Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Umpottun á pottaplöntum
Á faglegum nótum 8. apríl 2019

Umpottun á pottaplöntum

Höfundur: Guðríður Helgadóttir

Vorverkin hjá ræktendum eru af fjölbreyttum toga og þegar ekki er hægt að athafna sig utanhúss vegna skafrennings og blindhríðar er um að gera að huga að pottaplöntum innanhúss. 

Veturinn er dálítið erfiður tími fyrir margar tegundir pottaplantna, myrkrið hrekkir þær sumar og þær verða stundum rytjulegar útlits en um leið og sól hækkar á lofti glaðnar yfir plöntunum og þær fara að undirbúa vaxtarsprett sumarsins. Þá er líka tímabært hjá húsráðanda að gera úttekt á stöðu plantnanna, meðal annars hvort þær hafi rótarráðrúm til vaxtar á þessu ári. 

Flestar pottaplöntur þola að standa nokkur ár í sama potti en þó getur verið gott ráð að bæta smá lagi af nýrri og næringarríkri mold ofan á í pottinum. Með tímanum brotnar lífræna efnið í moldinni niður og rúmmál þess minnkar og moldarviðbótin bætir þeim upp þessa rýrnun. Best er að nota mold sem er sérstaklega ætluð pottaplöntum, hún er blönduð áburði sem hentar plöntunum. Eftir sem áður er þó nauðsynlegt að vökva plönturnar reglulega með daufri áburðarblöndu á vaxtartímanum.

Potturinn þrengir að

Ef potturinn er orðinn of lítill fyrir plöntuna þarf að umpotta henni og koma henni í stærri pott eða minnka plöntuna og setja hluta hennar aftur í gamla pottinn, allt eftir því hvað maður hefur mikið pláss fyrir ræktunina. Við umpottun er gott að hafa það í huga að velja ekki allt of stóran pott fyrir plöntuna, litlar plöntur í mjög stórum pottum sýna oft vanþrif, það er eins og þær þurfi að fylla aðeins út í pottinn með rótakerfinu áður en þær fara af stað með yfirvöxtinn og þá er verra að potturinn sé allt of stór.  Moldin á að vera hæfilega næringarrík, laus við illgresi og meindýr og hæfilega gróf að byggingu.  Ekki er gott að moldin sé allt of fínt unnin, þá þjappast hún of mikið saman í pottinum þegar líður á ræktunartímann.  Ef um er að ræða plöntur sem vilja ekki mjög rakaheldinn jarðveg er sniðugt að blanda dálitlum vikri saman við moldina, það tryggir gott frárennsli.

Umpottunin sjálf tekur stutta stund, þegar mold, pottar og plöntur eru á staðnum.  Plantan er losuð varlega úr gamla pottinum. Ef hún er föst í pottinum er hægt að styðja við plöntuna og moldarköggulinn með annarri hendi, snúa pottinum á hvolf og slá honum varlega við borðbrúnina, þar til plantan losnar úr pottinum. Ef ætlunin er að umpotta plöntunni í stærri pott er rótakerfið losað aðeins í sundur að neðanverðu. Í botninn á nýja pottinum er ágætt að setja smá tuskubleðil yfir götin í botninum, þá verður umhverfið allt snyrtilegra við vökvun.  Svo má setja vikur eða steina í botninn á pottinum ef vill, smá moldarlag og þá plöntuna.  Svo þarf að fylla upp með mold allan hringinn í kringum plöntuna, passa að þjappa moldinni hæfilega niður með plöntunni svo ekki verði þar loftrými.  Gott er að skilja eftir smá borð á pottinum, þ.e. ekki fylla hann alveg upp að börmum, til að skapa rými fyrir vatnið þegar maður vökvar.

Plöntu skipt

Ef ætlunin er að skipta plöntunni og setja hluta hennar aftur í sama pott þá er pottahnausnum skipt í tvo eða fleiri hluta með því að aðskilja mismunandi hvirfingar plöntunnar og rekja rótakerfi þeirra í sundur eða jafnvel með því að skera hnausinn í sundur, ef það á við.  Einum plöntuhluta er þá pottað í pottinn aftur eins og lýst var hér að ofan og hinir plöntuhlutarnir ýmist settir í aðra potta eða í jarðgerð. 

Að pottun lokinni er nauðsynlegt að vökva plöntuna vel næstu daga og eftir 1–2 vikur ætti plantan að vera komin af stað með nýjan vöxt. Þá er líka tímabært að fara að vökva inniblómin með.

 

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...