Samlokan er helsta framlag Breta til matargerðar heimsins
Fræðsluhornið 26. febrúar 2021

Samlokan er helsta framlag Breta til matargerðar heimsins

Höfundur: Vilmundur Hansen

Hvað getur verið einfaldara en að setja álegg á milli tveggja eða fleiri brauðsneiða og búa þannig til ljúffenga og góða máltíð eða snarl milli mála? Samlokan er fullkomin máltíð fyrir alla nema þá sem ekki borða brauð af einhverri ástæðu.

Samlokan er líklega vinsælasta nesti í heimi og í sinni einföldustu mynd samanstendur hún af tveimur brauðsneiðum, smjöri og osti en til að gera samlokuna enn girnilegri má bæta í hana skinku, tómata- og gúrkusneiðum eða bara nánast hverju sem er.

Frumsamlokur

Elsta heimild, á prenti, um máltíð sem líkist samloku er frá því á fyrstu öld fyrir Krist. Þar segir frá því þegar rabbíninn Hillel eldri blandaði saman hnetum, eplum, kryddi og víni og smurði því á flatbrauðssneið, matzo, sem neytt er yfir páskahátíðina, og setti svo aðra sneið ofan á og borðaði með bestu lyst.

Frá sjöttu öld og allt fram á okkar dag eru til lýsingar á því hvernig fólk notaði og notar enn gamalt brauð, heilt eða skorið, eins og diska með því að setja mat ofan í það eða ofan á og borða það með fingrunum. Maturinn mýkir brauðið í lok máltíðarinnar, annaðhvort borðað eða, á efnaðri heimilum, gefið fátæklingum og hundum.

Til er ferðalýsing frá Niðurlöndum frá því á sautjándu öld þar sem enski náttúrufræðingurinn John Ray segir frá nautakjöti sem hengt er upp í sperrur á veitingahúsum og skornar af sneiðar og settar á brauðsneiðar með smjöri. Rétturinn kallaðist belegede broodje, eða opin samloka. Ray er einnig tíðrætt um það sem hann kallar grænan ost í lýsingu sinni á matarhefð Niðurlendinga en græni liturinn stafar af því að safa úr kindaskít er hellt yfir ostinn að hans sögn.

Þrátt fyrir að uppruni samlok­unnar sé hulin gáta og í sjálfu sér út í hött að ætla að hún eigi sér einn fastan upprunastað eða -stund er uppruni samlokunnar eins og við þekkjum hana í dag yfirleitt rakinn til Evrópu á átjándu öld. Smátt og smátt hækkaði opna samlokan í virðingarstiga matvæla og hætti að vera fátækramatur og varð algengur kvöldréttur betur stadds fólks og jafnvel meðal aðalsins.

Jarlinn af Sandwich

Á ensku og mörgum öðrum tungu­málum er „Sandwich“ nefnd í höfuð­ið á John Montague, fjórða jarlinum af Sandwich.

Montagu var að mörgu leyti merkilegur karl og hann var góðgerðarmaður James Cook skipstjóra, sem fyrstur Evrópumanna er sagður hafa siglt til Nýja-Sjálands, Ástralíu og Havaíeyja. Cook nefndi Havaíeyjar eftir Montagu og kallaði þær Sandwich-eyjar. Þrátt fyrir að nafnið hafi ekki fest er til eyja sem nefnd er eftir honum utan við Alaska og kallast Montagu-eyja.

s

John Montagu, fjórði jarlinn af Sandwich.

Sagan segir að jarlinn, eftir að hafa komið seint heim og soltinn, hafi sagt þjóni sínum að færa sér tvær brauðsneiðar með kalkúnakjöti á milli. Jarlinn var mikið gefinn fyrir spil og sagt að hann hafi oft eftir það pantað brauðsneiðar með áleggi á milli fyrir sig og spilafélaga sína til að þurfa ekki að gera hlé á spilamennskunni. Félagar jarlsins kölluðu matinn, sem hægt var að borða með annarri hendi og án hnífapara, Sandwich og heitið festist. Í annarri en svipaðri sögu segir að jarlinn af Sandwich hafi verið að vinna fram eftir á skrifstofunni sinni og beðið um tvær brauðsneiðar með kalkúna- eða nautakjöti á milli og að þannig hafi hin fyrsta eiginlega samloka orðið til.

