Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Helsta ráð Elísabetar Bretlands drottningar við illgresi mun vera að kæfa það með þekju.
Helsta ráð Elísabetar Bretlands drottningar við illgresi mun vera að kæfa það með þekju.
Fræðsluhornið 23. júlí 2021

Uppagarðyrkja

Höfundur: Vilmundur Hansen

Garðyrkja felst ekki eingöngu í að reyta arfa, grafa holur, blanda jarðveginn með skít, þurrum fingrum, sorgarröndum og brotnum nöglum. Garðyrkja snýst ekki síður um lúkkið sem skiptir máli, réttur klæðnaður, rétt verkfæri, réttur gróður og að kunna rétta língóið.

Réttur klæðaburður og snyrtimennska er það sem skiptir mestu máli fyrir tískumeðvitað garðyrkjufólk og að sjálfsögðu veit það að klassískur garðyrkjuklæðnaður fer aldrei úr tísku. Í þessu sambandi er vert að hafa í huga að fyrr á öldum voru yfirgarðyrkjumenn í görðum aðalsins almennt klæddir í kjólföt.

Karli Bretaprins þykir gaman að planta trjám og er sagt að hann njóti sín best í garðinum þegar hann kennir barnabörnunum handbragðið. Gaman að sjá hvað klæðaburður prinsins er til fyrirmyndar í garðinum.

Stíliseraður í garðinum

Vel stíliseraður garðyrkjumaður gengur í síðbuxum og grænum Wellington gúmmístígvélum eða hugsanlega tékkneskum landbúnaðargúmmítúttum. Yfir skyrtunni er hann í peysu með olnbogabótum úr brúnu leðri og með Barbour-úlpu sem yfirhöfn og berhöfðaður. Alvöru-uppar nota ekki hanska, ekki einu sinni þegar þeir klippa rósir og vita að stuttbuxur eiga ekki heima í garðinum. Slíkur klæðnaður flokkast sem siðleysi hinna ófáguðu.

Fyrir dömur og heldri konur er við hæfi að klæðast sokkabuxum, hnésíðum kjól úr vönduðu efni og í látlausum lit og grænum og léttum Wellington-stígvélum. Sítt hár skal bundið í frjálslegan en snyrtilegan hnút ofan á höfðinu.

Blússan skal vera úr þver­röndóttribómull en sé um skyrtu að ræða skal hún vera langröndótt. Um hálsinn skal vera slæða sem hægt er að bregða um höfuðið fari að blása eða þá að konan hafi á höfðinu stráhatt og að sjálfsögðu er Barbour-úlpan ekki langt undan. Garðyrkjukonur nota ekki hanska við garðvinnu enda ekki ætlast til að þær vinni erfiðisstörf og þær vita að það er ekki til siðs að vera berleggjuð í garðinum.

Þægilegt, látlaust og smekklegt.

Ræktunarstíll

Þegar kemur að garðinum er gott að kunna skil á hinum ýmsu garðstílum og getað slegið um sig með almennum lýsingum að japönskum, skandinavískum og breskum garðstíl.

Japanskir garðar eru formfastir og einfaldir og henta þeim sem vilja virðast andlega þenkjandi og djúpir í hugsun. Skandinavískir garðar líkjast Ikea-stíl með beinum línum og allt of mikið um þá hér á landi, einfaldir, hugmyndasnauðir og litlausir. Breskur garðstíll reynir eftir megni að virðast náttúrulegur og hentar prýðilega fyrir fólk sem nennir ekki að vinna í garðinum og segist vilja hafa hann villtan.

Garðyrkjuuppar eiga úðabrúsa úr málmi eða gleri og vökvunarkönnu í stíl.

Í dag er mat-, kryddjurta- og ræktun ávaxtatrjáa í tísku og því nauðsynlegt að hafa lítinn matjurtagarð, svona fyrir eldhúsið, og muna að nota eingöngu lífrænan áburð, það er allt svo mikið bragðbetra ef það er lífrænt ræktað. Það verða að vera að minnsta kosti tvö ávaxtatré í garðinum, berjarunnar og beð með hvítlauk, sem er það heitasta í ræktun í dag.

