Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Dvergkvistur - Spiraea japonica 'Nana'
Dvergkvistur - Spiraea japonica 'Nana'
Fræðsluhornið 4. ágúst 2021

Skrautrunnar og valkvíði

Höfundur: Vilmundur Hansen

Margir þeirra blómstra litfögrum blómum og bera skrautleg ber. Hægt er að fá þá vind- og seltuþolna eða sólelska og viðkvæma. Skortur á úrvali er ekki vandamálið heldur mun frekar valkvíði.

Til að gefa hugmynd um úrvalið eru hér taldar til nokkrar ættkvíslir sem innihalda skrautrunna sem hafa reynst vel hér á landi. Innan hverrar ættkvíslar er fjöldi tegunda sem hægt er að velja úr þegar finna þarf rétta runnann í garðinn.

Broddur/roðaber (Berberis). Ættkvísl með tæplega 400 tegundum, undirtegundum og blendingum sem vaxa sem runnar eða tré. Ná 5 metra hæð og eru annaðhvort lauffellandi eða sígrænir. Finnast í Evrópu, Mið- og Austur-Asíu, Norður- og Suður-Ameríku og Norður-Afríku. Allar tegundir eru með þyrnum sem yfirleitt eru þrískiptir. Blómin gul eða appelsínugul. Þrífast best í sól eða hálfskugga og vel framræstum jarðvegi.

Kvistir (Spiraea). Ættkvísl með hátt í 100 tegundum og fjölda undirtegunda, blendinga og afbrigða sem vaxa í N-Ameríku, Evrópu og Asíu þar sem fjölbreytnin er mest. Lauffellandi runnar sem geta náð 5 metra hæð en eru yfirleitt lágvaxnari. Blómin hvít, bleik eða rauð í skúf eða klasa. Hvítblómstrandi tegundir blómstra fyrr á sumrin, í júní og júlí, og á annars árs greinum. Þola því ekki klippingu á vorin og best er að klippa fljótlega eftir blómgun. Rauð- eða bleikblómstrandi kvistir blómstra aftur á móti á nýjum greinum sem vaxa yfir sumarið og þegar fer að líða á sumarið í byrjun ágúst. Tegundir með rauðum og bleikum blómum þola að vera klipptar á vorin. Flestir kvistir þrífast best á sólríkum stað. Hvítblómstrandi þola meiri skugga og sandblendinn jarðveg.

Mispill (Cotoneaster). Ættkvísl með flókin ættartengsl 50 til 300 tegunda, eftir því hversu nákvæm flokkunin er. Lauffellandi eða sígrænir runnar sem geta náð fimm metra hæð og vaxa villtir í Asíu, Evrópu og N-Afríku. Gera litlar kröfur til jarðvegs, svo lengi sem hann er ekki blautur. Skriðulutegundirnar þrífast best í myldnum en mögrum og vel framræstum malarjarðvegi. Vindþolinn og þolir vel klippingu. Berin rauð, bleik og svört. Misplar blómgast á fyrraársgreinum. Margir laufgast snemma og laufið fær fallega rauða haustliti.

Toppar/geitblöðungar (Lonicera). Ættkvísl með um tæplega 200 tegundum uppréttra og klifrandi runna sem vaxa flestir í Asíu en einnig í Evrópu og N-Ameríku. Blöðin gagnstæð. Börkurinn dökkur. Harðgerðar plöntur sem gera ekki miklar kröfur til jarðvegs en dafna best í rakri jörð. Blómstra um mitt sumar.

Sópur (Cytisus). Ættkvísl með tæplega sextíu tegundum sígrænna og lauffellandi runna sem vaxa villtir í Mið-Evrópu, við Miðjarðarhafið og í Suðvestur-Asíu. Geta náð ríflega þriggja metra hæð. Greinarnar grænar, marggreindar og fínlegar. Blöðin lítil og vantar stundum alveg. Blómin áberandi, yfirleitt gul en einnig hvít og rauð. Fræbelgurinn flatur og líkist litlum baunabelg. Blómstrar snemma og sætur ilmur af blómunum. Auðveld í ræktun en þrífst best á sólríkum stað, í sendnum og kalkríkum jarðvegi. Þolir illa mikinn áburð, flutning og klippingu. Fjölgað með sumargræðlingum. Allar tegundir í ræktun hér á landi eru sígrænar.

Smekkur fyrir ostruáti er áunninn
Fræðsluhornið 9. september 2021

Smekkur fyrir ostruáti er áunninn

Smekkur fyrir ostruáti er áunninn og fæstum sem þykir þær freistandi eða geðsleg...

Haustblómin  huggulegu
Fræðsluhornið 9. september 2021

Haustblómin huggulegu

Nú gengur í garð sá tími að sumarblómin fara að syngja sitt síðasta og blómakeri...

SOLIS 26 HST – smátraktor frá Indlandi
Fræðsluhornið 7. september 2021

SOLIS 26 HST – smátraktor frá Indlandi

Þegar Vallarbraut bauð mér að prófa nýtt rússneskt fjórhjól þá stakk ég upp á að...

Til bjargar vanræktum skógum á Íslandi
Fræðsluhornið 1. september 2021

Til bjargar vanræktum skógum á Íslandi

Að rækta upp skóg er gott. Víða um land eru fallegir og vel hirtir skógar, stóri...

Verða skordýr í auknum mæli próteingjafi í fóðri?
Fræðsluhornið 1. september 2021

Verða skordýr í auknum mæli próteingjafi í fóðri?

Fyrr á árinu kom út áhugaverð skýrsla frá hinum alþjóðlega landbúnaðarbanka Rabo...

Sauðfjárdómar og DNA-sýnataka
Fræðsluhornið 1. september 2021

Sauðfjárdómar og DNA-sýnataka

Eitt af umfangsmestu verkefnum RML eru sauðfjárdómarnir enda er þetta sú þjónust...

Nafngiftir kúnna
Fræðsluhornið 31. ágúst 2021

Nafngiftir kúnna

„Sól skín á fossa,“ segir hún Krossa. „Hvar á að tjalda,“ segir hún Skjalda. „Su...

Lifandi safn undir berum himni
Fræðsluhornið 31. ágúst 2021

Lifandi safn undir berum himni

Grasagarðurinn í Reykjavík fagnar sextíu ára afmæli á þessu ári. Hlutverk garðsi...