Fræðsluhornið 22. nóvember 2019

Kaktusar og pálmar

Vilmundur Hansen

Grasagarðurinn í Valencia á Spáni á sér langa sögu. Í garðinum voru upphaflega ræktaðar lækningajurtir og hann tengdur lækningum. Hann hefur nokkrum sinnum verið fluttur en í dag tengist hann háskólanum í Valencia. Við fyrstu sýn eru kaktusar og pálmar áberandi í garðinum.

Elsta útgáfa garðsins varð til 1567 og í rúm tvö hundruð ár þjónaði garðurinn læknavísindunum sem safn lækningajurta þar sem kennarar fóru um og fræddu nemendur sína um þess tíma skilning á gagnsemi jurta til lækninga.

Í garðinum eru 600 tegundir af kaktusum og þykkblöðungum sem vaxa utandyra og í gróðurhúsum.

Fyrsti umsjónarmaður garðsins, Joal Placa, var hvort tveggja prófessor í grasafræði og læknir og var hlutverk hans að hafa umsjón með garðinum og rækta lækningajurtir.

Placa þótti nokkuð heimaríkur í garðinum og árið 1631 fóru fyrirlesarar í læknisfræði og læknar í Valencia fram á að settur yrðu upp annar lækningajurtagarður sem þeir hefðu frjálsan aðgang að ásamt nemendum sínum. Tveimur árum síðar voru tveir aðrir lækningajurtagarðar komnir í ræktun í útjaðri borgarinnar og árið 1684 voru garðarnir orðnir þrír og allir á mismunandi stöðum.

Landafundirnir og breyttir tímar

Líkt og annað breyttist heimur grasafræðinnar eftir landafundina miklu og siglingar manna um öll heimsins höf. Mikið magn af óþekktum og spennandi plöntum barst til Evrópu og í framhaldi af því breyttust margir lækningajurtagarðar í grasasöfn fyrir framandi plöntur.

Hugmyndin var að rannsaka skyldi allan gróður Drottni og kónginum til dýrðar en ekki bara lækningajurtir.

Flugugleypir af ættkvíslinni Nepenthes í nítjándu aldar gróðurhúsi sem geymir kjötætuplöntur. Lögun plöntunnar vakti áhugaverðar umræður um notagildi hennar.

Lækninga- og nytjaplöntur

Árið 1802 var ákveðið að setja lækningajurta- og grasagarð borgarinnar undir hatt grasafræði og landbúnaðardeild háskólans í Valencia og sameina garðana í einn. Garðinum var fundið pláss skammt frá skólanum og rétt utan við þáverandi borgarmúra Valencia. Í framhaldi af því voru plöntur úr tveimur lækningajurtagörðunum fluttar á einn stað með ærnum tilkostnaði

Á saman tíma var starfssvið garðsins aukið og jafnframt því að vera safn lækningajurta var hann tengdur tilraunum á nytjajurtum fyrir landbúnað.

Starfsemi og uppbygging garðs­ins stöðvaðist þegar Napóleon og hans lið hertóku borgina í nóvember 1811. Þáverandi umsjónarmanni garðsins, Vincent Alfonso Lorente, var varpað í tukthúsið og hann dæmdur til afhausunar. Hann fékk þó að halda höfði fyrir atbeina Leon Dufour, sem var læknir og náttúrufræðingur í liði Napóleons. Eftir að hersveitir Napóleons yfirgáfu borgina snemma í janúar 1812 var skipt um stjórnanda garðsins. Dufour var látinn víkja og við tók José Pizcueta Dondey. Sagt er að undir hans stjórn hafi garðurinn náð sínum hæstu hæðum og fjöldi plantna í honum margfaldast og verið um 6.000 þegar mest var.

Kunnuglegur kaktus.

Hnignun, órækt og flóð

Á tuttugustu öld fór garðurinn í talsverða órækt vegna vanrækslu í kjölfar tveggja heimsstyrjalda og langvarandi borgarastyrjaldar á Spáni. Garðurinn varð einnig fyrir verulegu tjóni í stórflóði í borginni árið 1957.

