Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 mánaða.
Vetrarumhirða pottaplantnanna
Mynd / Guðríður Helgadóttir
Fræðsluhornið 17. janúar 2022

Vetrarumhirða pottaplantnanna

Höfundur: Ingólfur Guðnason

Í skammdeginu þarf að huga séstaklega að vellíðan pottablómanna okkar, því það getur reynst þeim erfitt að komast í gegnum dimmustu vetrarmánuðina án sérstakrar umönnunar.

Vökvun. Almenna reglan er að draga verulega úr vökvun frá hausti fram í byrjun mars. Alltaf er vökvað með volgu vatni, lítið eða ekkert á veturna. Grænar plöntur með þykk lauf þola að standa án vatns yfir dimmustu vetrarmánuðina. Hætt er við mygluvanda bæði á rótum og yfirvexti við ofvökvun og það gildir bæði sumar og vetur. Dökkir blettir á laufi myndast oft þegar vökvað er of mikið og sérstaklega ef vatnið er of kalt. Of mikil næring getur líka orsakað dauða blaðbletti. Súrefnisleysi við ræturnar vegna ofvökvunar að vetri er algengur dauðdagi pottaplantna.

Hitastig. Margar tegundir þrífast ágætlega við venjulegan stofuhita á sumrin. Þegar birta minnkar með haustinu mætti færa plöntur á svalari stað. Veturinn er eðlilegur dvalartími ýmissa tegunda og þá fer betur um þær við lægra hitastig en við sjálf kjósum og þarf að fara bil beggja. Aldrei ætti þó að hafa plönturnar þar sem kalt loft leikur um þær. Ýmsar tegundir pottaplantna kjósa hreinlega að vera í köldum og þurrum dvala yfir veturinn. Svalt herbergi eða bílskúr þar sem hitastig helst rétt yfir 10 °C getur hentað ágætlega til yfirvetrunar á þeim. Svalur sólskáli hentar mörgum tegundum vel. Þá eru ótaldar plöntur sem mynda hnýði sem mega nánast þorna alveg við lágt hitastig og sölna alveg niður á veturna eins og fílseyra og lukkusmæra.

Birta. Á veturna er yfirleitt of heitt fyrir plöntur sem fá litla birtu í híbýlum okkar og getur verið áskorun að halda hinu fullkomna jafnvægi. Komið plöntum fyrir á björtum en svölum stað að vetrinum ef mögulegt er. Athugið samt að í gluggakistum getur myndast kuldatrekkur þar sem gluggar eru opnir öðru hvoru. Plöntur sem þrífast í skugga frá vori til hausts gæti þurft að færa úr sínu dimma skoti á veturna. Athugið þó að beint sólarljós er yfirleitt ekki æskilegt, nema þá yfir háveturinn. Náttúruleg inngeislun að vetri er með allra minnsta móti og margar pottaplöntur láta aðeins á sjá vegna þess.

Rétt hlutfall birtu og hitastigs. Hátt hitastig samfara lítilli birtu veldur óeðlilegum lengdarvexti. Langar og teygðar, ljósar greinar og lauf geta myndast þegar fer að dimma á haustin og fram eftir vetri. Þessar greinar eru viðkvæmar og líklegar til að veslast upp. Ástæðan er að þær eru að reyna að teygja sig í átt að þeirri takmörkuðu birtu sem í boði er og þær ná ekki að þroskast eðlilega. Færið þá plöntuna nær ljósgjafanum og lækkið hitastigið um leið. Klippið þunnan og væskilslegan vöxt burt ef hann hefur náð að myndast. Sumar tegundir eins og kólusa og ástareld getur þurft að klippa vel síðla vetrar til að þær nái þéttum og fallegum vexti á ný þegar vorar. Amaryllis-laukar eru látnir vaxa áfram að lokinni blómgun þar til laufin eru farin að sölna. Þá má geyma þá á þurrum og köldum stað. Fíkusar eru dyntóttir og eiga til að missa dálítið af laufi að vetrinum en bæta við laufi og greinum þegar vorar. Öll óregla í umhverfi fíkusa getur líka valdið tímabundnu blaðfalli.

