Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Series 3 er nýr rafmagnsbíll á íslenskum markaði. Verðlagningin og ríkulegur staðalbúnaður gerir bílinn samkeppnishæfan, en ófullkomið margmiðlunarkerfi dregur hann niður.
Series 3 er nýr rafmagnsbíll á íslenskum markaði. Verðlagningin og ríkulegur staðalbúnaður gerir bílinn samkeppnishæfan, en ófullkomið margmiðlunarkerfi dregur hann niður.
Mynd / ÁL
Fræðsluhornið 31. ágúst 2022

Nýr kínverskur rafmagnsbíll

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Á dögunum prufukeyrði blaðamaður bíl sem hann hafði aldrei heyrt nefndan fyrr en í sumar.

Rafn Agnar hjá RAG ehf. hóf nýlega innflutning á Series 3 rafmagnsbílum. Það eru millistórir framhjóladrifnir jepplingar sem eru álíka miklir um sig og á svipuðu verði og MG ZS EV, Renault Megane E-Tech, Hyundai Kona o.fl.
Series 3 verður bara fluttur inn í Luxury útgáfu sem er ríkulega útbúinn. Sem dæmi um staðalbúnað má nefna leðursæti, rafmagn í sætum, glerþak og hraðastilli.

Hér er komin á markað áhugaverð viðbót við þá flóru rafbíla sem þegar er í boði.

Útlit vekur ekki sterkar tilfinningar

Bakhliðin á bílnum er með yfirbragð nýrra evrópskra bíla með hreinum og sportlegum línum. Framendinn og hliðarnar eru hins vegar með sambærilegt yfirbragð og kóreskir bílar eins og SsangYong og Hyundai voru með fyrir tæpum áratug: semsagt óeftirminnilegt án þess að vera sérlega ófrítt.

Að aftan er bíllinn mjög aðlaðandi.

Innrétting vönduð og smekkleg

Þegar sest er upp í bílinn tekur við mun jákvæðari upplifun. Stýrið og sætin eru leðurklædd með mjúku svörtu leðri og er mælaborðið klætt leðurlíki sem er gott viðkomu. Hönnuðurnir hafa greinilega horft til þess að gefa innréttingunni ríkmannlegt yfirbragð sem sækir innblástur til Mecedez-Benz.

Auðvelt er að stilla rafknúin sætin þannig að vel fari um flesta, nema mjög hávaxna – til þess þyrfti sætið að fara aftar og stýrið að bjóða upp á aðdrátt. Þar sem þetta er nokkuð hár jepplingur er aðgengið í bílinn mjög gott.

Innréttingin og sætin eru íburðarmikil. Leðurklæðning og hraðastillir eru meðal staðalbúnaðar.

Á hámarkshraða í Kömbunum

Rafmagnsbílar eins og þessi geta verið eins og dýrir lúxusbílar þegar kemur að því að keyra þá. Án sprengjuhreyfils losna ökumenn við stöðugan titring og skarkala. Akstursupplifunin af Series 3 einkennist því af friðsæld og áreynsluleysi með þýðri fjöðrun. Blaðamanni fannst þó fjöðrunin að aftan dúa fullmikið þegar keyrt var yfir stærri misfellur og hraðahindranir.

Þrátt fyrir mjúka fjöðrun liggur bíllinn eins og sportbíll í beygjum. Blaðamaður fór upp og niður Kambana á hámarkshraða án þess að taka eftir því. Þessir góðu aksturseiginleikar nást með því að þyngsti hluti bílsins, rafhlaðan, er undir gólfinu sem gefur lágan þyngdarpunkt. Þrátt fyrir að vera bara 163 hö (129 kw) og nálægt tveimur tonnum að þyngd þá er bíllinn fljótur að ná upp hraða sem hann heldur áreynslulaust í brekkum.

Stórir gluggar hleypa birtu inn í annars dökka innréttingu.

Margmiðlunarkerfi og útvarp gæti verið betra

Margmiðlunarkerfið í bílnum er líklegast ein veikasta hlið bílsins. Blaðamaður var lengi að átta sig á hinum og þessum fídusum og gátu þrepin að einföldum skipunum verið fullmörg. Mikill kostur er þó að á hverri hlið utan á bílnum er ein myndavél sem varpar mynd sinni á margmiðlunarskjáinn í mælaborðinu. Þetta er hugsað sem aðstoð fyrir þá sem eiga erfitt með að leggja í þröng stæði. Þrátt fyrir að myndgæðin séu ekki þau bestu þá er þetta góð viðbót við speglana.

