Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Aldinið kallast steinaldin og er með einu, þriggja til sex sentímetra löngu, og einstaka sinnum tveimur fræjum.
Aldinið kallast steinaldin og er með einu, þriggja til sex sentímetra löngu, og einstaka sinnum tveimur fræjum.
Á faglegum nótum 21. september 2018

Möndlur tákn um sorg, von og frjósemi

Höfundur: Vilmundur Hansen

Möndlur eru með elstu ræktunar­plöntum og hafa fundist í grafhýsum egypskra faraóa og þær eru nokkrum sinnum nefndar í Biblíunni. Þær eru sagðar ríkar af B- og E-vítamíni og steinefnum. Í Mið-Austurlöndunum eru möndlur vinsælt snakk ásamt döðlum og í Íran þykir gott að dýfa þeim í sjávarsalt.

Framleiðsla og neysla á möndlum í heiminum hefur aukist um 30% á síðastliðnum áratug. Samkvæmt FAOSTAD, tölfræðideild Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, var heimsframleiðsla á möndlum ríflega 3,2 milljónir tonna árið 2016.

Samkvæmt FAOSTAD, tölfræðideild Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, var heimsframleiðsla á möndlum ríflega 3,2 milljónir tonna árið 2016.

Mest er neysla þeirra í Banda-ríkjum Norður-Afríku, Indlandi, Þýskalandi, Spáni og Kína.

Bandaríki Norður-Ameríku eru langstærsti ræktandi mandlna í heiminum og framleiddu árið 2016 rúmlega tvö milljón tonn, eða um 63% heimsframleiðslunnar. Áætluð landnotkun undir möndlurækt í Bandaríkjunum árið 2016 var 400 þúsund hektarar. Spánn sem var í öðru sæti framleiddi sama ár rúm 202 þúsund tonn sem var tæp 10% af framleiðslu Bandaríkjanna. Íran var í þriðja sæti með tæp 148 þúsund, Marokkó í því fjórða með tæp 123 þúsund tonn, Ítalía í fimmta sæti með 74,6 og Ástralía því sjötta með framleiðslu á um 73 þúsund tonnum. Í kjölfarið koma Alsír, Túnis og Kína með framleiðslu á 66,61 niður í 48 þúsund tonn af möndlum árið 2016.

Eins og gefur augaleið eru Bandaríki Norður-Ameríku stærsti útflytjandi mandlna í heiminum með um 67% markaðshlutdeild. Spánverjar eru með um 11% markaðshlutdeild í útflutningi á möndlum, Ástralía 8% og Kína 4%. Það eru svo Spánn, Þýskaland og Indland sem flytja þjóða mest inn af möndlum.

Samkvæmt upplýsingum á vef Hagstofu Íslands voru flutt inn rúm 142,6 tonn af nýjum eða þurrkuðum möndlum með hýði og rúm 48,3 tonn af nýjum eða þurrkuðum afhýddum möndlum, eða samanlagt rétt tæp 191 tonn árið 2017. Langmestur er innflutningurinn frá Bandaríkjunum, rúm 125 tonn, Víetnam 40,5 tonn og tæp 8,7 tonn frá Spáni.

Auk þess sem töluvert er flutt inn af möndlum í sælgæti, tilbúnum matvælum og sem möndlumjólk.

Ættkvíslin Prunus

Um 430 tegundir trjáa og runna sem eru sígrænir eða lauffellandi tilheyra ættkvíslinni Prunus sem er af rósaætt. Þar á meðal heggur, plómur, kirsuber, ferskjur, perur, apríkósur og möndlur sem allt eru plöntur sem vaxa á norðurhveli jarðar.

Í náttúrulegum heimkynnum sínum ná möndlutré allt að tíu metra hæð og með stofni sem er 30 sentímetrar í þvermál.

 

Möndlutré

Latneskt heiti möndlutrjáa er Prunus dulcis. Náttúruleg heimkynni möndlutrjáa liggja frá Indlandi til landanna við botn Miðjarðarhafsins og þau finnast meðal annars villt í Sýrlandi, Tyrklandi og Pakistan, auk þess sem þau eru ræktuð víða um heim. Líklegast er talið að möndlutré séu ræktunarafbrigði P. fenzliana sem finnast villt í Armeníu og vestanverðu Azerbaijan og fyrst verið ræktuð þar og aðlagast út í náttúruna.

