Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Þetta er í sumum ríkjum talin vera nauðsynleg eign á hverju heimili og að það sé hluti af mannréttindum fólks að eiga byssur. Svo virðist sem ráðamenn heimsins telji vopn og óhefta vopnaeign líka mikilvægari en allt annað í mannlegum þörfum.  Allavega er
Þetta er í sumum ríkjum talin vera nauðsynleg eign á hverju heimili og að það sé hluti af mannréttindum fólks að eiga byssur. Svo virðist sem ráðamenn heimsins telji vopn og óhefta vopnaeign líka mikilvægari en allt annað í mannlegum þörfum. Allavega er
Fréttaskýring 3. febrúar 2020

Drápstól og stríðsrekstur kostar 57% af virði allrar matvælaframleiðslu og skógariðnaðar heimsins

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Samkvæmt gagnagrunni Friðar­rannsóknar­stofnunarinnar í Stokkhólmi (Stockholm Inter­national Peace Research Institute - SIPRI), þá var varið 1.822 millj­­örðum dollara í hernað í heim­inum á árinu 2018. Það er 2,1% hlutfall af um 88 billjóna dollara landsframleiðslu þjóða heims (GDP) og nærri 57% af verðmæti alls landbúnaðar, sjávarútvegs og skógarvinnslu heimsins saman­lagt. 
 
Hernaður og hernaðarbrölt hefur verið mikið í umræðunni að undanförnu vegna vaxandi spennu fyrir botni Miðjarðarhafs og í ríkjunum þar fyrir austan og deilna Írana og Bandaríkjamanna. Þetta er púður­tunna sem allur almenningur óttast að springi með ófyrirséðum afleiðingum.
 
Vissulega er grunnt á grimmd mannskepnunnar og alltaf verður þörf á að halda uppi lögum og reglu, jafnvel að hafa viðbúnað til að verja þjóðir fyrir ásælni og yfirgangi. Hins vegar hlýtur það að orka tvímælis þegar varnartilburðirnir snúast upp í árásargirni gagnvart öðrum og umsvif hergagnaiðnaðar eru orðin svo mikil að hann er farinn að nærast á ófriði.  
 
Þegar horft er á „manndráps­iðnaðinn“, ef svo má kalla, í samanburði við aðrar mannvin­samlegri atvinnugreinar eins og landbúnað og sjávarútveg, þá lítur dæmið hrikalega út. Gríðarlegir peningalegir hagsmunir eru nú fólgnir í hernaði og hergagnaframleiðslu. Til að halda því kerfi gangandi verður að viðhalda ófriði í heiminum. Án átaka og vopnasölu til endurnýjunar á búnaði sem sprengdur er í tætlur myndi hagkerfi heimsins í núverandi mynd  hreinlega hrynja. Svo ráðaríkt er þetta kerfi orðið að það er víðast ósnertanlegt í pólitískri umræðu og alls staðar utan við sviga í allri umræðu þegar rætt er um sparnað eða að draga úr mengun jarðar. Aldrei er t.d. talað um að draga úr mengun af völdum hernaðar þegar lagt er að almenningi að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og greiða kolefnisskatta svo eitthvað sé nefnt. Samt borgar þessi sami almenningur á endanum allan kostnað af hernaðarbröltinu.   
 
 
NATO er með um 57% af öllu herbröltinu
 
Ríki Norður-Atlantshafs­banda­lagsins (NATO), sem Ísland er hluti af, vörðu 1.036 milljörðum dollara í hernað á árinu 2018, eða 2,5% af GDP allra NATO-ríkjanna. Það er nærri 57% af öllum 1.822 milljarða dollara útgjöldum heims­byggðarinnar til hernaðarmála á árinu 2018. Það er nánast sama hlutfall og hernaðarbröltið í heild er af öllum landbúnaði, öllum sjávarútvegi og öllum skógariðnaði heimsins samanlagt. 
 
Vegna þeirrar áherslu sem lögð er á hernað í heiminum hefur þar orðið til mikil tækniþróun, m.a. í smíði flugvéla sem síðan hefur nýst í borgaralegum farartækjum. Hins vegar er spurning hvort sú þróun hafi ekki getað orðið enn hraðari ef sama fjármagn hefði fengist til þróunarvinnu án þess að hernaðarleg not hafi verið sett þar sem skilyrði. 
 
