Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Trönuberjum safnað saman í vatni.
Trönuberjum safnað saman í vatni.
Fræðsluhornið 30. apríl 2020

Trönuber eru uppskorin í vatni

Höfundur: Vilmundur Hansen

Fersk trönuber eru súr og beisk á bragðið en einstaklega góð þegar búið er að hantera þau og gera úr þeim trönuberjasósu. Berin eru upprunnin við norðausturströnd Norður-Ameríku og þar er ræktun þeirra mest. Heitið trönuber vísar til þess að blómið þykir líkjast háls, haus og gogg á trönu.

Að mati FAOSTAD, Tölfræði­deildar Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, er framleiðsla á trönuberjum um 700 þúsund tonn á heimsvísu. Framleiðslan á ársgrundvelli er mest í Bandaríkjum Norður-Ameríku, um 400 þúsund tonn. Kanada er í öðru sæti með í kringum 170 þúsund tonn og Síle í því þriðja með framleiðslu á um 100 þúsund tonnum á ári. Wisconsin-ríki Norður-Ameríku og Quebec-svæði í Kanada eru langstærstu ræktunarsvæðin. Auk þess sem berin eru ræktuð, en í mun minna mæli, til framleiðslu í Argentínu, Nýja-Sjálandi, Suður-Afríku, Frakklandi, Hollandi, á Spáni og í Póllandi.

Yfir vaxtartímann eru plönturnar vökvaðar eftir þörfum.

Ný trönuber eru flokkuð með bláberjum og öðrum berjum í innflutningstölum Hagstofunnar og því ekki hægt að gera sér grein fyrir innflutningi á þeirra samkvæmt þeim tölum. Einnig er flutt inn talsvert af trönuberjasafa, -sósu og -sultu.

Ættkvíslin Vaccinium

Rúmleg 400 tegundir tilheyra ættkvíslinni Vaccinium og eru af lyngætt og finnast ólíkar tegundir víða um heim og meira að segja eru til tegundir sem vaxa á Madagaskar og teljast innlendar. Tegundir innan ættkvíslarinnar eru jarðlægar, eða runnar sem geta náð um tveggja metra hæð. Einstaka tegundir sem vaxa í hitabeltinu eru ásætur sem vinna vatn og næringu úr andrúmsloftinu en flestar lifa sambýli með svepprótum.

Skyldleiki tegunda innan ættkvíslarinnar er flókinn og ekki alltaf ljós þar sem ólíkar tegundir geta hæglega æxlast saman, og heldur ekki alltaf ljóst hvort um tegund, staðbrigði eða blendinga er að ræða. Auk þess sem til eru margir manngerðir blendingar og yrki.

Stönglar Vaccinium-tegunda eru yfirleitt trjákenndir, blöðin leðurkennd viðkomu, lítil egg- eða lensu­laga, dökk- eða blágræn og flestar tegundir með áberandi blaðæðum. Blómin oft litlar bjöllur með löngum frævum og fræflum. Aldinin sem eru ber myndast í blómbotninum og er hólfaskipt og með mörgum fræjum. Yfirleitt rauð eða blá.

Berin eru misstór eftir vaxtarstað og stærri á ræktuðum berjum en villtum. Ljósir grænjaxlar til að byrja með en verða rauð með þroska.

Trönuber

Hörður Kristinsson grasafræð­ingur segir að trönuberjalyng finnist einungis í Norður-Ameríku en mýraberjalyng víðar á norðurhveli. „Ljóst er að trönuberjalyngið og mýraberjalyngið eru dálítið frábrugðin hinum tegundum ættkvíslarinnar Vaccinium.“ Hann segir enn fremur, að skiptar skoðanir hafi verið um, hvort þær beri að telja sem tegundir innan Vaccinium, eða líta beri á þær sem sjálfstæðar tegundir undir ættkvíslarheitinu Oxycoccus. „Reidar Elven, sem er ritstjóri Panarctic flora checklist, lista yfir allar tegundir norðurhjarans http://panarcticflora.org/search, hefur kosið að aðgreina þær frá Vaccinium og skrá þær í ættkvíslina Oxycoccus.“

Trönuber eru lágvaxnir eða jarðlægir runnar sem ná 5 til 20 sentímetra hæð en geta klifrað í um tveggja metra hæð. Stönglarnir smáhærðir, viðarkenndir, grannir og sveigjanlegir. Blöðin sígræn, þykk og leðurkennd, 5 til 10 millimetrar að lengd, egg- eða lítillega lensulaga, dökkgræn og með áberandi blaðæðum. Blómin dökkbleikrauð, opin með aðskilin krónublöð og löngum fræflum og frævu. Frjóvgun á sér stað með býflugum. Berin sem eru stærri en laufblöðin eru áberandi en misstór eftir vaxtarstað og stærri á ræktuðum berjum en villtum. Ljósir grænjaxlar til að byrja með en verða áberandi rauð með þroska. Berin skiptast í hólf með nokkrum fræjum og eru súr. 

