Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Tegundin P.communis finnst ekki villt í náttúrunni og er líklega ræktunarblendingur milli  P. caucasia og P. nivalis. Ekki er vitað um uppruna tegundarinnar.
Tegundin P.communis finnst ekki villt í náttúrunni og er líklega ræktunarblendingur milli P. caucasia og P. nivalis. Ekki er vitað um uppruna tegundarinnar.
Á faglegum nótum 25. september 2017

Pera – er talin elsti ávöxtur í ræktun

Höfundur: Vilmundur Hansen

Áætluð heimsframleiðsla af perum árið 2016 er tæp 30 milljón tonn. Framleiðsla hefur aukist jafnt og þétt síðustu ár og áratugi. Samkvæmt tölum FAO, Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, var framleiðslan á perum árið 2004 rúm 18 milljón tonn og rúm 22,6 milljón tonn 2013.

Kína ber höfuð og herðar yfir aðra ræktendur pera í heiminum og framleiðir um 18 milljón tonn á ári. Argentína og Bandaríkin eru í öðru og þriðja sæti hvað varðar framleiðslumagn og framleiða bæði tæp 800.000 tonn á ári. Á Ítalíu er framleiðsla rúm 700.000 tonn og í Tyrklandi tæp 500 þúsund tonn á ári.

Reiknað er með að framleiðsla á peru í Evrópusambandinu sem heild verði rúm 2,1 milljón tonn árið 2017, sem er um 1% samdráttur frá 2016.

Áætluð heimsframleiðsla af perum árið 2016 er tæp 30 milljón tonn.

Eins og gefur að skilja flytur Kína allra þjóða mest út af perum en Argentína og Bandaríkin eru í öðru og þriðja sæti. Brasilía, Þýskaland og Bretlandseyjar eru aftur á móti þær þjóðir sem flytja inn mest af perum.

Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands voru flutt inn 971.759 kíló, eða tæp þúsund tonn, af perum til Íslands árið 2016 og fyrstu sjö mánuði ársins 2017 er innflutningurinn 738.839 kíló. Auk þess sem talsvert er flutt inn af perum í safa, sultum, kökum og barnamat svo dæmi séu tekin.

Tölur Hagstofunnar sýna einnig að tæp 2,5 tonn af ferskum perum var flutt út frá Íslandi til Grænlands árið 2016 og fyrstu sjö mánuði 2017 var útflutningurinn rúm 3,3 tonn.

Ættkvíslin Pyrus

Um 45 tegundir trjáa og runna í Evrópu, Asíu og Norður-Afríku tilheyra ættkvíslinni Pyrus sem er af rósaætt. Plöntur ættkvíslarinnar ber blóm sem er tveir til fjórir sentímetrar í þvermál, með fimm hvítum eða bleikum krónublöðum og frjóvgast með flugum. Pyrus-tegundir eru ræktaðar til skrauts eða vegna ávaxtanna. Perutré eru náskyld eplatrjám.

Evrópsk nytjaperutré kallast P. communis og eru algengustu perutrén í ræktun vegna ávaxtanna. Afbrigði, yrki og staðbrigði tegundarinnar skipta þúsundum og eru flest þeirra afrakstur aldalangra kynbóta.

Algengasta asíska peran í ræktun kallast P. pyrifolia. Tegundin er oft kölluð japönsk eða asísk pera og hefur ræktun á henni aukist talsvert síðustu tvo áratugi. Af öðrum asískum perum í ræktun má nefna P. ussuriensis, P. × bretschneideri, P. × sinkiangensis og P. pashia.

Asískar perur eru yfirleitt hnöttóttari en evrópskar. Þær eru einnig þéttari í sér og ekki eins safaríkar og evrópskar perur.

Evrópskar- og japanskar perur. 

Aldin villtra perutegunda eru einn til tveir sentímetrar í þvermál. Aldin nytjapera eru mjölmikil, allt að 18 sentímetra og þvermálið 8 sentímetrar. Yfirleitt breiðust að neðan en einnig eru til hnöttóttar perur. Litur aldinanna er ólíkur eftir yrkju, grænn, gulur og rauður.

Allar tegundir innan ættkvíslarinnar eru lauffellandi að tveimur tegundum í Asíu undanskildum. Þær þola allt að mínus 40° á Celsíus.

