Helle Laks í forgrunni og Hörður Helgi Hreiðarsson að skoða hleðslu. Myndir / Ágústa Erlingsdóttir.
Fræðsluhornið 28. apríl 2020

Skrúðgarðyrkjunámið á Reykjum í Ölfusi

Ágústa Erlingsdóttir

Á skrúðgarðyrkjubraut læra nemendur allt það helsta sem við kemur nýframkvæmdum og umhirðu garða og annarra opinna svæða. Námið telur tvo vetur í bóknámi og 60 vikur í verknámi hjá skrúðgarðyrkjumeistara.

Skrúðgarðyrkja er löggild iðngrein og geta nemendur klárað sitt nám með sveinsprófi að lokinni útskrift frá Garðyrkjuskólanum. Eftir sveinspróf er hægt að sækja nám í meistaraskólanum og/eða fara í tækninám tengt skrúðgarðyrkju erlendis.

Hellulagnir eru meðal þess sem skrúðgarðyrkjufólk kann öðrum betur. 

Nýframkvæmdir og viðhald

Námið er að stórum hluta verklegt í bland við bóklega áfanga. Námið hefst á ýmsum grunnfögum garðyrkju svo sem jarðvegsfræði og grasafræði, auk þess sem nemendur læra að þekkja helstu tegundir runna, trjáa og fjölæringa svo eitthvað sé nefnt.  Nemendur læra undirstöðuatriði í nýframkvæmdum svo sem hellulögnum, hleðslum, tjarnargerð og notkun á náttúrugrjóti. Auk þess læra nemendur hvernig á að sinna umhirðu svo sem trjá- og runnaklippingum, slætti og áburðargjöf. Áfangar í nýframkvæmdum og umhirðutengdum fögum eru mikið til byggðir á verklegum æfingum ýmiss konar í bland við bóklega kennslu. Fyrir útskrift vinna nemendur verklegt lokaverkefni sem tekur á flestum verkþáttum tengdum nýframkvæmdum auk skipulags og áætlunargerðar. Framþróun í greininni er mikil og reglulega bætast inn ný tæki og verkfæri sem létta vinnuna. Í náminu er lagt mikið upp úr því að kynna nýja tækni fyrir nemendum og vinnubrögð sem auka gæði og hraða framkvæmda.

Staðarnám og fjarnám í skrúðgarðyrkju – raunfærnimat

Námið er hægt að stunda bæði í staðarnámi og fjarnámi en nemendur af landsbyggðinni hafa forgang í fjarnámspláss á brautinni. Fjarnemar mæta í staðarlotur reglulega á námstímanum til að fá kennslu í verklegum fögum.

Iðan fræðslusetur býður upp á raunfærnimat í skrúðgarðyrkju fyrir þá sem búa yfir mikilli starfsreynslu í faginu og vilja fá hana metna til eininga. Raunfærnimat er metið á móti einingum í bæði bóknámi og verknámi á skrúðgarðyrkjubraut og er því góður valkostur fyrir fólk með mikla reynslu í faginu.

Fjölbreyttir atvinnu­möguleikar að námi loknu

Atvinnumöguleikar í faginu eru miklir og talsverð eftirspurn eftir sveinum og meisturum í skrúðgarðyrkju víða um landið. Að loknu námi starfa skrúðgarðyrkjufræðingar t.d. hjá umhverfisdeildum sveitarfélaganna, stærri stofnunum eða í einkafyrirtækjum. Skrúðgarðyrkjumeistarar og þeir sem sækja sér tæknimenntun reka ýmist eigin fyrirtæki, starfa sem garðyrkjustjórar, vinna við verk­eftirlit eða á verkfræðistofum.

Hægt er að sækja um nám í skrúðgarðyrkju á heimasíðu LbhÍ, lbhi.is

Stanislaw Bukowski að grisja.