Mynd/Jón Eiriksson
Fræðsluhornið 06. janúar 2020

Nýjar markaskrár gefnar út 2020

Guðlaug Eyþórsdóttir (landsmarkavörður) og Ólafur R. Dýrmundsson (fv. landsmarkavörður)
Hafinn er undirbúningur að útgáfu markaskráa um land allt en þær eru gefnar út á átta ára fresti í samræmi við ákvæði afréttalaga og reglugerðar um búfjármörk. Nýjum markaskrám verður dreift fyrir haustið 2020.
 
Nú er starfandi  21 markavörður í landinu og er reiknað með að markaskrárnar verði 17 að tölu eins og 2012. Skylt er að eyrnamarka allt sauðfé og geitfé og skulu öll þau mörk vera í markaskránum. Þá eru folöld víða eyrnamörkuð þar sem samgangur er mikill, svo sem í afréttum, og eru flest þau mörk sérmerkt í skránum. Brennimörkin koma með svo og öll skráð frostmörk hrossa. Bæjarnúmerin fylgja með að venju enda prentuð á öll plötumerki sauðfjár og geitfjár í viðeignandi litum eftir svæðum.
 
Sauðfjáreigendum í landinu hefur farið fækkandi, frostmörkum hefur lítið fjölgað og er því reiknað með nokkurri fækkun marka þegar á heildina er litið. Með skráningu marka í markaskrárnar er jafnhliða verið að mynda grunn undir endurnýjaða Landsmarkaskrá á netinu (www.landsmarkaskra.is). 
 
 
Söfnun marka hafin
 
Markaverðir um land allt hafa fengið send öll þau gögn sem þeir þurfa frá Bændasamtökum Íslands til að geta hafið söfnun marka og er hún nú þegar hafin í sumum markaumdæmunum. Allir skráðir markaeigendur fá send bréf með markablöðum og leiðbeiningum og er reiknað með að flestar skráningarnar skili sér til markavarða í desember og janúar. Berist ekki bréf af einhverjum ástæðum þarf að hafa samband við viðkomandi markaverði. Þeir veita nánari upplýsingar eftir því sem þörf krefur og aðstoða við upptöku nýrra marka og bæjarnúmera. Í meðfylgjandi skrá eru póstföng og símanúmer þeirra allra og netföng flestra. 
 
Búfjármörk eru lögvarin eign
 
Þess ber að geta að búfjármörk eru lögvarin eign sem getur gengið að erfðum, verið seld eða gefin. Þá er markaeign ekki bundin við búfjáreign þannig að sumir fyrrvarandi búfjáreigendur halda tryggð við mörkin sín og senda þau inn til birtingar. Markaverðirnir sjálfir skrá á sig nokkurn fjölda marka sem eru á lausu og úthluta þeim til nýrra eigenda, eftir þörfum, á milli skráa. Þá er alltaf nokkuð um að ný mörk og bæjarnúmer séu tekin upp. 
 
Æskilegt er að mikil særingamörk (soramörk) verði aflögð eftir föngum og ný ekki skráð. Þá er mælst til þess að þeim góða sið verði við haldið að birta  fjallskilasamþykktir í öllum markaskránum. 
 
Guðlaug Eyþórsdóttir
(landsmarkavörður) og Ólafur R. Dýrmundsson
(fv. landsmarkavörður)
Erlent