Á Íslandi finnast Vaccinium tegundirnar V. myrtillus, V. uliginosum og V. vitis-idaea, aðalbláberja-, bláberja- og rauðberjalyng. Auk þess sem mýraberjalyng, Oxycoccus microcarpus, finnst á Mið-Norðurlandi og Fljótsdalshéraði.

Nafnaspeki

Ættkvíslarheitið Vaccinium er mögu­lega dregið af gríska orðinu Hyacintos sem er heitið á spartneskri hetju og elskhuga guðsins Apollo. Oxycoccos kemur úr grísku, ?ξ?ς‎ og κ?κκος‎ og þýðir að berin séu súr.

Enska heitið cranberry var upphaflega craneberry og kemur úr þýsku kraanbere. Heitið craneberry kom fyrst fram á prenti hjá trúboðanum John Eliot um 1647 en það er ekki fyrr en skömmu fyrir aldamótin 1700 að trönuberjaheitið festist í sessi meðal þýskra og hollenskra innflytjenda í Nýja-Englandi. Heitið vísar til þess að blómið þykir líkjast háls, haus og gogginum á trönu. Á Bretlandseyjum kallast mýraberjalyng fenbeery, eða fenjaber.

Á Spáni kallast trönuber arándano, Ítalíu mirtillo rosso en boronicë e kuqe í Albaníu og klyukva í Úsbekistan. Á afríkans er það rooibosbessie, á finnsku er sagt karpalo, á sænsku tranbär en á norsku og dönsku tranebær.

Íslenska heitið fyrir trönuber er allt eins komið úr dönsku eða ensku.

Trönuberjatínsla á Nantucket-eyju árið 1880. Málverk eftir Jonathan Eastman Johnson.

Útbreiðsla

Trönuber finnast einungis villt í Norður-Ameríku. Þau dafna best í súru og næringarsnauðu deiglendi, þar sem þau fá nóg af vatni. Mest er um þau í norðaustanverðum Bandaríkjunum og í Kanada.

Saga

Frumbyggjar Norður-Ameríku hafa safnað og notað trönuber til matar allt frá því að fólk settist fyrst að í álfunni. Indíánar, eins og Narragansett-fólkið í Nýja-Englandi, blandaði þeim meðal annars saman við þurrkað kjöt og fitu. Blandan kallast pemmican og þótti góð til að auka geymsluþol kjöts og svipar til þurrkaðs kjöts eða beef jerky á bragðið. Heitið pemmican kemur úr máli Kree Indíána, pimîhkân, og mun vera dregið af pimî sem þýðir fita. Berjanna var einnig neytt hrárra, þau elduð eða þurrkuð.

Hluti evrópskra innflytjenda til Nýja heimsins þekkti ef til vill til mýraberjalyngs frá heimkynnum sínum en líklegt er talið að þeir hafi lært að nytja trönuber af Narragansett-fólkinu sem kölluðu berin sasemineash. Fyrstu landnemarnir kölluðu berin ýmsum nöfnum og það var ekki fyrr en í lok sautjándu aldar að trönuberjaheitið varð almennt.

Elsta evrópska heimild um nytja Indíána á trönuberjum er frá 1550 og höfð eftir landkönnuðinum James White Norwood. Í bók James Rosier, The Land of Virginia, frá 1605 segir frá því þegar breskir landnemar ganga á land þar sem í dag er Virginia-ríki og á móti þeim tóku Indíánar með skálar fullar af trönuberjum.

Frá 1633 er til lýsing frá Plymouth í Massachusetts-ríki sem segir að eiginmaður Mary Ring hafi selt undirpils konu sinnar sem litað var með trönuberjum á uppboði fyrir 21 krónu á núverandi gengi.

Roger Williams kallar berin bjarnaber í bók um tungumál Indíána árið 1643 vegna þess að birnir eru sólgnir í þau. Fimm árum síðar, 1648, er haft eftir prestinum John Elliott í bókinni Clear Sunshine of the Gospel, sem gæti útlagst Tært sólskin guðspjallanna, eftir Thomas Shepart, að landnemarnir séu í sárustu vandræðum með að halda innfæddum að verki þegar kemur að því að tína trönuber því þeir kjósi fremur að eyða tímanum til dýra- og fiskveiða.

Árið 1939 þótti sjálfsagt að börn hjálpuðu til við uppskeruna.

Árið 1667 sendu íbúar Nýja-Englands Karli II Englandskonungi tíu tunnur af trönuberjum, þrjár tunnur af söltuðum þorski og slatta af Indíánakorni, eða maís, til að sefa reiði konungs fyrir að hafa hunsað nýja konungsmynt, furuskilding, sem átti að gilda í nýlendunni.