Byggt á gögnum fjölþjóðastofnana
 
Tölur um hernaðar- og varnar­útgjöld eru samkvæmt upplýsingum (Fact Sheet) sem gefnar voru út á síðasta ári og taka til útgjalda til hernaðarmála í gagnagrunni SIPRI (SIPRI Military Expenditure Database). Fleiri stofnanir taka saman slík gögn sem eru svipuð en ekki endilega með nákvæmlega sömu talnaniðurstöðum. Þar má t.d. nefna bresku rannsóknarstofnunina um alþjóðamálefni í London sem ber nafnið „Institute for Strategic Studies – IISS“ og Arms Control Association í Bandaríkjunum.  
 
Alþjóðastofnunin SIPRI hefur starfað frá 1966 og er með aðsetur í Stokkhólmi í Svíþjóð. Hlutverk stofnunarinnar er að rannsaka og fylgjast með átökum í heiminum, hernaðaruppbyggingu, hernaðar­stjórnun og afvopnunarmálum. Stofnunin var árið 2014 metin sem ein af þrem mikilvægustu stofnunum á sínu sviði utan Bandaríkjanna af Lauder-stofnun Pennsylvaníuháskóla. 
 
Hernaðarrekstur stór hluti af hagkerfi Bandaríkjanna
 
Hergagnaframleiðsla Bandaríkja­manna og hernaðarrekstur skiptir þarlent hagkerfi verulegu máli. Þrjú af stærstu hergagna­framleiðslufyrirtækjum í heimi eru öll í Bandaríkjunum, en það eru Lockheed Martin, Northrop Grumman og Boeing. Þau velta samanlagt um 1% af um 10 billjóna dollara landsframleiðslu Bandaríkjanna (GDP).
 
Helsti viðskiptavinur Lock­heed Martin Corporation er varnamála­ráðuneyti Bandaríkjanna, eða sem nemur 57% af sölu fyrirtækisins, auk NASA og annarra opinberra stofnana sem eru með um 20% af viðskiptunum.
 
Northrop Grumman Corporation er með um 78% sinna viðskipta við bandaríska ríkið. 
 
Viðskipti Boeing eru öllu flóknari og eru m.a. um 10% viðskiptanna við Kína þar sem Boeing er m.a. með samsetningaverksmiðjur á þotum. Um 60% framleiðslu Boeing liggur í farþegaflugvélum. Þá eru um 40% af framleiðslunni á hernaðarsviðinu, bæði herþotur sem og eldflauga- og ýmis vopnakerfi.   
 
Bandaríkin eru með nærri 500.000 hermenn undir vopnum auk nærri 350 þúsund þjóðvarðliða og samtals yfir eina milljón manna sem tilheyra landher, flugher og sjóher. Þá er flugherinn með yfir 4.400 mannaðar herflugvélar. Þessi rekstur kostar gríðarlega fjármuni.
 
Hernaðarútgjöld stórt hlutfall af útflutningstekjum
 
Sem dæmi námu hernaðarútgjöld Bandaríkjanna 38,7% í hlutfalli af öllum vöruútflutningi Bandaríkjanna á árinu 2018. Var það jafnframt fimmta hæsta hlutfall hjá þjóðum heims í slíkum samanburði. Í fjórða sæti var Pakistan með 45,8% hlutfall. Nepal var í þriðja sæti með 47,5% hlutfall og Líbanon í öðru sæti með 73,9% í hlutfalli við vöruútflutningi. Athygli vekur að Austur-Tímor var í fyrsta sæti, en þar voru hernaðarútgjöldin (tölur fyrir árið 2017) 158,8% sem hlutfall af öllum vöruútflutningi landsins. Erfitt er að finna skýringu á þessu. Annaðhvort hefur Austur-Tímor verið með gríðarlegan viðskiptahalla vegna hernaðaruppbyggingar eða að landið hefur hreinlega verið í hlutverki milliliðs í vopnaviðskiptum annarra ríkja. 
 
Landbúnaður, sjávarútvegur og skógarnýting heimsins metin á 3.200 milljarða dollara
 
Til samanburðar við þessar hernaðar­tölur, var verðmæti alls landbúnaðar, fiskveiða og skógarnýtingar í heiminum árið 1995 metið í peningum á rúma 811 milljarða dollara. Á árinu 2018 var verðmæti þessara greina komið í tæpar 3,2 billjónir dollara (3.200 milljarðar dollara), en verðmæti iðnaðar og mannvirkjagerðar var þá komið í 23,5 billjónir dollara.   
 
