Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Bessarunni.
Bessarunni.
Á faglegum nótum 11. september 2014

Skógarber til nytja – fyrri hluti

Höfundur: Hafsteinn Hafliðason

Á undanförnum áratugum hafa tugir tegunda af mismunandi berjarunnum verið fluttir til landsins. Fyrst og fremst hafa þeir verið kynntir sem skemmtileg viðbót við garðaflóruna en minna hugsað um hvernig þeir gætu staðið sig úti í skjólbeltum og skógarreitum, fólki til unaðar og fuglum til viðurværis.

Hér tek ég ekki með okkar íslensku berjategundir eða dæmigerða berjarunna sem fyrst og fremst eru ræktaðir í görðum berjanna vegna, eins og til dæmis rifsber, sólber og stikilsber. Og ekki heldur jarðarber, sem eru sannarlega ekki runnar, heldur fjölærar jurtir. En villt hindber munu komast hér á blað.

Þeir „villtu“ berjarunnar sem hingað hafa borist hafa komið frá meginlöndunum austan við okkur og vestan. Frá N-Ameríku höfum við fengið bersarunna, hlíðaramal, laxaber, dúnylli/alaskaylli, glæsitopp/glótopp svo nokkrir séu nefndir. Úr austri hafa komið ýmsir toppar, rósarunnar, reyniviðir, hindber, brómber, hafþyrnir, misplar o.fl. Um evrasísku tegundirnar verður fjallað í næsta blaði.

Með tilliti til aðstæðna í íslenskum nýskógum og skógarreitum munu amerísku tegundirnar hafa aðlagast betur en þær evrasísku. Víða má sjá sjálfsánar ylliplöntur í skógarreitum nálægt þéttbýli. En þangað berast líka fræ af berjarifsi og sólberjum úr driti fugla sem hafa haft þar næturstað. Annarra tegunda mun þó vera að vænta á næstu árum, eftir því sem útbreiðsla ræktaðra runna af þessum tegundum eykst og skógarreitir verða víðfeðmari.

Af amerísku tegundunum eru það fyrst og fremst bersarunni og hlíðaramall sem hafa gildi sem berjatekjutegundir fyrir fólk.

Laxaberin (Rubus spectabilis) með sín skær-rauðbleiku blóm líka, en þau eiga í örðugleikum með að frjóvgast af eigin frjódufti. Þannig að berjaþroski verður betri þar sem fleiri einstaklingar (klónar) vaxa saman. Í heimkynnum þeirra eru það einkum kólibrífuglar sem hjálpa til við frjóvgunina.

Laxaberjaklungrið ber aldin á tvævetra greinar, en lendir oft í því að blómbrum greinanna kelur á veturna ef þær eru óvarðar af snjóþekju eða skógi. En laxaber eru ljúffeng og mikið búsílag þegar vel tekst til. Þau minna á hindber í útliti, fagurrauð eða laxableik, mjög safarík en bragðið getur verið svolítið mismunandi súrt eða sætt en ávallt með sínum sérstæða skógarkeim.

Þau skríða víða um með neðanjarðarrenglum líkt og hindber og geta því myndað þétt þykkni sem erfitt er að komast um. Í sjálfu sér er hægt að rækta þau eins og hindber með því að planta þeim í raðir og stýra þeim reglulega. Klippa burt sprota sem hafa borið aldin og velja kröftuga sprota í staðinn, sem svo aftur blómgast og bera aldin næsta ár. Fjölgun er auðveld með róta- og greinagræðlingum. Kjörlendið er rakur og frjór jarðvegur t.d. skógarjaðrar, skriðurætur eða meðfram lækjarfarvegum.

Hlíðaramallinn (Amelanchier alnifolia) er af nánum skyldleika við apaldra (epli) og reyniviði. Berin koma í gisnum klösum. Minna á epli eða reyniber að gerð. Blá eða blásvört, ögn stærri en vænt sauðasparð, kjötmikil og safarík. Af þeim er mikið sætubragð með hnetukeim. Þau er hægt að tína í sig beint af runnunum. Á máli Cree-þjóðarinnar kallast þau „saskatoon“. Það nafn hefur haldið sér víðast hvar þar sem enska er töluð. Berin má nota eins og aðalbláber í sultur og mauk. Líka í saft og vín. Víða hafa þau verið þurrkuð líkt og rúsínur.

