Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Íslenskur fjósaköttur.
Íslenskur fjósaköttur.
Á faglegum nótum 18. febrúar 2022

Komdu hérna, kisa mín

Höfundur: Vilmundur Hansen

Kettir eru eina dýrið sem hefur gert manninn að húsþjóni og annaðhvort elskar fólk þá eða hatar og ef til vill eitthvað þar á milli. Kisur voru dýrkaðar í Egyptalandi til forna. Þær eru sagðar hafa níu líf og til Íslands bárust kettir á landnámsöld.

Af uppruna katta er það að segja að samkvæmt einni sögu urðu þeir til þegar djöfullinn var að reyna sig við Guð í sköpunarlistinni.

Kettir eru eitt vinsælasta gæludýrið í heimi og árið 2021 er áætlað að til hafi verið 220 milljón heimiliskettir og 480 villikettir, sem eru afkomendur heimiliskatta, á jörðinni.

Í reglugerð um velferð gæludýra er kveðið á um skyldu gæludýraeigenda til að láta örmerkja alla hunda, ketti og kanínur, þannig að í dag ættu öll gæludýr að finnast í grunninum. Þrátt fyrir merkingarskyldu er ekki vitað hversu margir kettir finnast á Íslandi. Skráðir kettir á landinu eru rúmir 20 þúsund og eitthvað er um óskráða ketti. Gæti því heildarfjöldi höfuðborgar- og landsbyggðarkatta gróft áætlað verið milli 25 til 28 þúsund.

Karldýr katta kallast högni eða fress, kvendýrið læða eða bleyða og afkvæmin kettlingar.

Bengalkettir urðu til með pörun frumskógarkattar frá Suðaustur-Asíu við ýmsa húsketti til dæmis abyssiníu, ocicat og fleiri afbrigði.

Ætterni

Heimiliskötturinn er eina tamda tegundin innan ættarinnar Feldae. Talið er að allar kattartegundir innan ættarinnar séu komnar frá sama forföður og -móður sem var uppi fyrir 10 til 15 milljón árum. Ættkvíslin Felix kom fram á sjónarsviðið fyrir sex til sjö milljónum ára og tegundin F. sylvestri, sem heimiliskettir, fyrir um tveimur milljónum ára.

Elstu minjar um að kettir hafi verið tamdir eru frá Egyptalandi, norðanverðri Afríku og löndum við botn Miðjarðarhafsins þar sem fundist hafa grafir katta af tegundinni F. lybica við mannabústaði frá því milli 7500 og 7200 fyrir Krist. Tamdir kettir eru bein afleiðing landbúnaðarbyltingarinnar og aukinnar kornræktar og hlutverk þeirra í fyrstu það helst að veiða mýs og halda smávöxnum afætum kornsins í stefjum.

Fönikíumenn, kaupmenn frá Karþagó og Etrúar versluðu með ketti og kynntu þá fyrir íbúum Evrópumegin við Miðjarðarhafið og á fimmtu öld eftir Krist voru kettir algengur í álfunni allt norður til Þýskalands, bæði sem húskettir til músaveiða og sem villikettir.

Nornamessa í lok 16. aldar.

Rándýr

Líkt og stóru frændur katta, ljón og tígrisdýr, eru kettir kjötætur og afkastamikil rándýr og vitað að þeir veiða yfir 1.000 dýrategundir og ekki síst smáfugla og mýs. Kettir eru hópdýr en veiða einir og eru virkastir við veiðar við sólarlag og sólarupprás.

Við veiðar beita kettir helst tveimur aðferðum og fer aðferðin eftir því hver bráðin er. Önnur felst í því að sitja fyrir bráðinni og stökkva á hana þegar hún er komin í færi og er þeirri aðferð oft beitt við músaveiðar. Þegar kemur að því að veiða fugla læðast kettir að þeim til að stökkva á þá.

Sú hugmynd að kettir leiki sér við bráðina áður en þeir drepa hana með því að sleppa henni og grípa hana aftur er röng og felst atferlið í því að þreyta bráðina það mikið að hún geti ekki skaðað köttinn áður en lagt er til atlögu við að kála henni.

