Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Soja eru mest erfðabreyttu nytjaplöntur í heimi
Á faglegum nótum 17. apríl 2015

Soja eru mest erfðabreyttu nytjaplöntur í heimi

Höfundur: Vilmundur Hansen

Neysla á sojabaunum á sér langa hefð í Asíu en plantan er tiltölulega ný í ræktun á Vesturlöndum. Í dag er ræktun á sojabaunum mest í Bandaríkjunum og Suður-Ameríku.

Soja er mest erfðabreytta nytjaplanta í heimi og fer ræktun á erfðabreyttu soja ört vaxandi. Afurðir úr sojabaunum er að finna í ótrúlega mörgum fæðutegundum.

Árið 2014 nam heimsframleiðsla á sojabaunum um 270 milljón tonnum. Brasilía og Bandaríkin eru í forustu hvað framleiðslu varðar og framleiddi hvort ríki um sig það ár um 90 milljónir tonna. Næst á eftir komu Argentína með rúm 52 milljónir og Kína með 15 milljónir tonna.

Uppskera ársins 2014 var talsvert meiri en reiknað hafði verið með og í kjölfarið lækkaði verð á heimsmarkaði og fyrir vikið er búist við samdrætti í framleiðslu árið 2015. Þrátt fyrir það gera spár ráð fyrir að ræktun á sojabaunum muni aukast í framtíðinni með auknum mannfjölda í heiminum og að árið 2050 verði árleg framleiðsla komin í 515 milljón tonn. Þykja sléttur Úkraínu vænlegur kostur til stórframleiðslu á sojabaunum í nánustu framtíð.

Bandaríkin eru stærsti útflytjandi sojabauna í heiminum, Brasilía er í öðru sæti og og Argentína í því þriðja. Kína er efst á lista yfir lönd sem flytja inn sojabaunir og jafnframt fjórði stærsti ræktandi þeirra í heiminum. Lönd innan Evrópusambandsins flytja inn um 38 milljón tonn af sojabaunum og afurðir úr þeim á ári sem mun vera um það bil samanlögð þyngd allra íbúa innan ESB.

Margs konar nytjar

Sojabaunir eru sú plöntuafurð sem næst kemst kjöti hvað innihaldsmagn af próteini varðar. Í Asíu fer stærstur hluti sojauppskerunnar til manneldis en í Bandaríkjunum er henni breytt í sojamjöl og efni sem kallast hexane er unnið úr og það notað í dýrafóður og sem íblöndunarefni í matvæli fyrir mannfólk.

Fræ sojaplöntunnar, eða baunirnar eins og okkur er tamt að kalla þau, eru verðmætasti hluti plöntunnar. Til manneldis á Asíu eru hálfþroskaðar og einnig lítið eitt spíraðar baunir borðaðar hráar auk þess sem þær eru matreiddar á ýmsan hátt. Uppistaðan í tófú og misú eru sojabaunir. Úr þeim, auk próteins, er unnin olía og sojamjólk sem er meðal annars gefin ungbörnum eftir að þau hætta á brjósti og unnin er úr eins konar sojaostur. Sojasósa er unnin úr baunum sem eru látnar gerjast og kaffilíki úr ristuðum sojabaunum.

Olían sem unnin er úr sojabaunum er notuð út á salat og hún er íblöndunarefni í ýmsar gerðir af matvælum.

Sojaolía er einnig notuð í iðnaði við framleiðslu á málningu, línoleum, textíl, froðu til að svæfa eld, olíudúka, prentblek, sápu, skordýraeitur og sóttvarnarefni svo dæmi séu tekin. Olían er einnig algengt íblöndunarefni í snyrtivörum og lyfjum.

Mjöl sem unnið er úr sojabaunum er notað til baksturs, í morgunkorn og sem íblöndunarefni í unnar kjötvörur og þannig eru sojabaunir ein af mest borðuðu plöntuafurðum í heiminum.

