Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Gulllaxvinnsla um borð í frystitogaranum Þerney RE fyrir margt löngu.
Gulllaxvinnsla um borð í frystitogaranum Þerney RE fyrir margt löngu.
Mynd / Hjalti Gunnarsson
Á faglegum nótum 30. september 2022

Með öllu óætur og jafnvel eitraður!

Höfundur: Kjartan Stefánsson

Gulllaxinn skilaði hálfum milljarði króna í útflutningstekjur á síðasta ári. Helsta markaðslandið var Úkraína. Gulllax er fluttur út hausaður eða heilfrystur en auka mætti verðmætin með vinnslu á marningi.

Miðað við nafnið mætti ætla að gulllax sé með verðmætari nytjafiskum á Íslandsmiðum en það er langt í frá. Engu að síður er þessi glitrandi fagri fiskur ágæt búbót hjá þeim útgerðum sem hafa tækifæri til að nýta hann.

Fjarskyldur loðnunni

Gulllax tilheyrir ættbálki glitfiska og er fjarskyldur ættingi loðnunnar. Tvær tegundir af ættkvísl gulllaxa finnast við Ísland, þ.e. stóri gulllax og litli gulllax. Það er sá stóri sem er hér til umfjöllunar. Gulllax er langvaxinn og hausstór fiskur. Hann getur náð allt að 70 sentímetra lengd en algeng stærð er 40 til 50 sentímetrar.

Gulllax er þanggrænn á lit að ofan en gull- eða silfurlitur á hliðum og hvítgulur að neðan. Heimkynni eru í Norður-Atlantshafi. Hér við land er hann algengastur frá Rósagarðinum svonefnda undan Suðausturlandi, suður með ströndinni og vestur um land til móts við Halamið. Einkum finnst hann þó út af Suðvesturlandi.

Gulllax er miðsævis- og botnfiskur, stærstu fiskarnir halda sig dýpra. Hann verður kynþroska 8 til 9 ára gamall á Íslandsmiðum. Hann getur orðið meira en 30 ára gamall.

Lýsing á gulllaxinum hér að ofan er fengin úr þeirri gagnmerku bók Íslenskir fiskar eftir Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson.

Með öllu óætur og jafnvel eitraður!

Gulllax veiddist hér við land um langt árabil einkum sem meðafli við karfaveiðar og var lengst af kastað fyrir borð. Hann þvældist einnig í fleiri veiðarfæri eins og humartroll. Í skemmtilegu viðtali í Tímanum frá 1954 við skipstjóra á humarveiðum segir hann að stundum hafi þeir fengið feiknin öll af fiski sem heitir gulllax. „Eftir útlitinu að dæma skyldi maður ætla að gulllaxinn væri hinn ljúffengasti matur en það er haft fyrir satt að hann sé alveg óætur, og jafnvel eitraður, og við fleygðum honum öllum,“ sagði skipstjórinn.

Fyrsta flokks í fiskfars

Það var að sjálfsögðu alger misskilningur að gulllaxinn væri óætur. Þvert á móti. Norðmenn og Færeyingar höfðu til dæmis lag á því að nýta gulllaxinn. Norskir fræðimenn fundu meira að segja út í rannsóknum að fáir fiskar hentuðu betur í fiskfars en gulllax. Hann hafði mikla samloðun, enda ríkur af gelatíni. Drifhvítt holdið gerði hann líka eftirsóknarverðan.

Af og til voru gerðar tilraunir til að veiða þennan fisk sérstaklega hér við land. Það var í frásögu fært þegar skuttogarinn Runólfur hélt til tilraunaveiða á gulllaxi sumarið 1976. Veiðarnar lofuðu góðu en lítið framhald varð þó á þeim.
Um áratug síðar var Hilmir II á ferðinni að veiða gulllax. Fiskurinn var flakaður um borð, unninn í marning og frystur. Fáein skip fylgdu í kjölfarið og næstu árin var skráður afli frá nokkrum tonnum á ári og allt upp í 1.255 tonn árið 1993.

Sóknin hefst fyrir alvöru

Það var þó ekki fyrr en árið 1997 sem sókn í gulllax hófst fyrir alvöru. Það ár fór aflinn úr rúmum 800 tonnum árið 1996 í í tæp 3.400 tonn, að því er fram kemur í gögnum Hafrannsóknastofnunar. Aflinn rauk upp í 13 þúsund tonn 1998.

Árið 1997 lönduðu 26 togarar gulllaxi. Á árunum 2000 til 2007 var aflinn á bilinu 2.500 til 4.800 tonn en fór í rúm 16 þúsund tonn árið 2010. Vegna stýringar stjórnvalda dróst aflinn saman og var 7.200 tonn árið 2013.

Lengi vel utankvótafiskur

Sókn í gulllax var í fyrstu frjáls. Hann var utankvótafiskur og engin opinber takmörk voru á heildarveiði né á veiðum einstakra skipa. Það var þó vitað að allar veiðar yrðu stöðvaðar færi heildaraflinn verulega fram úr ráðleggingu Hafrannsóknastofnunar.

Þetta fyrirkomulag við stjórn veiðanna þótti óhagkvæmt. Það leiddi til þess að skipin kepptust um að veiða sem mest áður en kæmi hugsanlega til stöðvunar, bæði til að fá örugglega sína sneið af kökunni hverju sinni og ekki síst til að safna veiðireynslu ef og þegar kæmi til kvótasetningar.

Fiskveiðiárið 2013/2014 var svo úthlutað kvóta í gulllaxi í fyrsta sinn. Heildaraflamarkið var 8.000 tonn og var kvótanum skipt á skip samkvæmt veiðireynslu eins og lög segja til um. Stærstu kvótahafarnir voru Brim og HB Grandi.