Annars staðar segir að samlokan hafi formlega orðið til um miðja átjándu öld og að kokkar á London’s Beef Steak Club, sem var heldrimannaklúbbur með 24 meðlimum, prinsinn af Wales fékk undanþágu til að vera sá 25. Meðlimir hittust reglulega á laugar­dögum klukkan fimm eftir hádegi, stundum með vini, og borðuðu steikarsamlokur og drukku rausnarlega af portvíni og arrack-brennivíni með.

Enski þing- og samkvæmislífs­blaðamaðurinn Edward Gibbon mun hafa verið fyrstur til að nota orðið Sandwich um tvær brauðsneiðar með áleggi á milli á prenti. Samlokur eins og Gibbon lýsir þeim voru vinsælt snarl sem fólk fékk sér á veitingahúsi að lokinni ferð í leikhús, tónleika eða óperuna.

Fyrir þann tíma kallaðist slíkt einfaldlega brauð með kjöti eða osti eða því áleggi sem haft var milli brauðsneiðanna.

Samkvæmt grein í The Wall Street Journal er samlokan helsta framlag Englendinga til matargerðar í heiminum.

Heimssamlokan

Vinsældir samlokunnar jukust mikið meðal vinnandi fólks á Englandi og á Spáni í kjölfar iðnbyltingarinnar á 19. öld. Samlokan var ódýrt nesti sem fólk hafði með sér til vinnu. Einfaldur matur sem var hægt að skófla í sig í stuttum matartímum. Í samantekt um götulífið í London árið 1850 segir að þar finnist að minnsta kosti 70 götusalar sem selji samlokur með skinku og að þær séu víða seldar á öldurhúsum. Um svipað leyti var hægt að fá í Hollandi samlokur með lifur og söltuðu nautakjöti.

Ella Prestsins þótti gott að gæða sér á samlokum á tónleikaferðum. 

Á Spáni er heitið sandwich notað um mat sem búinn er til úr ensku samlokubrauði en samlokur úr annars konar brauði kallast bocadillo. Svipaða sögu er að segja frá Mexíkó þar sem upprúllaðar samlokur kallast gjarnan torta.

Í Ástralíu eru brauðsneiðar sem eru skornar af brauðhleif og sett álegg á milli kallaðar samlokur en heitið á ekki við heil brauð sem skorin eru í tvennt, eins og til dæmis rúnstykki eða hamborgarabrauð.

Því er stundum haldið fram að samlokan hafi náð vinsældum í Bandaríkjum Norður-Ameríku eftir útkomu matreiðslubókarinnar Directions for Cookery, 1848, þar sem hin enska Elizabeth Leslie mælti með þeim sem aðalrétti og lýsti gerð þeirra.

Þegar leið á 20. öldina urðu samlokur hluti af daglegri fæðu í Bandaríkjum Norður-Ameríku og í löndunum við Miðjarðarhaf og í dag eru þær meðal annars vinsæll puttamatur í veislum.

Árið 2006 komst dómstóll í Boston í Massachusetts í Banda­r­íkjum Norður-Ameríku að því að til þess að réttur gæti kallast samloka þyrfti hann að innihalda að minnsta kosti tvær brauðsneiðar og að heitið næði ekki til brauðrétta eins og burritos, tacos og quesadillas, sem væru búnir til úr einni tortillu. Hvað þá til dansks „smørrebrød“, eða brauðsnitta.

Samkvæmt þessu getur kex sem gert er úr tveimur kexkökum með kremi á milli kallast kexsamlokur.

Matreiðslubók Elizabeth Leslie átti stóran þátt í því að samlokur urðu vinsælar í Bandaríkjunum um miðja nítjándu öld.

Búðarsamlokan verður til

Forsmurðar samlokur hafa verið í boði á börum og veitingahúsum frá því um 1920. Eftir að farið var að forskera brauð í bakaríum jukust vinsældir samloka sem nesti fyrir börn í skólann og húsmæður smurðu þær gjarnan fyrir eiginmenn sína til að hafa með í vinnuna. Samhliða auknum vinsældum samloka jukust vinsældir brauðskurðarvéla.

