Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 mánaða.
Kakkalakkar  hafsins
Fræðsluhornið 8. apríl 2022

Kakkalakkar hafsins

Höfundur: Vilmundur Hansen

Neysla á humar hefur tekið stakkaskiptum og farið úr því að vera leiðinlegur hversdagsmatur sem kallaður var kakkalakki hafsins yfir í að vera dýrt eftirlæti sælkera.

Humar tilheyrir hryggleysingjum með harða skel. Þeir eru af ætt krabbadýra og ættkvísl sem kallast Nephropsis en tegundir innan hennar eru 15. Auk þess eru til humrar sem tilheyra ættkvíslinni Homarus. Humar sem veiðist við Ísland kallast leturhumar, eða Nephrops norvegicus á latínu.

Með heilann í hálsinum

Útlitslega hafa humrar lítið breyst síðustu hundrað milljón árin. Tegundir innan ólíkra ættkvísla eiga það sameiginlegt að skrokkurinn er langur og mjór og með afar kröftugan hala.

Humrar, Nephropsis, eru botndýr sem grafa sér holur í malar- eða sandbotni sem þeir halda sig í milli þess sem þeir ganga hægt um botninn í fæðuleit. Á flótta synda humrar aftur á bak og geta þeir skotist um á allt að fimm metra hraða á sekúndu.

Evrópskur humar er með bláleita skel og verður um 60 sentímetrar að lengd og 6 kíló að þyngd.

Humrar hafa blátt blóð, fimm pör af fótum og eru tvö fremstu pörin ummynduð í klær en fremsta parið langstærst og sterkast. Framan á hausnum eru langir fálmarar og áberandi augu sem eru á stilkum hjá sumum tegundum. Heili humra er í hálsinum á þeim, nýrun í haus, tennurnar í maganum og þeir finna bragð og heyra með fótunum. Misjafnt er milli humareinstaklinga hvort þeir beita hægri eða vinstri klónni meira og þeir því annaðhvort rétt- eða örvhentir ef þannig má að orði komast. Taugakerfi humars er lítið.

Líkt og önnur skeldýr mynda humrar nýja skel eftir því sem þeir vaxa og eru dýrin mjög varnarlaus á þeim tíma sem þau missa gömlu skelina og mynda nýja. Humrar vaxa því í stökkum.

Yfirleitt er humar dökkur á litinn og oft með grænni eða grænbrúnni slikju sem gerir þeim auðvelt að falla inn í umhverfið á hafsbotninum. Humar er samt til í fjölda litaafbrigða, eins og leturhumar sem er appelsínugulur á litinn. Einnig kemur fyrir að dýrin skipti um lit við skelskipti.

Humrar eru alætur og lifa á fjölbreyttri fæðu; fiski, skeldýrum, sjávarormum og sjávargróðri. Í eldi eiga þeir það til að éta aðra humra.

Langlífi

Humrar sem ná fullorðinsárum og verða ekki fyrir áfalli eða eru veiddir geta náð allt að fimmtíu ára aldri í náttúrunni. Rannsóknir benda einnig til að það hægi ekki á lífsstarfsemi humra við aukin aldur og að eldri dýr séu frjósamari en ung. Einnig er talið að helsta ástæða dauða eldri humra sé að stærð skeljarinnar sé takmarkandi þáttur.

Samkvæmt Heimsmetabók Guinness vó stærsti Ameríkuhumar sem veiðst hefur 29,5 kíló og veiddist hann við Nova Scotia í Kanada.

Amerískur humar er milli 20 og 50 sentímetrar að lengd og allt að 20 kíló að þyngd.

Saga humaráts

Í dag er humar eftirsóttur sælkeramatur og verð á honum hátt en þannig hefur það ekki alltaf verið.
Vísbendingar um humarát ná langt aftur í fornöld og má víða finna á ströndum við auðug humarmið hóla og nánast fjöll af humarskeljum sem hafa safnast saman í gegnum árþúsundin. Fornleifarannsóknir tengdar mataræði hafa sýnt að fólk við strendur Englands og Suður-Afríku borðaði humar fyrir um 100 þúsund árum og við strendur Ástralíu og Papúa Nýju-Gíneu fyrir 35 þúsund árum.


Humar var þekkt fæða meðal Moche-fólksins sem bjó við hafið á vesturströnd Perú frá sirka 50 til 800 eftir Krist. Auk þess sem skeljarnar voru notaðar til að búa til lit, skraut og verkfæri.

Rómverjar litu á humar sem hversdagsmat í fínni kantinum og verð á honum var breytilegt og hann stundum fluttur í snjó til Rómaborgar væri verði á honum hátt.

