Ein helsta hindrun þess að molta er lítið notuð í landbúnaði er flutningskostnaður.
Ein helsta hindrun þess að molta er lítið notuð í landbúnaði er flutningskostnaður.
Mynd / Aðsendar
Fræðsluhornið 5. maí 2022

Mikið af næringarefnum enn ónýtt

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Heildarmagn þeirra næringarefna sem er að finna í lífrænum úrgangi sem fellur til á Íslandi er álíka mikið og í innfluttum áburði. Það þýðir þó ekki að öll þessi næringarefni séu tiltæk plöntum líkt og tilbúinn áburður en tækifæri liggja í aukinni nýtingu á fiskeldisseyru, sláturúrgangi og alifuglaskít.

Íslenskur landbúnaður er háður innfluttum tilbúnum áburði og skapar hækkandi áburðarverð mikla ógn. Til glöggvunar hefur heildarmagn innflutts áburðar verið að meðaltali um 16.000 tonn á ári af hreinum áburðarefnum á síðastliðnum áratug.

Ef hægt er að nýta betur úrgang og hliðarafurðir til að koma næringarefnum þeirra inn í hringrásarkerfi er mögulegt að draga úr innflutningi á tilbúnum áburði að einhverju leyti.

Þessi áskorun er viðfangs­efni rannsóknar- og nýsköpunar­verkefnisins Sjálfbær áburðar­framleiðsla – heildstæð nálgun á hringrásarhagkerfi, sem unnið er með aðkomu fjölda stofnana og fyrirtækja á sviði landbúnaðar, líf- og efnafræði, verkfræði og matvælafræði. Ein afurð verkefnisins er nýútgefin skýrsla frá Matís, „Greining á magni lífrænna áburðarefna á Íslandi og tækifæri til aukinnar nýtingar“. Jónas Baldursson, verkefnastjóri hjá Matís, er aðalhöfundur hennar.

Í skýrslunni má finna samantekt á magni þeirra lífrænu hráefna sem fellur til hér á landi og næringarinnihald þeirra miðað við bestu fáanlegu upplýsingar. Einnig er efnið sett í samhengi við kolefnisspor.

Kúamykja vel nýtt

Mykja frá nautgripum er stærsta uppspretta búfjáráburðar á Íslandi, en hún gaf 48.578 tonn af þurrefni á ári skv. skýrslunni. Á meðan gaf sauðfé 23.068 tonn, alifuglar 9.336 tonn, svín 5.664 tonn, hross 918 tonn og minkar 429 tonn af þurrefni á ári. Kúamykja er að öllu leyti nýtt í dag við túnrækt. Uppruni næringarefna hennar er þó að mestu leyti úr innfluttum tilbúnum áburði og innfluttu kjarnfóðri. Það sama má segja um svín og alifugla.

Mykja frá nautgripum er stærsta uppspretta búfjáráburðar á Íslandi og er að öllu leyti nýtt í dag við túnrækt

Jónas telur fiskeldisseyru og sláturúrgang spennandi áburðargjafa með tilliti til næringarefna. Í skýrslunni kemur fram að um 7.929 tonn af þurrefni af fiskeldisseyru falli til á ári en aðgengi að henni sé mjög takmarkað. Henni er í dag veitt að miklu leyti í sjóinn þrátt fyrir að vera nýtanleg.

„Fiskeldisseyra getur innihaldið salt sem ekki er æskilegt í áburði í miklu magni, sérstaklega ef saltblönduð seyra er notuð á sama stað ár eftir ár. Hægt er að gera ráðstafanir eins og að skola út salti en með slíkri meðhöndlun er fyrirséð að einhver næringarefni tapast,“ segir Jónas. Auk þess fellur mikið af slógi til við fiskvinnslu. Það er nýtt ýmist brætt, fryst eða notað sem fóður fyrir mink. Stór hluti fer einnig í sjóinn. Útreiknað magn slógs úr fiski var 10.674 tonn af þurrefni á ári samkvæmt skýrslunni. Ef nýta ætti slóg meira sem áburð þyrfti að gera töluverðar ráðstafanir um borð í veiðiskipum til að landa slóginu.

Enn sem komið er er meiri ávinningur fólginn í að vinna slóg til fóðurgerðar, en með auknum kostnaði tilbúins áburðar gæti vinnsla slógs til áburðar orðið hagkvæm. Um 10 þúsund tonn af flokkuðum matarúrgangi falla til frá eldhúsum og verslunum og er stærstur hluti hans jarðgerður í dag. Í skýrslunni er gert ráð fyrir að magnið sé 65.450 tonn af þurrefni á ári.

