Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Við öndun mynda plöntur koltvísýring og vatn en þegar súrefnið klárast við öndun undir svellum breytist hún í loftfirrða öndun. Við hana fara að myndast etanól og mjólkursýra. Undir svellinu geta plönturnar hvorki náð í súrefni né losað sig við myndunaref
Við öndun mynda plöntur koltvísýring og vatn en þegar súrefnið klárast við öndun undir svellum breytist hún í loftfirrða öndun. Við hana fara að myndast etanól og mjólkursýra. Undir svellinu geta plönturnar hvorki náð í súrefni né losað sig við myndunaref
Á faglegum nótum 4. maí 2020

Viðbrögð við kali í túnum

Höfundur: Eiríkur Loftsson ráðunautur, Rekstrar- og umhverfissvið - el@rml.is
Nú er að ljúka vetri sem hefur verið veðrasamari og snjóameiri en vetur undanfarinna ára. Tún hafa sums staðar legið undir snjó og svelli í langan tíma og má búast við kali þar sem svell hafa verið lengst. Það á samt eftir að koma í ljós hve mikið og víða er kalið. 
 
Þegar líður að hausti, daginn styttir og hitastig lækkar fara plöntur að búa sig undir veturinn. Þær harðna og vetrarþol þeirra vex.  Vetrarþolið vex fram eftir vetri, háð ytri aðstæðum og gróðri. Það helst að mestu allan veturinn en nær hámarki um og upp úr áramótum en fer þá smám saman minnkandi. Lífsstarfsemi plantna að vetri er fyrst og fremst fólgin í því að komast af með því að hægja á öndun og er orkuforði síðasta sumars notaður sem hráefni öndunarinnar.
 
Álag á grös að vetri getur verið margvíslegt en það er þó oftast tengt veðráttu. Helstu álagsþættir eru frost, svell, rotsveppir, flóð, þurrkur og holklaki. Í samræmi við þetta búa grösin yfir mismiklu vetrarþoli sem skipt er í frostþol, svellþol, rotþol, flóðþol, þurrkþol og klakaþol. Í heild virðast þessir mismunandi þættir fylgjast að. Þannig vex þol jurta í öllum þáttum vetrarþols þegar þær harðna að hausti og frostþolnir stofnar eru yfirleitt líka svellþolnir, rotþolnir og flóðþolnir. Á þessu eru þó til undantekningar sem benda til þess að svellkal sé sambland af frostskemmdum og köfnun.
 
Skemmdir á túnum vegna kals
 
Áætlað er að svellkal sé valdur að 90% tilvika þegar grös verða fyrir kalskemmdum. Það verður einkum eftir úrkomusamt og kalt haust þar sem jörð frýs og snjór safnast fyrir, sem bráðnar síðan í hlákum að vetri án þess að vatnið nái að renna burt en frýs í svell. Yfirleitt fer frostið undir svellunum ekki mjög langt undir frostmark en grösin drepast eftir styttri tíma því lægra sem hitastigið er.
 
Við öndun mynda plöntur koltvísýring og vatn en þegar súrefnið klárast við öndun undir svellum breytist hún í loftfirrða öndun. Við hana fara að myndast etanól og mjólkursýra. Undir svellinu geta plönturnar hvorki náð í súrefni né losað sig við myndunarefni öndunarinnar. Ef þetta ástand varir lengi kafna plönturnar. Talið er að fyrir íslensk túngrös sé þessi tími að hámarki þrír mánuðir. Þol grasanna er mest framan af vetri en þegar fer að líða á vetur fara þau að missa þolið og verða viðkvæmari og því gæti styttri tími undir svelli seint að vetri nægt til að valda kali.
 
Eftir langan tíma undir svelli fara svo að myndast smjörsýra og ediksýra sem líklegt er að lághitabakteríur framleiði við niðurbrot á dauðum jurtum. Þessar sýrur valda svo sterkri lykt af túnunum, svokallaðri lokalykt, þegar svellin leysir.
 
Í kalárum hefur komið í ljós að grös í fyrsta árs nýræktum lifa betur en grös í eldri túnum. Skýringin á þessu er helst talin vera sú að opinn jarðvegur vegna nýlegrar jarðvinnslu valdi minna álagi í fyrsta árs nýræktum.
 
Aðgerðir eftir kal
 
Hvaða aðgerða er gripið til eftir kal þurfa aðstæður á hverjum stað að ráða. Heyforði, fóðurþörf og aðgengi að góðum slægjum getur ráðið því hversu hratt þurfi að ráðast í viðgerðir á skemmdum túnum. Rétt er að skoða hvort þörf sé á að lagfæra framræslu eða aðra þætti sem gætu bætt endingu sáðgresis, t.d. kölkun áður en tún eru endurræktuð.
 
Sjálfgræðsla túna eftir kal er valkostur ef um er að ræða blettakal eða þegar kalið veldur grisjun. Einnig á þetta við um tún sem erfitt er að rækta, t.d. vegna grjóts eða annarra þátta. Bregðast þarf við með hóflegri áburðargjöf, nota litla skammta af tilbúnum áburði eða búfjáráburð. Grös geta tekið merkilega fljótt við sér en sjaldan er þess að vænta að hlutdeild sáðgresis aukist. Vænta má að þekja varpasveifgrass og haugarfa sem gefa litla uppskeru verði áberandi l kalblettum fyrstu árin en önnur grös sæki svo í sig veðrið. Jarðvegsgerð og ástand jarðvegs s.s. loftrými ráða miklu um það hve hratt gróðurfarsbreytingin gengur.
 
