Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Sveinn-Hervar frá Þúfu í Landeyjum er dæmi um hest sem er á leiðinni í heiðursverðlaun fyrir afkvæmi byggt á aðaleinkunn án skeiðs. Sú nýjung eykur á fjölbreytileika þeirra dýrmætu hestgerða sem hljóta afkvæmaverðlaun.
Sveinn-Hervar frá Þúfu í Landeyjum er dæmi um hest sem er á leiðinni í heiðursverðlaun fyrir afkvæmi byggt á aðaleinkunn án skeiðs. Sú nýjung eykur á fjölbreytileika þeirra dýrmætu hestgerða sem hljóta afkvæmaverðlaun.
Mynd / Jens Einarsson
Á faglegum nótum 24. apríl 2020

Nýtt kynbótamat í hrossarækt

Höfundur: Þorvaldur Kristjánsson, ábyrgðarmaður í hrossarækt, og Elsa Albertsdóttir, erfða- og kynbótafræði hjá RML

Unnið hefur verið að þróun kynbótamats hrossa að undanförnu. Það er tölvudeild Bændasamtaka Íslands sem hefur haft þetta verkefni á sinni könnu undir stjórn Elsu Albertsdóttur og fékk Þorvald Árnason til liðs við sig nú á haustmánuðum. Búið er að skipuleggja verkefnið út árið og ákveðið að koma fram með ákveðnar breytingar núna og svo endanlega í haust.

Þessar nýjungar eru afar spennandi þar sem þær fela í sér auknar upplýsingar til handa ræktendum. Einnig nýtir kynbótamatið sér nú enn meira af upplýsingum um hvern grip og leiðir þar af leiðandi til réttara mats og raunhæfari röðunar á afkvæmahrossum.

Skýr frá Skálakoti stendur efstur í kynbótamati á aðaleinkunn með 128 stig af stóðhestum sem eiga 30 til 49 dæmd afkvæmi.

Þær endurbætur sem koma fram í nýju kynbótamati, sem hefur verið birt í WorldFeng, eru margvíslegar og verða kynntar í þessum pistli. Þær eru:

  • Nýtt kynbótamat er byggt á nýjum vægisstuðlum eiginleikanna
  • Kynbótamat fyrir hægt stökk
  • Mæting til dóms – hlutfall sýndra dætra hefur áhrif á kynbótamat afkvæmahrossa
  • Endurbót á kynbótamati fyrir skeið
  • Kynbótamat á aðaleinkunn án skeiðs
  • Afkvæmaverðlaun – afkvæma­hross einnig verðlaunuð á grundvelli aðaleinkunnar án skeiðs.
  • Eins og kunnugt er voru samþykktir, á aðalfundi FEIF nú í vetur, nýir vægisstuðlar eiginleikanna í aðaleinkunn og byggir nýtt kynbótamat á þeim. Nýir vægisstuðlar hafa verið kynntir og greinar og efni þessu tengt þegar aðgengilegt á vef RML, rml.is.

Kynbótamat fyrir hægt stökk

Í nýju kynbótamati er komið sérstakt mat fyrir hægt stökk sem hefur vantað hingað til. Þetta var nauðsynlegt að gera, ekki síst vegna þess að nú er búið að skilgreina hægt stökk sem sér eiginleika. Hægt stökk og hægt tölt eru meðhöndluð sem tengdir eiginleikar í nýja kynbótamatinu. Það þýðir að notaðar eru upplýsingar um erfða- og svipfarsfylgni þessara eiginleika við aðrar eiginleika þegar kynbótamat er reiknað. Hægt tölt hefur hingað til verið meðhöndlað sem stakur eiginleiki.

Gáska frá Álfhólum er dæmi um afkvæmahryssu sem breytist mikið í kynbótamatinu. Hún var með 106 stig en er nú með 112 stig í aðaleinkunn og 120 stig í aðaleinkunn án skeiðs. Enda búið að sýna mikið af góðum hrossum undan henni, ekki síst hvað tölt og klárgang varðar og er á leiðinni í heiðursverðlaun fyrir afkvæmi byggt á aðaleinkunn án skeiðs. Mynd / Jens Einarsson