Í náttúrulegum heimkynnum sínum ná möndlutré allt að tíu metra hæð og með stofni sem er 30 sentímetrar í þvermál. Í ræktun eru trén yfirleitt lægri og með grennri stofni sem vex upp að grunnt liggjandi trefjarót. Greinar ungra trjáa grænar en verða rauðbleikar með aldrinum. Laufblöðin löng, 7 til 18 sentímetrar, á stuttum blaðstilk. Blómin þrír til fimm sentímetrar í þvermál með fimm hvítum eða fölbleikum krónublöðum sem blómstra fyrir laufgun trjánna á vorin.

Möndlutré þrífast best í loftslagi Miðjarðarhafsins við hlý og þurr sumur og raka og milda vetur. Kjörhiti í vexti er 15 til 30° á Celsíus og rétt undir 7,2° í hvíld. Við góðar aðstæður bera trén aldin á þriðja ári og ná fullri uppskeru á fimmta til sjötta ár og tekur það aldinið að ná fullum þroska sjö til átta mánuði frá blómgun.

Bandaríki Norður-Ameríku eru stærsti framleiðandi mandlna í heiminum. Möndlurækt í Kaliforníu.

Heitið möndlutré er dregið af hnetunni eða öllu heldur fræi trésins. Aldinið kallast steinaldin og er með einu, þriggja til sex sentímetra löngu, og einstaka sinnum tveimur fræjum. Aldinið sem umliggur fræið er yfirleitt fjarlægt með heitu vatni en einnig er hægt að fá möndlur í aldini á uppskerutíma á ræktunarsvæðum þeirra.

Margs konar yrki

Eins og á við flestar nytjaplöntur er til fjöldi ólíkra afbrigða og yrkja af möndlum sem eru ólíkar að lögun, stærð og bragði eftir ræktunarsvæðum. Í grófum dráttum er möndlum skipt eftir bragði í sætar og beiskar möndlur og eru sætar mun eftirsóttari og meira ræktaðar en beiskar.

Dæmi um ólík yrki eru Nonpareil sem er ræktað víða um heim vegna mikillar uppskeru og bragðs, mandlan ljósbrún og í millistærð. Neplus ber stóra og dökkbrúna möndlu, Peerless eru stórar og ljósbrúnar að lit, harðar og með hnetubragði en Ferralies litlar og þykkar möndlur.

Ferskar og afhýddar möndlur.

 

Útbreiðsla og saga

Fornleifarannsóknir sýna að möndlur voru ræktaðar í Egyptalandi og við botn Miðjarðarhafsins um 4000 árum fyrir Krist og því með elstu ræktunarplöntum. Talið er að möndlur hafi borist til landanna umhverfis Miðjarðarhafið, Norður-Afríku og sunnanverðrar Evrópu, með úlfaldalestum og kaupskipum kaupmanna og trúarhópum kristinna og múslina. Fornleifar í Kína og lundir með möndlutrjám meðfram Silkileiðinni sýna einnig að þær hafi borist til Asíu með kaupmönnum.

Möndlur eru nefndar í hebreskum ritum sem eru talin vera 4000 ára gömul, auk þess sem þær eru nefndar í gömlum ritum frá Tyrklandi og löndunum á Balkanskaga.

Möndlur eru nefndar til sögunnar tíu sinnum í Biblíunni. Í sköpunarsögu Fyrstu Mósebókar 43:11 segir Ísrael, faðir Júda, við son sinn þegar illa gengur að kaupa korn í Egyptalandi vegna hungursneyðar: „Sé það óhjákvæmilegt gerið þá þetta: Takið af því besta sem landið hefur upp á að bjóða og setjið í sekki ykkar og færið manninum að gjöf lítið eitt af balsami og lítið eitt af hunangi, reykelsi og myrru, pistasíuhnetur og möndlur.“ Í þessu tilfelli má líta á gjafirnar, þar með taldar möndlurnar, sem tákn um von og gjaldmiðil til að kaupin gangi betur fyrir sig.

Möndlum safnað í segl með því að hrista þær af trjánum.