Til að forðast þann kostnað sem hlýst af endurvinnslu túna með plægingum og annarri vinnslu sem henni fylgir hefur verið leitað leiða sem skilað gætu eftirsóttum gróðri í tún fljótt eftir kal.
 
Ísáning er sáning á grasfræi og/eða grænfóðri beint í kalin tún. Þessi aðferð hefur hefur verið reynd nokkuð í gegnum árin en með misjöfnum árangri. Helst er að reyna þetta í túnum sem hafa verið ræktuð eða endurræktuð nýlega og hafa tiltölulega opinn svörð. 
 
Léttvinnsla og sáning getur verið árangursrík leið til að bæta nýlega ræktuð tún sem eru illa farin af kali þar sem ísáning er ekki líkleg til að skila nógu góðum árangri. Farin er ein létt umferð með herfi eða pinnatætara til að vinna yfirborðið fyrir sáningu. Þannig grær sáðgresið sem lifði upp og sáningin tekur betur við sér en við ísáningu og þéttir grasþekjuna. 
 
Til að endurnýja gróður í illa kölnum eldri túnum dugir ekkert nema endurvinnsla með plægingu. Mikilvægt er að vanda til verka og gæta þess að fara ekki af stað fyrr en jarðvegur er tilbúinn til vinnslu. Ef farið er of snemma  af stað í jarðvinnsluna og enn er lauslega bundið vatn í jarðveginum, er hætta á skemmdum á jarðvegsbyggingu sem koma mun niður á spírun og sprettu. Vanda þarf plæginguna og grafa þann gróður sem fyrir er en gæta þess jafnframt að plægja ekki of djúpt til að varðveita frjósamasta jarðvegslagið. Hæfileg plægingadýpt er 15 til 20 cm. Til eftirvinnslu þarf að velja tæki sem henta aðstæðum, tætara eða herfi en gæta þessa að ofvinna ekki jarðveg eða tapa dýrmætum raka. Jarðvinnslu, sáningu og völtun skal ávallt vinna í samfellu á sem stystum tíma.
 
Gras og grænfóður
 
Af þeim grastegundum sem algengast er að sá í tún á Íslandi um þessar mundir eru vallarfoxgras og vallarsveifgras með mest vetrarþol. Á það bæði við um vetrarþol almennt og svellþol. Hávingull er viðkvæmur fyrir svellum en hefur að öðru leyti bærilegt vetrarþol. Vallarrýgresi hefur minnst vetrarþol þessara grastegunda. Af þessum grastegundum er hægt að fá ólík yrki sem mörg hafa verið prófuð hérlendis í ræktunartilraunum. Hafa yrkin mismunandi eiginleika m.a. með tilliti til vetrarþols. 
 
Til að fá sem mesta uppskeru af ræktun fyrsta sumarið eftir kal er skynsamlegt að sá grænfóðri til sláttar. Einkum er þá horft til ræktunar á rýgresi, höfrum og byggi í hreinrækt eða saman í blöndu með einhverjum hætti. Hafrar og bygg eru örugg í ræktun en gefa lítinn endurvöxt öndvert við rýgresi sem gefur yfirleitt góðan endurvöxt. Sumarrýgresi er fljótara til en vetrarrýgresi en sprettur nokkuð hratt úr sér eftir skrið meðan vetrarrýgresi getur sprottið lengi án þess að tapa orkugildinu mikið. Víða ætti að henta að sá saman rýgresi og höfrum eða byggi og stefna á tvo slætti eða slátt og beit. 
 
Sé grænfóðri sáð með grasi þegar túni er lokað skal nota fullan skammt af grasfræi en verulega skert magn af grænfóðrinu. Af höfrum og byggi ætti ekki að nota meira en hálfan skammt (100 kg/ha) og af rýgresi að hámarki tæpan þriðjungsskammt (10 kg/ha).
 
Á heimasíðu RML (Ráðgjöf/Jarðrækt/Jarðvinnsla) má nálgast meira efni um viðbrögð við kali.
 
Heimildir:
Bjarni E. Guðleifsson, 1997. Líf og dauði plantna að vetri. Freyr 93 (9), 356-359.
Bjarni E. Guðleifsson, 1997. Öndun grasa undir svellum. Ráðunautafundur 1997, 143-152.
Bjarni E. Guðleifsson, 2014. Hvað er kal og hvers vegna skemmir það gras. Sótt af https://www.visindavefur.is/svar.php?id=66962
Guðni Þorvaldsson, Þórdís Anna Kristjánsdóttir, Jónatan Hermannsson og Þóroddur Sveinsson, 2014. Vetrar- og nýtingarþol gras- og smárayrkja í túnrækt. Rit LbhÍ nr. 53.
Guðni Þorvaldsson, Þóroddur Sveinsson og Jónatan Hermannsson, 2019. Tilraunir með yrki af grösum og smára árin 2012-2018. Rit LbhÍ nr. 101.
Ingvar Björnsson 2013. Ræktun eftir kal – leiðbeiningar.  Sótt af https://www.rml.is/is/radgjof/jardraekt/jardvinnsla

Skylt efni: kal í túnum

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...