Allt garðyrkjufólk sem vill sýnast alvöru verður að eiga tágakörfu með rósóttuklæði að innan. Karfan er notuð til að geyma í ný og dýr handverkfæri, eins og klippur, klórur og handskóflur og helst nokkur fræbréf sem „gleymdist“ að sá og á að geyma til næsta árs.

Ekki má gleyma að í garðinum sjáist opinn poki sem er hálffullur af mold eða með lífrænum áburði til að leggja áherslu á heilbrigðan lífsstíl garðeigandans.

Réttar pottaplöntur skipta öllu máli innandyra. Rifblaðka með hvítu, fiðlufíkus, mánagull og orkideur eru í tísku í dag enda viðurkenndar sem plöntur sem hreinsa andrúmsloftið og gefa frá sér mínushlaðnar jónir sem bæta lífsgæði að sögn NASA, geimvísindastofnun Bandaríkjanna. Minna fer aftur á móti fyrir kaktusum og þykkblöðungum um þessar mundir enda hvoru tveggja fremur gróteskt og smáborgaralegt.

Rifblaðka með hvítum skellum er í tísku.

Góðir garðyrkjuuppar vita að tískuplönturnar í dag vilja láta úða í kringum sig reglulega og helst einu sinni á dag og til að gera það eiga þeir úðabrúsa úr málmi eða gleri og vökvunarkönnu í stíl en ekki plastkönnu eða ódýran plastúðabrúsa eins og notaðir eru undir gluggaúða eða ofnahreinsir.

Í eldhúsglugganum á að hafa nokkrar lífrænt ræktaðar kryddjurtir, basilíku eða óreganó, sem gott er að grípa til við matreisluna enda allt heimaræktað og lífrænt svo gott.


Jarðgerð og fuglahús

Allir uppar með sjálfsvirðingu leggja stund á jarðgerð og þekkja muninn á heitri og kaldri jarðgerð og vita að safnhaugamold er besta mold í heimi.

Fuglahús, en aðeins eitt, er í lagi í uppagarðinum enda uppar upp til hópa dýravinir. Uppar vita líka að heimiliskötturinn á að vera innanhúss yfir varptímann og á meðan ungarnir komast á legg. Slíkt er þó sjaldan vandamál þar sem uppar halda oftar kjölturakka frekar en ketti.

Heimasáð

Í dag er mikið í tísku að rækta sínar matjurtir af fræi. Til þess að ræktunin líti vel út þarf að velja sáðbakka og annað sem til þarf af natni og smekkvísi. Garðyrkjuuppinn sáir ekki fyrir mat- og kryddjurtum eða sumarblómum í jógúrtdollur eða afskornar mjólkurfernur. Uppinn veit að ungplönt­unum líður betur í smekklegum sáðbökkum og þá helst þeim sem líkjast litlum gróðurhúsum. Hægt er að fá fallega merkipinna til að vita hvaða plöntum er sáð hvar.

Í dag er í tísku að rækta sínar matjurtir af fræi.Til þess að ræktunin líti vel út þarf að velja sáðbakka og annað sem til þarf af natni og smekkvísi.

Góð verkfæri lýsa fágun

Vönduð og góð verkfæri í garðinum lýsa fágum og vandaðri staðfestu í skapgerð eigandans. Nýjar skóflur, gafflar og hrífur eru fallegar en velmeðfarin eldri verkfæri sýna að ekki sé bruðlað með neitt að óþörfu.

Handklippur eins konar framhald af höndum garðyrkjumannsins og því skyldi aldrei spara við kaup á þeim. Uppar vita að dýr verkfæri af rétta merkinu eru góð verkfæri.

Kóngafólkið

Góðir uppar eru að sjálfsögðu konungs­sinnar og vita að Elísabet Bretlandsdrottning og Karl, sonur hennar og prinsinn af Wales, eru áhugafólk um garðyrkju og hafa verið ósínk við að veita almúganum góð garðyrkjuráð. Elísabet er
sögð hafa fjölda plöntunafna á hraðbergi, bæði á móðurmáli sínu og latínu, eitthvað sem uppagarðeigendur ættu að tileinka sér og nota sem oftast.

Margrét Þórhildur Danadrottning í rósagarðinum við Marselisborg-Höll.