Mæting til dóms

Búið er að bæta við eiginleika sem heitir mæting til dóms. Þetta er í raun 0/1 eiginleiki sem lýsir því hvort hrossið hafið verið sýnt í kynbótadómi eða ekki. Þá er tekið tillit til allra mögulegra upplýsinga um hvern grip eins og með aðra eiginleika; það er hvort hrossið er sýnt sjálft eða ekki og hlutfall sýndra afkvæma og skyldra hrossa (foreldra, afar, ömmur o.s.frv.)  Þetta er verðmæt viðbót þar sem þessi mætingareiginleiki hefur háa erfðafylgni við þá eiginleika sem eru innifaldir í ræktunarmarkmiðinu og eru metnir á kynbótasýningum. Þetta hlutfall sýndra hrossa í frændgarði hvers hests segir því mikið til um kynbótagildi hans og má segja kynfestu hans í því að skila jöfnum gæðum til afkvæma sinna. Hvað afkvæmi hrossa varðar mun þetta fyrsta kastið bara ná til dætra þar sem svo lágt hlutfall hesta mætir til dóms. Þá munu allar dætur sem mæta til dóms hafa jákvæð áhrif á kynbótamat foreldranna en neikvæðu áhrifin (af því að dóttirin er ósýnd) mun fyrst hafa áhrif þegar dóttirin er orðin sex vetra eða eldri. Því mun það ekki hafa neikvæð áhrif þótt ekki sé búið að sýna dæturnar 4 eða 5 vetra. Þetta mun leiða til raunhæfari röðunar á afkvæmahrossum í framtíðinni þar sem upplýsingar frá afkvæmum hafa nú í raun meiri áhrif á kynbótamatið.

Kynbótamat fyrir skeið

Uppgötvun á skeiðgeninu kallar á breytingar á kynbótamati fyrir skeið. Arfhreinleiki fyrir skeiðgeninu (AA arfgerðin) er forsenda fyrir skeiðgetu af einhverju tagi. Hross sem eru arfblendin fyrir skeiðgeninu (CA hross) eða arfhrein CC hross geta því ekki skeiðað og þess vegna er talið rétt að meðhöndla einkunnina 5.0 fyrir skeið hjá þessum hrossum sem vöntun á upplýsingum. Þá er kynbótagildi þeirra fyrir skeið metið út frá upplýsingum frá foreldrum/forfeðrum, afkvæmum þeirra og upplýsingum um aðra eiginleika sem hafa tengsl við skeið. Þetta mun einungis ná til hrossa sem eru arfgerðargreind með CA eða CC arfgerð.

Kynbótamat á aðaleinkunn án skeiðs

Eins og kynnt hefur verið þá munu í vor verða reiknaðar tvær aðaleinkunnir fyrir hvert hross sem hlýtur fullnaðardóm á kynbótasýningum. Auk aðaleinkunnar eins og hún er reiknuð í dag verður reiknuð sérstaklega aðaleinkunn án skeiðs þar sem vægi skeiðs er tekið úr útreikningi á aðaleinkunn og dreift hlutfallslega út á aðra eiginleika hæfileikanna. Þetta verður gert fyrir öll hross, hvort sem þau búa yfir fjórum eða fimm gangtegundum. Þetta býður upp á afar áhugaverðan samanburð á milli hrossa. Í framhaldi af þessu var ákveðið að meta einnig kynbótagildi fyrir þessa nýju aðaleinkunn; þannig verður birt kynbótamat fyrir bæði hæfileika og aðaleinkunn án skeiðs.

Breytingarnar

Breytingar á vægisstuðlum eiginleika og viðbót nýrra eiginleika mun hafa þau áhrif á niðurstöðu kynbótamats að hliðrun verður niður á en meðal breyting á öllum hrossum er lækkun um 8 stig. Þetta gerðist einnig árið 2004 þegar alþjóðlega kynbótamatið var kynnt til sögunnar. En það sem gerist einnig núna er að dreifni (teygni) skalans eykst heldur, þar sem mörg efstu hrossin hækka og lægstu hrossin lækka. Þetta er þó afar misjafnt á milli hrossa og einnig hvaða áhrif þessar nýjungar í kynbótamatinu hafa á hvert hross. Breytingarnar eru t.d. háðar aldri en vegna erfðaframfara eru elstu hrossin að lækka mest og einnig þau sem hafa lágt mætingarhlutfall til dóms; eru ekki sýnd sjálf og fá hross í frændgarðinum. Þá eru efstu hrossin í kynbótamatinu að lækka minnst og mörg þeirra hækka að sjálfsögðu einnig. Í töflunni hérna fyrir neðan eru teknar saman meðalbreytingar í mismunandi hópum hrossa.

Spuni frá Vesturkoti stendur efstur í kynbótamati á aðaleinkunn með 130 stig af stóðhestum sem eiga 50 eða fleiri dæmd afkvæmi.