Á síðari árum hefur mikil áhersla verið lögð á andoxunargildi og vítamíninnihald berjanna. Þau hafa jafnvel verið sett á markað sem „súperber“.

Hlíðaramli er auðvelt að fjölga með græðlingum. Kjörlendi hans er líkt og reyniviða, þ.e. frjór jarðvegur þar sem grunnvatn er á góðri hreyfingu undir. Og svo þurfa runnarnir skjól. Hlíðaramallinn getur orðið tveggja til fjögurra metra hár. Spjarar sig vel í blönduðum skjólbeltum. Fær fallega haustliti.

Margir hafa spurt um það, hvort hægt sé að nota ber af dúnylli og glæsitopp/glótopp til matar á einhvern hátt. Í stuttu máli er svarið nei. En þessar tegundir eru engu að síður velkomin viðbót sem undirgróður í skógarlundum og skjólbeltum. Þær eru harðgerar, snotrar og gera sitt til að glæða fuglalífið á landareigninni. Yllitegundir (Sambucus) og toppar (Lonicera) hafa búið svo um frædreifinguna að í berjunum eru efni sem hraða umferðartíma fræjanna gegnum meltingarfæri fugla.

Meltingarvegur manna er ekki undir slíkt búinn, þannig að ef einhverjum yrði það á að koma niður lúkufylli af slíkum berjum hefði það leiðinlegar og tefjandi, jafnvel pínlegar, afleiðingar fyrir gerandann. Þessi efni hverfa vissulega við suðu, en lítill ávinningur er það fyrir sælkeraupplifunina að vesenast með þau í mauk, hlaup eða sultur. Bragðið er mjög súrt og rammt og til að fela það þarf að minnsta kosti tvöfaldan skammt af sykri á móti berjunum. Eina undantekningin er hinn austur-asíski berjablátoppur (Lonicera caerulea var. edulis). Ber hans má tína upp í sig beint af runnanum og ekki síður nota eins og bláber í sultur og saftir. Meira um hann síðar.

Sú berjarunnategund frá N-Ameríku sem mest hefur komið á óvart er bersarunninn (Viburnum edule). Á heimamálinu kallast ber hans „highland cranberry“, „squashberry“ eða „mooseberry“, svo kannski sannast það hér að kært barn ber mörg nöfn! Bersarunninn vex um skóga N-Ameríku, frá Alaska í vestri til Nýfundnalands í austri. Hingað til lands kom hann fyrir um þrjátíu árum. Fyrst og fremst var litið á hann sem einkar harðgeran og skrautlegan garðrunna með viðfelldið vaxtarlag, fallega laufgerð, snotra klasa með hvítum blómum. En síðast en ekki síst fyrir líflegan haustlit og þessi stóru og skínandi rauðu ber. Á síðustu árum hefur þar færst í vöxt að planta honum innan um annan trjágróður í sumarbústaðalöndum. Þar hefur hann svo sannarlega sannað harðgervi sitt og aðlögunarhæfileika. Þótt hann dafni kannski ekki vel á hörðum mel á bersvæði, þá fellur hann vel að birkikjarri og víðistóðum ef asparlundir og greniskógar standa honum ekki til boða. Hann virðist aldrei láta vorhret eða rysjótt sumur hafa áhrif á sig. Heldur sínu striki með blómgun og berjaframleiðslu hvað sem á dynur. Og svo sannarlega er hann góður kostur sem undirgróður í skógum og skjólbeltum. Bersarunnanum má fjölga hvort sem er með græðlingum eða fræsáningu. Ekki eru gallsúr berin neitt lostæti til að tína upp í sig, þótt þau séu afar lokkandi í sínum gisnu klösum á greinunum. Þau þarf að matreiða í marmelaði eða hlaup. En meðan á þeirri framkvæmd stendur finnst mörgum að anganin sem upp gýs sé ekki mjög hugljúf. Sumir nefna táfýlusokka í því samhengi. En ef maður setur ekki slíka smámuni fyrir sig er afurðin ómótstæðileg. Bersaberjahlaup er afar gott með allri villibráð, desertostum og rauðvíni. Jafnvel ósætum byggvöfflum með þeyttum rjóma. 

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...