Kjötmjöl góður áburður

„Miðað við hvað kjötmjöl er góður áburður, þá er hálfótrúlegt að ekki skuli vera nýtt hærra hlutfall sláturúrgangs á landsvísu í kjötmjölsframleiðslu,“ segir Jónas, en útreiknað magn kjötmjöls samkvæmt skýrslunni er 900 tonn af þurrefni á ári. Kjötmjöl er framleitt úr sláturúrgangi. Leyfilegt er að nýta dýraúrgang, en með takmörkunum vegna smithættu. Jónas segir að með betri flokkun á sláturúrgangi sé hægt að nýta meira magn í framleiðslu á kjötmjöli.

Jónas Baldursson, verkefnastjóri hjá Matís.

Þá falla til um 3.917 tonn af þurrefni seyru á ári á Íslandi miðað við forsendur sem skýrsluhöfundar gefa sér. Einnig tiltekur skýrslan magn á dýrahræjum, slátur- og fiskúrgangi auk leifa frá brennslu og hitasundrun úrgangs. Hins vegar er óvissa um hversu stór hluti þess er nýtanlegur sökum heilbrigðissjónarmiða.

„Það er nokkuð ljóst að í úrgangi leynast verðmæti sem vert er að nýta þó að áskoranirnar um hvernig koma megi honum á sem best nýtanlegt form séu misstórar. Það er ekki eins og það sé beinlínis hægt að taka ferskan kúk og smyrja honum á tún eins og nutella á skonsu, ef þú veist hvað ég á við. Fyrir það fyrsta eru heimtur saursins ekki á föstu formi og þar að auki er hráefnið gjarnan blandað öðrum efnum sem geta verið beinlínis mengandi. Vinnsluferli og reglugerðir eru því eðlilega afar ólík fyrir mismunandi úrgang,“ bendir Jónas á.

Þó einhverjar tölur séu til um hversu mikið af magni úrgangs sé nú þegar nýtt sé mjög erfitt að fá nákvæmar tölur. „Búfjáráburður er að mestum hluta nýttur en varðandi annan úrgang er erfitt að segja. Lítið sem ekkert af seyru er notað og fiskeldisseyran er enn á tilraunastigi. Einnig hefur lítið farið fyrir notkun á moltu í jarðrækt en þó er einhver aukning ár frá ári,“ segir Jónas.

Fosfór fæst mögulega úr fiskeldisseyru

Auk þess að greina magn þess lífræna úrgangs sem fellur til á Íslandi tiltekur skýrslan magn næringarefna frá þessum úrgangi eftir bestu mögulegum gögnum um slíkt. Byggja niðurstöður að nokkru leyti á efnagreiningum en einnig á innlendum og erlendum heimildum.

Útreikningarnir sýna að magn niturs í þeim lífræna úrgangi sem fellur til hér á landi er 8.411 tonn, 1.756 tonn af fosfór og 3.886 tonn af kalí.

Magn áburðarefnanna sem féll til hér á landi árið 2019 var því 14.053 tonn, en á sama tíma fluttum við inn 14.480 tonn af hreinum áburðarefnum í formi tilbúins áburðar. Það magn skiptist niður í 10.600 tonn af nitri, 1.480 tonn af fosfór og 2.380 tonn af kalí.

Þar sem fosfór er hverfandi auðlind sem tekin er úr sértækum námum í dag felst mikið kappsmál í að finna leiðir til að veita næringarefninu aftur inn í hringrásina. Í skýrslunni er bent á að þar gæti fiskeldisseyran leikið lykilhlutverk. „Með frekari tækniþróun við söfnun fiskeldisseyru má áætla að hægt sé að ná hærra hlutfalli fosfórs,“ segir í skýrslunni.

Kolefnisspor og kostnaður

Útreikningar á kolefnisspori og kostnaði við notkun mis- munandi áburðartegunda sýna
mikinn breytileika milli áburða- tegunda. Ræðst það mjög af flutningsvegalengdum hversu hagkvæmar þær eru í notkun. Vatnsmikill úrgangur sem hefur lágan styrk næringarefna er óhagkvæmur miðað við þurrari og næringarríkari úrgang.

Frá störfum við áburðartilraunir á Hvanneyri.

Samkvæmt skýrslunni er nýting rýrari úrgangs dýrari og með stærra kolefnisspor en tilbúinn áburður. En ef niturinnihald lífræns áburðar er að lágmarki 3% og flutningsfjarlægð stutt getur slíkur áburður verið hagkvæmur fyrir loftslagið og fyllilega samkeppnishæfur við tilbúinn áburð. „Hænsna- og kjúklingaskítur kemur mjög vel út í samanburði við innfluttan tilbúinn áburð, kostnaðarlega séð, og hefur nokkuð lægra kolefnisspor en tilbúinn áburður,“ bendir Jónas á.

