Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Dóttir Óperu frá Gýgjarhóli, Vala frá Efsta-Seli.
Dóttir Óperu frá Gýgjarhóli, Vala frá Efsta-Seli.
Mynd / Mynd /Lóa Dagmar Smáradóttir
Á faglegum nótum 4. desember 2019

Hryssur með heiðursverðlaun fyrir afkvæmi 2019

Höfundur: Þorvaldur Kristjánsson ábyrgðarmaður í hrossarækt - thk@rml.is
Alls hlutu átta hryssur heiðursverðlaun fyrir afkvæmi á árinu en til að hljóta verðlaunin þarf hryssan að eiga að lágmarki fimm dæmd afkvæmi og vera með 116 stig í aðaleinkunn kynbótamatsins. 
 
Hérna fyrir neðan má lesa um þær hryssur sem náðu þessum merka áfanga á árinu, aðaleinkunn þeirra í  kynbótamatinu, ásamt umsögn um afkvæmin. Prýði frá Ketilsstöðum og Fold frá Auðsholtshjáleigu eru báðar með 119 stig og eru því í öðru sæti en aukastafir skilja að hryssur í fjórða til sjöunda sæti.
 
Sonur Eldingar frá Torfunesi, Eldur frá Torfunesi. 
Mynd / Worldfengur.com
 
Elding frá Torfunesi – 123 stig
Faðir: Djáknar frá Hvammi
Móðir: Röst frá Torfunesi
 
Umsögn um afkvæmi: 
Elding frá Torfunesi gefur hross í rúmu meðallagi að stærð með mjúkan og reistan háls. Þau eru langvaxin og jafnvægisgóð i byggingu, með sterka fótagerð og góðan prúðleika. Afkvæmin eru mjúk og rúm alhliða hross með virkjamiklar hreyfingar, tölt og brokk er takthreint og skrefmikið en hægt stökk oft fjórtaktað og fetið skrefstutt, skeiðgeta er úrval. Elding gefur mýktarhross með mikla ganghæfni og þjálan vilja, hún hlýtur heiðursverðlaun fyrir afkvæmi og fyrsta sætið. 
 
Fold frá Auðsholtshjáleigu. Mynd / Worldfengur.com
 
Fold frá Auðsholtshjáleigu – 119 stig
Faðir: Skorri frá Blönduósi
Móðir: Fjöður frá Ingólfshvoli
 
Umsögn um afkvæmi:
Fold frá Auðsholtshjáleigu gefur hross í meðallagi að stærð með góða frambyggingu og öfluga yfirlínu; hálsinn er reistur og mjúkur, bakið er breitt og vöðvafyllt og lendin öflug. Þau eru myndarleg, léttbyggð og fótahá. Fætur eru með öflugar sinar en oft útskeifir að framan, hófar eru efnismiklir. Afkvæmi Foldar eru flugviljug, reist og fara vel í reið. Töltið er takthreint, mjúkt og rúmt, brokkið er í rúmu meðallagi og skeiðið ferðmikið. Stökkið er yfirleitt rúmt og hátt. Fold gefur framfalleg myndarhross með góða ganghæfni, hún hlýtur heiðursverðlaun fyrir afkvæmi og annað sætið.
 
Prýði frá Ketilsstöðum. Mynd / Worldfengur.com
 
Prýði frá Ketilsstöðum – 119 stig
Faðir: Númi frá Þóroddsstöðum 
Móðir: Hlín frá Ketilsstöðum
 
Umsögn um afkvæmi: 
Prýði frá Ketilsstöðum gefur framfalleg hross með mjúkan háls og háar herðar, bak og lend vantar vöðvafyllingu og lendin er fremur gróf. Afkvæmin eru oftar myndarleg á velli, fætur eru yfir meðallagi hvað gerð og réttleika varðar og afkvæmin eru prúð á fax og tagl. Prýði gefur rúm og skrefmikil alhliða hross, þau eru getumikil á gangi, ásækin í vilja og fara vel í reið. Prýði hlýtur heiðursverðlaun fyrir afkvæmi og annað sætið.
 
