Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
James Ranking segir frá búi sínu og hinir íslensku gestir fylgjast áhugasamir með.
James Ranking segir frá búi sínu og hinir íslensku gestir fylgjast áhugasamir með.
Mynd / SS
Á faglegum nótum 10. nóvember 2017

Skotlandsferð Samtaka ungra bænda

Höfundur: Snorri Sigurðsson
Dagana 20. til 23. október sl. stóðu Samtök ungra bænda á Íslandi fyrir helgarferð til Skotlands og var tilgangur ferðarinnar að kynnast þarlendum landbúnaði sem og að njóta lítils hluta þess sem Skotland hefur upp á að bjóða. 
 
Alls voru 32 ungir bændur með í för og komu þeir víðs vegar að af landinu og frá ýmsum greinum íslensks landbúnaðar. Hér á eftir fer fyrri hluti samantektar um þessa ferð sem var einkar fróðleg, fræðandi og umfram allt lærdómsrík.
 
Lanark-uppboðsmarkaðurinn
 
Ferðin hófst með því að ekið var frá flugvellinum í Glasgow og til uppboðsmarkaðarins í Lanark en þar eru árlega boðnar upp þúsundir af bæði nautgripum og sauðfé. Þennan dag var uppboð á lambhrútum af Blackface sauðfjárkyninu en þetta kyn er afar vinsælt í Stóra-Bretlandi og seljast lambhrútarnir á afar eftirtektarverðu verði, amk. fyrir okkur Íslendinga. Það var sérstaklega áhugavert að fylgjast með uppboðinu en bæði voru hrútarnir þvegnir og stroknir fyrir sýningu, sprautaðir með hárgljáa til að gera útlitið enn betra auk þess sem hornin voru vax- og olíuborin svo glæsileikinn yrði sem mestur.
 
Lambhrútur seldur á 8 milljónir!
 
Þennan dag voru 155 lambhrútar boðnir til sölu og var meðalverð hvers þeirra hvorki meira né minna en 643 þúsund krónur og var það hækkun um rúmlega 10% frá sambærilegu uppboði í fyrra á sama sauðfjárkyni! Sá sem fór á hæsta verðið var lambhrútur frá hinu þekkta skoska ræktunarbúi Auldhoseburn en þar býr bóndi að nafni Hugh Blackwood blönduðu búi með sauðfé og holdanaut. Lambhrúturinn frá Hugh seldist á 58 þúsund pund en upphæðin samsvarar 8 milljónum íslenskra króna – já og það fyrir einn lambhrút! En mun fleiri lambhrútar seldust á háu verði en sá næst dýrasti fór á 55 þúsund pund og sá þriðji dýrasti á 45 þúsund pund.
 
Sum sauðfjárbúanna, sem eru fyrst og fremst í ræktun kynbótagripa og ekki með aðaláherslu á kjötframleiðslu, seldu þarna marga lambhrúta og þennan dag seldu nokkur þeirra fyrir vel á annan tug milljóna króna. Skýringin á þessum gríðarlega háu upphæðum felst í því hvernig sauðfjárrækt er stunduð víða í Stóra-Bretlandi. Sum bú eru í afurðaframleiðslu en önnur fyrst og fremst í framleiðslu kynbótagripa og þau bú, sem kaupa þessa dýru lambhrúta, eru fyrst og fremst að kaupa afburða kynbótagripi sem notaðir verða til þess að framleiða næstu kynslóðar kynbótagripa sem fara svo í almenna sölu og notkun. Þó þessir gripir fari etv. ekki á jafn háa upphæð og hér að framan greinir þá er algengt verð 10–15 falt sláturverð lamba og þar með fæst hið háa kaupverð lambhrúts endurgreitt með afkomendum hans. Þessir ofurdýru lambhrútar eru reyndar einnig notaðir í sæðissölu og eru stráin frá þeim seld háu verði.
 
