Evrópuaskur, Fraxinus excelsior, endabrumi í vetrardvala.
Evrópuaskur, Fraxinus excelsior, endabrumi í vetrardvala.
Fræðsluhornið 1. febrúar 2021

Trjágróður í vetrarskrúða

Höfundur: Ingólfur Guðnason

Tré og runnar í görðum og skógum liggja nú í djúpum vetrardvala eftir að hafa glatt okkur með laufskrúði sínu síðan í vor. Þau þreyja þorrann og góuna og bíða þess að vori.


Garðeigendur og aðrir sem rækta trjágróður bíða vorsins líka af óþreyju þar til gróðurinn laufgast á ný. Vetrargreining trjáa og runna getur verið skemmtileg og gagnleg iðja að vetrinum og gefur okkur kost á að njóta garðsins allt árið.

Fjölbreytileikinn ræður ríkjum

Það getur verið skemmtilegt að þekkja útlit sumargræna trjágróðursins að vetrarlagi. Vaxtarlag hinna ýmsu tegunda verður allt miklu sýnilegra þegar laufið er fallið og leynd fegurð þeirra kemur í ljós. Árssprotar og dvalarbrum eru ólík að lit og lögun eftir tegundum, litur og áferð barkarins kemur skýrt fram að vetri og auðvelt er að sjá hvernig greinabygging er ólík á milli tegunda. Á berkinum sitja oft fléttur og mosar sem valda trjánum ekki sérstökum ama en getur gefið þeim sérkennilegri og fallegri svip á veturna en á sumrin.

Vetrarlitir trjáa.

Sígræn tré eins og furu-, greni- og einitegundir halda útliti sínu að mestu á veturna, en það er gaman að sjá köngla þeirra skreyta trén að vetrarlagi. Þeir framleiða mikið magn fræja sem er fæða fyrir fuglategundir, til dæmis hinn litríka skógarfugl krossnef, sem byggir tilvist sína að miklu leyti á fræi sem könglarnir geyma og er farinn að verpa í íslenskum skógum. Lauftré halda líka sum hver fræreklum sínum fram á vetur, t.d. íslenska birkið og elritegundir.

Börkur

Mjallarhyrnir skartar logarauðum berki á ungum greinum sem sker sig úr flestum öðrum runnagróðri á veturna. Víðitegundir eru margar í görðum og barkarlitur þeirra er ólíkur milli tegunda. Sumar víðitegundir eru með gráleitan börk á veturna eins og viðja, aðrar hafa börk í mismunandi grænum og brúnum litum. Áferð barkarins er á sama hátt misjöfn. Næfurhegg má sjá í görðum, börkur hans er koparlitaður og gljáandi og flagnar með tímanum í hringlaga „næfrar“. Venjulegur heggur er með dekkri börk og sýnir ekki þennan eiginleika. Gullregn er með óvenju ljósgrænan, sléttan börk á yngri greinum. Börkur sígrænu trjánna hefur oft mun grófari áferð en algengt er meðal lauftrjáa. Íslenska birkið hefur mjög fjölbreyttan barkarlit, sumir einstaklingar þess hafa mjög dökkan börk meðan aðrir eru gljábrún eða nánast snjóhvít á litinn.

Skófir og fléttur

Trjábörkur er undirlag fyrir margar gerðir litríkra fléttna og skófna sem gefur berkinum óvæntan og sérkennilegan blæ. Þetta getur verið áberandi á eldri trjám með þykkan stofn og greinar, til dæmis reynitegundir og birki. Ekki er ástæða til að óttast að þessar ásætur valdi trjánum skaða.

Brum

Dvalabrumin hlífa vaxtar­sprot­unum yfir vetrarmánuðina. Þau eru með ýmsu móti; sum eru lítil og liggja þétt að stofninum meðan önnur eru stór og áberandi, eins og brum asksins sem eru nánast kolsvört og gild. Alaskaösp hefur einnig nokkuð stór, odddregin brum. Sumar tegundir eru þeirrar náttúru að þær halda sölnuðu laufinu fram eftir vetri til að hlífa brumunum enn frekar. Dæmi um slíkar tegundir eru eik, beyki og myrtuvíðir.

Beykilauf að vetri.

Greinabygging

Það getur verið gagnlegt að þekkja muninn á milli tegunda og jafnvel yrkja þegar meta skal hvernig standa skuli að trjáklippingum, sem oftar en ekki fer fram nú þegar gróðurinn er í dvala. Þá er auðvelt að meta greinabygginguna, hvernig nátt­úru­legt vaxtarlag er og hvaða greinar er rétt að fjarlægja, stytta og snurfusa. Sem dæmi er hægt að skoða berjarunna. Rifsrunna þarf að klippa reglulega til að veita sólarbirtu inn í runnann. Á sumrin getur þetta verið erfitt vegna þess hversu þéttir runnarnir verða og líkur eru á skemmdum á ungum greinum. Á veturna sést betur hvar best er að fjarlægja elstu og grófustu greinarnar og móta runnann rétt. Hindberjarunna er líka auðveldara að klippa að vetri. Þar er nauðsynlegt að fjarlægja reglulega elstu greinar þeirra til að viðhalda frjósemi runnanna. Eldri greinar er hægt að þekkja á því að börkur þeirra er dekkri en þær yngri og með grunnum lóðréttum rákum. Sumir runnar eru með greinarnar beinar, aðrir bogsveigðar og jafnvel slútandi. Hin sjaldséða hengibjörk vekur alltaf athygli með sínum hangandi greinum.

Skylt efni: Garðyrkja

Áhrif sauðfjárbeitar á plöntur í hlýnandi heimi
Fræðsluhornið 4. mars 2021

Áhrif sauðfjárbeitar á plöntur í hlýnandi heimi

Loftslagsbreytingum á norður­heimskautinu fylgir hækkandi lofthiti sem hefur áhr...

Álalogia II
Fræðsluhornið 2. mars 2021

Álalogia II

Ólíkt öðrum fiskum sem finnast í ám og vötnum, eins og lax og silungur, leitar á...

Öflug naut komin til notkunar
Fræðsluhornið 2. mars 2021

Öflug naut komin til notkunar

Nýtt kynbótamat var keyrt núna í janúar að loknu ársuppgjöri og því er ágætt að ...

Framleiðsla og sala á kindakjöti árið 2020
Fræðsluhornið 1. mars 2021

Framleiðsla og sala á kindakjöti árið 2020

Árið 2020 verður af mörgum ástæðum haft til viðmiðunar þegar sagan verður rýnd. ...

Samlokan er helsta framlag Breta til matargerðar heimsins
Fræðsluhornið 26. febrúar 2021

Samlokan er helsta framlag Breta til matargerðar heimsins

Hvað getur verið einfaldara en að setja álegg á milli tveggja eða fleiri brauðsn...

Jeep Renegade PHEV, skemmtilegur bíll á góðu verði
Fræðsluhornið 24. febrúar 2021

Jeep Renegade PHEV, skemmtilegur bíll á góðu verði

Í nóvember síðastliðnum prófaði ég rafmagns/bensínbílinn Jeep Compass Trailhawk,...

Álalogia
Fræðsluhornið 22. febrúar 2021

Álalogia

Íslendingar hafa lengst af verið hræddir við ála og jafnvel talið þá eitraða, þr...

Bubblur í glasi
Fræðsluhornið 18. febrúar 2021

Bubblur í glasi

Í huga margra er allt freyðivín kampa­vín en það er ekki rétt. Kampavín er freyð...