Aðrir hlutar plöntunnar, stönglar og blöð eru nýtt sem dýrafóður eða plægðir niður í jarðveginn og nýtast þannig sem lífrænn áburður. Auk þess sem búinn er til pappír úr blöðunum.

Soja og frjósemi

Fyrir allmörgum árum komu fram getgátur um það í breskri rannsókn að frjósemi karlmanna kynni að minnka ef þeir borða sojabaunir og tófú. Í rannsókninni segir að þess konar matvæli innihaldi efni sem virðist hafa mjög sterk áhrif á sæði í karlmönnum. Þá virðast þessi matvæli líka bæla frjósemi kvenna, en þó í minna mæli en í körlum. Í þessu sambandi má nefna að ekkert bendir til þess að frjósemi sé óvenju lítil í samfélögum þar sem sojabaunir og tófú eru oft á boðstólum.

Útlit og ræktun

Sojaplantan sem mest er ræktuð er einær jurt sem á latínu kallast Glycine max og getur náð tveggja metra hæð en finnst ekki villt. Formóðir eða forfaðir hennar kallast G. soja eða G. ussuriensis, sem er samheiti, og er klifur- eða þekjujurt í sínu náttúrulega umhverfi. Fjöldi afbrigða eru í ræktun en það soja sem mest er ræktað í dag líkist lágvöxnum runna.

Stönglarnir og blöðin, sem eru breiðegglaga, eru þakin stuttum, mjúkum og brúnleitum hárum. Blómin eru lítil, hvít eða bleik og sjálffrjóvgandi. Fræbelgurinn ílangur og hærður og inniheldur eina til fjórar baunir. Fræin eða baunirnar eru mismunandi að lögun og lit, gular, mismunandi grænar, brúnar og svartar, eftir afbrigðum.

Líkt og hjá öðrum plöntum sem lengi hafa verið í ræktun sitja fræin lengur á framræktaðri sojaplöntu en villtum.

Sojaplantan þrífst best við 20 til 30 °C og fljótlega fer að draga úr vexti hennar fari hitastigið upp eða niður fyrir þau mörk. Hún dafnar í margs konar jarðvegi en best líður plöntunni í lausri og vel framræstri mold sem er rík af lífrænum efnum.

Kjörsýrustig er 6,0 til 6,5. Líkt og margar plöntur af belgjurtaætt lifir soja í sambýli við niturbindandi jarðvegsgerla og því nægjusöm á köfnunarefnisáburð.

Algengustu sojaafbrigðin í ræktun eru undir einum metra á hæð og tekur þrjá til fjóra mánuði fyrir þau að ná fullum þroska eftir sáningu. Uppskera á hektara við góðar aðstæður er 2,5 tonn en getur farið yfir 3 tonn í metárum. Mest skráða uppskera á hektara í heiminum er 10,8 tonn en það met á Kip Culles bóndi í Missouri-ríki í Bandaríkjunum.

Sojaplöntur í einræktun eru viðkvæmar fyrir margs konar bakteríum, vírusum og sveppaplágum og efnahernaði óhikað beitt í baráttunni við slíkar óværur. Auk þess sem aðrar plöntur sækjast eftir sambýli sojaplöntunnar vegna sambýlis hennar við niturbindandi jarðvegsgerla. Og þar hefur þekking í erfðaverkfræði og líftækni verið nýtt til hins ýtrasta til að losna við þær.

Genabaunin

Sojaplantan er líklega sú nytjaplanta sem mest hefur verið erfðabreytt til að ná fram aukinni uppskeru. Fyrstu erfðabreyttu sojaplönturnar fóru í ræktun í Bandaríkjunum árið 1994, ári seinna í Kanada og í dag eru þær ræktaðar um nánast allan heim.