Verðmæti alls landbúnaðar, fiskveiði og skógarnýtingar í heiminum 2017 var 3,4% sem hlutfall af landsframleiðslu (GDP) ríkja heims, samkvæmt tölum Alþjóðabankans og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins (OECD). Hlutfall þessara greina af GDP hefur stöðugt farið lækkandi í gegnum árin, eða úr 7,6% árið 1995. Til samanburðar má nefna að hlutfall iðnaðar og mannvirkjagerðar af GDP hefur lækkað úr tæpum 32% árið 1995 í rúm 25,4% árið 2017. 
 
Bandaríkin með langmesta fjármuni til hermála
 
Af einstökum ríkjum, eða ríkja­samsteypum heims, verja Bandaríkin langmestum fjármunum til hermála. Þar var varið 649 milljörðum dollara í þann málaflokk árið 2018, eða 3,2% af GDP, upp á rúmar 20 billjónir dollara. Í öðru sæti kom Kína með 250 milljarða dollara, eða 1,9% af GDP. Í þriðja sæti var svo Sádi-Arabía með 67,6 milljarða dollara útgjöld til hernaðarmála, eða 8,8% af GDP. Það er jafnframt hæsta hlutfall landsframleiðslu sem nokkur þjóð ver til hernaðar í heiminum.
 
Af topp tíu ríkjunum er Indland svo í fjórða sæti með 66,5 milljarða dollara útgjöld og 2,4% af GDP og Frakkland í fimmta sæti með 63,8 milljarða dollara og 2,3% af GDP. Þá kemur Rússland í sjötta sæti með 61,4 milljarða dollara, eða 3,9% af GDP. Bretland er svo í sjöunda sæti með 50 milljarða dollara og 1,8% hlutfall af GDP. Þýskaland er í áttunda sæti með 49,5 milljarða dollara, eða 1,2% af GDP. Þá kemur Japan í níunda sæti með 46,6 milljarða dollara sem nemur 0,9% af landsframleiðslu. Suður-Kórea vermir svo tíunda sætið með 43,1 milljarð dollara til hernaðarmála, sem er 2,6% af landsframleiðslu. 
 
Næstu fimm lönd á listanum eru svo Ítalía í 11. sæti með 27,8 milljarða dollara. Brasilía er  í 12. sæti, einnig með 27,8 milljarða dollara. Ástralía er í 13. sæti með 26,7 milljarða dollara. Kanada er í 14. sæti með 21,6 milljarða dollara og Tyrkland var síðan í 15. sæti og varði 19 milljörðum dollara til hernaðarmála árið 2018. 
 

Yfir 14 þúsund kjarnorkusprengjur í vopnabúrum 10 ríkja

Samkvæmt gögnum Arms Control Association og Stockholm International Peace research Institute var í júlí 2019 áætlað að í heiminum væru til nærri 14.000 kjarnorkusprengjur (Warheads). Í raun geta sprengjurnar þó verið mun fleiri því í sumum kjarnorkueldflaugum geta verið allt að tíu kjarnaoddar. 
 
Um 90% af þessum sprengjum eru í höndum Bandaríkjamanna og Rússa. Þannig er áætlað að Bandaríkjamenn ráði yfir 6.185 sprengjum og Rússar 6.490. Þá kemur Frakkland með um 300 sprengjur, Kína með um 290, Bretland með um 200, Pakistan með um 160, Indland með um 140, Ísrael með um 90 og Norður-Kórea með um 30 kjarnorkusprengjur. 
 
Í öðrum gögnum Arms Control Association sem byggist á gögnum sömu stofnana, var kjarnorkusprengjufjöldinn áætl­aður 14.470. Þar eru Bandaríkja­menn sagðir eiga 6.550 sprengjur og Rússar 6.850. 
 
 
2.058 kjarnorkusprengjur sprengdar í tilraunaskyni
 
Samkvæmt gögnum SIPRI hafa frá árinu 1945 verið sprengdar í tilraunaskyni 2.058 kjarnorku­sprengjur víða um heim. Banda­ríkja­menn hafa sprengt um helming af þeim sprengjum, eða 1.032. Rússar hafa sprengt 715 sprengjur. Þá hafa Frakkar sprengt 210 sprengjur, Kínverjar 45, Bretar 45, Norður-Kóreumenn 6, Indverjar 3 og Pakistanar hafa sprengt 2 kjarnorkusprengjur. Þó að á síðari tímum hafi flestar sprengjurnar verið sprengdar neðan­jarðar, þá voru fjöl­margar sprengjur sprengdar í andrúms­loftinu, á jörðu og í sjó í upphafi kjarnorkukapphlaupsins. Þannig var lofthjúpur jarðar og höf heimsins menguð af geislavirku úrfelli í stórum stíl. 
 
