Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Yfirprentunarmynstur borga.
Yfirprentunarmynstur borga.
Mynd / The M.R.G. Conzen Collection 2004
Á faglegum nótum 7. febrúar 2017

Ó borg, mín borg!

Höfundur: Sigríður Kristjánsdóttir lektor − auðlinda- og umhverfisdeild LbhÍ sigridur@lbhi.is
Merking orðsins borg hefur breyst í tímans rás samfara breyttri samfélagsgerð. Upphaflega var það notað yfir klettahæð, þá virki á hæð, síðan kastala almennt og loks kaupstað eða bæ (Ásgeir Blöndal Magnússon 1989). Þannig hefur merking orðsins færst frá ytri skilgreiningu yfir á innri gerð. 
 
Líkt og tungumálið þá er borgin sjálf lifandi form sem tekur stöðugum breytingum í takt við samfélagið sem fóstrar hana. Til að byggt form geti staðið í gegnum aldirnar þarf það að hafa eitthvert hugmyndafræðilegt gildi fyrir samfélagið svo það kjósi að halda því þrátt fyrir breytingar í stjórnmálum, efnahag og samfélagsgerð. Finna má örfá slík dæmi í heiminum og er Pantheon-byggingin í Róm eitt þeirra. Pantheonið var byggt árið 27 f. Kr. og helgað öllum guðum. Það stendur enn þrátt fyrir breytt trúarbrögð, að ónefndum öðrum breytingaskeiðum sem borgin hefur gengið í gegnum.
 
Borgarformfræði
 
Borgarformfræði (e. urban morphology) er fræðigrein sem fjallar um form og mynstur byggðar.
Borgarformfræði rannsakar flóknar og margslungnar formgerðir og birtingarmyndir hinna ólíku þátta sem mynda heildarsýn borgarinnar. Þannig skoðar hún innbyrðis tengsl forma og jafnframt tengingu formsins og heildarmyndarinnar, allt frá fyrstu byggð til dagsins í dag. Í borgum má oft greina mörg mynstur, mörkuð af íbúunum í tímans rás. Í raun má segja að borgarmynstrið sé lagskipt, þar sem hver kynslóð markar nýtt lag í hið erfða búsetulandslag með breytingum og aðlögun án þess að eyða því sem fyrri kynslóðir byggðu. Til að öðlast skilning á borgarforminu eins og það kemur fyrir sjónir í dag, þá er nauðsynlegt að þekkja hvernig það myndaðist. Þetta er gert með því að greina mynstur hverrar kynslóðar. Þannig er hægt að öðlast skilning á því hvernig ástandið var í borginni á ólíkum tímum og hvers konar samfélag það var sem myndaði tiltekið borgarform. Rannsóknum í borgarformfræði má því í raun líkja við greiningu á yfirprentunarmunstrum (e. palimpsest). Rætur fræðigreinarinnar má rekja annars vegar til landfræði í Bretlandi og Þýskalandi og hins vegar til arkitektúrs á Ítalíu og í Frakklandi. Þó svo að rekja megi rætur borgarformfræðinnar allt aftur til 19. aldar náði hún ekki almennri útbreiðslu fyrr en um 1960. Í rauninni er hún hluti af stærri hreyfingu sem snýr að gagnrýni á móderníska byggingarlist og borgarskipulag. Aðal frumkvöðull í borgarformfræðilegum rannsóknum innan landfræðinnar í Englandi var M.R.G. Conzen (1907–2000). Á Ítalíu eru sterk tengsl milli borgarformfræða og borgarhönnunar (e. urban design). Þar kom borgarformfræði fram sem gagnrýni á módernískar kenningar innan byggingarlistar og skipulagsfræða. Arkitektinn Saverio Muratori (1910–1973) og Gianfranco Caniggia (1933–1987) voru leiðandi í kerfisbundnum rannsóknum á þróun ítalskra borga. Í framhaldinu fara Frakkar að rannsaka borgarformið en þar er hinn félagslegi þáttur alltaf í fyrsta sæti, sem rekja má til áhrifa frá franska félagsfræðingnum Henri Lefebvre.
 
Þvefagleg grein
 
Borgarformfræði er þverfagleg grein í örum vexti og rannsóknir fara fram um heim allan. International Seminar on Urban Form (ISUF) var formlega stofnað 1994. Þar með skapaðist alþjóðlegur vettvangur fyrir rannsóknir í borgarformfræði. ISUF leitast við að efla rannsóknir tengdar hinu byggða formi og draga samtökin að sér þverfaglega félagsmenn, úr greinum eins og til dæmis arkitektúr, landfræði, sagnfræði, fornleifafræði, félagsfræði og skipulagsfræði. Samtökin gefa út ritrýnda tímaritið Urban Morphology og halda árlega ráðstefnur. 
 
Reykjavík
 
Í doktorsritgerð minni frá 2007 greindi ég borgarformfræði Reykja­víkur. Ég byggi á hugmyndafræði þeirra Conzen og Caniggia og bý til módel til að greina vöxt samtíma borga (Sigríður Kristjánsdóttir 2001). Þar var rýnt í hvernig flókið samspil staðbundins landslags, sögu og menningar leiðir til mismunandi borgarforms. Jafnframt er skoðað hvernig fagurfræðilegt, lagalegt, pólitískt, hagrænt og félagslegt ástand í samfélaginu endurspeglast í byggðamassanum og rýmum borgarinnar. 
 

Skylt efni: skipulagsmál

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...