Tækifæri og tillögur

Greining Matís bendir til þess að heildarmagn næringarefna í þeim lífræna úrgangi sem fellur til hér á landi sé álíka mikið og í innfluttum áburði. Langmest af næringarefnunum er að finna í búfjárúrgangi og er hann almennt nýttur heima á bæjum í jarðrækt.

Úrgangur úr eldisdýrum gefur mikið magn næringarefna og er alifuglaskítur t.a.m. þurrari en annar búfjárúrgangur. Hann er næringarríkur og hefur lágt kolefnisspor. Er nýting hans því bæði hagkvæm og umhverfisvæn og er mælt með að leggja kapp á að nýta hann bæði í landgræðslu og landbúnaði.

Þá telja skýrsluhöfundar mikla möguleika í frekari nýtingu á fiskeldisseyru enda er búist við að magn þess fari vaxandi næstu misseri. Hún sé rík af nitri og fosfór og með réttri vinnslu hennar gæti hún nýst vel.

Skýrsluhöfundar benda á að flestar hindranir sem koma upp við aukna nýtingu á lífrænum úrgangi tengjast kostnaði. Þannig sé nýtingu næringarefna úr skólpi til að mynda ábótavant þar sem nýtingin er lítil sem engin. Mikil næringarefni eru í skólpi sem alla jafna er veitt í hafið. Hins vegar vantar innviði fráveitu og skólphreinsunar til að hægt sé að safna næringarefnum, en þau gætu nýst í landgræðslu.

Kjötmjöl hefur mest verið nýtt í landgræðslu og skógrækt en minna í jarðrækt vegna þess að það er seinleyst og hefur því mest áhrif 2-3 árum eftir dreifingu. Ein helsta hindrun þess að molta er lítið notuð í landbúnaði er flutningskostnaður. Molta er ekki sterkur áburður og því þarf mikið magn til að ná fram áhrifum. Skýrsluhöfundar segja þó moltu vannýtt hráefni sem mætti nýta meira og víðar.

Áframhaldandi tilraunir

Í sumar munu starfsmenn Landbúnaðarháskólans framkvæma aðra tilraun með svipuðu sniði og síðasta sumar þar sem mismunandi hráefni og blöndur af hráefni verða prófaðar. „Einnig verður haldið áfram að fylgjast með gróðurframvindu hjá Landgræðslu en áhrif í uppgræðslu má oft sjá síðar heldur en í akuryrkju.

Síðan erum við að skoða mismunandi formeðhöndlun á lífrænum úrgangi til að gera hann meðfærilegri,“ segir Jónas.

Tófú er bæði klístrað og hart
Fræðsluhornið 17. maí 2022

Tófú er bæði klístrað og hart

Tófú er unnið úr hleyptum safa í sojabaunum eða sojamjólk eins og sumir vilja ka...

Betri nýting áburðar með hjálp IceCORS leiðréttingarkerfis Landmælinga Íslands
Fræðsluhornið 16. maí 2022

Betri nýting áburðar með hjálp IceCORS leiðréttingarkerfis Landmælinga Íslands

Eins og allir hafa orðið varir við þá hefur áburðarverð hækkað verulega á síðast...

Úrvalsnýting nautanna sem voru fædd 2016
Fræðsluhornið 9. maí 2022

Úrvalsnýting nautanna sem voru fædd 2016

Sú hefð hefur skapast að sýna niðurstöður afkvæmarannsókna á nautum með því að d...

Skráningar á kynbótasýningar þetta vorið
Fræðsluhornið 9. maí 2022

Skráningar á kynbótasýningar þetta vorið

Opnað verður á skráningar á kynbótasýningar nú í byrjun maí og verður það kynnt ...

Nýr sparneytinn Honda HR-V
Fræðsluhornið 9. maí 2022

Nýr sparneytinn Honda HR-V

Fyrir nokkru síðan frumsýndi Askja nýjan Honda HR-V Hybrid-bíl, sjálfskiptan, fr...

Jarðrækt – Sprotinn
Fræðsluhornið 6. maí 2022

Jarðrækt – Sprotinn

Lífið fer hring eftir hring og þannig er aftur komið vor með tilheyrandi viðfang...

Fyrstu nautin fædd 2017 komin í framhaldsnotkun
Fræðsluhornið 5. maí 2022

Fyrstu nautin fædd 2017 komin í framhaldsnotkun

Nýtt kynbótamat var keyrt núna í mars að loknu uppgjöri skýrslna fyrir febrúar. ...

Mikið af næringarefnum enn ónýtt
Fræðsluhornið 5. maí 2022

Mikið af næringarefnum enn ónýtt

Heildarmagn þeirra næringarefna sem er að finna í lífrænum úrgangi sem fellur ti...