Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Sæðingahrúturinn Mávi frá Mávahlíð sem átti flesta synina.
Sæðingahrúturinn Mávi frá Mávahlíð sem átti flesta synina.
Mynd / RML
Á faglegum nótum 9. janúar 2019

Lambhrútahópurinn sá jafnbesti

Höfundur: Eyþór Einarsson ábyrgðarmaður í sauðfjárrækt, ee@rml.is
Enn eitt vænleikaárið er að baki.  Meðalfallþungi á landsvísu var sá næst mesti sem verið hefur hjá afurðastöðvunum og mikið kom fram af fádæma glæsigripum í lambaskoðunum haustsins. Hér verður farið nokkrum orðum um helstu niðurstöður eftir skoðun lamba í haust.  
 
Eyþór Einarsson.
Umfang skoðunar var nokkuð svipað og sl. haust en hrútlömb þó færri. Samkvæmt Fjárvís.is (2.des 2018) voru skráðir dómar á hrútlömbum í haust 11.321 og fjöldi skoðaðra gimbra 46.839. Lömb þessi eiga uppruna á 774 búum sem er á svipuðu róli og í fyrra. Gimbrunum fjölgar heldur milli ára en hrútlömbum fækkar um u.þ.b. þúsund gripi. Ástæða fækkunar á þeim getur verið sökum samdráttar sem var í sæðingum sl. haust en ávallt hefur verið lögð áhersla á það að skoða sem mest af afkvæmum stöðvahrútanna.
 
Lambhrútahópurinn sem metinn var í haust er sá jafnbesti sem til skoðunar hefur komið. Meðaltöl fyrir lífþunga, bakvöðvaþykkt og heildarstig eru hærri en áður.  Meðalþungi hrútanna var 48,2 kg sem er hálfu kílói hærri en sl. haust.  Sé miðað við metárið 2016, þegar fallþungi dilka var 16,7 kg, þá eru hrútarnir nú 0,1 kg þyngri, fótleggur mælist sá sami eða 108,8 mm, bakvöðvaþykktin er 0,2 mm meiri nú en fitan 0,1 mm minni. Meðalhrúturinn stigast í haust upp á 84,5 stig en heildarstigin hafa sífellt verið að potast upp og aukast um 0,2 stig frá síðasta hausti. Gögn frá sláturhúsunum sýna að fallþunginn var sá næst mesti sem verið hefur eða 16,6 kg, gerðin jókst aftur um 0,01 stig milli ára og endaði í 8,99 og fitan jókst lítillega en meðaleinkunn sláturlamba var 6,38. Þessar tölur eru því jákvæð vísbending um framfarir í stofninum þó vissulega hafi árferðið mikil áhrif á þetta allt saman.  
 
Bakvöðvinn þykkastur í Vestur-Húnavatnssýslu
 
Hvergi voru skoðaðir fleiri lambhrútar en í Strandasýslu en þar voru stigaðir 1.256 hrútar. Miðað við fjárfjölda á svæðinu er þetta jafnframt hæsta hlutfall skoðaðra lamba eða um 4% af fæddum lömbum. Fæstir hrútar voru hins vegar stigaðir í Gullbringu- og Kjósarsýslu aðeins 33 gripir. Ef skoðuð eru meðaltöl hrútlamba eftir sýslum þá áttu Vestur-Húnvetningar öflugasta hrútahópinn í ár en þar var bakvöðvinn þykkastur eða 32,8 mm að jafnaði. Voru þessir hrútar jafnframt hæst stigaðir en meðal hrúturinn var með 85,6 stig.  
 
Mávur atkvæðamestur
 
Ríflega þúsund lambhrútar hlutu 87 stig eða hærra í haust.  Ef skoðað er hvaða hrútar eru þar atkvæðamestir sem feður toppanna þá eru 6 sæðingastöðvahrútar sem eiga fleiri en 15 syni í hópnum.  Mávur 15-990 frá Mávahlíð á þar flesta eða 47.  Hann er jafnframt með hæst meðaltal fyrir heildarstig af stöðvarhrútunum.   Þá kemur Bjartur 15-967 frá Ytri-Skógum með 45 syni. Báðir þessir hrútar njóta þess að vera bæði öflugir lambafeður og gefa hreinhvíta ull. Tvistur 14-988 frá Hríshóli er þriðji með á 37 syni. Næstir þar á eftir koma Kollur 15-983 frá Árbæ (33), Lási 13-985 frá Leifsstöðum (27) og Frosti 14-987 frá Ketilseyri (17).
 