Mósaíkmyndir sem fundist hafa við fornleifarannsóknir í Pompei benda einnig til að humar hafi verið vinsæll matur þar.

Humar er nefndur í franskri matreiðslubók sem var ætluð aðlinum, Le Viandier de Taillevent, frá því um 1300. Í uppskriftinni er mælt með að humar sé hitaður í ofni eða soðinn í vatni og hvítvíni og borðaður með ediki.

Í annarri franskri matreiðslubók, La Ménagier de Paris, sem kom fyrst út 1393 og var ætluð almúganum og konum sem ráku greiðasölu, eru fimm uppskriftir fyrir humar.

Á fjórtándu öld þótti humar fínn matur í innsveitum Evrópu og verð á honum hátt og einungis á valdi efnaðra að borða humar og hann yfirleitt borðaður kaldur með ediki. Vegna humaráts hástéttanna fór fátækt fólk sem bjó við ströndina að líta á humar sem fínan mat til hátíðabrigða en ólíklegt að fátæklingar inn til landsins hafi nokkurn tíma lagt sér hann til munns.

Humrar eru alætur og lifa á fjölbreyttri fæðu, fiski, skeldýrum sjávarormum og sjávargróðri.

Aukin áhersla á föstusið kaþólsku kirkjunnar urðu til að auka vinsældir fiskmetis á sautjándu öld og var humar þar engin undantekning. Í kjölfarið fór að bera á fækkun humars á helstu veiðisvæðunum og um leið auknum vinsældum hans sem lúxusfæðu og virðingartákns.

Ekki nema tvisvar í viku

Vinsældir humars náðu aldrei miklum hæðum meðal evrópskra landnema í Norður-Ameríku og litið á hann sem fátækrafæðu og mat fyrir vinnuhjú. Til eru samningar þar sem fram kemur að vinnufólk skuli ekki fá humar í matinn nema þrisvar í viku og í öðrum tilfellum neitaði vinnuhjúið alfarið að borða hann. Á sama tíma var humar fangafæði í flest mál og þótti hann nógu góður ofan í þann lýð sem best þótti geymdur bak við lás og slá. Auk þess sem hann þótti nothæfur sem áburður, beita, kattarmatur og ódýr niðursuðuvara.

Árið 1876 var skrifuð lýsing á heimili fátæks fólks í Bandaríkjunum og sagt að fátt væri óþrifalegra en að sjá humarskeljar á gólfinu því að humrar væru ekkert annað en kakkalakkar hafsins.

Fyrsta flokks humarhalar tilbúnir til útflutnings.

Í kreppunni 1929 til 1930 er sagt að fólk sem bjó nálægt humarmiðum hafi læðst niður að strönd í skjóli nætur og lagt humargildrur til að hafa eitthvað í matinn. Á sama tíma þótti það til skammar að senda börn í skólann með humarsamloku.

Geymsluþol fersks humars er stutt, í mesta lagi tveir dagar án kælingar. Neysla hans var því lengi bundin við sjávarsíðuna og ekki fyrr en niðursuðu- og svo frystitæknin var fundin upp að hægt var að flytja hann langar leiðir.

Humar var ekki meðal þeirrar fæðu sem var skömmtuð á tíma seinni heimsstyrjaldarinnar og voru þeir á borði fólks af öllum stéttum og niðursoðinn humar var meðal þess sem var á fastamatseðli bandarískra hermanna í því stríði.

Það var ekki fyrr en um miðja nítjándu öld að íbúar New York og Boston fengu smekk fyrir humaráti að vinsældir hans fóru að aukast og farið var að selja hann á dýrum veitingahúsum sem voru vinsæl meðal kvikmyndastjarna og milljónamæringa.

Gyðingar og meðlimir sumra greina íslam mega ekki borða humar þar sem skeldýr eru
ekki kósher.

Ættkvíslin Homarus

Mest veiddu humar­tegundir í heimi eru H. Americanus, amerískur humar, og H. gammarus, evrópskur humar. Tegundir innan ættkvíslarinnar Homarus eru átta og yfirleitt stærri en frændur þeirra innan ættkvíslarinnar Nephrops.

Leturhumar í vinnslu.

Evrópskur humar, sem er með bláleita skel, verður um 60 sentímetrar að lengd og 6 kíló að þyngd. Amerískur humar er minni en þyngri og er milli 20 og 50 sentímetrar að lengd og allt að 20 kíló að þyngd.

Útbreiðsla ameríska humarsins er með strandlengjunni frá Labrador til Norður-Karólínu. Evrópskur humar veiðist frá norðanverðum Noregi til Marokkó, við Bretlandseyjar og í Miðjarðarhafi en ekki við Ísland.