Í Fjórðu Mósebók, kafla 17:23, segir svo um staf Arons. „Þegar Móse kom til sáttmálstjaldsins daginn eftir var stafur Arons, stafur Leví ættar, laufgaður. Á honum höfðu sprottið blöð og blóm og hann bar þroskaðar möndlur.“

Möndlur fundust í grafhýsi Tutankhamun faraó í Egyptalandi frá 1352 fyrir Krist. Talið er að möndlurnar hafi verið þar svo að faraó hafi eitthvað til að narta í á leiðinni yfir í lífið eftir lífið. Í Persíu og Arabíulöndum þótti og þykir enn drykkur úr muldum möndlum og vatni góð hressing.

Rómverjar kölluðu möndlur grískar hnetur sem bendir til að þær hafi borist til Rómar frá Grikklandi. Rómverjar köstuðu möndlum yfir nýgift hjón til að auka frjósemi þeirra og gæfu á sama hátt og er til siðs í mörgum löndum að kasta hrísgrjónum yfir brúðhjón víða um heim í dag. Hugmyndin um að möndlur auki gæfu leynist einnig í sænskum jólasið sem margir kannast við og þekkist á Íslandi og felst í möndlugjöfinni í jólagrautnum.

Möndlur bárust til Bandaríkja Norður-Ameríku frá Evrópu með fransisku-munkum um miðja 17. öld en fyrsta tilraunin til að rækta þær í stórum stíl var ekki gerð fyrr en 1840. Tilraunin misheppnaðist vegna þess að blómin féllu vegna vorfrosta. Tíu árum seinna var gerð önnur tilraun með ræktun þeirra í Kaliforníu og er ríkið í dag stærsti framleiðandi mandlna í heiminum.

Í Kína eru möndlur tákn um sorg og fallegar konur sem er skiljanlegt því hvað er sorglegra en minningin um konuna með möndlulaga augu sem yfirgaf þig?

Sophia Loren. Konan með möndlu­laga augun. 

Listir

Möndluformið og möndlutré eru algeng í listum. Olíulampar frá Arabalöndunum eru oft möndlulaga og myndir af blómstrandi möndlutrjám eru ofnar í persnesk teppi. Van Gogh málaði myndir af blómum möndlutrjánna í Arles og Saint-Rémy í Suður-Frakklandi á sínum tíma.

Nafnaspeki

Heitið mandla eða almond á ensku er komið úr gamalli frönsku, almande eða alemanden. Í frönku er heitið líklega komið úr latínu amandula og í latínu úr amygdala sem er grískt heiti á möndlum. Á þýsku kallast möndlur mandel eða knackmandel, mandorlo og mandorla á ítölsku í fyrra tilfellinu er átt við tréð en í því síðara fræið. Á portúgölsku er talað um amêndoa og almendra á spænsku.

Þýðing latneska ættkvíslar­heitisins Prunus er óþekkt og talið að það sé lánsorð úr phrygian sem er útdautt tungumál sem var talað í Mið-Asíu og var skylt frumgrísku. Tegundarheiti dulcis þýðir sætur ilmur.

Frjóvgun möndlutrjáa

Býflugur sjá um frjóvgun möndlutrjáa og er frjóvgun trjánna í Kaliforníu í Norður-Ameríku stærsta mannstjórnaða ávaxtatrjáafrjóvgun í heiminum. Í febrúar á hverju ári er um það bil milljón býflugnabúum ekið á vörubílum inn á risastóra möndlutrjáalundi og flugunum slepp þegar trén eru í blóma. Eftir að frjóvgun lýkur er ekið með flugurnar í næsta lund. Býflugnabúin eru í eigu býflugnahaldara og býflugurnar leigðar út til að frjóvga trén.

Undanfarin ár hefur sífellt reynst erfiðara að fá nóg af býflugum til að frjóvga lundina vegna hruns býflugnastofna í Bandaríkjunum og víðar um heim. Það hefur leitt til hækkandi verðs á möndlum.

Með hjálp kynbóta hefur tekist að rækta fram sjálffrjóvgandi möndlutré en enn sem komið er þykja möndlurnar af þeim ekki eins bragðgóðar eins og af trjám sem frjóvgaðar eru með býflugum. Dæmi um sjálffrjóvgandi yrki er Tuona.

Líkt og í annarri stórræktun leggjast alls konar pöddur, bakteríur, sveppir og vírusar á ræktunina og óværunni iðulega haldið niðri með mismunandi og mishollum kokteilum af varnar- og eiturefnum.