Mikið af bókum um grasafræði, skriflegar heimildir um sögu garðsins og safn þurrkaðra plantna glataðist í flóðinu og margar lifandi plöntur drápust vegna leðju sem lagðist yfir þær. Þar á meðal allur gróður í niðurgröfnu nítjándu aldar gróðurhúsunum.

Næstu ár fóru í að bjarga því sem bjargað var í garðinum. Árið 1984 féllu mörg há tré í garðinum eða skemmdust illa þegar fellibylurinn hortensía gekk yfir borgina, eins kaldhæðnislegt og nafnið kann að hljóma.

Það var ekki fyrr en árið 1987 að hafist var handa við endurreisn garðsins og húsanna sem honum tilheyra fyrir alvöru. Garðurinn, El Botánic, eins og hann er almennt kallaður, var aftur opnaður almenningi eftir talsverðar lagfæringar árið 1991.Viðgerðum á húsunum og tiltekt í garðinum lauk þó ekki fyrr en aldamótaárið 2000 með formlegri opnun nýrrar rannsóknaraðstöðu honum tengdum.

Í dag er garðurinn eitt af höfuðsöfnum lifandi plantna sem finnast villtar á Spáni og við Miðjarðarhafið auk þess sem þar er að finna mikið safn þurrkaðra plöntusýnishorna og lífsýna úr plönturíkinu.

Gamall eikarstofn með gati sem hefð er fyrir að gestir garðsins smeygi sér í gegnum. 

Gróður víða að

Í garðinum sem skipt er í svæði með ólíkum gróðri er að finna um 4.500 ólíkar plöntutegundir víðs vegar að úr heiminum en við fyrstu sýn eru kaktusar og pálmar mest áberandi. Enda eru þar nálægt 600 tegundir af kaktusum og þykkblöðungum sem vaxa utandyra og í gróðurhúsum. Í heildina er að finna í garðinum um 450 tré sem tilheyra 250 ólíkum tegundum.

Þegar gengið er um garðinn er á ólíkum svæðum meðal annars að finna söfn sem geyma nytjajurtir, plöntur sem vaxa í löndum í kringum Miðjarðarhafið, kaktusa og lækningajurtir, alls 27 ólík söfn. Sum þessara safna, eins og til dæmis nytjajurtasafnið, er skipt niður í ólík yrki af vínvið, plöntur til iðnaðar, litunar og skrauts eins og mismunandi yrki af rósum. Sé garðurinn heimsóttur á mismunandi árstímum breytir hann stöðugt um lit og ilm og hljóð vegna fuglalífsins sem breytist eftir árstíðum. 

Garðurinn geymir safn um 50 ólíkra sítrustegunda, allt frá venjulegum appelsínum til sjaldgæfra rótarsorta af greipaldini og mandarínum.

Elstu lifandi trén í garðinum eru um 180 ára gömul en þar er líka að finna dauðan stofn af gamalli eik með gati í og hefð er fyrir að gestir smeygi sér í gegnum tréð eins og um endurfæðingu úr skauti Móður jarðar sé að ræða.

Í garðinum er auk gróðurs mikið um villiketti sem hafa fundið sér þar afdrep og ekki annað að sjá en að þeim líði ágætlega innan um plönturnar.

Forsæluhúsið. 

Gróðurveggur og gróðurhús

Garðurinn er umkringdur stórum vegg og gengið er inn í hann í gegnum húsasund og auðvelt að missa af innganginum ef maður hefur ekki augun opin þar sem inngangurinn er einungis merktur með litlu veggskilti.

Að innan er veggurinn þakinn klifurjurtum og meðfram honum eru einnig stæðilegir bambusar. Í fimm gömlum, litlum og eilítið niðurgröfnum gróðurhúsum frá fyrri hluta nítjándu aldar eru núna hýst brönugrös, bromelíur, kjötætuplöntur, burknar og viðkvæmir kaktusar og þykkblöðungar.

Nýjasta byggingin í garðinum sem opin er almenningi er svokallað skuggahús. Húsið er stórt og bogadregið og þakið opið en samt nógu lokað til að þar sé þægilegur skuggi og svalara en utan dyra enda húsið hugsað sem afdrep í forsælunni fyrir gesti garðsins þegar sólin er hæst á lofti og hitinn mestur. Nokkurs konar síestahús.  

Erlent