Kettir eiga það einnig til að færa húsþjónum sínum matargjafir, hér á landi dauðan fugl eða mús, og er líklegasta skýringin sú að kötturinn hafi samþykkt þjóninn inn í félagakerfi sitt.

Kettir lepja vökva hratt með tungunni og sjúga hann síðan upp í munn til að kyngja honum. Almennt kjósa kettir vatn að drekka fram yfir mjólk og eldri kisur eru yfirleitt með mjólkuróþol.

Eins gagnlegir og kettir eru við músaveiðar eru flestir sammála um að dráp þeirra á smáfuglum sé skelfilegt, ekki síst ungum í hreiðri, sem þeir drepa í hundruð milljóna tali um allan heim á hverju ári. Reyndar ættu allir kattareigendur hér á landi og annars staðar að sjá sóma sinn í að halda köttunum innanhúss á vorin á meðan varptíminn gengur yfir.

Líkamsbygging

Kettir eru ferfætt náttdýr með góða sjón, þefskyn og heyrn. Líkaminn er langur, rennilegur og sveigjanlegur. Að meðaltali eru þeir um 23 sentí­metrar að hæð, 46 sentímetrar að lengd og með 30 sentímetra langt skott og fjögur til sex kíló að þyngd eftir afbrigðum. Fress er yfirleitt stærri en læða.

Íslenski fjósakötturinn býr gjarnan að nærveru við önnur dýr auk þess að geta stundað músaveiðar af kappi.

Tennurnar eru beittar og klærnar, fimm á framfótum og fjórar á afturfótunum, inndraganlegar. Kisur mjálma, mala og hvæsa eftir því hvernig skapi þeir eru í og fressinn merkir sér yfirráðasvæði með lyktarmerkjum.

Heimiliskettir eru eina kattar­tegundin sem getur sperrt skottið beint upp í loftið. Villikettir sperra það beint út og stinga því á milli fótanna þegar þeir ganga.

Feldur katta er yfirleitt marglitur en einnig eru til einlitir kettir. Læður gjóta venjulegast tveimur til fimm kettlingum í goti.

Æviskeið

Meðalævi heimiliskatta hefur aukist undanfarna áratugi vegna betri umhirðu. Á áttunda áratug síðustu aldar var meðalævi þeirra sjö ár en í dag er hún 15 ár. Elsti köttur sem heimildir eru til um var læða sem gekk undir heitin Cream Puff og lifði í 38 ár.

Orðsifjar

Heimiliskettir, eða íslenski fjósa­kötturinn, er undirtegund villikatta sem kallast Felix silvestris og kallast Felix silvestis catus eða Felix catus á latínu. Enska orðið cat er talið vera komið úr bóklatínu cattus og það orð komið úr egypsku, coptic, sem er heiti á fress eða coptit sem er læða. Sumir segja að orðið cat sé upprunnið í máli Núbía, kaddiska.

Í Danmörku og Noregi segja menn kat og katt og þaðan er líklegast heiti skepnunnar köttur komið. Auk hefðbundinna heimiliskatta eru til tugir afbrigða katta í ræktun með ólíku útliti og litbrigðum.

Sem dæmi er til hárlaust afbrigði sem kallast Sfinxar/snoðkettir, en ræktun þeirra hófst árið 1966 í Hollandi eftir að fæddust kettlingar með þann genagalla að á vantaði hárið. Rófulausar tegundir má einnig finna, svokallaðir Manarkettir eða Manx – upphaflega ættaðir frá eyjunni Mön á Írlandshafi.

Kettir í Egyptalandi til forna

Auk þess að vera með þeim fyrstu til að temja ketti og nota til að halda afætum frá kornbirgðum sínum litu Egyptar á ketti sem guðlegar verur í ríflega 3.000 ár. Gyðjan Baast er oft sett fram sem kona með höfuð af ketti á myndum en helgi hennar var mest um 2.900 árum fyrir upphaf kristins tímatals.