Helsta ráð drottningarinnar við illgresi mun vera að kæfa það með þekju og að hennar söng eru bestu plöturnar í skugga fjólur og bergflétta. Karli Bretaprins þykir gaman að planta trjám og er sagt að hann njóti sín best í garðinum þegar hann kennir barnabörnunum handbragðið. Auk þess sem hann er hrifinn af sterkum blómlitum og því með mikið af litríkum blómum við sumarhöll sína. Margrét Þórhildur Dana- drottning er ekki síðri áhuga­manneskja um garðinn en stalla hennar á Bretlandseyjum. Í tilefni af 75 ára afmæli Margrétar árið 2016 var búin til fjögurra þátta sería með drottningunni sem fjallaði um árstíðirnar í Fredensborg-hallargarðinum á Norður-Sjálandi.

Língóið

Gott er að kunna skil á helstu hugtökum í garðyrkju og sjálfsagt að slá um sig með þeim þegar færi gefst. Yrki er orð sem gott er að þekkja og stendur fyrir afbrigði, einni eða fleiri einstaklingum sem eru lítillega frábrugðnir tegundinni, sem hefur verið valið til ræktunar vegna sérstakra eiginleika, svo sem mikillar uppskeru, bragðgæða eða blómfegurðar. Nauðsynlegt er að vita hver er munurinn á sáðmold og hefðbundinni pottamold og hver er munurinn á súrri og basískri mold og hvers konar jarðveg algengustu garðplöntur kjósa.

Þegar kemur að því að lýsa garðinum sé hann ekki upp á sitt besta fyrir gestum er hægt að grípa til afsakana eins og; ég vil hafa garðinn fremur villtan, eða ég hef ekki haft mikinn tíma fyrir garðvinnu í sumar en þú hefðir átt að sjá hann í fyrra.

Hangandi mánagull er ómissandi á uppaheimilinu enda „vísindalega sannað“ að plantan hreinsi loftið og auki lífsgleði á heimilum. Auk þess sem mánagull fer einstaklega vel með hansahillum enda verulega sixtísplanta. 

Garðálfar bannaðir

Sjálfgefið er að blátt bann er við garðálfum af öllu tagi og flamingóafuglum úr plasti eða öðrum efnum í garði uppans og að sjálfsögðu er hvergi að sjá plastblóm, hvort sem það er inni á heimilinu eða í garðinum. Slíkt er þó leyfilegt í garði naífistans, en það er efni í aðra grein.

,,Auðveldara að ásaka en útskýra“
Fræðsluhornið 21. september 2022

,,Auðveldara að ásaka en útskýra“

Öðru hvoru eru skrifaðar greinar eða fréttir sagðar af því að íslensk sjáva...

Hekl er hæstmóðins
Fræðsluhornið 16. september 2022

Hekl er hæstmóðins

Nú hefur komið skemmtilega á daginn að heklaður fatnaður hefur víða hlotið na...

Glókollur
Fræðsluhornið 14. september 2022

Glókollur

Glókollur er minnsti fugl Evrópu en fullorðinn fugl er um 9 cm að lengd og veg...

44,3% efnahagslögsögunnar kortlögð
Fræðsluhornið 13. september 2022

44,3% efnahagslögsögunnar kortlögð

Rannsóknaskipið Árni Frið­ riksson kortlagði í ágúst alls um 8.964 ferkílo...

Ungbændur í Evrópuferð - síðari hluti
Fræðsluhornið 12. september 2022

Ungbændur í Evrópuferð - síðari hluti

Í lok júní héldu 24 nýútskrifaðir búfræðingar frá Hvanneyri í útskrift...

Aygo hefur tekið vaxtarkipp
Fræðsluhornið 12. september 2022

Aygo hefur tekið vaxtarkipp

Að þessu sinni var einn af nýjustu bílunum frá Toyota tekinn í prufuakstur. ...

Stökkar skeljar & mjúkir vafningar
Fræðsluhornið 9. september 2022

Stökkar skeljar & mjúkir vafningar

Hefðbundnir mexíkóskir réttir eiga sér aldagamla sögu og rætur að rekja til...

Starfsemi RML - Þriðji hluti
Fræðsluhornið 6. september 2022

Starfsemi RML - Þriðji hluti

Í þessum þriðja hluta greina um starfsemi RML mun ég gera rekstrar- og umhverf...