Frumskógum er eytt í Papúa Nýju-Gíneu og víðar í Indónesíu til að rúma fyrir ræktun á olíupálma.
Frumskógum er eytt í Papúa Nýju-Gíneu og víðar í Indónesíu til að rúma fyrir ræktun á olíupálma.
Fréttaskýring 9. desember 2020

„Skógurinn er farinn og við búum við fátækt“

Höfundur: Vilmundur Hansen

Kóreaskt stórfyrirtæki í vinnslu á pálmaolíu hefur undanfarin ár verið að kaupa upp gríðarstór svæði í Indónesíu sem eru hluti af stærstu eftirstandandi regnskógunum í Asíu. Áreiðan­legar heimildir sýna að eldar af manna völdum hafi brennt tugþúsunda hektara af frum­skógum í landinu.

Innfæddir, sem tilheyra Mandobo-ættflokknum á Papúa-svæði í Indónesíu, segja að fyrir sex árum hafi fulltrúar suður-kóreska pálmaolíuframleiðslufyrirtækisins Korindo og stjórnvöld í landinu haft samband við höfðingja ættflokksins og beðið hann að sannfæra sitt fólk og tíu aðra ættflokka um að selja fyrirtækinu landið sem það býr á. Korindo, sem er risafyrirtæki á sviði framleiðslu á pálmaolíu, bauð innfæddum 8 bandaríkjadala fyrir hektarann, eða rétt rúmar 550 krónur íslenskar.

Her og lögregla

Fyrirtækið hafði áður aflað sér heimildar til kaupanna frá stjórn Indónesíu og lagði áherslu á að kaupin gengju hratt fyrir sig. Svo hratt að lögreglan og herinn voru send til að sækja höfðingjann og fara með hann á fund með fulltrúum Korindo og stjórnvalda og honum hótað öllu illu ef hann kæmi ekki.

Í frumskógum Nýju-Gíneu, sem nú er eytt af stórfyrirtækjum, hafa frumbyggjar búið í hundruð ef ekki þúsundir ára í ágætri sátt við náttúruna. Mynd / Steppes travel.

Á fundinum var höfðingjanum lofað að hann persónulega myndi fá nýtt hús, með rennandi vatni og að skólagjöld yrðu greidd fyrir börnin hans og því um hreinar mútur að ræða.

Höfðinginn sat frammi fyrir ákvörðun sem myndi breyta lífi hans og samferðafólks hans að eilífu. Hann tók boðinu.

Stærsti útflytjandi pálmaolíu í heiminum

Indónesía er stærsti útflytjandi pálmaolíu í heiminum og Papúa nýjasta ræktunarsvæði olíupálma í landinu og um leið það svæði í heiminum þar sem eyðing frumskóga er mest um þessar mundir. Nú þegar hafa stór svæði þar með regnskógum verið brennd og í stað þeirra plantað olíupálmum í beinum röðum.

Skógareyðing vegna framleiðslu á pálmaolíu á Papua-svæðinu í Indónesíu. / Mynd: news.mongabay.com.

Viðskipti með pálmaolíu eru gríðarmikil í heiminum og olían notuð í nánast allt sem snýr að snyrti- og matvöru og margt fleira.

Þar til fyrir skömmu hafði Papúa-svæðið staðið utan við þessi ósköp og frumskógurinn þar fengið að standa að mestu óskertur, eða þar til stjórnvöld í Indónesíu opnuðu fyrir aðgang fjárfesta að svæðinu sem er með því fátækasta í landinu.

Korindo er sú erlenda fyrirtækja­samstæða sem á mest land í Indónesíu og hefur nú þegar rutt um 60 þúsund hektara af skóglendi með samþykki stjórnvalda og er olíupálmaræktarinnar þar gætt af öryggissveitum úr her landsins.

Íkveikjur til að eyða frumskógum

Eins og framleiðslu á pálmaolíu er háttað í dag eru frumskógar á stórum svæðum ruddir eða brenndir og olíupálmum plantað í staðinn. Samkvæmt lögum er bannað að brenna skóga í Indónesíu vegna mengunarinnar sem slíkt veldur en þrátt fyrir það er bruni algengasta leiðin sem notuð er í landinu til að fella skóga fyrir olíupálmaræktun.