Breska verslunarkeðjan Marks & Spencer var fyrsta verslunin í heiminum til að bjóða til sölu samlokur sem seldar voru úr kæli árið 1970. Samlokurnar nutu strax mikilla vinsælda og fljótlega fóru fleiri verslanir að bjóða þær til sölu og forsmurðar samlokur eru stór iðnaður víða um heim í dag.

Leikarinn og rithöfundurinn Woddy Allen sagði í bók sinni Getting Even að mannkynið ætti samlokunni það að þakka að hafa sloppið undan oki heits mats í hádeginu.

Samlokustríð í háloftunum

Árið 1958 kom upp sérkennilegt mál sem snerist um skilgreiningu flugfélaga á því hvað sé samloka. Málið vakti greinilega athygli hér á landi því um það var fjallað í Morgunblaðinu og Vísi.

Samlokan er líklega vinsælasta nesti í heimi og í sinni einföldustu mynd samanstendur hún af tveimur brauðsneiðum, smjöri og osti.

Í umfjöllun um málið segir meðal annars að samtök flugfélaga vinni eftir ströngum reglum þegar kemur að þeim mat sem má bjóða farþegum í flugi og að nýlega hafi komið upp deilur og að nokkur flugfélög hafi verið kærð fyrir ofrausn í framboði matar. Þar segir einnig að aðeins eitt af hinum seku flugfélögum, sem breskir og amerískir keppinautar hafa kært, hafi fallist á að bera minna í máltíðina sem farþegum á þriðja farrými er borin í staðinn fyrir aðalmáltíð.

Í umfjöllun Vísis segir að þegar flugfélögin féllust á það upphaflega að hefja þriðja farrýmis farþegaflutninga, var ætlunin sú að farþegar gætu keypt sér matarkörfur á flugvellinum. En suma þá, sem áttu að sjá um framkvæmdirnar, hryllti við því að flugvélarnar yrðu fullar af appelsínuskrælingi og hvítlaukspylsum og kusu því heldur eitthvað hærra fargjald og ókeypis samlokur. Tilgangurinn með að minnka matarþjónustuna var ekki að spara peninga á matnum, því að sá kostnaður er lítill tiltölulega, jafnvel þó að ókeypis kampavín fylgi. Tilgangurinn var að losna við eldhúsið og nota rýmið handa fleiri farþegum.

Í framhaldinu er spurð grundvallarspurning málsins: Hvað er samloka? og henni svarað á eftirfarandi hátt. Það er engin áberandi fjárhagsástæða fyrir því, að þessi máltíð eigi aðallega að vera úr brauði, nema að sýna þriðja farrýmis farþegum, hve lágt þeir standi í mannfélagsstiganum. En það er skiljanlegt, að þær samlokur, sem bornar hafa verið fram fyrir þriðja farrýmis farþega, sýni mikinn mismun í matreiðslu þjóða. Flugfélögin fara eftir tveim aðalleiðum í þessu. Á meginlandi Evrópu er samloka ein sneið af brauði, sem borin er fram í máltíðar stað. Ensk samloka er smábrauð skorið í tvenn og lagt saman og talið vera hressing.
Morgunblaðið spyr sömu spurningar. Hvaða samlokur eru samlokur? – og hvaða samlokur eru ekki samlokur? Í grein Moggans segir að framkvæmdastjórar stóru flugfélaganna hafi að undanförnu átt í miklu stríði sín í milli, því þeir hafa ekki komið sér saman um hvað kalla mætti samloku og hvað ekki. „Mergurinn málsins er sá, að í vetur, þegar aðildarfélög IATA ákváðu að lækka fargjöld yfir Atlantshafið, bættist fjórða flugfarrýmið við, eins konar sparifarrými, sem er enn ódýrara en ferðamannafarrými. Og viðurgjörningur flugfélagsins við farþeganna er einnig lítill, miðað við það, sem er á betri farrýmum. Í reglum um Atlantshafsflugið segir að einungis megi veita samlokur og gosdrykki á sparifarrými. Samlokurnar eru innifaldar í fargjaldinu, en gosdrykki verða farþegar sjálfir að kaupa. Og þá er hin mikla spurning: Hvað má samlokan vera stór eða lítil til þess að geta kallast samloka? Forystumönnum flugfélaganna ber ekki saman um þetta. Miklar deilur hafa risið, ekki vegna þess að samlokur hafi verið of litlar, heldur vegna þess að þær hafa verið of stórar. Bandaríska flugfélagið Pan American hefur kært SAS fyrir að hafa brotið gerða samninga með því að bera of stórar samlokur fyrir farþega á sparifarrými. Síðar kom í ljós, að Swiss Air, Air France og KLM höfðu verið farþegum sínum jafnrausnarleg og SAS, og ekki bætti það úr skák. Pan American segist ekki hafa efni á að veita jafnstórar samlokur og Evrópuflugfélögin, aðstaða þeirra sé mun betri hvað þessu viðvíkur. Og forystumenn SAS halda auðvitað fast við sitt – og segja að SAS-samlokur séu hinar einu réttu, sannleikurinn sé, að SAS-samlokur séu stærri en samlokur Pan American. Fólk þurfi því ekki lengur að vera í neinum vafa um það með hvaða flugfélagi best er að ferðast yfir Atlantshafið – auðvitað með því félagi, sem rausnarlegast er og veitir stærstar samlokur. Pan American hefur mikið til síns máls hvað því viðvíkur, að óheillavænlegt sé að félögin hefji samkeppni um það hver veiti stærstu samlokurnar, því að á endanum fari þá svo, að samlokurnar verði það stórar, að enginn geti torgað þeim.“

