Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Hrokkinmynta. Mentha spicata cv. crispa
Hrokkinmynta. Mentha spicata cv. crispa
Á faglegum nótum 27. febrúar 2015

Myntur

Höfundur: Hafsteinn Hafliðason

Á Íslandi þrífast mynturnar líklega best af öllum þeim suðrænu kryddjurtum sem hingað hafa borist. En það er samt ekki alveg víst að við kunnum að brúka þær í annað en te og mohito.

Frá fornu fari hafa myntur af ýmsu tagi verið notaðar af mannkyni sem lækningajurtir, skordýrafælur og til bragðbætis í mat og drykki.

Innan ættkvíslarinnar eru ríflega 120 tegundir dreifðar um allt Norðurhvel. Þar af eru ríflega 90 þeirra í Evrópu og við strendur N-Afríku. Myntur eru af Varablómaætt (Lamiaceae) eins og blóðbergið okkar. Sú ætt leggur okkur til margar ilm- og bragðsterkar jurtir sem margar hverjar hafa lent í kryddjurtagörðunum okkar og í jurtablöndur grasalækna.

Goðfræðileg vatnadís

Þegar sænski „blómakóngurinn“ Carl von Linné stóð frammi fyrir því að velja myntunum ættkvíslarheiti til að nota í tvínafnakerfi sínu, þá kaus hann að leita í grísku goðafræðina. Enda var gríska heitið „menþa“ um þessar plöntur þekkt frá upphafi söguritunar í okkar heimshluta. Í grísku goðafræðinni var Mentha vatnadís, dóttir árinnar Cocyte. Hades, guð undirheimanna, varð ástfanginn af henni, en unnusta hans, Prosperina (öðru nafni Persefone), dóttir Seifs og Ceresar, breytti henni þá í plöntu þessa í afbrýðikasti.

Ræktunaryfirlit

Ekki var þetta val Linnés alveg út í bláinn, því myntunum líður venjulega best þar sem nokkur svali er í skugga trjáa og stórgrýtis þar sem nægan jarðraka er að finna. Í ræktun eru þær mjög þakklátar fyrir frjóa og jafnraka mold, gjarna nokkuð malarborna og hlýja. Þar sem þeim líður vel eru þær fljótar að gera sig heimakomnar og dreifa sér vítt um með jarðsprotum svo að þær geta komið upp nokkuð víða í garðinum – og ekki alltaf á þeim stöðum sem garðeigandinn gerði ráð fyrir. Þess vegna er gott að rækta myntur í gjörðum sem ná a.m.k. 30 cm niður í moldina. Þessar gjarðir mega gjarna vera vel víðar fyrir þær tegundir sem mikið eru notaðar.

Hnausinn innan í gjörðunum eru svo stungnir upp með nokkurra ára bili, sett ný mold í þær og plöntubútar gróðursettir aftur.

Vatnamynta

Hér á landi vex aðeins tegundin Mentha aquatica, vatnamynta, villt eða er komin á einhvern óskráðan hátt að heitum uppsprettum innan við gömlu sundlaugina í Reykjanesi við Djúp. Þar er hún búin að vera lengi. Gæti hugsanlega hafa borist með dönskum saltsuðumönnum um miðja átjándu öld. Tilgátan um að Freseníushjónin þýsku sem bjuggu í Reykjanesi á árunum 1932–1939 hafi komið með hana stenst ekki. Afi minn, sem fæddur var 1888 og hagvanur í Reykjanesi alla tíð, mundi eftir henni frá unglingsárum sínum og mun hafa bent Steindóri Steindórssyni á hana þegar Steindór var að skrá plöntur í innanverðu Djúpinu. Það mun hafa verið um 1933 eða 1934, þá höfðu þau Ernst og Lísa Freseníus aðeins verið eitt til tvö ár í Reykjanesi. Frá Reykjanesi hefur vatnamyntan svo verið flutt á fleiri staði. En sem kryddjurt er hún fremur röm og leiðinleg á bragðið en getur verið fínn bætir í jurtaseyði. Hún þrífst ágætlega í görðum, en getur þar orðið ansi sjálfstæð og ágeng líkt og aðrar myntur. Fræfjölgun gengur ágætlega, ef fræ fæst. En best er að fjölga vatnamyntunni með græðlingum eða rótarbútum.