Sjómenn notuðu trönuber sem C-vítamíngjafa gegn skyrbjúgi.

Fyrsta skráða heimildin um trönuberjasósu er í uppskriftabók landnema frá 1663 og í lýsingu á mat í boði í brúðkaupi skipstjórans Richard Cobb og Mary Gorham árið 1669. Þar er kalkúnn með trönuberjasósu nefndur. Með tímanum tengdust trönuber eða trönuberjasósa og kalkúnn þakkargjörðarhátíð, eins kona uppskeruhátíð að hausti, Bandaríkjanna órjúfanlegum böndum.

Ræktun og uppskera

Ræktun trönuberja er tiltölulega ný og eru elstu heimildir um hana frá því snemma á 19. öld.

Talið er að Henry Hall, fyrrum hermaður í frelsisstríði Bandaríkjanna, hafi fyrstur manna ræktað trönuber árið 1816. Hall bjó í lítilli borg sem heitir Dennis á Cape Cod eða Þorskhöfða í Massachusetts-ríki á norðausturströnd Bandaríkjanna. Fjórum árum seinna var Hall farinn að selja trönuber í tunnuvís til New York og Boston og flytja út til borga í Evrópu.

Í framhaldi af velgengni Hall breiddist ræktun berjanna út til annarra ríkja ríkjasambandsins eins og Wisconsin, New Jersey, Washington og Oregon sem eru í austur- og norðausturhluta Bandaríkjanna og til Kanada. Tölur segja að aldamótaárið 1990 hafi trönuber verið ræktuð á um 8.700 hekturum í Nýja-Englandi og á 16.400 hekturum í Massachusetts-ríki árið 2014.

Í fyrstu fólst ræktun trönuberja aðallega í að hólfa af svæði þar sem villtar plöntur gáfu vel af sér og voru berin tínd með höndum. Síðar var farið að búa til beð og vökva plönturnar og auka þannig uppskeruna. Með tímanum hafa kynbætur gefið af sér plöntur með stærri berjum og yrki sem þrífast á ólíkum stöðum. Þegar nýtt land er brotið undir trönuberjaræktun er efsta jarðvegslagið, helst í votri mýri, fjarlægt að hluta og 10 til 20 sentímetra sandlag sett í staðinn og búin til upphækkuð beð. Milli beðanna er akvegur fyrir vélar. Umhverfis ræktunarsvæðið eru garðar sem gera það kleift að vökva og kaffæra akrana í vatni til að auðvelda uppskeru.

Berjunum ýtt á færiband sem flytur þau á vörubílspall.


Yfir vaxtartímann eru plönturnar vökvaðar eftir þörfum en á haustin, september og fram í nóvember, þegar berin hafa náð tilætluðum þroska, eru akrarnir kaffærðir í vatni til vottínslu. Þroskuð trönuber losna auðveldlega af plöntunum og fljóta í vatni. Uppskera þeirra fer þannig fram að þreskivél með mjúkum burstum er ekið yfir akrana og losar hún berið af plöntunni sem fljóta á yfirborðinu. Að þreskingunni lokinni er berjunum rakað eða ýtt saman á ákveðinn stað og þeim safnað á flutningabíla og síðan flokkuð á þurru.

Á köldustu ræktunarsvæðunum liggja akrarnir undir vatni yfir vetrarmánuðina til að hlífa plöntunum fyrir frosthörkum og kali. Að öllu jöfnu eru beðin sönduð á þriggja til fimm ára fresti og þegar frost er í jörðu.

Fjölgun plantnanna er yfirleitt gerð með því að grisja beð og flytja plöntur milli ræktunarstaða.

Nytjar

Hrá trönuber eru 87% vatn, 12% kolvetni en þau innihalda nánast engin prótein eða fitu og í 100 grömmum af þeim eru 46 kaloríur. Berin innihalda trefjar, C-vítamín og slatta af magnesíum en eru að öðru leyti fremur fátæk af næringarefnum.

Frumbyggjar Norður-Ameríku notuðu ólíka hluta trönuberjaplöntunnar til lækninga við margskonar meinum eins og hita, maga-, blóð-, þvagfæra-, lifrar- og nýrnakvillum og í bakstur til að meðhöndla sár og sýkingar.

Verð á trönuberjum hækkaði jafnt og þétt í Bandaríkjunum allt fram til 1917 þegar það kolféll með þeim afleiðingum að fjöldi ræktenda varð gjaldþrota. Um 1930 nutu niðursoðin trönuber í dósum talsverðra vinsælda en gæði niðursoðnu berjanna voru fremur lök.

Í dag eru trönuber seld fersk en berin eru hörð, súr og bitur á bragðið og er langstærstur hluti uppskerunnar fyrstur til safa-, sósu- og sultugerðar og baksturs. Auk þess sem trönuber eru seld þurrkuð eða sem duft í fæðubótarefnum. 