Sagan segir að þegar Persar gerðu árás á Pelesium í Egyptalandi, 525 fyrir Krist, hafi þeir fest lifandi ketti á skildi sína og að Egyptar hafi ekki þorað að ráðast til atlögu við þá vegna hræðslu við að drepa kettina og borgin því verið Persum auðveld viðureignar. Dæmi er um að rómverskur hermaður í Egyptalandi, sem drap kött þegar dýrið hljóp undir hjólið á hestvagni, hafi verið grýttur til dauða af æstum múgi og þegar heimiliskötturinn drapst var algengt að húsbóndinn rakaði af sér augabrúnirnar til að tjá sorg. Dauðir kettir voru oft varðveittir sem múmíur og fjöldi slíkra hefur fundist í gröfum í Egyptalandi.

Skýring Egypta á góðri náttsýn katta var að augasteinar þeirra fönguðu sólargeisla á daginn og sendu þá frá sér á nóttunni.

Stundum er sagt fólki til háðungar að það sé eins og rófulaus köttur en færri vita að með því er verið að vísa til afbrigðis Felix Catus sem kallast Manx og er rófulaust.

Grikkir og Rómverjar héldu marðardýr til að veiða nagdýr og furðaði gríski sagnfræðingurinn Herodotus sig á þeim sið Egypta að hafa ketti sem gæludýr þar sem hann segist bara hafa séð slík kvikindi villt. Smám saman viku merðirnir fyrir köttum í Grikkja- og Rómaveldi og þeir tengdir grísku gyðjunni Artemis og Díönu í Róm.

María, Freyja, Múhameð og kettirnir

Eftir að kristni varð að ríkistrú í Rómaveldi tók María mey við hlutverki fyrrnefndra gyðja og til er fjöldi helgimynda sem sýna kisu í nálægð við guðsmóðurina.

Í ítalskri helgisögu segir að læða hafi gotið kettlingum á sama tíma og í sama fjárhúsi og María mey ól Jesúbarnið, en í annarri segir að nóttina eftir fæðingu frelsarans hafi læða skriðið upp í jötuna til að halda hita á Jesú. Kettir eru aldrei nefndir í Biblíunni.

Snoðköttum hefur verið hampað gegnum tíðina vegna sérstöðu sinnar, þó ekki séu þeir að jafnaði skapgóðir. Mögulega þó mýkri undir tönn en flestir.

Samkvæmt norrænni goðafræði ekur Freyja, gyðja ástar og frjósemi, um í vagni sem dreginn er af tveimur köttum. Í japanskri þjóðtrú eru maneki neko líkneski af kisum tákn um gæfu og velsæld og í japönskum þjóðsögum segir að kettir breytist í öfluga anda þegar þeir drepast. Kettir njóta talsverðrar virðingar innan íslam og segir sagan að Múhameð hafi átt kött sem hét Muazze og haldið mikið upp á. Einu sinni þegar spámaðurinn ætlaði til bæna lá dýrið sofandi á ermi bænaslopps hans og í stað þess að vekja köttinn klippti Múhameð ermina af sloppnum.

Katrín mikla, keisaraynja í Rússlandi, var kattavinur og heiðraði þá með því að gera ketti að opinberum rottuveiðurum keisaraveldisins.

Kettir á miðöldum

Talsvert fer að halla undan helgi og virðingu fyrir köttum þegar kemur fram á miðaldir. Kettir, sérstaklega svartir, voru tengdir við galdra, djöfulinn og óheppni.

Í Belgíu og Frakklandi var um tíma vinsælt tómstundagaman að hengja upp tunnu, poka eða körfu fulla af köttum yfir eldskesti og kveikja í, alþýðu og hefðarfólki til mikillar skemmtunar. Mun þessi skemmtun vera undanfari þess að slá köttinn úr sekknum eða tunnunni. Því hefur lengi verið trúað að kettir hafi fleiri en eitt líf.

Í sumum löndum eru þau sögð vera níu, í Suður-Ameríku eru þau sjö en í Arabalöndunum eru líf kattanna sögð vera sex.

Í japanskri þjóðtrú eru maneki neko líkneski af kisum tákn um gæfu og velsæld.

