stóra-Ármóti.

Íslenskar kýr staðgöngumæður

„Nýja einangrunarstöðin er byggð 2016 og 2017 og hér hafa fæðst tvö holl af Aberdeen Angust nautgripum sem fluttir voru inn sem fósturvísar og komið fyrir í íslenskum kúm. Kýrnar, eða staðgöngumæðurnar eins og ég kalla þær, voru keyptar af bændum og fluttar hingað til að ganga með fósturvísana sem voru skolaðir úr norskum holdakúm. Áður en fósturvísarnir eða eggin voru sett upp í íslensku kýrnar voru þau meðhöndluð þannig að þeim eiga ekki að fylgja neinar bakteríur eða vírusar til að tryggja að ekki berist með þeim smit til landsins,“ segir Baldur.

Baldur segir að íslensku kýrnar sem valdar voru til að ganga með holdakálfana hafi verið heilbrigðar meðalkýr að vexti og stærri og að tryggt hafi verið að þær væru með heila eggjastokka og leg. „Ástæðan fyrir því að valdir voru fósturvísar frá Noregi er meðal annars að þar í landi er mjög góð sjúkdómastaða og skráning gripanna er góð og við viljum að þeir hlutir séu í lagi. Norðmenn sækja erfðavísa í sína gripi um allan heim og gripirnir sem valdi voru til undaneldis hér eru allt mjög góðir gripir.“

Skoskt kjötkyn

Aberdeen Angus kynið er ættað frá Skotlandi og flokkast sem kjötkyn. Kynið er fremur smávaxið miðað við önnur holdakyn. Það er harðgert og loðið grasnytjakyn og getur gengið úti stóran hluta ársins fái það skjól og fóður sé þess þörf og þannig ekki ólíkt sauðkindum eða hrossum sem ganga úti.

Ellefu mánaða gamall holdanautakálfur.

Baldur segir nautgripi hafa upphaflega lifað villtir á sléttum og að það sé gaman að sjá hvernig kálfarnir feli sig í háu grasi eins og þeir séu að leynast fyrir rándýrum og greinilegt að þau hafi ekki misst það eðli þrátt fyrir margra kynslóða kynbætur. Burðareiginleikar kúnna eru góðir og þær hugsa vel um kálfana og mjólka vel þar sem þeir ganga undir.

Einangrunarferlið

Einangrunarferlið fer þannig fram að kálfarnir fæðast í kúafjósinu, sem er aðskilið frá fjósinu þar sem holdagripirnir eru aldir, eða úti á túni og ganga undir staðgöngukúnum í sex til átta vikur. „Eftir það eru kálfarnir settir í meiri einangrun í holdagripafjósið í að lágmarki níu mánuði og mega ekki fara út á meðan. Í lok þess tíma eru tekin úr þeim sýni og prófað fyrir öllum þeim sjúkdómum sem lög gera ráð fyrir. Eftir það má svo hleypa þeim út. Kvígunum er hleypt í girðingu innan einangrunarsvæðisins en nautin fara beint út til bænda.“

Lágt fanghlutfall

„Á fyrsta ári voru settir upp fósturvísar í 35 kýr og þriðjungur þeirra hélt og við fengum tólf kálfa, fimm naut og sjö kvígur, sem er í lægri mörkunum. Í seinna skiptið vönduðum við okkur því enn meira og settum fósturvísa í rúmlega 40 kýr en árangurinn var þrátt fyrir það lakari, ellefu kálfar, sjö kvígur og fjögur naut, og við höfum ekki enn fundið viðhlítandi skýringu á þessu lága hlutfalli.

Áður en fósturvísarnir eru settir upp eru kýrnar samstilltar og fram­kölluð hjá þeim beiðsli. Hvort uppsetningin tekst eða ekki hefur því líklegast eitthvað með hormóna og tímasetningu að gera. Eggin eru viku gömul þegar þeim er skolað úr kúnum í Noregi og mjög mikilvægt að þau sé sett upp í staðgöngukýrnar á réttum tíma svo þær haldi.“

Baldur segir að íslenska kýrin og Aberdeen Angus séu mismunandi kyn og að það geti haft sitt að segja þar sem gangmálin geti verið eitthvað ólík.