Nytjaperutré eru yfirleitt ágrædd á öfluga rótarstofna og ræður rótarsortin hæð trjánna. Rótarstofnarnir fyrir evrópskar og asískar perur eru ekki þeir sömu.

Orðsifjar

Heitið pera kemur úr germönsku og er tökuorð úr latínu pira, eða pirum í fleirtölu. Á grísku kallast perur apios. Á hebresku er heitið pirâ og þýðir ávöxtur. Enska heitið er pear en á keltnesku kalla ávöxturinn pere. Á frönsku kallast perur poire og paron á sænsku. Íslenska heitið pera er líklega hingað komið frá Danmörku, pære, eins og svo margt annað gott.

Saga og útbreiðsla P. communis

Tegundin P. communis getur náð 17 metra hæð og er með þrönga laufkrónu og trefjarót. Blöðin gljágræn, stakstæð, egglaga, smásagtennt og oddmjó. Fæst afbrigði  P. communis eru sjálffrjóvgandi. Tegundin finnst ekki villt í náttúrunni og er líklega ræktunarblendingur milli  P. caucasia og P. nivalis. Ekki er vitað um uppruna hennar en talið að hann sé í austanverðri Evrópu og Mið-Asíu við botn Miðjarðarhafs. Perutré eru algeng í löndum Kákasus og í Kasakstan og mynda þar náttúrulega skóga.

Ræktun og kynbætur á P. communis eiga sér langa sögu og vitað er að tegundin var ræktuð í Evrópu þúsund árum fyrir Kristsburð. Perutré bárust með frönskum trúboðum til Nýja heimsins fljótlega eftir að Kólumbus og kónar hans römbuðu þangað.

Alvarleg bakteríusýking kom upp í perutrjám í Evrópu á átjándu öld og voru heilbrigðar plöntur fluttar til eyja í Norðvestur-Kyrrahafi og ræktaðar þar.

Heimildir eru um ræktun á asískum perum, P. pyrifolia, í Kína 3000 árum fyrir upphaf okkar tímatals. Tegundin er upprunnin í mið- og suðurhluta Kína og talið er að hún sé fyrsta tréð í heiminum sem var tekið í ræktun vegna ávaxtanna.

Í kínverskum ritum sem eru allt að tvö þúsund ára gömul er að finna ræktunarleiðbeiningar fyrir perutré.

Grikkir og Rómverjar ræktuðu perur og borðuðu þær hráar og matreiddar. Í náttúrufræði sinni mælir sagnaritarinn Pliny með að sjóða perur með hunangi og talar um þrjá mismunandi gerðir af perum. Í matreiðslubók De re coquinaria frá tímum Rómverja er uppskrift að kryddaðri eggjaböku, soufflé, með perum.

Frakkar voru frumkvöðlar í perurækt og kynbótum á perum í Evrópu og auk þessa að rækta ýmis afbrigði P. communis er tegundin P. nivalis mikið ræktuð þar til framleiðslu á perry.

Rómverjar ræktuðu perur á Bretlandseyjum þegar þeir hernámu eyjuna. Hinrik III konungur á Englandi flutti perur og perutré frá Frakklandi til Bretlandseyja á þrettándu öld og hóf ræktun þeirra á syðri hluta eyjunnar. Englendingar eru hrifnir af perum í bökum og nefnir Shakespeare á eina slíka böku í leikriti sínu Vetrarsaga. Frá árinu 1640 er til ritlingur sem greinir frá ræktun 64 mismunandi yrkja af perum á Bretlandseyjum og í sama ritlingi eru leiðbeiningar um ágræðslu, rótarafbrigði og almenna ræktun á perum. Árið 1826 hafði Konunglega garðyrkjufélagið safnað 622 peruyrkjum í garð sinn í Chiswick. Um þrjátíu árum seinna barst til Englands nýtt yrki frá Frakklandi sem kallast Doyenne du Comice, eða bara Comice, og í dag er það mest ræktaða peruyrkið á Bretlandseyjum.

Til Danmerkur og sunnanverðra Skandinavíu berast perur frá Frakklandi og Þýskalandi á sautjándu öld og þaðan norður eftir Skandinavíu.

