Ný kynslóð plöntuáhugafólks er að enduruppgötva fegurð hortensíunnar – plöntu sem sumum þykir vera svolítið gamaldags. Myndir / James McDaniel
Fræðsluhornið 15. júlí 2019

Hortensía – gamaldags en sívinsæl glæsiplanta

James McDaniel

Hortensía (Hydrangea macrophylla) hefur verið notuð hér á landi sem stofublóm í rúmlega hundrað ár. Hortensían virðist fara í gegnum tímabil mismikilla vinsælda, stundum mikið notuð og stundum ekki en á þó ávallt tryggan aðdáendahóp. Hortensía hefur komist aftur í tísku undanfarin ár.

Ný kynslóð plöntuáhugafólks er að enduruppgötva fegurð hortensíunnar – plöntu sem sumum þykir vera svolítið gamaldags, eins og litlar blúndur heima hjá ömmu, en eins og vínylplötur snúast hlutirnir aftur í tísku. Í dag er þessi sumarplanta jafnvel notuð sem afskorin blóm í blómabúðum hér og erlendis – og gefur það hlýjar tilfinningar um fortíðarþrá í þá blómvendi sem hún er notuð.

Hér eru nokkur helstu grundvallaratriði sem mætti hafa í huga við umhirðu þessarar hortensíu. Eins og gamalt íslenskt nafn hennar bendir til er „vatnsrunni“ (Hydrangea) frekar þorstlát og ætti aldrei að láta ræturnar þorna alveg. Því gæti verið freistandi að setja hortensíu í pott án afrennslis, en munið að rótin þarf súrefni, þannig að loftrými í jarðveginum og öruggt frárennsli er mikilvægt til að koma í veg fyrir að ræturnar rotni.

Litir hortensíunnar breytast eftir sýrustigi jarðvegsins sem hún vex í. Jarðvegur sem er hlutlaus til basískur mun framleiða allt frá fjólubláum til rauðra blóma. Lengra suður í Atlantshafinu á Azoreyjum, vex hortensían villt og sýnir bláan blóma í þeim eldfjallajarðvegi sem þar er. Ef nota á áburð í vökvaformi er mælt með því að vökva með áburðarlausn að lágmarki einu sinni í mánuði á meðan plantan er í blóma.

Fyrir blönduð blómaker getur hortensía verið sjónrænn miðpunktur. Þegar kemur að vindi og ljósi, mundu bara: skjól og sól. Þær ætti ekki að setja út á sumrin fyrr en vissa er um að ekki verði lengur næturfrost.

Án góðs skjóls mun kalt kvöld fljótlega gefa blómunum brúnleitar kalskemmdir. Hitastig á milli 15–21°C er tilvalið fyrir vöxt og blómgun, en plöntur sem þegar hafa blómstrað geta lifað af sumar úti hér á landi.

Hins vegar, ef hitastigið fer undir 7°C í 6 vikur fer plantan í dvala, sem er gott viðmið um hvenær skal taka hana inn í vetrargeymslu.

Í lok sumars getur líka verið skemmtilegt föndur að þurrka blómin og nota þau sem skraut. Leyfðu blóminu að þorna á plöntunni eins mikið og mögulegt er og fjarlægðu síðan stilkinn og blómið frá plöntunni, klippið laufin af og setjið í tóman vatnslausan vasa til að hún þorni fullkomlega. Athugaðu að það er ekki nauðsynlegt að hengja þær á hvolf til að þurrka blómin. Yfir veturinn er hægt að halda hortensíu í pottum innandyra eða í skúr með nokkuð stöðugu lágu hitastigi, vertu bara viss um að láta jarðveginn ekki þorna meðan á vetrardvala hennar stendur. Nú er hægt að fá fallegar íslenskar hortensíur hjá flestum garðplöntusölum.

James McDaniel,
nemi í garðyrkjuframleiðslu við garðyrkjuskóla LBHÍ, Reykjum.