Nautin boðin út

Baldur segir að nautgripabændur hafi sýnt verkefninu mikinn áhuga og að öll nautin hafi selst í útboði. „Það var sett lágmarksverð, 800 þúsund krónur, á hvern grip, lægst fékkst þrettán hundruð og fimmtíu þúsund en hæst rúmar tvær milljónir króna. Þeir sem keyptu nautin koma sumir hingað í heimsókn til að fylgjast með nautunum sínum og bíða spenntir eftir að fá þau heim á bæ.

Íslenskar staðgöngukýr og holdakálfar af kyninu Aberdeen Angus sem fæddust í vor.

Nautin fimm úr fyrsta hollinu sem eru að fara frá stöðinni skiptast þannig að fjögur fara á Suðurland en eitt norður í Aðaldal. Eftir að gripirnir sem fæddust á síðasta ári eru farnir úr húsi er næsta skref hjá mér að finna og flytja í stöðina nýjar kýr til að setja í fósturvísa í haust og ala þriðja hollið.

Eftir að holdakvígurnar hafa náð kynþroska er hægt að flytja inn sæði í stað fósturvísa sem er ódýrara ferli en eggjaísetningin til að halda starfinu áfram. Kvígurnar koma svo til með að mynda ræktunarhjörð við einangrunarstöðina.“


Mikil skyldleiki gripanna að einum undanskildum

„Gripirnir sem hér hafa verið aldir eru mikið skyldir, hálfsystkini, að einu nautinu undanskildu. Það er því ekki æskilegt að nota sæði úr nautunum til að sæða kvígurnar með. Nema mögulega þessu eina sem er fjarskyldara. Þannig að sæðið verður notað til að sæða með íslenskar kýr, holdakýr og íslenskar mjólkurkýr fyrir þá sem vilja ala hálfblendinga,“ segir Baldur og bætir við að nautið óskylda sem um ræðir sé aðeins öðruvísi en hinir að sjá og í raun hægt að nota hann til sæðinga á kvígur sem fæddar eru í sama holli. Hugmynd er uppi um að gera það án þess að það sé ákveðið enn.

„Við erum undir talsverðri pressu um að koma sæði úr naut­unum sem fyrst til bænda og að koma nautunum sem fyrst til nýrra eigenda og það verður gert um leið og búið er að ná úr þeim nægu sæði. Eftir sæðistökuna er sæðið sent á Nautastöðina að Hesti og dreift þaðan með öðru kúasæði til bænda.“

Nautin treg til að stökkva

„Vandinn við sæðistökuna til þessa er að nautin hafa verið treg til að stökkva og sæðistakan því gengið seint enda eru þau mjög ung. Undirbúningur fyrir sæðistöku hófst snemma í júlí og 7. ágúst síðastliðinn náðust fyrstu sæðisskammtarnir úr tveimur nautum. Þannig að vonandi kemur sæðistakan til með að ganga, en það tekur sinn tíma.

Fyllsta öryggis er gætt við einangrunarstöðina.

Þægileg dýr í samskiptum

Að sögn Baldurs eru holdagripirnir einstaklega skapgóðir og ljúfir í samskiptum. „Miðað við íslenska gripi sem ég þekki vel, þar sem ég var lengi nautgripabóndi, eru þessir mjög þægilegir í umgengni og atferlið annað og betra. Holdagripirnir gera lítið af því að hnubba í mann eins og algengt er með íslensku gripina. Þessir eru rólegri og ef eitthvað er gælnir og meira fyrir að láta klappa sér.

Annað sem mér finnst einkennandi við kálfana er hvað það er mikill lífsþróttur í þeim strax við fæðingu. Þeir eru strax komnir á fætur og byrjaðir að sjúga á meðan íslensku kálfarnir er lengur í gang. Kálfadauði hjá íslenska kúakyninu er mikill, eða um 15% sem er alltof hátt hlutfall og vantar tilfinnanlega rannsóknir á.