Trönuberjasafi er grunnefni í kokk­t­eilnum Cosmopolitan ásamt Cointreau, limesafa og vodka.

Fryst trönuber geymast í allt að níu mánuði áður en þau fara að missa bragð og trönuberjasafi er grunnefni í kokkteilnum Cosmopolitan ásamt Cointreau, limesafa og vodka.

Nýlegar rannsóknir benda til að efni í trönuberjum og trönuberjasafa geti reynst vel við sýkingum í þvagfærum.

Trönuber á Íslandi

Í sögu Leifs Eiríkssonar um Vínland hið góða segir frá því er suðurmaðurinn Tyrkis, fóstri Leifs heppna, fann vínvið og vínber. „Ek var genginn eigi miklu langrs en þit. Kann ek nökkur nýmæli að segja. Ek fann vínvið ok vínber.“ Mun þat satt, fóstri min? kvað Leifur. „At vísu er þat satt,“ kvað hann, „því at ég var þar fæddr, er hvárki skorti vínvið né vínber.“

Áhugavert er við þessa lýsingu að á þeim slóðum sem talið er að Leifur heppni hafi lent í Norður-Ameríku vex ekki vínviður né þroskast þar vínber en þar vaxa villt trönuber. Hugsanlegt er að Tyrki, fóstri Leifs, hafi ruglað saman vínviði og trönuberjaviði og grænum og rauðum vínberjum við grænjaxla og fullþroskuð rauð trönuber.

Í auglýsingu frá Sambandi íslenskra samvinnufélaga í Tímanum í des­ember 1958 er auglýsing þar sem fólk er hvatt til að gera jólainnkaupin tímanlega. Meðal þess sem er boðið er upp á eru margs konar niðursuðuvörur eins og niðursoðin jarðarber, plómur og einnig trönuber.

Vinsældir trönuberja hafa aukist mikið hér á landi undanfarin ár og mörgum þykir hún ómissandi með kalkún.

Trönuberjasósa

Einn bolli sykur
Einn bolli vatn
500 grömm fersk trönuber
Einn bolli söxuð epli
Einn bolli saxaðar valhnetur
½ bolli rúsínur
½ bolli Grand Marnier
Safi úr hálfri appelsínu
Ein teskeið kanill
Ein teskeið múskat

Sjóðið vatn og sykur saman í potti. Bætið trönuberjunum út í. Látið suðuna koma upp. Lækkið undir og látið krauma. Bætið hinum íblöndunarefnunum við. Sjóðið í 10 til 15 mínútur. Gott með hvaða máltíð sem er. 

Betri nýting áburðar með hjálp IceCORS leiðréttingarkerfis Landmælinga Íslands
Fræðsluhornið 16. maí 2022

Betri nýting áburðar með hjálp IceCORS leiðréttingarkerfis Landmælinga Íslands

Eins og allir hafa orðið varir við þá hefur áburðarverð hækkað verulega á síðast...

Úrvalsnýting nautanna sem voru fædd 2016
Fræðsluhornið 9. maí 2022

Úrvalsnýting nautanna sem voru fædd 2016

Sú hefð hefur skapast að sýna niðurstöður afkvæmarannsókna á nautum með því að d...

Skráningar á kynbótasýningar þetta vorið
Fræðsluhornið 9. maí 2022

Skráningar á kynbótasýningar þetta vorið

Opnað verður á skráningar á kynbótasýningar nú í byrjun maí og verður það kynnt ...

Nýr sparneytinn Honda HR-V
Fræðsluhornið 9. maí 2022

Nýr sparneytinn Honda HR-V

Fyrir nokkru síðan frumsýndi Askja nýjan Honda HR-V Hybrid-bíl, sjálfskiptan, fr...

Jarðrækt – Sprotinn
Fræðsluhornið 6. maí 2022

Jarðrækt – Sprotinn

Lífið fer hring eftir hring og þannig er aftur komið vor með tilheyrandi viðfang...

Fyrstu nautin fædd 2017 komin í framhaldsnotkun
Fræðsluhornið 5. maí 2022

Fyrstu nautin fædd 2017 komin í framhaldsnotkun

Nýtt kynbótamat var keyrt núna í mars að loknu uppgjöri skýrslna fyrir febrúar. ...

Mikið af næringarefnum enn ónýtt
Fræðsluhornið 5. maí 2022

Mikið af næringarefnum enn ónýtt

Heildarmagn þeirra næringarefna sem er að finna í lífrænum úrgangi sem fellur ti...

Staða fuglaflensu á Íslandi
Fræðsluhornið 5. maí 2022

Staða fuglaflensu á Íslandi

Í mars 2022 voru fyrirskipaðar hertar varnaraðgerðir til að fyrirbyggja að fugla...