Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
D-Max í sínu eðlilega umhverfi. Isuzu D-Max er einn smekklegasti pallbíllinn á markaðnum í dag og er kostum gæddur. Bíll með dráttargetu eins og best gerist.
D-Max í sínu eðlilega umhverfi. Isuzu D-Max er einn smekklegasti pallbíllinn á markaðnum í dag og er kostum gæddur. Bíll með dráttargetu eins og best gerist.
Mynd / ÁL
Fræðsluhornið 30. júní 2022

Stíllhreinn og sterklegur pallbíll

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Að þessu sinni var pallbíllinn Isuzu D-Max Lux, sem BL selur, tekinn í reynsluakstur.

Þessi bíll myndi teljast til stærðarflokks meðalstórra pallbíla, rétt eins og Toyota Hilux og Nissan Navara. D-Max veitir áðurnefndum pallbílum öfluga samkeppni og ætti hver sá sem er að leita sér að meðalstórum pallbíl ekki að líta fram hjá þessum.

D-Max kemur í Basic, Pro og Lux útgáfum, en bíllinn sem ég prufukeyrði var 4 dyra í Lux útgáfu, sem er dýrasta týpan. Að auki við þann búnað sem Lux útgáfan fær skv. verðlista þá var umræddur bíll með 33 tommu breytingu frá Arctic Trucks, heithúðun á palli og dráttarbeisli. Án allra aukahluta kostar Lux útgáfan 8.690.000 kr. með vsk.

Fyrstu kynni

Það fyrsta sem ég tók eftir var stílhrein hönnun bílsins að utan sem innan. Því miður hafa pallbílar oft verið óspennandi í útliti gegnum tíðina og voru bílarnir frá Isuzu gott dæmi þess. Hönnuðir fyrri gerða D-Max hafa líklegast ekki haft kjark til þess að hanna bíl sem myndi vekja tilfinningar hjá nokkrum manni, heldur hafa þeir bara horft til þess að gera hagstætt, en jafnframt álappalegt vinnutæki. Núna hafa hönnuðirnir frá Isuzu hins vegar hitt naglann á höfuðið og er D-Max afar fallegur bíll, sérstaklega að utan. Allar línur og hlutföll bílsins vekja áhuga manns og það er ekki hægt að lýsa honum öðruvísi en töff.

Innréttingin
Leðurklædd rafmagnssæti. Ekki fyrir mjög hávaxna.

Það sést um leið og sest er upp í bílinn hversu þétt og vel saman skrúfuð innréttingin er. Það er mjög greinilegt að hún er hönnuð til þess að þola mikið álag og endast. Eins og áður segir var bíllinn í þessum prufuakstri af svokallaðri Lux útgáfu. Sá bíll er með leðurklædd sæti, stýri og leður á mælaborðinu. Það þarf þó ekki að leita lengi til þess að sjá að þetta er vinnutæki, ekki lúxusbíll, því hér og þar má finna ódýrara plast og skarpar brúnir.

Hirslur má finna hér og þar í bílnum, t.a.m. stórir hurðavasar í öllum hurðum og lítil hirsla á miðju mælaborðinu. Einnig eru tvö hanskahólf, en smæðin á þeim veldur miklum vonbrigðum. Stærra hanskahólfið er það smátt að eigendahandbókin kemst varla fyrir.

Hanskahólfið er allt of lítið.

Ökumannssætið er rafdrifið og er hægt að stilla það á ýmsa vegu ásamt því að bíllinn er með velti- og aðdráttarstýri. Flestir ættu því að geta komið sér þægilega fyrir í þessum bíl – nema hávaxnir ökumenn. Sjálfur er ég 191 sentímetra hár og sætið fór ekki nógu aftarlega til þess að ég gæti verið í nógu afslappaðri stöðu.

Margmiðlunarkerfi

Þessi bíll er með níu tommu snertiskjá sem er einungis fáanlegur í Lux útgáfunni. Pro útgáfan kemur líka með snertiskjá, en hann er sjö tommu. Stýrikerfið er einfalt og fannst mér það að flestu leyti vera notendavænt. Bakkmyndavélin, sem er staðalbúnaður í Pro og Lux útgáfunum, er til að mynda mikill kostur á stórum bíl sem þessum.