Ég heimsótti norska holda­nautabændur í fyrrahaust og þeir setja gripina á fjall á sumrin og beita við efstu skógarmörk og fá til þess styrki frá hinu opinbera. Satt best að segja efast ég um að það þætti gott hér á landi ef við rækjum gripina á afrétt á sumrin. Kosturinn hér er að við höfum nóg gras á láglendi og gripirnir nýta það vel til vaxtar.“

Mesta þyngdaraukning tvö kíló á sólarhring

Gripirnir í einangrunarstöðinni eru vigtaðir á tveggja vikna fresti. Meðalfæðingarþyngd kálfanna er 42 til 43 kg sem er frekar létt fyrir holdagripi og íslensku kýrnar komast vel frá burðinum. Þeir þyngjast síðan hratt og hafa verið að stækka og þyngjast allt upp í tvö kíló á sólarhring þegar best lætur.

„Svo mikil þyngdaraukning er ekki samfelld en þó að meðaltali 15 til 18 hundruð grömm á sólarhring og tvöfalt miðað við það sem þekkist í íslenskum nautgripum. Miðað við það ættu gripirnir að ná góðri sláturstærð 15 til 18 mánaða.

Baldur segir að einn kálfurinn í einangrunarstöðinni hafi farið yfir 500 kíló að þyngd eftir níu mánaða eldi og að það teljist mjög góður vöxtur.

„Gripirnir hafa þrifist mjög vel og það er búið að gera á þeim allar þær prófanir sem þarf að gera og tryggja að þeir séu sjúkdómafríir og ekkert því til fyrirstöðu að senda nautin til nýrra eigenda eftir sæðistöku.“

Holdagripir og mjólkurkýr ekki það sama

Meðan á undirbúningi við inn­flut­n­ing Aberdeen Angus fóst­u­r­vísanna stóð heyrðust gagnrýnisraddir í þá átt að inn­flutningur á nýju kúakyni myndi ganga af íslenska kúakyninu dauðu. 

Baldur segir að sú gagnrýni byggi á misskilningi þar sem Aberdeen Angus sé holdakyn en íslenska kúakynið mjólkurkyn og því um ólíka eiginleika kynjanna að ræða. „Ég sé því ekkert því til fyrirstöðu að hægt sé að ala bæði þessi kyn hér á landi og framleiða bæði mjólk og nautakjöt. Í mínum huga er það grátlegt að það sé verið að flytja inn um þriðjung þess nautakjöts sem neytt er í landinu þegar við getum hæglega framleitt það innanlands og sparað gjaldeyri og um leið minkað kolefnissporið og kjöt-samviskubitið sem því getur fylgt.

Þetta nýja kyn á eftir að breyta miklu fyrir íslenska nauta­kjötsframleiðendur þar sem þeir ná örari veltu í gegnum búin þar sem gripirnir vaxa hraðar og eru ódýrari í rekstri,“ segir Baldur Indriði Sveinson, bústjóri einangrunarstöðvarinnar að Stóra-Ármóti að lokum.

 

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs
Fréttaskýring 18. apríl 2024

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs

Alþingi samþykkti 21. mars sl. breytingu á búvörulögum sem felur í sér undanþágu...

Mikilvægasta rými jarðar
Fréttaskýring 29. mars 2024

Mikilvægasta rými jarðar

Stærsta innlögn nýrra fræsafna í Alþjóðlegu fræhvelfinguna á Svalbarða átti sér ...

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg
Fréttaskýring 8. mars 2024

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg

Vísbendingar eru um að bændur séu líklegri til að þjást af einkennum streitu og ...

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast
Fréttaskýring 23. febrúar 2024

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast

Á komandi áratugum er líklegt að landbúnaður breytist verulega. Þættir eins og t...

Úrgangsmálin í ólestri
Fréttaskýring 9. febrúar 2024

Úrgangsmálin í ólestri

Í byrjun síðasta árs tóku gildi lög hér á landi þar sem bann er lagt við urðun á...

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika
Fréttaskýring 30. janúar 2024

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika

Aðstöðumunur kúabænda vegna mismunandi stuðnings við kvótakaup milli landsvæða h...

Auður, kvóti, mjólk og skuld
Fréttaskýring 26. janúar 2024

Auður, kvóti, mjólk og skuld

Þegar tiltekinn hópur bænda hefur tök á að eignast mjólkurkvóta með því að vera ...

Dýrmæt erfðaefni dreifast víða
Fréttaskýring 13. janúar 2024

Dýrmæt erfðaefni dreifast víða

Eyþór Einarsson, ráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML), segir að ...