Flóamynta

Önnur tegund, flóamynta (Mentha pulegium) sést hér stundum í ræktun, þótt flest garðyrkjufólk sjái að sér og fjarlægi hana úr garðinum sem skjótast eftir að hafa kynnst henni nánar. Hún er nokkuð kröftug og óstýrilát og af henni leggur fremur megna lykt sem sumum finnst allt að því óþægileg. Flóamyntan hefur samt haft mikla þýðingu fyrir vestræna menningu síðan löngu fyrir daga skráðrar menningarsögu. Fyrst og fremst að úr henni var unnin lausn sem gekk frá flóm og lús á fólki og fénaði. Eins þótti gott að láta hana umkringja hús til að draga úr músa- og rottugangi. Um leið dugði hún þannig gegn innrás maura og annara óvelkominna smádýra. Flóamyntan er nokkuð eitruð og því ekki heppileg krydd- eða tejurt.

Góða kunnáttu þarf til að fara með hana ef meiningin er að taka hana inn í einhverju formi.

Flóamyntan getur valdið fósturláti hjá þunguðum konum – og var oft neyðarúrræði kvenna sem höfðu lent í slíkum aðstæðum af óaðgætni. Því fylgdi stundum alvarlegri slys en upphaflega átti að bæta úr.

Flóamynta er yfirleitt ekki notuð í matargerð, því hvorki er hún bragðgóð né frískandi. En flóamyntuolía er afbragðs skordýraeitur sem nota má í lífrænt vottuðum búskap af öllu tagi. Slík olía fæst oft í búðum sem selja lífræn varnarefni, enska heitið pennyroyal eða forskeytið polej/polei á öðrum málum gefur okkur til kynna um hvað er að ræða. Hana má aldrei nota innvortis, hvorki á fólk né fénað vegna þess hve eitruð hún er. Fræfjölgun á flóamyntu er auðveld. Fræ af henni fást stundum hér á fræmörkuðum og á skiptimarkaði garðyrkjufélaganna.

Grænmynta og hrokkinmynta

Þá tegund sem á ensku heitir „spearmint“ köllum við grænmyntu, Mentha spicata. Mér hefur ekki tekist að fá hana til að yfirvetra hér í görðum á bersvæði, en betur þar sem gott skjól er.

Ræktun grænmyntu er annars auðveld og hún er góð kryddjurt með kjúklinga- og kálfakjöti. Eins er te af henni gott og hún hentar í mohito-drykkinn. Afbrigði af grænmyntu er hrokkinmyntan, Mentha spicata cv. crispa, sem er með stærri og hrokknari blöðum.

Hrokkinmyntan er bragðsterkari. Henni verður að fjölga með græðlingum vegna þess að eiginleikarnir erfast ekki með fræi. Annars má sá grænmyntu og fræ af henni fæst yfirleitt í fræbúðunum á vorin. En græðlingafjölgun er líka auðveld.

Piparmynta

Piparmyntan, Mentha piperata (svo skrifaði Linné viðurnefnið, þótt oftast megi sjá það skrifað piperita) er blendingstegund milli vatnamyntu og grænmyntu. Hún hefur þó fengið sérstakt fræðiheiti, Mentha × piperata L. Margföldunarmerkið táknar að um blendingstegund sé að ræða, bókstafurinn L. fyrir aftan tjáir okkur svo að sjálfur Linné hafi sett það fyrstur á blað. Hún þroskar ekki frjó fræ, svo þess vegna verður alltaf að fjölga henni með græðlingum eða rótarbútum.

Af henni eru samt til fjöldamörg tilbrigði sem orðið hafa til við blöndun foreldrategundanna á þeim þúsundum ára sem hún hefur verið í ræktun. Af piparmyntu er því hægt að velja um lávöndulmyntu, anísmyntu, súkkulaðimyntu, sítrónumyntu og svo framvegis. Algengasta yrkið sem er hér í ræktun er það sem kallast 'Candymint‘. Það er allt fremur rauðleitt, bæði stöngull og einkum neðraborð blaðana. Af því er sætur piparmyntukeimur. Eiginlega stendur engin önnur jurt piparmyntunni á sporði þegar kemur að því að lista upp allt hennar ágæti, allt frá því að vera hluti af ástardrykk til að efla samgang kynjanna til þess að vera bót á meltingartruflunum og lausn á hægðavandamálum. En umfjöllunin um allt þetta kallar á ýtarlegri umfjöllun í næsta blaði.

Skylt efni: Garðyrkja | ræktun

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...