Ég byrjaði á því að tengja símann minn við kerfið í gegnum Bluetooth sem tók nokkrar tilraunir en tókst fyrir rest. Ég prufaði að hringja nokkur símtöl og voru engin vandamál við að eiga eðlilegar og afslappaðar samræður. Það sem mér fannst hins vegar mikill galli er að það er ekki hægt að stimpla inn símanúmer eða fletta í símaskrá símans í gegnum margmiðlunarskjáinn í akstri. Þessi takmörkun verður auðvitað til þess að ökumenn sem þurfa að hringja á ferðinni neyðast til þess að taka upp símann til þess að slá inn númer.

Nútímalegt mælaborð m/ stórum margmiðlunarskjá.

Aksturseiginleikar

Isuzu D-Max er nokkuð þægilegur og lipur í akstri. Hann er tiltölulega hljóðlátur þó svo að dísilvélin láti alltaf heyra í sér; sérstaklega þegar gefið er í. Seint er hægt að segja að þetta sé kraftmikill bíll, en hann er bara 163 hestöfl og uppgefin heildarþyngd er 3,1 tonn. Hann nær því ekki upp í 100 km hraða fyrr en eftir dúk og disk.

Fjöðrunin er eins og við er að búast af pallbíl, en hann er nokkuð stífur þegar ekið er yfir hraðahindranir og aðrar ójöfnur.

Hann er hins vegar mjög stöðugur á þjóðvegum og á malarvegum; það er ekkert mál að aka greitt á grófum malarvegi þegar maður er búinn að setja í fjórhjóladrifið.

D-Max kemst auðveldlega út fyrir malbikið.

Uppgefin burðargeta D-Max með sjálfskiptingu er 1.090 kg og má hann draga allt að 3.500 kg vagn með hemlum. Skv. bæklingi er blönduð eyðsla 9,2 l/100 km og stóðst það nokkurn veginn í þessum prufuakstri.

Samantekt

Isuzu D-Max er einn stílhreinasti pallbíll sem völ er á í dag og er hann sérstaklega smekklegur þegar búið er að breyta honum fyrir 33 eða 35 tommu dekk. Hann er lipur í akstri með góða burðargetu og dráttargetu eins og best gerist.

Rúmgóður pallur.

Það er auðveldlega hægt að mæla með þessum bíl fyrir hvern þann sem þarf pallbíl í vinnu þar sem nauðsynlegt er að ferðast utan vega og/eða draga kerrur. Isuzu hafa almennt verið áreiðanlegir bílar og koma þeir með 5 ára ábyrgð.

Þetta er hins vegar mjög takmarkaður bíll ef hann er hugsaður sem fjölskyldubíll því pallurinn hentar ekki til þess að geyma viðkvæman farangur. Auk þess er næstum ekkert geymslupláss inni í bílnum.

Skylt efni: vélabásinn | isuzu

Fagþing nautgriparæktarinnar í Danmörku – síðasti hluti
Fræðsluhornið 9. ágúst 2022

Fagþing nautgriparæktarinnar í Danmörku – síðasti hluti

Í maí sl. var haldið hið árlega Fagþing Nautgriparæktarinnar í Danmörku eða...

Fýll
Fræðsluhornið 27. júlí 2022

Fýll

Fýll eða múkki, besti vinur sjómannsins, er stór og gráleitur sjófugl. Han...

Gulvíðir
Fræðsluhornið 27. júlí 2022

Gulvíðir

Ástæða er til að telja gulvíði (Salix phylicifolia) til innlendra trjátegunda...

Fagþing nautgriparæktarinnar í Danmörku – annar hluti
Fræðsluhornið 19. júlí 2022

Fagþing nautgriparæktarinnar í Danmörku – annar hluti

Nýverið var haldið hið árlega Fagþing nautgriparæktarinnar í Danmörku, eða „...

Falsfréttir af Galla frá Hesti og fénu í Botnum
Fræðsluhornið 15. júlí 2022

Falsfréttir af Galla frá Hesti og fénu í Botnum

Það er allavega eitt sem sæðingastöðvahrúturinn Galli frá Hesti á sameiginle...

Rafmagnaður sendibíll - Prufuakstur á Toyota Proace Electric
Fræðsluhornið 14. júlí 2022

Rafmagnaður sendibíll - Prufuakstur á Toyota Proace Electric

Að þessu sinni var rafmagnaði sendibíllinn Toyota Proace Electric,sem Toyota um...

Blæösp
Fræðsluhornið 13. júlí 2022

Blæösp

Blæösp (Populus tremula) hefur vaxið á Íslandi frá alda öðli og telst því ...

Sendlingur
Fræðsluhornið 11. júlí 2022

Sendlingur

Sendlingur er gæfur og félagslyndur vaðfugl. Hann er lítill, frekar dökkur, l...