Nytjar

Auk þess sem perutré eru höfð til skrauts og ávöxturinn nýttur til átu er viður perutrjáa fallegur hágæðaviður þar sem hann verpist hvorki né springur við hitabreytingar. Viðurinn er meðal annars nýttur til smíða á blásturshljóðfærum, hálsi gítara og fiðla, í húsgögn, göngustafi, eldhúsáhöld og til að skera út skrautmuni. Brenndur sem arinviður gefur peruviður frá sér góða lykt og einnig gefur hann kjöti sérstakan keim við reykingu.

Perur eru snæddar sem ferskur ávaxtur, niðursoðnar úr dósum, þurrkaðar og pressaðar í safa. Þær eru notaðar í sultur og mauk og kökur og afgangs perur eru pressaðar í perry sem er bragðgóður og stundum áfengur perudrykkur.

Ferskar perur eru 84% vatn og best að geyma þær í kæli þar sem kælingin hægir á þroska og skemmdum á þeim.

Búddapera

Perur eru stundum ræktaðar í mótum sem verður til þess að þær taka á sig form mótsins. Hægt er að rækta perur í nánast hvaða lögun sem er svo lengi sem mótið er af réttri stærð. Perur sem ræktaðar eru í mótum þurfa talsvert meiri umhirðu en perur sem fá að vaxa frjálsar. Gæta verður þess að perurnar skemmist ekki í mótinu eða vaxi úr sér. Í Asíu er vinsælt að móta perur í Búddalíkneski og seljast slíkar perur á háu verði.

Búddalaga pera sem mótuð hefur verið í Búddaperumóti. 

Perur í bókmenntum, myndlist og trú

Í Ódysseifskviðu Hómers er sagt frá stað þar sem perur vaxa á trjánum vetur, sumar, vor og haust og þær sagðar gjöf frá guðunum.

Guiseppe Arcimboldo. Garðyrkju­maðurinn, 1587 til 1590. 

Theophrastus, lærisveinn Aristó­telesar og Plató, sem stundum er kallaður fyrsti grasafræðingurinn, fjallar um villtar og ræktaðar perur í nokkrum rita sinna. Hann segir frá ólíkum yrkjum, leiðbeinir um ræktun af fræi og græðlingum. Muninn á slíkum plöntum segir hann vera að fræplöntur missi eiginleika móðurplöntunnar og verða ólíkar innbyrðis. Theophrastus leiðbeinir um ágræðslu og bendir á að nauðsynlegt sé að frjóvga ágrædd tré sem ræktuð eru af græðlingum með öðrum yrkjum. Auk þess sem hann segir að hægt sé að örva þroska ávaxtanna með því að pína trén hæfilega.

Rómverski þingmaðurinn Cato, sem kallaður var gamli og endaði allar sínar ræður á orðunum „auk þess legg ég til að Karþagó verði lögð í rúst“, skrifaði landbúnaðarleiðbeiningar sem heita De Agri Cultura. Cato fjallar þar aðallega um búfjárrækt en einnig um ræktun ávaxtatrjáa og tínir til sex ólíkar gerðir af perum. De Agri Cultura er elsti latneski prósatextinn sem hefur varðveist í heilu lagi og mun vera frá árinu 160 fyrir Kristburð.

Veggmyndir af perum hafa fundist við formleifarannsóknir í Pompei og í mósaíkmyndum og sem líkneski í rómverskum grafhýsum.

Sextándu aldar málarinn Giovanni Bellini málaði fræga mynd af Maríu mey með Jesúbarnið og með peru í forgrunni og síðar málaði Giuseppe Archimboldo í einni af ávaxtaandlitsmálverkum sínum garðyrkjumann með perunef. Perur eru myndefni meistara Vincent Van Gogh, bæði sem ávextir í skál og sem blómstrandi tré. Auk þess sem Paul Cézanne málaði líka talsvert af uppstilltum perum.

Málverk Giovanni Bellini frá um 1485. María guðsmóðir, Jesúbarnið og pera. 

Perutré voru hluti af helgihaldi Nakh-fólksins í norðurhluta Kákasus og bannað var að fella þau. Reyndar skipuðu tré almennt stóran þátt í trúarbrögðum Nakh-fólksins og gegndi hver trjátegund sérstöku hlutverki í helgihaldi fólksins áður en það gekk íslam á hönd.

Egyptar til forna tengdu perur við gyðjuna Isis. Rómverjar töldu perur til frygðarjurta og tengdu þær gyðjunum Venusi og Afródítu en Grikkir helguðu þær Seifi og Heru, hjónabandi og barneignum.