Möndlur til lækningar og matar

Möndlur eru sagða ríkar af B- og E-vítamíni og steinefnum eins og kalki, járni, magnesíum, mangani, fosfór og sinki. Þær eru trefjaríkar og fitan í þeim er ómettuð. Möndlur eru tiltölulega hitaeiningasnauðar af hnetum að vera.

Efni sem unnin eru úr bitrum möndlum hafa, í litlum skömmtum, verið notuð til lækninga. Í beiskum möndlum finnst meðal annars blásýra í litlu magni og hefur hún leitt til dauða ungra barna í einstaka tilfellum.

Vinnsla á möndlum.

Mandlna er oft neytt eins og þær koma fyrir af trjánum eða að þær eru ristaðar og hafðar til íblöndunar í margs konar rétti. Þær eru fáanlegar heilar, niðursneiddar, muldar og malaðar í duft. Úr þeim er unnin olía og það sem er kallað möndlumjólk.

Möndlur eru íblöndunarefni í marsípani og núgati. Þær eru í múslí og þeim er stráð yfir ís og eftirrétti og notaðar til baksturs og til að búa til möndlusmjör. Á Ítalíu eru möndlur notaðar í brauð sem kallast ricciarelli.

Í Mið-Austurlöndum eru möndlur vinsælt snakk ásamt döðlum og í Íran þykir gott að dýfa þeim í sjávarsalt og þar í landi eru möndlur hefðbundið snakk í nýársboðum.

Möndlumjólk er unnin úr mjúkum, bragðmildum og ljósum afbrigðum mandlna sem búið er að afhýða.
Möndlur geta valdið ofnæmis-viðbrögðum hjá fólki sem er viðkvæmt fyrir slíku.

Möndlur á Íslandi

Í tímaritinu Norðurfara árið 1876 segir í grein sem kallast Yfirlit yfir landafundi og ferðir vísindamanna þrjú seinustu árin. „Á hverju ári gjöra stórþjóðirnar í Evrópu út menn til að kanna aðrar heimsálfur í öllum greinum, og gjöra með því stórmikið gagn eigi aðeins í allri verzlun og samgöngum, heldur ryðja braut andlegum menntum, framförum og góðum siðum meðal villuþjóða.“ Í greininni segir um ferðalag jarðfræðingsins Alexander Petzholt að hann hafi verið á ferð um Turkestan í boði Rússastjórnar.

„Suðurhluti landsins er hálendi og sumstaðar syðst og austast eru allt að 20,000 feta háir jökultindar. Í fjallendunum er víða trjávöxtur mikill, en láglendið er mestallt eyðimerkur trjá- og graslausar, Það er helzt fram með fljótunum sem notandi land er, og þar er líka dýrkað hveiti, bygg, hrísingrjón, mais, hampur, hör, fíkjur, möndlur, vín ogfl.“

Ári seinna er svo að finna auglýsingu frá Apótekinu í Reykjavík í Ísafold þar sem segir að til sölu sé hreinsuð pottaska, hjartarhornssalt, sítrónubörkur, pommeransbörkur, rósavatn, vanilla, beiskar möndlur, sítrónuolía, sætar möndlur, súkkat og múskatplómur.

Ristaðar möndlur með sítrónu og rósmaríni

Upplagt er að eiga ristaðar möndlur í ísskápnum til að grípa í þegar hungrið segir til sín. Svo er fljótlegt að útbúa þær. Gott er að þurrrista möndlur á heitri pönnu og krydda þær með chili, rósmarín, salví eða öðru kryddi sem er við hendina.

Slatti af möndlum, ein teskeið salt, smá pipar, tvær matskeiðar rósmarín eða lauf af einni til tveimur greinum, hálf teskeið múskat, hálf teskeið sykur, ein matskeið sítrónusafi og ein matskeið jurtaolía.

Hitið jurtaolíuna, saltið, piparinn, rósmarínið, múskatið og sykurinn á miðlungshita á pönnu. Bætið við sítrónusafa og loks möndlunum. Veltið í fimm til tíu mínútur á pönnunni eða þar til möndlurnar brúnast. Setjið möndlurnar á smjörpappír og dreifið úr þeim til að þær þerni lítilega fyrir neyslu.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...