Nytjar

Upphafleg nyt af köttum var að þeir veiddu mýs í korngeymslum og í mannabústöðum og ekki fyrir löngu var frétt um að kettir væru notaðir á listasöfnum til að veiða mýs til að koma í veg fyrir að þær skemmi verk með nagi.

Skinn af köttum er mjúkt og haft í kraga og leðrið í hanska og skófatnað.

Þrátt fyrir að ekki sé til siðs á Vesturlöndum að borða ketti, eins og áður var gert, þykja þeir ágætis matur víða í Austurlöndum þrátt fyrir að dregið hafi úr neyslu þeirra.

Til er fólk sem hræðist ketti á svipaðan hátt og aðrir hræðast köngulær. Kattarhræðsla af þessu tagi nefnist ailurophobia. Júlíus Cesar, Hinrik II Englandskonungur og Napóleon voru allir haldnir óyfirstíganlegri hræðslu á köttum.


Kettir á Íslandi

Talið er líklegt að kettir hafi borist til Íslands með landnámsmönnum og ekki ósennilegt að þeir hafi haft það hlutverk að veiða mýs um borð í skipunum sem báru fyrstu landnemana til landsins, alveg eins og síðar þegar kettir þóttu sjálfsagðir í áhöfn skipa á tímum landafundanna miklu.

Katta er sjaldan getið í Íslendinga- sögunum nema í Vatnsdælu þar sem segir að ruddinn og þjófurinn Þórólfur sleggja hafi átt tuttugu ketti svarta, stóra og tryllta, og haft þá til að verja híbýli sín. Katta er einnig getið í Víga-Styrssögu þar sem þeir eru hafðir til músaveiða.

Kattarkássa á veitingahúsi í Víetnam.

Kattbelgir og kattarskinn eru nefnd í verðlagsskrá sem var samþykkt á Alþingi, líklega á 12. öld, og er varðveitt í öðru aðalhandriti lögbókarinnar Grágásar, Konungsbók. Annars staðar í sömu skrá eru kattaskinn sögð vera metfé.

Í kristinna laga þætti Grágásar er tekið fram að óheimilt sé að hafa þá til matar, eins og önnur klódýr.

Lítið hefur fundist af kattarbeinum við fornleifarannsóknir hér á landi og helst á öskuhaugum með matar­úrgangi.

Katta er víða getið í þjóðsögum og samkvæmt einni þjóðtrú eru bestu kettir til músaveiða svartir og gotið í maí auk þess sem þrílitir kettir eiga að vera góðir veiðikettir. Sagt er að köttur spái hláku ef hann þvær sér aftur fyrir hægra eyrað á vetrardag, ef gamlir kettir leika sér á vetrum veit það á illviðri og það þykir illt að kaupa köttinn í sekknum.

Kötturinn Grettir er þekktur nautnaseggur og letingi sem hefur glatt ýmsa með tilveru sinni frá árinu 1978.

Frægastur allra katta á Íslandi er líklega jólakötturinn sem er heimilisdýr Grýlu og Leppalúða. Kötturinn sá er þeirrar náttúru haldinn að éta börn sem ekki fá nýja flík fyrir jólin. Í þjóðsögum Jóns Árnasonar segir: „Þó gátu menn ekki notið jólagleðinnar með öllu áhyggjulausir því auk jólasveinanna var það trú að óvættur væri á ferð sem kallaður væri jólaköttur. Hann gerði reyndar engum þeim mein sem eignuðust einhverja nýja flík að fara í á aðfangadagskvöldið, en hinir sem ekkert nýtt fat fengu „fóru allir í jólaköttinn“ svo hann tók þá eða að minnsta kosti jólarefinn þeirra og þótti þá góðu fyrir goldið ef kötturinn gerði sig ánægðan með hann.“

Í dag þekkjum við flest ketti sem hugguleg nautnadýr sem þykir gott að liggja í fanginu á okkur og láta klappa sér og launa gælurnar með mali.

Baast, kattargyðja Egypta til forna.

Skylt efni: kisur kettir húsdýr

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...