Eftir þessa afar fróðlegu heimsókn var haldið til Edinborgar þar sem íslenski ungbændahópurinn setti mark sitt á götumynd borgarinnar fram á kvöld er haldið var á hótel í Glasgow.
 
Bændamarkaðurinn í Edinborg er afar vinsæll meðal heimamanna enda fást þar allar helstu matvörur sem framleiddar eru í Skotlandi.
 
Einstakur bændamarkaður
 
Annar dagur ferðarinnar hófst með heimsókn á markað með landbúnaðarvörur við Edinborg. Það er löng hefð fyrir bændamörkuðum í Skotlandi, en þessi markaður í Edinborg er sá eini í landinu sem er haldinn vikulega og söluaðilarnir eru oftast 30–40 hverju sinni. Flestir aðrir markaði eru haldnir á tveggja vikna fresti og sumir einungis mánaðarlega. Rekstrarform þessara skosku markaða er nokkuð mismunandi, en flestir eru reknir í samvinnu bændanna sem að mörkuðunum koma.
 
Edinborgarmarkaðurinn miðar við að þeir sem selja vörurnar komi úr næsta nágrenni markaðarins enda lögð áhersla á að vörum á þessa markaði sé ekki ekið um langan veg að sölustað. Meginregla fyrir þátttöku á þessum mörkuðum í Skotlandi er að söluaðilarnir séu sjálfir frumframleiðendur eða vinni vörur sínar úr hráefni sem kemur úr nánasta umhverfi og þá mega söluaðilar á markaðinum ekki selja vörur í umboði fyrir aðra.
 
Af mörgum áhugaverðum sölubásum á markaðinum vöktu tveir þeirra sérstaka athygli greinarhöfundar. Annar þeirra var með sölu á villibráð og hinn með sölu á ostum úr sauðamjólk.
 
Fasanasala
 
Einn sölubásinn var með villibráð í sölu og seldi bæði kanínu- og fuglakjöt. Allt kjöt sem var þarna til sölu var tilkomið með nokkuð óvenjulegum hætti en um var að ræða kjöt af veiddum dýrum sem veiðimenn höfðu notað sem greiðslu fyrir afnot af landi bænda. Veiðimennirnir fengu með öðrum orðum að veiða fugla og kanínur á landi bændanna gegnt því að afhenta bændunum hluta af feng sínum sem svo fer til vinnslu og pökkunar og síðar sölu á bændamörkuðum.
 
Á sauðfjárbúinu Errington fer öll mjólk til ostagerðar og reyna bændurnir að selja megnið af framleiðslu sinni á bændamörkuðum.
 
Með margar gerðir af ostum
 
Sauðfjárbúið Errington var með margar mismunandi gerðir af ostum en á búinu eru um 450 ær á hverjum tima. Ærnar eru af hinu þekkta afurðakyni Lacaune og eru þær mjólkaðar tvisvar á dag. Mjaltabúnaðurinn er frá sænska fyrirtækinu DeLaval og er hægt að mjólka 28 ær samtímis í mjaltabásnum. Öll mjólkin frá ánum fer í ostagerð á búinu en búið kaupir einnig mjólk frá kúabúi í nágrenninu til þess að bjóða upp á fjölbreyttara úrval af ostum.
 
Frá þessum skemmtilega markaði var svo haldið í hinn heimsfræga og glæsilega Stirling kastala sem er einn af sögufrægustu stöðum Skotlands.
 
Formaður skoskra kúabænda
 
Fyrsta bændaheimsókn ferðar­innar var til félagsbús sem kúabóndinn James Ranking var í forsvari fyrir. Að búinu stendur James ásamt bróður sínum og fjölskyldum þeirra en búið, sem heitir Badenheath, er einungis spölkorn frá stórborginni Glasgow. James er jafnframt formaður félags skoskra kúabænda og situr fyrir þeirra hönd í skosku bændasamtökunum, en stjórn skosku bændasamtakanna skipa allir formenn búgreinafélaga landsins.
 
