Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Í rannsóknum þar sem kafað var nánar ofan í næringarefnin kom í ljós að sterkt samhengi var á milli neyslu mjólkurpróteins og líkamshæðar og -þyngdar. Þá kemur einnig fram í skýrslunni að vanþroski barna er mun algengari, ef þau fá fyrst og fremst næringu
Í rannsóknum þar sem kafað var nánar ofan í næringarefnin kom í ljós að sterkt samhengi var á milli neyslu mjólkurpróteins og líkamshæðar og -þyngdar. Þá kemur einnig fram í skýrslunni að vanþroski barna er mun algengari, ef þau fá fyrst og fremst næringu
Á faglegum nótum 11. mars 2020

Mjólk er góð bæði fyrir kálfa og fólk!

Höfundur: Snorri Sigurðsson - snorri.sigurdsson@outlook.com
Reglulega kemur upp sú undarlega umræða um að kúamjólk sé ekki holl og góð næring fyrir fólk á öllum aldri. Það er auðvitað ekki rétt og sem betur fer njóta fleiri og fleiri íbúar heimsins þeirra mikilvægu forréttinda að geta neytt mjólkurafurða, með öllum þeim kostum sem slíkri neyslu fylgir og þeim mikilvægu næringarefnum sem neyslan ber með sér. 
 
Þrátt fyrir að mjólk og mjólkur­vörur hafi verið mikilvægur næringarefnagrunnur mannkyns í þúsundir ára, og er í raun samofin þróun mannkyns, þá er það því miður svo að ákveðinn hópur fólks í heiminum getur af einhverjum ástæðum ekki notið mjólkurafurða t.d. vegna óþols eða ofnæmis. Tækninni og þekkingunni fleygir hins vegar fram og eftir því sem bætist í þekkingarbrunn þeirra sérfræðinga sem vinna við úrvinnslu matvæla aukast möguleikar þeirra sem eru með ofnæmi eða óþol á því að geta líka notið þessara mikilvægu matvæla.
 
Einn af hverjum átta
 
Þó svo að hlutfall kúabænda og þeirra góðu starfsmanna sem vinna við afurðastöðvar hér á landi skipti ekki tugum þúsunda, þá er mjólkurframleiðsla og -vinnsla ein stærsta ef ekki stærsta atvinnugrein heimsins. Samkvæmt áætlun frá IDF, sem eru alþjóðasamtök um mjólkurframleiðslu og -vinnslu, þá hafa um 1 milljarður íbúa heimsins lífsviðurværi sitt af annaðhvort mjólkurframleiðslu, -vinnslu eða -sölu. 
 
Talið er að íbúar heimsins séu nú um 7,7 milljarðar og þannig er þessi eina atvinnugrein með um 13% vægi á heimsvísu. Fáar ef nokkrar aðrar atvinnugreinar í heiminum eru jafn umsvifamiklar og mikilvægar fyrir afkomu og næringu fólks. Greinin hefur þó átt undir högg að sækja á heimsvísu að undanförnu og skýrist það af bæði veðurfarslegum áhrifum í einstökum heimshlutum en einnig vegna neikvæðrar umræðu um sótspor greinarinnar. Því hefur nú þegar verið brugðist við og er staðan í dag gjörbreytt frá því sem áður var og í framtíðinni verður þessi mikilvæga atvinnugrein að fullu án sótspors. Þá hefur umræða um dýraafurðalaust fæði, sem reyndar er mest bundin við íbúa í hinum ríkari löndum heimsins, haft einhver áhrif en þó óveruleg.
 
Ef börn drekka mjólk þá verða þau hærri. Þá fannst í öllum rannsóknum jákvætt samhengi á milli mjólkurneyslu og aukinnar líkamsþyngdar barnanna. 
 
Fjölbreytt og staðgóð næring nauðsyn
 
Í síðustu viku kom út skýrsla á vegum FAO, Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, en hún fjallar um með hvaða hætti neysla mjólkurafurða hefur gjörbreytt næringarástandi íbúa heimsins og hvernig neysla mjólkurafurða getur hjálpað við að draga úr vannæringu og hungri á heimsvísu (Dairy’s impact on reducing global hunger, FAO 2020). 
 
Í skýrslunni kemur m.a. fram að hungur eða vannæring meðal íbúa heimsins er eitt af allra stærstu og umfangsmestu vandamálum heimsbyggðarinnar í dag. Vannæring orsakast ekki aðeins af ónógri fæðu heldur skapast ástandið fyrir tilstilli margra samverkandi þátta og má m.a. rekja til neyslu á röngu fæði. 
Vannæring er oft nefnd „hið ósýnilega neyðarástand“ þar sem skaðleg áhrif hennar eru oft aðeins toppurinn af ísjakanum og á mörgum svæðum er vannæring viðvarandi ástand og verða börn fyrir skaðlegum áhrifum hennar strax í móðurkviði. 
 
Skortur á fjölbreyttri og staðgóðri næringu heldur svo áfram að gera þessum börnum erfitt um vik, gerir þau móttækilegri fyrir sjúkdómum og heftir líkamlegan og andlegan þroska þeirra.
 