Útvarpinu er stjórnað í gegnum margmiðlunarkerfið en það er lítið upp úr því að hafa. Um árabil hafa jafnvel hin einföldustu útvörp í bílum getað gefið upplýsingar um hvaða stöð er verið að hlusta á, en ekki í Series 3. Einu upplýsingarnar sem eru sjáanlegar eru á hvaða tíðni útvarpið er stillt.

Að auki við þetta þá virðist loftnetið ekki vera öflugt og er stöðugt flökt á útsendingunni, jafnvel þó svo að ekið sé í þéttbýli. Þegar ekið er á milli landshluta þá missir útvarpið sambandið við þá útvarpstöð sem hlustað er á og finnur ekki sjálfkrafa sömu stöð á nýrri tíðni.

Rúmgott skott. Undir gólfinu leynist varadekk í fullri stærð.

Miðstöð torskilin

Það mætti ætla að miðstöðin sé sjálfvirk þar sem notandinn þarf bara að velja hitastig og bíllinn sér um rest, en svo er ekki.

Blaðamaður lenti oft í því að vera búinn að skrúfa hitann upp í hæstu hæðir en samt blés miðstöðin bara köldu, eða þá vera búinn að skrúfa kælinguna í botn en fá á sig volgan blástur.

Með því að fikta í öllum tökkum komst þetta svo í lag, en það er galli að þetta skuli ekki vera sjálfvirkt.

Með ódýrari rafbílum

Series 3 kostar 5.350.000 kr. m.vsk. og eins og áður sagði verður hann bara fluttur inn í Luxury útgáfu. Þetta staðsetur bílinn meðal ódýrustu rafbílanna sem völ er á. Fólk sem er að velta fyrir sér bílum eins og MG ZE EV, Nissan Leaf, Volkswagen ID.3 o.fl. getur því bætt þessum á listann og gert samanburð. Ábyrgð á rafhlöðunni er átta ár, en að öðru leyti kemur bíllinn með tveggja ára verksmiðjuábyrgð. Það er heldur stutt ábyrgð í samanburði við samkeppnina, sem býður upp á allt að sjö ára verksmiðjuábyrgð.

Á meðan flestir rafmagnsbílar eru með nokkurra mánaða biðtíma þá eru þessir til á lager. Það eitt og sér getur gert þennan bíl að vænlegum kosti fyrir þá sem vilja ekki bíða lengi eftir nýjum bíl.

Skylt efni: prufukeyrsla

Með öllu óætur og jafnvel eitraður!
Fræðsluhornið 30. september 2022

Með öllu óætur og jafnvel eitraður!

Gulllaxinn skilaði hálfum milljarði króna í útflutningstekjur á síðasta á...

Skjólbelti og korn
Fræðsluhornið 30. september 2022

Skjólbelti og korn

Kornrækt á Íslandi er ekki bara möguleg heldur æskileg og nauðsynleg. En það ...

Gargönd
Fræðsluhornið 28. september 2022

Gargönd

Gargönd, eða litla gráönd eins og hún er kölluð í Mývatnssveit, er fremur...

Landbúnaðarsýningin Libramont
Fræðsluhornið 28. september 2022

Landbúnaðarsýningin Libramont

Seinnipartinn í júlí á hverju ári, ef frá eru talin heimsfaraldursár, er ...

Geymsla heyfengs í turnum
Fræðsluhornið 27. september 2022

Geymsla heyfengs í turnum

Heyturnar eru ekki nýjung fyrir Íslendinga en segja má að blómatíð þeirra h...

Ein mest selda dráttarvél landsins
Fræðsluhornið 26. september 2022

Ein mest selda dráttarvél landsins

Claas Arion 470 sem Vélfang selur er millistór traktor á íslenskan mælikvarð...

Um sýni úr heyjum, jarðvegi og búfjáráburði
Fræðsluhornið 26. september 2022

Um sýni úr heyjum, jarðvegi og búfjáráburði

Að gera góða áburðaráætlun getur verið kúnst og reynist stundum talsvert van...

,,Auðveldara að ásaka en útskýra“
Fræðsluhornið 21. september 2022

,,Auðveldara að ásaka en útskýra“

Öðru hvoru eru skrifaðar greinar eða fréttir sagðar af því að íslensk sjáva...