Þeir bræður eru með 130 kýr af Airshire kyni sem mjólka um 7 þúsund lítra á ári og eru þær mjólkaðar í hefðbundnum mjaltabás þar sem einn mjaltamaður mjólkar kýrnar í bás sem tekur 24 kýr. Búið er svo með rétt rúmlega 100 hektara sem eingöngu eru nýttir til grasframleiðslu og þá bæði til beitar og sláttar.
 
Kindurnar hreinsa eftir kýrnar
 
Líkt og á mörgum skoskum kúabúum byggir mjólkurframleiðslan fyrst og fremst á beit og gróffóðurgjöf og fá kýrnar t.d. ekki kjarnfóður. Beitartíminn er frá byrjun apríl og fram í lok október og á þessu tímabili fá kýrnar ekkert fóður annað en beitina. Til þess að nýta beitina sem best er búið einnig með 50 kindur sem hafa í raun það hlutverk að vera „ruddasláttuvélar“ þ.e. þær eru settar á spildurnar á eftir kúnum og sjá þá um að hreinsa beitarstykkin upp eftir kýrnar enda ærnar síður kresnar á beitina en kýrnar.
 
Vel rekið bú
 
Aðspurður um framleiðslukostnað og rekstur búsins sagði James að búið stæði sig vel og að núllpunktur búsins væru 27 pens eða rétt rúmlega 37 krónur á hvert kíló mjólkur. Væri afurðastöðvaverðið hærra en þetta væri búið rekið með hagnaði eftir að tekið hefur verið tillit til alls rekstrarkostnaðar, launa og afskrifta. Í fyrra og framan af þessu ári hafi hins vegar búið ekki fengið þessa upphæð og var því rekið með tapi. Nú sé þó afurðastöðvaverðið hærra og skilar það því hagnaði en vegna óvissu um framtíðina vildu þeir bræður tryggja sig betur gegn verðsveiflum. Þeir ákváðu því að skipta um afurðastöð og munu frá áramótum byrja að leggja inn hjá einkarekinni afurðastöð sem er með 100 innleggjendur og 100 milljónir lítra innvigtun á ári. Þessi stöð er að sögn James afar vel rekin og geti lofað hærra afurðastöðvaverði en samvinnufélagið First milk sem þeir leggja inn hjá í dag.
 
Í eigin sæðissölu!
 
Notkun þarfanauta er ekki algeng nú til dags og notar stór hluti kúabænda orðið sæðingar á bæði kýr og kvígur en á þessu búi sér þarfanaut um verkið. Naut þetta var keypt að búinu frá Englandi fyrir 9 árum og er það enn í notkun enda hefur það gefið af sér góða gripi. Nautið, sem er undan einni afurðamestu kú Stóra-Bretlands, hefur mikið gildi fyrir búið og Airshire kúakynið og vegna kynbótagildis þess kemur öðru hverju verktaki á búið og tekur sæði úr nautinu sem þeir bræður selja svo innan Stóra-Bretlands. Að bændur láti taka sæði heima á búum sínum og koma í sölu er afar framandi fyrir okkur hér á Íslandi en að sögn James er þetta víst nokkuð útbreidd aðferð í Stóra-Bretlandi.
 
Eftir þessa afar fróðlegu heimsókn var svo haldið til Glasgow enda hafði víst tekið sig upp sterk innkaupaþörf hjá sumum í hópnum og lauk þar með öðrum degi þessarar Skotlandsferðar Samtaka ungra bænda.
 
Í næsta Bændablaði verður fjallað um lokadag ferðarinnar en þá var farið í heimsókn til kúabónda sem var valinn „Ungur bóndi Skotlands 2016“ auk þess sem bæði var farið í heimsókn á holdakúabú og sauðfjárbú.
 
Snorri Sigurðsson

5 myndir:

Skylt efni: Samtök ungra bænda

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...