Hæst stiguðu lambhrútarnir
 
Sá hrútur sem hæst var metinn í haust var lamb nr. 169 frá Landamótsseli í Suður-Þingeyjarsýslu með 92,5 stig.  Þessi þroskamikli og vel gerði hrútur rekur ættir sínar í Gaur 09-879 frá Bergsstöðum og Snæ 07-867 frá Ingjaldsstöðum í þriðja lið.
Næst hæsti hrúturinn er svargolsóttur, lamb nr. 410 frá Syðri-Urriðaá í Miðfirði með 91 stig.  Faðir hans, Galsi 17-018 er kominn út af Grábotna 06-833 í beinan karllegg í 4. lið en móðir hans er dóttir Runna 11-014 frá Syðri-Urriðaá.  
 
Þriðji efsti hrútur landsins er einnig með 91 stig en hann er frá Grænahvammi á Vatnsnesi. Þetta er hvítur kollóttur hrútur sem hlotið hefur nafnið Herkúles (lamb nr. 288). Herkúles er undan Lampa 12-980 frá Melum og aðkeyptri á sem fædd er á Bassastöðum í Steingrímsfirði.
 
Nánar má skoða dóma þessara hrúta  í töflu 1 þar sem listaðir eru upp þeir gripir sem efstir stóðu í hverri sýslu.
 
Gert er upp á milli hrúta sem standa jafnir með því að taka tillit til samanlagðra stiga fyrir frampart, bak og afturpart, síðan er horft á bakvöðvaþykktina, þá fituþykkt á baki og ef einhverjir standa enn jafnir ræður lögun bakvöðvans.
 
Gefum ekkert eftir í gæðum
 
Stundum heyrast þær raddir að áhersla á þykkt bakvöðvans séu of miklar í ræktunarstarfinu þar sem bóndinn njóti þess ekki í öllum tilfellum í kjötmatinu og jafnvel að aukin holdfylling yfir höfuð skili bændum of litlu, þunginn sé það sem öllu máli skiptir.  
 
Vissulega væri réttlátara ef beinn ávinningur bóndans væri enn meiri af því að bæta vöruna og gera hana hagkvæmari til vinnslu.  Hafa ber í huga að þær gríðarlegu framfarir sem náðst hafa í því að bæta bakvöðvann hafa þó skilað því að hryggurinn er lang eftirsóttasti og verðmætasti skrokkhlutinn í dag. Það er mikið metnaðarmál fyrir framleiðendur  lambakjöts að gera lambið sífellt samkeppnishæfara á kjötmarkaði. Því skiptir miklu máli fyrir heildarhagsmuni sauðfjárbænda að framleiða gæðavöru þar sem áhersla er lögð á kjötgæði í víðum skilningi.  
 
Verkefnin framundan, varðandi kjötgæðin, eru að halda áfram að jafna og bæta framleiðsluna, halda fitunni hæfilegri og standa vörð um bragðgæðin. Þar leggja bændur sitt af mörkum með því að framleiða úrvalsgripi. Meðferð lamba fyrir og eftir slátrun getur einnig haft mikil áhrif á gæði vörunnar og þar þurfa allir að standa saman um að stuðla að því, að neytandi sé áfram ánægður og stoltur af því að eiga kost á að fá heimsins besta lambakjöt (að mínu mati) á  diskinn sinn.  
 
Almenn og mikil þátttaka í skoðunum á lömbum og sæðingum hafa verið lykil þættir í því að keyra framfarir áfram í stofninum.  Haustið 2017 stóðu sauðfjárbændur frami fyrir því að greinin var lent í öldudal. Afurðaverð hrundi og hafði það strax þónokkur áhrif á þátttöku í ræktunarstarfinu þar sem samdráttur varð í sauðfjárskoðunum og sæðingum.
 
Nefna má, að hugmyndir eru til skoðunar um að spyrða saman gjaldtöku fyrir lambadóma við þátttöku í sæðingum þannig að þeir sem eru duglegir að sæða njóti betri kjara gagnvart dómum á lömbum.
 
Hvet ég bændur eindregið til að vera duglegir að nýta sér kosti stöðvahrútanna og fara varlega í að beita sparnaðarhnífnum gegn kynbótunum heldur fjárfesta í arðmeiri fjárstofni. 
 
Góðar stundir.
 
„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...