Soðinn humar

Erlendis er humar yfirlitt borinn fram soðinn í skelinni og kryddaður með smjöri, sítrónu og pipar, í humarsúpu eða salati. Sú hefð að sjóða humar lifandi er víða aflögð í dag og ólögleg þrátt fyrir að enn séu til þeir sem segja að taugakerfi humra sé svo lítið og vanþróað að dýrið finni ekki fyrir sársauka.

Sú hefð að sjóða humar lifandi er víða aflögð í dag og ólögleg.

Þar sem humrar geta orðið tugi ára gamlir safnast þungmálmar upp í líkama þeirra líkt og öðrum dýrum. Samkvæmt reglum Matvæla­stofnunar Bandaríkjanna má magn kvikasilfurs ekki fara yfir 0,107 ppm. í humar til að hann teljist hæfur til neyslu.

Veiðar

Stór humar af ættkvíslinni Homarus er langoftast veiddur í þar til gerðar gildrur. Gildran eru þannig gerð að í henni er beita sem humarinn leitar í og skríður í gildruna en kemst ekki út úr henni aftur.

Við Ísland var humar lengi veiddur í humartroll og þóttu bestu miðin vera út af Hornafirði og Reykjanesi. Humartroll hafa slæm áhrif á botninn þar sem humar er veiddur og mælst hefur til að auka skuli humarveiðar hér við land
með gildrum.

Humargildra fyrir evrópskan humar.

Leturhumar

Humars er getið í tímaritinu Andvari 1879 en þar segir í grein sem kallast Brjef frá Noregi og merkt E.B.G.:„Humar (hummer) og krabbi (krabbe) eru tvö kvikindi, er skríða á mararbotni, en sem Norðmenn leggja stund á að veiða; þykir einkum humarinn sælgætismatur. Veiðarfærið, sem Norðmenn brúka fyrir skepnu þessa, er nokkurs konar sívöl karfa, er þeir kalla „teine“ (tínu?). Hún er riðin úr tágum utan um sviga, og í báðum endum hennar er trjegrind, með skakkskeytis-tágahulstri, er leyfir fiskinum inngöngu en ekki útgöngu aptur. Í miðri körfunni er fest agnið, er ginnir fiskinn að skriða inn; en sú beita má hvorki vera síld eða makríll; því jeti humarinn þessar fiskitegundir, drepst hann fyr en ella, en það vilja veiðimenn forðast. Hellusteinn er bundinn neðan á þessa veiðikörfu til að halda henni við botn, og svo er dufl á að ofan. Af því humar þykir sælgætismatur og mikið veiðist af honum í Norvegi, er hann soðinn niður í járnþynnudósir, til verzlunar erlendis; en auk þess sækja Englendingar hann og flytja út annaðhvort í ís eða þá í vatnsheldum fiskikössum í skipum sínum. Báðar þessar fiskitegundir, humar og krabbi (krabbann þekkti jeg vel, því þó hann ekki sje veiddur hjá oss, þá sjer maður hann opt koma upp úr fiski) eru mjög lífseigar, og sá jeg þá opt skríða með fullu fjöri seinni part dags á bæjartorgunum, er þangað höfðu komið um morguninn.“

Samkvæmt því sem segir á heimasíðu Hafrannsóknastofnunar greinist humar, Nephrops norvegicus, í frambol og hala og er rauðgulur eða rauður á lit, oftast þó hvítleitur að neðan. Fullvaxið karldýr er 20 til 25 sentímetrar á lengd frá augnkrikum aftur fyrir hala.

Kvendýrin eru minni en karldýrin og verða sjaldan meira en 18 sentímetrar á lengd. Humar verður kynþroska þegar hann hefur náð um átta til níu sentímetrum að lengd.

Frambolurinn er hulinn einni skel en halinn er liðskiptur með sex liðum og skel yfir hverjum lið. Fram úr frambolnum, ofan til, gengur tennt trjóna sem sveigir lítið eitt upp á við fremst og er um það bil helmingur af lengd frambols. Augun sitja á stuttum stilkum í krika fremst við rætur trjónunnar.

Fram undan trjónunni vaxa fjórir fálmarar. Mynstur er í halaskjöldunum líkt og letrað sé í þá og er íslenska nafnið leturhumar dregið af því. Undir hverjum lið á hala eru tveir sundfætur og aftast á halanum eru fimm breiðar skelblöðkur og er afturrönd þeirra hærð. Niður undan frambolnum ganga fjögur fótapör og enda fjórir fremstu fæturnir í lítilli gripkló. Fram úr dýrinu ganga tveir sterklegir griparmar sem enda í aflangri kló. Griparmarnir eru nærri jafnlangir og dýrið allt.