 

Rússinn sem afstýrði kjarnorkustyrjöld

Það sem menn óttast mest í öllu hernaðarbröltinu eru kjarnorkuvopnin. Kannski ekki skrítið því margoft hefur legið við að kjarnorku­eldflaugum væri skotið á loft vegna falskra skilaboða í loft­varna­kerfum, einkum í Rúss­landi (gömlu Sovétríkjunum) og í Bandarík­j­unum. Eru til listar yfir fjölda slíkra atvika í þessum löndum. 
 
Var m.a. sýnd heimildamynd um eitt slíkt atvik í Sjónvarpinu í fyrra sem átti sér stað í Sovétríkjunum 26. september árið 1983 þegar varnarkerfi gáfu til kynna að eldflaugar væru á leiðinni frá Bandaríkjunum. Var það einungis fyrir gagnrýna hugsun og hugrekki eins manns í stjórnstöð Serpukhov-15 í Sovétríkjunum, Stanislav Yevgrafovich Petrov lautinants [????????´? ?????´????? ?????´?], að kjarnorkustríði með allsherjar útrýmingu jarðarbúa var afstýrt. Fyrir vikið fékk hann fátt annað en skammir frá sínum yfirmönnum fyrir að óhlýðnast skipunum, en allir hefðu þeir þó verið dauðir ef hann hefði ekki gert það sem hann gerði.
 
Petrov fæddist 9. september 1939 nærri Vladiviostok, en Yevgraf faðir hans var orrustuflugmaður í fyrri heimsstyrjöldinni. Petrov gegndi ýmsum ábyrgðarstöðum innan sovéska hersins. Samtökin World Citizens í Bandaríkjunum heiðruðu Petrov fyrir þetta framtak hans þann 21. maí árið 2004 og veittu honum World Citizen Award ásamt 1.000 dollurum að gjöf. Þegar Petrov heimsótti skrifstofur Sameinuðu þjóðanna í janúar 2006 veittu samtökin honum sams konar viðurkenningu öðru sinni. Hann hlaut fleiri viðurkenningar vegna þessa, m.a. fékk hann Dresden Peace Prize afhent í Dresden í Þýskalandi þann 17. febrúar 2013. Stanislav Yevgrafovich Petrov lést 78 ára að aldri þann 19. maí 2017. Án efa eigum við Íslendingar sem og aðrir núlifandi jarðarbúar honum afar mikið að þakka. 
 
Afrek hans sýna þá hrikalegu stöðu sem jarðarbúar búa við og hversu hættuleg pólitísk kerfi geta verið sem krefjast þess að allir þegnarnir sýni einsleita hjarðhegðun skilyrðislaust og dansi hugsunarlaust eftir sömu fyrirskipun, hversu vitlaus sem hún er. Þetta á reyndar við á fjölmörgum öðrum sviðum er varða hernað. Því er full ástæða til að við höfum það öll í huga, ekki síst kjörnir fulltrúar almennings á Alþingi Íslendinga. 
Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg
Fréttaskýring 8. mars 2024

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg

Vísbendingar eru um að bændur séu líklegri til að þjást af einkennum streitu og ...

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast
Fréttaskýring 23. febrúar 2024

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast

Á komandi áratugum er líklegt að landbúnaður breytist verulega. Þættir eins og t...

Úrgangsmálin í ólestri
Fréttaskýring 9. febrúar 2024

Úrgangsmálin í ólestri

Í byrjun síðasta árs tóku gildi lög hér á landi þar sem bann er lagt við urðun á...

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika
Fréttaskýring 30. janúar 2024

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika

Aðstöðumunur kúabænda vegna mismunandi stuðnings við kvótakaup milli landsvæða h...

Auður, kvóti, mjólk og skuld
Fréttaskýring 26. janúar 2024

Auður, kvóti, mjólk og skuld

Þegar tiltekinn hópur bænda hefur tök á að eignast mjólkurkvóta með því að vera ...

Dýrmæt erfðaefni dreifast víða
Fréttaskýring 13. janúar 2024

Dýrmæt erfðaefni dreifast víða

Eyþór Einarsson, ráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML), segir að ...

Ræktunarland verður kortlagt
Fréttaskýring 8. desember 2023

Ræktunarland verður kortlagt

Gert er ráð fyrir að þingsályktunartillaga um nýja landsskipulagsstefnu til 15 á...

Mikilvægi sjálfsaflahlutfalls
Fréttaskýring 17. nóvember 2023

Mikilvægi sjálfsaflahlutfalls

Hugtakið „fæðuöryggi“ hefur verið mikið til umræðu undanfarin misseri. Ef litið ...