Guli liturinn sýnir áætlaða eyðingu frumskóga í Papúa Nýju-Gíneu og til vesturs yfir landamærin frá 1980 til 2020.Mynd / WWF.

Talsmenn Korindo hafa lengi þvertekið fyrir að fyrirtækið hafi eða standi fyrir íkveikjum í frumskógum og samkvæmt skýrslu Forest Stewardship Council frá 2018, sem Korindo er meðlimur að, eru engar sannanir sem benda til að svo sé.

Nýjar upplýsingar frá Goldsmiths University í London og Greenpeace International, sem birtar voru í samvinnu við BBC, sýna aftur á móti að Korindo hefur tengst fjölmörgum íkveikjum í mörg ár í þeim tilgangi að eyða skógum til framleiðslu á pálmaolíu. Upplýsingarnar byggja meðal annars á skoðun á loftmyndum frá NASA sem sýna skógareyðingu á svæðum sem Korindo hefur keypt eða hefur til yfirráða.

Loftmyndirnar sýna greinileg mynstur og það hvernig eldurinn breiðist skipulega út og slíkt bendir eindregið til að um íkveikjur sé að ræða.

Heimamenn í Papúa segja einnig að starfsmenn fyrirtækisins kveiki reglulega elda til að brenna niður skógana. Atferlinu er lýst þannig að starfsmenn Korindo koma fyrir trjábolum í 100 til 200 metra löngum röðum og hella yfir bensíni og kveikja í.

Að sögn talsmanna Greenpeace International er Korindo ekki eina fyrirtækið sem stundar þetta og að fyrirtækin komist upp með íkveikjurnar þar sem stjórnvöld geri ekkert í málinu. Íkveikjurnar eru árlegar og reykurinn frá þeim svo mikill að hann hefur legið yfir stórum svæðum í Suðaustur-Asíu þar sem hann veldur gríðarlegri mengun og hefur truflað flugsamgöngur. Áætlað er að losun skaðlegra efna út í andrúmsloftið vegna brunanna jafnist á við nokkurra mánaða losun Bandaríkja Norður-Ameríku og að mengunin hafi valdið dauða um 90 þúsund manns í Asíu árið 2015. Fyrir utan þann skaða sem eldurinn veldur í dýra- og gróðurríkinu.

Skýrsla FSC

Þrátt fyrir að sagt sé að í úttekt Forest Stewardship Council og skýrslunni frá 2018 hafi ekkert komið fram sem bendi til að Korindo tengist íkveikjum til að ryðja skóga var skýrslan aldrei birt opinberlega enda hótaði Korindo málshöfðun yrði það gert. Vert er að geta þess að vottun frá Forest Stewardship Council á að jafngilda því að fyrirtæki vinni vörur úr timbri á sjálfbæran og siðferðislegan hátt.

Jarðvegsútskolun vegna skógar­eyðingar í norðanverðri Papúa Nýju-Gíneu. Mynd / www.abc.net.au.

BBC komst yfir eintak af skýrslunni og segir í grein um hana að þar komi skýrt fram að Korindo hafi brennt um 30 þúsund hektara af frumskógum þvert á reglur Forest Stewardship Council. Einnig segir að fyrirtækið hafi gerst sekt um fjölda mannréttindabrota gagnvart innfæddum í skógunum með hjálp indónesíska hersins í þeim tilgangi að auka hagnað sinn.

Í skýrslunni var mælst til þess að Korindo yrði vikið úr Forest Stewardship Council. Því var hafnað og hefur haft þær afleiðingar að trúverðugleiki FSC hefur dvínað. Auk þess sem fjöldi umhverfisverndarsamtaka hefur lýst vantrausti á Forest Stewardship Council segjast þau draga í efa að vottanir þess standist skoðun.

Viðbrögð Korindo við uppljóstruninni var að neita harðlega að fyrirtækið hefði á nokkurn hátt átt þátt í að mannréttindi væru brotin en viðurkenndi að eflaust mæti bæta ýmsa starfshætti þegar kæmi að því að ryðja skóga. Í yfirlýsingunni sagði líka að fyrirtækið hefði greitt innfæddum rausnarlegt verð fyrir landið, 8 bandaríkjadali fyrir hektarann, og að auki aðra 8 bandaríkjadali vegna trjánna sem þeir misstu og að upphæðin hafi verið í samræmi við óskir ríkisstjórnarinnar í Indónesíu. Talsmenn ríkisstjórnarinnar hafa staðfest að upphæðin sé rétt en neita að hún hafi verið ákveðin í samráði við Korindo.