Dóttir Óperu frá Gýgjarhóli, Vala frá Efsta-Seli. 
Mynd /Lóa Dagmar Smáradóttir
 
Ópera frá Gýgjarhóli – 118 stig
Faðir: Kolskeggur frá Kjarnholtum I
Móðir: Gáta frá Gýgjarhóli
 
Umsögn um afkvæmi: 
Ópera frá Gýgjarhóli gefur hross í meðallagi að stærð með skarpt og þurrt höfuð, hálsinn er hátt settur og lendin er öflug. Þau eru oftar fótahá og myndarleg. Prúðleiki á fax og tagl er ekki mikill. Þau eru fremur fjölhæf alhliða hross; töltið er takthreint og mjúkt, brokkið er skrefmikið en mætti vera jafnara, skeiðið er takthreint og ferðmikið. Afkvæmin eru viljug og þjál. Ópera gefur prýðilega gerð hross, flugvökur og fylgin sér, hún hlýtur heiðursverðlaun fyrir afkvæmi og þriðja sætið.
 
Vænting frá Hruna. Mynd / Worldfengur.com
 
Vænting frá Hruna – 116 stig
Faðir: Aron frá Strandarhöfði
Móðir: Þrá frá Kópareykjum
 
Umsögn um afkvæmi: 
Vænting frá Hruna gefur hross í rúmu meðallagi að stærð, fríðleiki á höfuð er í meðallagi en frambygging heldur góð með háum herðum, bak og lend er vöðvafyllt og lendin er löng, fótahæð er yfir meðallagi og afkvæmin eru langvaxin. Fætur hafa öflugar sinar og mikil sinaskil og hófar eru vel gerðir. Prúðleiki er í tæpu meðallagi. Vænting gefur yfirveguð og vel viljug alhliða hross, töltið er takthreint, brokkið er skrefmikið en fremur sviflítið og skeiðið er öruggt og ferðmikið, stökkið er ferðgott en heldur sviflítið og fetið misjafnt. Vænting gefur prýðilega gerð, viljug og geðprúð alhliða hross, skeiðið best, hún hlýtur heiðursverðlaun fyrir afkvæmi og fjórða sætið.
 
Pandra frá Reykjavík. Mynd / Worldfengur.com
 
Pandra frá Reykjavík – 116 stig
Faðir: Kolfinnur frá Kjarnholtum I
Móðir: Perla frá Ölvaldsstöðum
 
Umsögn um afkvæmi: 
Pandra frá Reykjavík gefur hross í rúmu meðallagi að stærð. Sköpulag er þokkalegt og yfirlínan er best; mýkt í hálsi og sterk baklína. Afkvæmin eru prýðis reiðhross, töltið er jafnan gott, takthreint og skrefmikið, brokkið er í rúmu meðallagi, þau stökkva af krafti og skeiðið er takthreint og skrefmikið sé það fyrir hendi. Þau hafa góðan reiðvilja og fara myndarlega í reið. Pandra gefur ganghrein reiðhross með sterka yfirlínu, hún hlýtur heiðursverðlaun fyrir afkvæmi og fimmta sætið. 
 
Önn frá Ketilsstöðum.  Mynd / Worldfengur.com
 
Önn frá Ketilsstöðum – 116 stig
Faðir: Hrímfaxi frá Hvanneyri
Móðir: Oddrún frá Ketilsstöðum 
 
Umsögn um afkvæmi:
Önn frá Ketilsstöðum gefur hross í tæpri meðalstærð, sköpulag er misjafnt að gerð en yfirleitt eru þau reiðhestsleg með sterka yfirlínu, mjúkan háls og háar herðar. Afkvæmin eru öflug á gangi, með skil á milli gangtegunda og góðan fótaburð. Töltið er jafnan afar gott, brokkið takthreint og hreyfingamikið og skeiðið sniðfast. Þau eru ásækin í vilja og hafa orkumikla útgeislun. Önn hlýtur heiðursverðlaun fyrir afkvæmi og sjötta sætið.
 
Sonur Eldingar frá Haukholtum, Apollo frá Haukholtum.
Mynd / Hrafnhildur Helga Guðmundsdóttir
 
Elding frá Haukholtum – 116 stig
Faðir: Hrynjandi frá Hrepphólum
Móðir: Fjöður frá Haukholtum
 
Umsögn um afkvæmi: 
Elding frá Haukholtum gefur hross í rúmu meðallagi að stærð, þau eru með langan og reistan háls, sterka yfirlínu og eru fótahá og myndarleg. Fótagerð og prúðleiki er í tæpu meðallagi en hófar eru efnismiklir. Afkvæmi Eldingar eru skrefmikil og hágeng, töltið er jafnan afar gott; takthreint, mjúkt og hreyfingafallegt, brokkið skrefmikið og þau stökkva af krafti. Flest búa yfir nokkurri vekurð. Elding gefur framfalleg stólpahross sem fara vel í reið og búa yfir þjálum vilja, hún hlýtur heiðursverðlaun fyrir afkvæmi og sjöunda sætið.
 
„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...