Fæða, æxlun og veiðar

Aðalfæða humars við Ísland eru burstaormar, smávaxin krabbadýr, skeljar og ígulker og fæðu tekur hann með klónum og brytjar hana smátt áður en hann étur hana.

Hér við land æxlast kvendýrin annað hvert ár. Mökun hjá humrinum fer fram á sumrin eftir að kvendýrin hafa haft skelskipti og nýja skelin er enn lin. Ári eftir mökun, í maí og júní, hrygnir kvendýrið. Við hrygningu límast frjóvguðu eggin við sundfæturna undir halanum hjá kvendýrinu.

Þar haldast eggin á meðan þau þroskast. Þroskun lirfa í eggjunum tekur um eitt ár og á þeim tíma étur kvendýrið lítið sem ekkert og heldur sig í holunni sinni. Í maí og júní, ári eftir hrygningu, klekjast lirfur úr eggjunum. Kvendýrið skríður þá úr holunni, lyftir upp halanum og þeytir örsmáum lirfunum undan honum með því að slá fótunum kröftuglega aftur. Lirfurnar þyrlast út í sjóinn og fljóta upp undir yfirborð. Lirfurnar eru í svifinu í einn til tvo mánuði áður en þær setjast aftur á botninn.

Við Ísland lifir humar einungis í hlýjum sjó við suðurströndina frá Hornafirði vestur um og inn í Faxaflóa. Norðurmörk út­breiðslunnar eru við Snæfellsnes og er hann aðallega veiddur á 110 til 270 metra dýpi. Einstaka humrar hafa þó fundist norðar, allt norður í Ísafjarðardjúp.

Tilraunaveiðar á humri voru fyrst gerðar hér við land árið 1939 en þeim fljótlega hætt. Minni háttar veiðar hófust árið 1951, en stórtækar veiðar hófust fyrst árið 1958. Humarafli á Íslandsmiðum hefur verið á bilinu 1.200 til 4.000 tonn á ári síðastliðin ár.

Stöðvun humarveiða

Nú er svo komið að Hafrann- sóknastofnun hefur ráðlagt stöðvun humarveiða árin 2022 og 2023 á þeim forsendum að afli á sóknareiningu af humri 2021 hafi verið sá minnsti frá upphafi og að nýliðun í stofninum sé í sögulegu lágmarki.

Auk þess sem þéttleiki humarholna við Ísland árið 2021 var metinn 0.066 holur/m2 sem er með því lægsta sem þekkist meðal þeirra humarstofna sem Alþjóðahafrannsóknaráðið veitir ráðgjöf fyrir.

Náttúruauðlindir við Íslandsstrendur
Fræðsluhornið 6. júlí 2022

Náttúruauðlindir við Íslandsstrendur

Heilnæm nýting náttúruafurða landsins okkar hefur gjarnan verið í umræðunni,...

Hækkun sýrustigs ræktunarjarðvegs
Fræðsluhornið 4. júlí 2022

Hækkun sýrustigs ræktunarjarðvegs

Lögð hefur verið út tilraun á Hvanneyri með það að markmiði að hækka sýrusti...

Stíllhreinn og sterklegur pallbíll
Fræðsluhornið 30. júní 2022

Stíllhreinn og sterklegur pallbíll

Að þessu sinni var pallbíllinn Isuzu D-Max Lux, sem BL selur, tekinn í reynslu...

Kvígur frá NautÍs
Fræðsluhornið 30. júní 2022

Kvígur frá NautÍs

Uppbygging hreinræktaðrar Angushjarðar hjá Nautgriparæktarmiðstöð Íslands á ...

Angus-holdanaut frá NautÍs fædd 2021
Fræðsluhornið 29. júní 2022

Angus-holdanaut frá NautÍs fædd 2021

Hér er nú kynntur fjórði árgangur Angus-holdanauta frá Nautgriparæktarmiðst...

Fagþing nautgriparæktarinnar í Danmörku – Fyrsti hluti
Fræðsluhornið 29. júní 2022

Fagþing nautgriparæktarinnar í Danmörku – Fyrsti hluti

Nýverið var haldið hið árlega Fagþing Nautgriparæktarinnar í Danmörku, eða „...

Reyniviður
Fræðsluhornið 28. júní 2022

Reyniviður

Reyniviður, Sorbus aucuparia, er um margt sérstætt tré. Til dæmis myndar reyni...

Svartþröstur
Fræðsluhornið 28. júní 2022

Svartþröstur

Svartþröstur er orðinn algengur varpfugl á Suðvesturlandi, einna helst í þét...