Meira en 800 milljónir svelta
 
Talið er að árið 2017 hafi því miður 821 milljón manns búið við hungur. Þetta svarar til þess að einn af hverjum níu íbúum heimsins hafi búið við hungur! Það sem verra er, er að þessi hópur hefur farið stækkandi og er talið að fjöldi hungraðra í heiminum hafi aukist um 40 milljónir frá árinu 2014. 
Þegar talað er um hungur í þessu samhengi er rétt að taka fram að skilgreiningin á því er að fólk búi við fæðuskort og vannæringu auk þess að vanta upp á nauðsynlegan daglegan skammt af vítamínum og steinefnum. 
 
Meirihluti þessa fólks, sem býr við hungur, býr í löndum þar sem tekjur eru lágar eða í meðallagi. Þá er það sameiginlegt að oftast býr þetta fólk í dreifbýli og hefur lífsviðurværi sitt af landbúnaði.
 
Samhengi hlutanna
 
Fyrri skýrslur frá FAO hafa bent á skýrt samhengi á milli neyslu dýraafurða og bættrar næringarefnastöðu barna í dreifbýli hinna fátækari landa en í þessari nýju skýrslu er einungis horft til áhrifa mjólkurvöruneyslu. Skýrslan byggir á yfirlitssamantekt höfunda á fjölda rannsókna á áhrifum neyslu mjólkur og mjólkurafurða á vöxt og þroska fólks og kemur svo sem ekki á óvart að skýrt samhengi er þarna á milli og þá sérstaklega meðal barna. 
 
Börn sem eru vannærð vaxa minna og þroskast hægar en vel nærð börn og er munurinn óafturkræfur. Þá hefur vannæring barna einnig áhrif á þroska heilabúsins og eykur líkur á langvinnum sjúkdómum síðar á ævinni. Ótal aðrar rannsóknir hafa svo sýnt fram á jákvætt samhengi á milli mjólkurvöruneyslu og ýmissa jákvæðra áhrifa á líkamann eins og á heilavirkni svo dæmi sé tekið.
 
Jákvæð áhrif mjólkurneyslu
 
Í skýrslunni kemur fram að í 16 af 17 rannsóknum, þar sem skoðað var sérstaklega samhengið á milli mjólkurneyslu og vaxtar hjá börnum, þá var marktækt jákvætt samhengi til staðar þ.e. að ef börn drekka mjólk þá verða þau hærri. Þá fannst í öllum rannsóknum jákvætt samhengi á milli mjólkurneyslu og aukinnar líkamsþyngdar barnanna. 
 
Í rannsóknum þar sem kafað var nánar ofan í næringarefnin kom í ljós að sterkt samhengi var á milli neyslu mjólkurpróteins og líkamshæðar og -þyngdar. Þá kemur einnig fram í skýrslunni að vanþroski barna er mun algengari, ef þau fá fyrst og fremst næringu sem eingöngu byggir á afurðum úr plönturíkinu. Slík áhrif koma fyrst og fremst fram á börnum, sem eftir að hafa hætt á brjóstamjólk hætta á sama tíma að fá áfram dýraprótein, sem þau fengu með móðurmjólkinni, og fá eftir það einungis matvæli sem byggja á plöntuafurðum. Skýringin á þessu felst m.a. af því að plöntuprótein eru ekki af sömu gæðum og fjölbreytni og dýraprótein, þegar kemur að vexti og þroska barna.
 
Þurfum að gera enn betur
 
Vegna stöðugrar aukningar á fjölda íbúa heimsins kemur fram í skýrslunni að þörfin fyrir búfjárhald mun aukast verulega á komandi 30 árum, ef okkur á að takast að draga úr og helst af öllu eyða hungri meðal íbúa heimsins. Hér munu búfjárbændur heimsins hafa gríðarlega mikilvægu hlutverki að gegna og sér í lagi þeir sem eru í mjólkurframleiðslu, enda kemur fram í skýrslunni frá FAO að mjólkurvörur henta sérlega vel til að sinna grunnnæringarefnaþörf fólks þar sem þær eru ekki einungis ríkar af næringarefnum heldur hafa þau einnig í heppilegum hlutföllum. Þá hafa ótal rannsóknir sýnt fram á beint samhengi milli þess að búa með kýr og bættan efnahag og næringarástand fjölskyldna í dreifbýli þróunarlanda. Það er ekki af ástæðulausu að hluta af þróunaraðstoð í heiminum er einmitt beint í farvegi sem lúta að því að kenna fólki meðferð og meðhöndlun kúa og framleiðslu mjólkur.
 
Við berum ábyrgð
 
Þó svo að búfjárframleiðsla á Ís­landi sé ekki umsvifamikil í heims­sögulegu samhengi þá skiptir hún líka miklu máli, ekki bara á Íslandi heldur fyrir heiminn allann. Þær þjóðir sem það geta þurfa að framleiða meira af dýrapróteinum á komandi árum og stuðla þannig að því að leggja sitt af mörkum fyrir heimsbyggðina alla. Það er á þeirra ábyrgð að sinna framleiðslunni og það væri ekki bara óskynsamlegt heldur einnig afar óábyrgt að gera það ekki. 
 
Það verður þó einungis gert með skynsamlegri nýtingu á aðgengilegu landi og aðföngum og því miður er slíkt af skornum skammti í sumum löndum. Á Íslandi er gnótt ónýtts lands og hér væri hægt að framleiða mun meira af bæði góðu og hollu kjöti og mjólk ef sú ákvörðun væri tekin. Slíkri framleiðslu fylgja vissulega ákveðin aukin umhverfisáhrif sem einnig þarf að taka tillit til, en þetta getur vel farið saman með skynsamlegri stjórnun og samstilltu átaki.
„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...