Fræðsluhornið 07. júní 2019

Ræktun eykur lífsgæði

Vilmundur Hansen

Rannsóknir sýna að það eitt og sér að horfa á græn svæði hefur góð áhrif á geðheilsu fólks og eykur líkurnar á að það slaki á og minnki stress.

Læknar víða um heim eru farnir að ráðleggja fólki að fara í göngutúr um næsta útivistarsvæði í stað þess að skrifa út lyf til að róa taugarnar.

Ýmislegt bendir einnig til að mörgum sé hollara að leggja stund á ræktun og garðyrkju en að keyra sig út í ræktinni. Garðyrkja er róandi og hverjum og einum er hollt að rækta plöntur og horfa á þær vaxa. Það að fikta í moldinni er líka hollt því að í jarðvegi er að finna bakteríur sem geta verið hollar og hafa áhrif á sælustöðvar líkamans.

Ræktun eykur ábyrgðartilfinningu fólks vegna þess að flestir sem á annað borð njóta þess að rækta leggja alúð í ræktunina.