Ekkert mælir gegn því að nota kaffikorg til jarðgerðar sé það gert í hófi og þess gætt að blanda hann vel með öðrum lífrænum efnum á meðan niðurbrotið á sér stað
Ekkert mælir gegn því að nota kaffikorg til jarðgerðar sé það gert í hófi og þess gætt að blanda hann vel með öðrum lífrænum efnum á meðan niðurbrotið á sér stað
Fræðsluhornið 17. september 2020

Kaffi er best í hófi

Höfundur: Vilmundur Hansen

Samfara aukinni umhverfisvitund hefur áhugi á endurvinnslu af öllu tagi færst í aukana og ekki síst á jarðgerð á því sem fellur til úr eldhúsinu. Þar á meðal kaffikorg.

Fyrir tveimur eða þremur áratugum tóku kaffihús víða um heim upp á því að gefa gefa viðskipta­vinum sínum og garðeigendum kaffikorg sem lífrænan áburð. Með þessu átti að slá tvær flugur í einu höggi. Kaffihúsin losnuðu við kaffikorginn á ódýran hátt og garðeigendur fengu ókeypis lífrænan áburð.
Samfara aukinni endurvinnslu hefur fjöldi garðeigenda komið sér upp safnhaug í þeim tilgangi að jarðgera matarúrgang og það með kaffi.

Fljótlega eftir að kaffihúsin fóru að gefa kaffikorginn komu fram raddir sem fundu honum allt til foráttu og fullyrtu að korgurinn væri langt frá því að vera góður fyrir plöntur og að í raun gerði hann lítið gagn og þá fremur ógagn. Til dæmis að hann sýrði jarðveginn og að í kaffi væru skaðleg efni, meðal annars kaffín, sem drægju úr eðlilegum vexti plantna. Þetta ætti þó ekki að koma að sök hjá þeim sem drekka kaffínlaust kaffi.

Í sjálfu sér getur verið rétt að ef kaffikorgur er notaður í óhóflegu magni og hreinlega sturtað beint úr mörgum kaffisíum í kringum plöntur í einu. Einnig er mögulegt að kaffikorgur hafi skaðleg áhrif á vöxt sé mikið af honum í safnhaugnum og ekki hugað að þeim hlutföllum lífrænna efna sem æskilegt er að blanda saman til jarðgerðar.

Talsverð umræða hefur verið um gagn eða ógagn kaffikorgs til ræktunar á netinu og, eins og oft vill verða, ýmis rök með eða á móti. Nei-menn segja hann gersamlega ónothæfan og nánast eitraðan, en aðrir segjast hafa notað kaffikorg með góðum árangri.

Ástæða þessa getur verið sú að mismunandi plöntur vilja næringarefni í mismiklu magni og sú staðreynd að kaffikorgur sýrir jarðveginn og ólíkar plöntur kjósa ólíkt sýrustig. Vegna þessa ætti því ekki að setja kaffikorg í kringum eða gefa plöntum sem kjósa kalkríkan jarðveg moltu sem búin hefur verið til með miklum korgi. Aftur á móti ættu plöntur sem kjósa súran jarðveg að dafna vel fái þær korgblandaða moltu og jafnvel ef stráð er kaffikorgi í hæfilegu magni í kringum þær.

Malað kaffi brotnar tiltölulega hratt niður og næringarefnin losna því hratt úr korginum og það telst kostur í jarðgerð og korgurinn er ríkur af köfnunarefni, fosfór, kalí og snefilefnum sem nýtast sem næringarefni.

Ekkert mælir gegn því að nota kaffikorg til jarðgerðar sé það gert í hófi og þess gætt að blanda hann vel með öðrum lífrænum efnum á meðan niðurbrotið á sér stað. Einnig mælir ekkert gegn því að strá kaffikorgi í litlu magni yfir beð hjá plöntum sem kjósa súrt og raka því niður í jarðveginn.

Um notkun á kaffikorgi í garðinum gildir því það sama og um kaffidrykkju. Allt er best í hófi.

Nýr og mikið breyttur Honda Jazz
Fræðsluhornið 29. október 2020

Nýr og mikið breyttur Honda Jazz

Árið 1982 kom Honda fyrst með smábíl sem nefndist Jazz, frá þeim tíma hefur bíll...

LEAN bætir búreksturinn
Fræðsluhornið 28. október 2020

LEAN bætir búreksturinn

Undanfarna áratugi hafa kúabú heimsins gengið í gegnum gífurlegar breytingar og ...

Setjum niður hvítlauk
Fræðsluhornið 27. október 2020

Setjum niður hvítlauk

Hvítlaukur er sagður vera hollur og vinsældir hans eru alltaf að aukast hér á la...

Flækingsfuglar, óvæntir gleðigjafar í garðinum
Fræðsluhornið 26. október 2020

Flækingsfuglar, óvæntir gleðigjafar í garðinum

Haustið er tími breytinga í garð­inum. Litskrúðið eykst allt fram í lauffall og ...

Svartur pipar er konungur kryddsins
Fræðsluhornið 23. október 2020

Svartur pipar er konungur kryddsins

Pipar er eitt elsta og vinsælasta krydd sem maðurinn leggur sé til munns og viðs...

Nýtt naut í notkun
Fræðsluhornið 21. október 2020

Nýtt naut í notkun

Fyrir skömmu birtist yfirlit um reynd naut í notkun hér á síðum blaðsins. Nú hef...

Skortur á slökkvivatni til sveita og löng bið eftir slökkviliði
Fræðsluhornið 21. október 2020

Skortur á slökkvivatni til sveita og löng bið eftir slökkviliði

Nær þriðjungur bænda, eða rúmlega 30 prósent, telja að ekki sé nægur og greiður ...

Búa til melassa úr spæni
Fræðsluhornið 20. október 2020

Búa til melassa úr spæni

Það er líklega öllum ljóst að í Noregi er til mikið af skógi og sögunar-verksmið...