Áburðargjöf. Á veturna þegar lífsstarfsemi plantnanna er í lágmarki gefum við plöntunum ekki áburð. Frekar ætti að leggja áherslu á að byggja upp næringarríkar, vel haldnar plöntur að sumri sem eiga meiri líkur á að lifa af hina hörðu, dimmu vetrarmánuði. Ef vökvað er með áburðarvatni er hætt við að næringarsölt safnist upp í jarðveginum og valdi rótarsviðnun.

Grænar plöntur eru hafðar á svalari stað að vetri en sumri og þurfa nær enga vökvun en sem mesta birtu. Ástæðulaust er að fárast yfir nokkrum sölnuðum laufblöðum, þau má einfaldlega fjarlægja. Ef blaðendar sviðna má fjarlægja dauða vefinn en ekki klippa þannig að sár myndist. Þegar líður fram á útmánuði og vöxtur fer að taka við sér á ný er gott að setja plönturnar í gott steypibað eða strjúka af þeim með rökum bómullarklút. Umpottun er látin bíða þangað til í mars.

Blómstrandi plöntur.Blómstrandi pottablóm eru ekki mikið notuð yfir háveturinn en þau lífga upp á heimilið á vorin og sumrin. Á haustin geta þau verið til prýði en yfir háveturinn fækkar þeim tegundum sem blómstra ríkulega.

Ingólfur Guðnason, brautarstjóri garðyrkju- framleiðslu Garðyrkjuskóla LbhÍ Reykjum, Ölfusi.

Betri nýting áburðar með hjálp IceCORS leiðréttingarkerfis Landmælinga Íslands
Fræðsluhornið 16. maí 2022

Betri nýting áburðar með hjálp IceCORS leiðréttingarkerfis Landmælinga Íslands

Eins og allir hafa orðið varir við þá hefur áburðarverð hækkað verulega á síðast...

Úrvalsnýting nautanna sem voru fædd 2016
Fræðsluhornið 9. maí 2022

Úrvalsnýting nautanna sem voru fædd 2016

Sú hefð hefur skapast að sýna niðurstöður afkvæmarannsókna á nautum með því að d...

Skráningar á kynbótasýningar þetta vorið
Fræðsluhornið 9. maí 2022

Skráningar á kynbótasýningar þetta vorið

Opnað verður á skráningar á kynbótasýningar nú í byrjun maí og verður það kynnt ...

Nýr sparneytinn Honda HR-V
Fræðsluhornið 9. maí 2022

Nýr sparneytinn Honda HR-V

Fyrir nokkru síðan frumsýndi Askja nýjan Honda HR-V Hybrid-bíl, sjálfskiptan, fr...

Jarðrækt – Sprotinn
Fræðsluhornið 6. maí 2022

Jarðrækt – Sprotinn

Lífið fer hring eftir hring og þannig er aftur komið vor með tilheyrandi viðfang...

Fyrstu nautin fædd 2017 komin í framhaldsnotkun
Fræðsluhornið 5. maí 2022

Fyrstu nautin fædd 2017 komin í framhaldsnotkun

Nýtt kynbótamat var keyrt núna í mars að loknu uppgjöri skýrslna fyrir febrúar. ...

Mikið af næringarefnum enn ónýtt
Fræðsluhornið 5. maí 2022

Mikið af næringarefnum enn ónýtt

Heildarmagn þeirra næringarefna sem er að finna í lífrænum úrgangi sem fellur ti...

Staða fuglaflensu á Íslandi
Fræðsluhornið 5. maí 2022

Staða fuglaflensu á Íslandi

Í mars 2022 voru fyrirskipaðar hertar varnaraðgerðir til að fyrirbyggja að fugla...