Samlokur á Íslandi

Langt fram eftir síðustu öld var átt við sjávardýr þegar talað var um samlokur í íslenskum fjölmiðlum og átt við svokallaðar tvískeljar og heitir annað bindi af tveimur bókum Ingimars Óskarssonar um skeldýrafánu Íslands, Samlokur í sjó – sæsniglar með skel.

Um 1970 fer að bera á brauð­samlokum á matseðlum veitingahúsa og er Hlíðagrill þar fremst í flokki og í kjölfarið fara að birtast samlokuuppskriftir í blöðum og tímaritum. Í dag eru í boði í verslunum margs konar og fjölbreyttar samlokur frá fjölda framleiðenda, enda eftirspurnin eftir góðum skyndibita mikil.

Skylt efni: Matur samloka

Afkomuvöktun sauðfjárræktar 2017–2019
Fræðsluhornið 9. apríl 2021

Afkomuvöktun sauðfjárræktar 2017–2019

Undanfarin ár hefur Ráðgjafar­miðstöð landbúnaðarins unnið að söfnun og úrvinnsl...

Vöktun á landlægum sjúkdómum í hrossum
Fræðsluhornið 7. apríl 2021

Vöktun á landlægum sjúkdómum í hrossum

Matvælastofnun hefur gefið út leiðbeiningar um vöktun á landlægum sjúkdómum í ís...

Bændahöll breytist og stækkar
Fræðsluhornið 6. apríl 2021

Bændahöll breytist og stækkar

Búnaðarfélag Íslands og Stéttarsamband bænda eru eigendur Bændahallarinnar. Báði...

Eggið og upprisan
Fræðsluhornið 25. mars 2021

Eggið og upprisan

Egg hafa lengi verið tákn vorsins og saga páskaeggja mun lengri en þeirra súkkul...

Álalogia III
Fræðsluhornið 17. mars 2021

Álalogia III

Állinn er næturdýr og hels­ta fæða hans alls konar ormar, skeljar, krabbaflær, s...

70 ára albatrosi
Fræðsluhornið 16. mars 2021

70 ára albatrosi

Elsti villti fugl sem vitað er um er 70 ára gamall albatrosi og það sem meira er...

Ylræktun grænmetis – takmarkað vaxtarrými í brennidepli
Fræðsluhornið 16. mars 2021

Ylræktun grænmetis – takmarkað vaxtarrými í brennidepli

Mjög mikil aukning hefur verið í framleiðslu lífrænt vottaðra garðyrkjuafurða í ...

Leynimakk kaldastríðsáranna
Fræðsluhornið 16. mars 2021

Leynimakk kaldastríðsáranna

Í trjásafninu í Meltungu í Kópa­vogi er að finna plöntu sem ekki fer sérlega mik...