Árlegur afli síðustu ár hefur dregist nokkuð saman og sum árin var veiðin töluvert undir leyfilegum hámarksafla.

Mest unnið í sjófrystingu

Gulllaxinn er nú aðallega og nær eingöngu unninn um borð í frystiskipum. Hann er hausaður og slógdreginn og frystur þannig eða heilfrystur. Einnig eru fáein dæmi um marningsvinnslu hér á landi í gegnum tíðina. Árið 2020 var öllum afla landað sjófrystum, samkvæmt tölum Hagstofunnar.

Árið 2021 námu útflutnings- verðmæti gulllax um 555 milljónum króna. Heildarútflutningsverðmæti sjávarafurða var 296 milljarðar það árið þannig að gulllax vegur ekki þungt á heildina litið. Stærsti kaupandinn á gulllaxi var Úkraína.

Vigri RE veiddi mest

Á nýliðnu fiskveiðiári, þ.e. frá 1. september 2021 til 30. ágúst 2022, veiddust um 6.500 tonn af gulllaxi, þar af fengu 10 efstu skipin um 6.200 tonn. Og fimm aflahæstu skipin veiddu um 4.700 tonn, eða 72% aflans.
Aflahæsta skipið er Vigri RE með um 1.500 tonn, næst kemur Örfirisey RE með rúm 1.100 tonn. Brim hf. gerir bæði skipin út.

Kvótinn á fárra höndum

Ekkert þak er á kvóta í gulllaxi eins og er í nokkrum mikilvægustu nytja- tegundum sem íslensk skip veiða.

Útgerðarfélag Reykjavíkur hf. (áður Brim) er með um 39% kvótans fyrir kvótaárið 2021/2022, Brim hf. (áður HB Grandi) kemur næst með um 25% og Þorbjörn hf. er í þriðja sæti með tæp 11%. Ögurvík hf., sem er í eigu Brims, er með rétt rúm 4% gulllaxkvótans.

Þess má geta að Útgerðarfélag Reykjavíkur er stærsti hluthafi í Brimi með tæplega 34% hlut samkvæmt hluthafaskrá í lok ágúst síðastliðnum. Þessi þrjú skyldu félög, þ.e. Brim, Útgerðarfélag Reykjavíkur og Ögurvík, fengu samtals úthlutað rúmum 67% af gulllaxkvótanum í upphafi nýliðins fiskveiðiárs.

Prýðilegur matfiskur

Eins og fram er komið fer lítið fyrir marningsvinnslu úr gulllaxi hér á landi. Hann er eingöngu frystur um borð, hausaður og slógdreginn að langstærstum hluta, að því er Sólveig Arna Jóhannesdóttir, markaðs- og sölustjóri sjófrystra afurða hjá Brim hf., sagði í samtali við Bændablaðið. Eftirspurn eftir heilfrystum fiski með haus er takmörkuð og bundin við fáein lönd svo sem Egyptaland.

Sólveig sagði að vonandi sæju einhverjir tækifæri í því að vinna gulllaxinn áfram hér á landi, skapa þar með aukin verðmæti úr honum og koma honum jafnvel á diska landans.

Markaður fyrir gulllaxinn er aðallega í Austur-Evrópu og sagði Sólveig að neytendur þar hefðu lag á því að flaka og matreiða gulllaxinn þrátt fyrir að bein í honum gætu þótt til trafala. Fram kom hjá Sólveigu að eftirspurn eftir gulllaxi væri jöfn og söluhorfur ágætar. Úkraína væri ekki dottin út þrátt fyrir stríðið sem geisar þar.

Sólveig sagði að gulllax væri prýðilegur matfiskur sem gjarnan mætti vera á borðum íslenskra neytenda. Sjálf kvaðst hún hafa nýlega prófað að elda gulllaxflök. Hún reyndi nokkarar aðferðir með mismunandi kryddi og eldun. Hún sagði að þessi fiskur væri mjög bragðgóður, gott bit og holdið hvítt. Beinhreinsun hefði hins vegar tekið tímann sinn.

Hrygningarstofninn stækkað

Ráðgjöf Hafró fyrir gulllax hefur verið lengst af um 8.000 tonn á fiskveiðiári, en var hækkuð upp í rúm 9.200 tonn fiskveiðiárið 2021/2022 og í 11.520 tonn fyrir fiskveiðiárið 2022/2023. Ráðgjöfin var hækkuð vegna þess að veiðidánartalan hefur verið lág undanfarin ár og hrygningarstofninn stækkað.

Markaðssettur sem „hvítur lax“ í Noregi

Þrátt fyrir töluverða útbreiðslu gulllax í Norðurhöfum er hann ekki mikið veiddur. Beinar veiðar eru helst stundaðar í Noregi, Færeyjum og á Íslandi.
Á síðasta ári veiddu Færeyingar 8.470 tonn af gulllaxi. Þeir vinna gulllaxinn aðallega í marning til útflutnings.

Norðmenn veiða bæði stóra gulllax og litla gulllax í einhverjum mæli. Heildarkvótinn er í kringum 9.000 til 10.000 tonn.

Marningur af gulllaxi er notaður í fiskkökur og fiskbollur í Noregi. Norska nafnið yfir gulllax er „vassild“ en fiskbollurnar eru seldar undir nafninu „hvitlax“ til að gera vöruna meira aðlaðandi.

Gulllaxi er einnig blandað með öðrum fisktegundum í bollur og kökur. Í neyslukönnun í Noregi sögðust sárafáir hafa borðað gulllax en þegar niðurstöður voru kynntar var fullyrt að fjöldi Norðmanna hefði örugglega borðað gulllax í fiskbollum án þess að vita af því!

Skylt efni: gulllax

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...