Árið 2010 komu á markað sojaplöntur sem eru það sem er kallað „Round-up ready“ og þolnar fyrir illgresislyfinu glífósati sem er banvænt öllum gróðri. Auk þess sem taldar eru líkur á að efnið geti valdið krabbameini í fólki. Samanburðarrannsóknir á fólki sem unnið hefur með efnið í Bandaríkjunum, Kanada og Svíþjóð hafa bent til aukinnar hættu á blóðkrabba. Rannsókn hóps á vegum bandarískra landbúnaðaryfirvalda sýndi aftur á móti ekki fram á marktæka hættu af þeim toga.

Glífósat getur valdið skemmdum á DNA og litningum

Í grein sem birtist í lækna­tímaritinu The Lancet Oncilogy fyrr á þessu ári og finna má útdrátt úr á heimasíðu Skógræktar ríkisins segir meðal annars:

„Hreint glífósat og efnablöndur með glífósati hafa sýnt sig geta valdið skemmdum á DNA og litningum í spendýrum og slíkar skemmdir hafa sést á dýra- og mannafrumum á rannsóknarstofum. Í einni rannsókn mældust skemmdir á litningum í blóði meiri hjá fólki á nokkrum svæðum eftir að glífósatefnum hafði verið úðað. Einnig voru vísbendingar um aukna tíðni stökkbreytinga í bakteríum. Þessi efni virðast líka samkvæmt rannsóknum auka álag vegna oxunar hjá nagdýrum en líka í frumum á rannsóknarstofum. Sérfræðingahópurinn sem hittist í Lyon ákvað því að flokka glífósat sem líklegan krabbameinsvald í fólki.“

Komið hefur í ljós að nokkrar tegundir illgresis á maís-, bómullar- og sojaökrum hafa myndað ónæmi gegn glífósati og dafna sem aldrei fyrr þrátt fyrir notkun á sterkari skömmtun af eitrinu.

Ríflega 90% af öllum sojabaunum sem ræktaðar eru í Bandaríkjunum og Suður-Ameríku eru erfðabreyttar á einhvern hátt og fer hlutfall erfðabreyttra sojabauna í ræktun vaxandi í heiminum. Í Úkraínu þar sem talið er að sojaræktun eigi eftir að aukast gríðarlega í framtíðinni er nú þegar 70% af öllum sojabaunum í ræktun erfðabreyttar.

Ekki er þar með sagt að allar erfðabreyttar sojabaunir innihaldi glífósat.

Reglur um merkingar á erfðabreyttum matvælum og fóðri

Erfðabreytt matvæli og fóður á íslenskum markaði skal merkt samkvæmt reglugerð nr. 1237/2014 um merkingu og rekjanleika erfðabreyttra matvæla og erfðabreytts fóðurs. Samkvæmt reglugerðinni eru erfðabreytt matvæli og fóður skilgreind sem matvæli eða fóður sem unnin eru úr eða eru erfðabreyttar lífverur.

Reglugerðin gildir ekki um matvæli eða fóður sem framleidd eru með hjálp erfðabreyttra lífvera, eins og til dæmis ensím og aukefni sem framleidd eru með líftæknilegum hætti í bakteríum og gersveppum.

Samkvæmt þessu ættu neytendur oft og iðulega að sjá merkingar á matvælum um að þau innihaldi erfðabreytt hráefni. Sjálfur minnist ég þess einu sinni að hafa séð slíka merkingu og það er á umbúðunum utan um Nóa kropp sælgæti. Það kann þó ekki að vera skrítið því í reglugerð nr. 728/2011 um sleppingu eða dreifingu og markaðssetningu erfðabreyttra lífvera eru ákvæði um merkingar sem gilda um vörur sem innihalda erfðabreyttar lífverur, til dæmis maís og soja. Ekki þarf  að merkja vörur sem innihalda minna en 0,9% af tilfallandi eða tæknilega óhjákvæmilegum leifum af heimiluðum erfðabreyttum lífverum samkvæmt reglugerð Evrópusambandsins 1830/2003/EB.