Kynbótamat byggt á keppnisgögnum

Þá mun í haust verða birt kynbótamat byggt á keppnisgögnum en það hefur verið í undirbúningi lengi og tímabært að láta verða af því á þessu ári. Stefnan er að leggja mat á og birta í WorldFeng kynbótamat fyrir eiginleika sem lýsa frammistöðu í fjórgangs- og fimmgangsgreinum og einnig kynbótamat sem lýsir keppnishæfni í tölti og skeiðgreinum. Við þessar viðbótarupplýsingar fæst mat á hærra hlutfall hesta og því mun þá verða hægt að byggja kynbótamat á mætingu til dóms á báðum kynjum (sjá að ofan). Þessi viðbót mun auka öryggi hins hefðbundna kynbótamats vegna þess að þeir eiginleikar sem lagt er mat á í kynbótadómum, og eru grunnur hins hefðbundna kynbótamats, hafa í flestum tilvikum háa erfðafylgni við keppniseiginleikana. Ennfremur nýtast þá upplýsingar um mun fleiri hross sem aldrei koma til kynbótadóms.

Afkvæmaverðlaun

Þessar breytingar í kynbótamatinu kalla ekki á breytingar á verðlaunastigum stóðhesta fyrir landsmót. Þau eru nú 118 stig og 15 dæmd afkvæmi til fyrstu verðlauna og 118 stig og 50 dæmd afkvæmi til heiðursverðlauna. Þegar fjöldi og hlutfall hesta úr hverjum árgangi er skoðað frá 1980 má sjá að þetta eru að meðaltali um 3 hestar úr hverjum árgangi sem hafa hlotið fyrstu verðlaun fyrir afkvæmi (einn til tíu) eða að meðaltali 0.6%. Þetta eru yfirleitt á bilinu 2-4 hestar úr hverjum árgangi, oftast þrír.

Nokkrir árgangar skera sig þó úr með fjölda en það eru árgangarnir 1984 og 1999 með fimm hesta og 2007 árgangurinn með tíu hesta. 2007 árgangurinn er raunar alveg sérstæður en 1.3% hestanna úr þeim árgangi hafa hlotið fyrstu verðlaun fyrir afkvæmi. Þegar fjöldi og hlutfall þeirra hesta sem hafa hlotið heiðursverðlaun fyrir afkvæmi úr hverjum árgangi frá 1980 er skoðað er fjöldinn frá 0 til 4. Að meðaltali rétt rúmlega einn hestur úr hverjum árgangi. Hlutfall heiðursverðlaunahesta úr hverjum árgangi er þannig að meðaltali 0.2%.

Fjöldi og hlutfall hesta sem hljóta afkvæmaverðlaun úr hverjum árgangi virðist ekki breytast að ráði við þessar breytingar í kynbótamatinu og því hægt að halda sig við 118 stig til fyrstu- og heiðursverðlauna. Það sama á við hryssur með að lágmarki 116 stig og fimm dæmd afkvæmi. Sú verðmæta breyting verður á verðlaunastigunum að nú verður bæði horft til kynbótamats fyrir aðaleinkunn og einnig til aðaleinkunnar án skeiðs. Þannig getur t.d. stóðhestur sem er með 118 stig eða meira í aðaleinkunn án skeiðs einnig hlotið afkvæmaverðlaun. Þetta mun auka á fjölbreytileika þeirra dýrmætu hestgerða sem hljóta afkvæmaverðlaun og er afar jákvæð og verðmæt breyting.

Hvað varðar afkvæmaverðlaun stóðhesta er einnig breyting að ekki er lengur krafa að hesturinn sé sýndur með afkvæmum á stórmóti (lands- eða fjórðungsmóti) til að hljóta verðlaunin. Á aðalfundi FEIF 2018 voru settar alþjóðlegar reglur um hvaða verðlaunastig afkvæmahrossa í öllum löndum FEIF birtast í WorldFeng og var miðað við reglur Íslands um verðlaunastig fyrir afkvæmahross. Hvað stóðhestana varðar eru nú sömu viðmið alls staðar í FEIF löndunum; 118 stig og 15 dæmd afkvæmi til fyrstu verðlauna og 118 stig og 50 dæmd afkvæmi til heiðursverðlauna. Eini munurinn var að ekki eru gerðar kröfur erlendis um að stóðhestarnar séu sýndir með afkvæmum á stórmótum til að hljóta verðlaunin eins og gert hefur verið hér á landi. Það þótti ekki raunhæft að gera þá kröfu erlendis þar sem afkvæmi hestanna gætu verið í fleiri en einu landi og því afar erfitt að koma afkvæmasýningu við. Sýning afkvæmahesta með afkvæmum á stórmótum er því valkvæð.  Þegar stóðhesturinn nær fyrrgreindum verðlaunastigum fara upplýsingarnar inn í Worldfeng og eigandinn getur ákveðið sjálfur hvort hann stillir upp hópi afkvæma á Lands- eða Fjórðungsmótum. Að mæta með hóp á stórmót verður engu að síður skilyrði verðlauna og verður t.d. handhafi Sleipnisbikarsins að mæta með hóp á stórmót.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...