Í Kína eru perur tákn um réttlæti, góða heilsu, langlífi og visku og í Kóreu eru perur tákn um náð, hreinleika og lífslán.

Sums staðar í Evrópu var til siðs að planta perutrjám við brúðkaup til að tryggja frjósemi og langlífi brúðhjónanna. Einnig var algengt að planta perutré við fæðingu meybarns en eplatré væri ávöxtur ástarinnar drengur.

Á Íslandi er stundum sagt um haugdrukkna menn að þeir séu á perunni og að fallegar og lendarmiklar konur hafi peruvöxt.

Perur á Íslandi

Þeir sem komnir eru á miðjan aldur muna eflaust eftir perum sem komu úr niðursuðudósum og voru bornar fram sem eftirréttur eða sem peruterta á tyllidögum.

Í auglýsingu frá Verzlun W. Christensen´s í Reykjavík í Dagskránni frá því í apríl 1898 segir að í versluninni sé meðal annars hægt að fá perur og fleiri ávexti frá enskum, dönskum og norskum niðursuðuhúsum.

Í ferðabók frá því á miðri nítjándu öld er getið um perutré á Akureyri með ávöxtum án þess þó að frekar sé út í það farið. Í níunda tölublaði tímaritsins Norðurland frá 1907 er málsgrein sem vísar til þess að á Akureyri vaxi perutré: „Hann [Einar Hjörleifsson] sneri sér við og gekk út í gamla stóra garðinn hinumegin við húsið. Þar átti hann ofurlítinn friðaðan blett undir ævagömlu perutré; þar sat hann á sumarkvöldum og tók í nefið hægt og gætilega. En ekki þarna heldur - fráskilinn bænum og öllum heiminum bak við háa kirkjugarðsmúrinn fékk hann frið fyrir óværum og áleitnum hugsunum.“

Ræktun á harðgerðum ávaxtatrjám hefur færst í aukana hér á landi undanfarið og margir náð góðum árangri í ræktun á perum. Í dag er mest flutt inn af perutrjám en það á eftir að breytast eftir því sem ræktun og sala á þeim eykst innanlands.

Harðgerð yrki perutrjáa þrífast ágætlega hér á skjólgóðum og sólríkum stöðum. Dæmi um yrki sem reynst hafa vel eru 'Skänsk sukkerpære', sem er upprunnin í Svíþjóð, harðgerð, blómstrar snemma og þroskar aldin utandyra. 'Herrapæra' og 'Broket July' eru upprunnar í Frakklandi og eru sæmilega harðgerðar á góðum stað. 'Grev Moltke' kemur frá Danmörku og hefur myndað aldin utandyra hér og 'Pepi' frá Eistlandi eru ágætlega harðgerðar.

Ekkert af þessum yrkjum er sjálffrjóvgandi fyrir utan 'Pepi' sem hugsanlega er sjálffrjóvgandi. 'Grev Moltke' er þriggja litninga og getur því ekki frjóvgað önnur tré.

Evrópskar perur kallast P. communis og eru algengustu perurnar í ræktun vegna ávaxtanna. Afbrigði, yrki og staðbrigði tegundarinnar skipta þúsundum. 

Perutertan hennar mömmu

Fjögur egg, 140 grömm sykur, 60 grömm hveiti og 40 grömm kartöflumjöl er hrært saman og bakað við 200° á Celsíus. Hrærið eggjunum og sykrinum saman þar til blandan er orðin létt og ljós. Sigtið hveiti og kartöflumjöl út í og sullið saman með sleikju. Bakið í tveimur smurðum eða bökunarpappírsklæddum formum í tíu mínútur og kælið síðan.

Súkkulaðikremið er gert úr fimm eggjarauðum og fimm matskeiðum af flórsykri, 100 grömmum af bræddu súkkulaði, fjórum desílítrum af rjóma og einni stórri dós af niðursoðnum perum.

Krem er búið til með því að þeyta saman eggjarauður og flórsykur þar til þeytingurinn verður léttur og ljós. Síðan er súkkulaði  og rjóma hrært saman við.

Leggið annan botninn á tertudisk, vætið hann vel með perusafa og smyrjið súkkulaðikreminu ofan á og setjið seinni botninn yfir og smyrjið með súkkulaðikremi. Skerið nokkrar perur í bita og setjið þá ásamt heilum bitum ofan á kökuna og þekið með súkkulaðikremi. 

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...