Svikin loforð að sögn heimamanna

Þrátt fyrir hástemmd loforð um alls kyns úrbætur á Papúa-svæði hefur lítið orðið um efndir og að sögn margra innfæddra fylgdi komu fyrirtækisins ekki velsæld heldur óeining og átök sem hafa kostað mannslíf.

„Skógurinn er farinn og við búum við fátækt,“ er haft eftir konu sem missti bróður sinn í átökum vegna svikinna loforða um að reisa nýjan skóla. Á sama tíma segja talsmenn Korindo að fyrirtækið hafi lagt 14 milljónir bandaríkjadala til uppbyggingar-, mennta-, heilbrigðis- og félagsmála á svæðinu.

Höfðinginn sem tók tilboði Korindo viðurkennir að hann hafi fengið um 42 þúsund bandaríkjadali fyrir aðkomu sína að málinu. Hann segist ekki enn hafa fengið húsið sem til stóð að byggja fyrir hann. Í dag segist hann vera fátækari en hann var fyrir. Peningarnir eru búnir, hann allslaus og fullur af eftirsjá og kennir ríkisstjórn landsins um að hafa blekkt sig.

Byggt á greininni The burning scar: Inside the destruction of Asia’s last rainforests á vef BBC. Höfundar Ayomi Amindoni & Rebecca Henschke.

Nýr fuglaflensufaraldur farinn að stórskaða alifuglaeldi víða um lönd
Fréttaskýring 4. mars 2021

Nýr fuglaflensufaraldur farinn að stórskaða alifuglaeldi víða um lönd

Fuglaflensa hefir skotið upp kollinum annað slagið í gegnum árin, en nú er óttas...

Örlagavaldur kríu og lunda
Fréttaskýring 2. mars 2021

Örlagavaldur kríu og lunda

Sandsíli við Ísland er í lægð. Stofninn hefur minnkað og nýliðun er lítil. Ástæð...

„Ekki einhver dulræn heimsendaspá eða hræðsluáróður – Þetta er raunveruleiki“
Fréttaskýring 19. febrúar 2021

„Ekki einhver dulræn heimsendaspá eða hræðsluáróður – Þetta er raunveruleiki“

Ekkert lát á landhremmingum auðmanna á bújörðum vítt og breitt um jarðkringluna
Fréttaskýring 29. janúar 2021

Ekkert lát á landhremmingum auðmanna á bújörðum vítt og breitt um jarðkringluna

Ásælni auðmanna í land, og þá einkum ræktarland um allan heim, jókst verulega í ...

Sögulega lítið hráefni í boði
Fréttaskýring 29. janúar 2021

Sögulega lítið hráefni í boði

Móttaka fiskimjölsverksmiðja á hráefni dróst saman um 6% á síðasta ári. Magn sem...

Vetni gæti leikið stórt hlutverk í að draga úr loftmengun í umferð og iðnaði
Fréttaskýring 19. janúar 2021

Vetni gæti leikið stórt hlutverk í að draga úr loftmengun í umferð og iðnaði

Nokkrir bílaframleiðendur eru nú að skoða möguleika sína að þátttöku í kapphlaup...

Stór hluti heimsaflans úr ólöglegum, óskráðum og stjórnlausum veiðum
Fréttaskýring 19. janúar 2021

Stór hluti heimsaflans úr ólöglegum, óskráðum og stjórnlausum veiðum

Áætlað er að 20–50% af fisk­aflanum úr heimshöfunum komi frá ólöglegum, óskráðum...

Iðnaðarhampur – ein planta sem uppfyllir allar þarfir mannkyns?
Fréttaskýring 5. janúar 2021

Iðnaðarhampur – ein planta sem uppfyllir allar þarfir mannkyns?

Iðnaðarhampur er afar marg­slungin planta sem hefur oft verið á milli tannanna á...