Reglur um merkingar á erfðabreyttum matvælum og fóðri eru því meingallaðar og hriplekar og koma fæstum neytendum að nokkru gagni.

Uppruni og nytjasaga

Þrátt fyrir að ræktun á sojabaunum sé mest í Bandaríkjunum og Suður-Ameríku nú á tínum er uppruni plöntunnar í Asíu, Kína, Japan og Kóreu. Ræktun á sojabaunum  á sér aldagamla sögu í Asíu og elstu heimildir um ræktun á soja eru frá því um 5000 fyrir upphaf okkar tímatals. Talið er að ræktunin hafi hafist í norðurhluta Kína eða Mongólíu og breiðst þaðan út til annarra landa Asíu og að lokum til Afríku, Norður- og Suður-Ameríku. Elstu sojabaunir sem líkjast þeim sem nú eru í ræktun fundust við fornleifauppgröft í Kóreu og eru aldurssettar eitt þúsund árum fyrir fæðingu Krists. Þá hafa fundist í Japan 3000 ára gamlar sojabaunir sem eru talsvert stærri en villtar baunir og bendir til að þær séu framræktaðar.

Vitneskja um upphaf soja­baunaræktar í Kína er takmörkuð en vonandi bætist úr því samfara meiri áhuga á sögu grasnytja þar í landi. Í einni þjóðsögu um upphaf nytja á sojabaunum segir að keisarinn Shen Nung hafi verið svo áhugasamur um hvaða plöntur væri hægt að nýta til matar og lækninga að hann hafi prófað að borða eitt þúsund plöntur og að margar þeirra séu nytjaplöntur í dag, þar á meðal soja. Ekki vildi þó betur til fyrir keisarann en að þúsundasta plantan var baneitruð og sú síðasta sem hann lét ofan í sig.

Nafnið soja er dregið af japönskum rétti sem kallast shoyu. Hollenskir trúboðar sem kynntust réttinum töldu að nafnið á honum ætti við baunirnar sem fóru í hann. Þegar trúboðarnir sendu slíkar baunir til Evrópu kölluðu þeir þær sojabaunir og nafnið festist við þær. Í Japan eru ýmis heiti á sojabaunum og þar á meðal stóri gimsteinn og blómstrandi augabrúnir sem vísar til fræbelgsins þegar hann opnar sig.

Fyrstu sojabaunirnar bárust til Norður-Ameríku með sjómönnum frá Kína árið 1765. Baunirnar voru notaðar til að búa til sojasósu sem síðar var seld til Englands. Framan af og fram á 21. öldina var ræktun þeirra takmörkuð og baununum helst safnað þar sem þær höfðu dreift sér út í náttúruna og nýttar eins og um villigróður væri að ræða.

Bændur í Bandaríkjunum fóru að veita sojaplöntunni athygli í kringum 1910 og ræktun hennar jókst verulega á tímum fyrri heimsstyrjaldarinnar og í kreppunni 1930, meðal annars að áeggjan stjórnvalda. Á sama tíma lék uppblástur í miðríkjum Bandaríkjanna bændur illa en með hjálp sojaplöntunnar tókst að endurheimta jarðveg í stað þess sem fokið hafði burt.

Bifreiðaframleiðandinn Ford var mikill áhugamaður um nýtingu sojabauna og segir sagan að þær hafi verið hluti af borðhaldi hans alla daga eftir að hann kynntist þeim. Ford hafði trú á plöntunni í textíliðnaði og lét hann vefa fyrir sig jakkaföt úr þræði sem unninn var úr sojapróteini. Efnið í þræðinum fékk heitið Azlon en framleiðsla þess var kostnaðarsöm og fljótlega vék það fyrir gerviefni sem var nýtt á markaði og kallast Nylon.

Lúpína eða úlfabaun, eins og ég vandist á að kalla plöntuna, er stundum nefnd sojabaun norðursins.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...