Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Hesturinn – þarfasti þjónninn
Á faglegum nótum 12. janúar 2017

Hesturinn – þarfasti þjónninn

Höfundur: Vilmundur Hansen

Allt frá því að menn tömdu hesta hafa þeir verið vinnudýr og reiðskjótar. Góður reiðhestur er stolt eiganda síns og metnaður allra hestamanna að vera vel ríðandi.

Áætlaður fjöldi hesta í heiminum er rétt um 58 milljón en þeim hefur fækkað um milljón á ári síðastliðinn áratug samkvæmt tölum FAOSTAD, tölfræðideildar Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna. Langstærstur hluti hesta í dag er taminn og sé um villt stóð að ræða eru það í flestum tilfellum hestar sem hafa sloppið út í náttúruna úr tömdum stóðum.

Af öllum þeim hestakynjum sem þekkt eru í heiminum er aðeins vitað um tvö sem ekki hafa verið taminn. Annað kallaðist Tarpan (Equus ferus ferus) og var villtur í Evrópu en dó út 1909. Hitt er rússneski Przewalski-hesturinn (Equus caballus Przewalski), villti Mongólíu eða Asíu-hesturinn.

Árið 2014 var flest hross að finna Bandaríkjum Norður-Ameríku, rúmlega 10 milljón. Þar á eftir var fjöldinn mestur í Kína og Mexíkó, rúmlega 6,3 milljón í hvoru landi. Í Brasilíu voru hestar tæplega 5,3 milljónir og rúmlega 3,6 milljón hestar voru sagðir vera í Argentínu. Fjöldinn í Kólumbíu var og rétt rúmlega 2 milljón í Mongólíu, 1,6 í Eþíópíu, 1,3 í Rússlandi og 1,1 milljón í Kasakstan. Á eyjunum Guam og Grenada voru hestar sagðir vera milli 20 og 30 og engir hestar voru á því ári sagðir finnast í Rúanda og á eyjunni Sankti Helenu.

Áætlað er að hestar á Íslandi séu um 75.000.

Ásýnd og atferli

Hestar eru af ættbálki hófdýra og tilheyra ættkvíslinni Equus ásamt ösnum og sebrahestum. Nánustu ættingjar ættkvíslarinnar eru nashyrningar og tapírar. Fjöldi hestakynja er á reiki og teljast frá því að vera rúmlega 100 og upp í tæplega 600. Á latínu kallast hestar Equus caballus.

Þrátt fyrir að hestar skiptist í mörg ólík kyn og að stærð þeirra sé mismunandi er líffæra- og lífeðlisfræði þeirra eins að því undanskildu að það geta verið færri hryggjarliðir í arabískum hestum.

Í grófum dráttum er hrossakynjum skipt í tvo flokka eftir hæð á herðakamb, smáhesta og hesta. Hæðin er mæld á herðakambi og smáhestar kallast þeir hestar sem ná ekki 147 sentímetra hæð. Skiptingin er þó ekki algild og þótt meðalhæð íslenska hestsins sé um 140 sentímetrar er hann yfirleitt talinn hestur en ekki smáhestur.

Þyngd hesta er mismunandi eftir kynjum og geta stærstu dráttarklárar verið rúmt tonn að þyngd.

Minnsta viðurkennda hrossategundin í heiminum kallast Falabella en sú stærsta er Skírir (Shire). Stærsti einstaklingurinn sem vitað er um af Skíriskyni var kallaður Mammoth og var 2,2 metrar á hæð við herðakamb og vó 1524 kíló. Minnsti hestur sem vitað er um er 43 sentímetrar við herðakamb og vegur 26 kíló og ber heitið Þumalína. 

Hestar eru grasbítar og hópdýr og saman stendur hrossastóð villtra hrossa af stóðhesti og stóðmerum auk afkvæma. Oft eru yngri graðhestar með í stóði og slást um tign í goggunarröðinni. Oftast er það elsta merin sem stjórnar stóðinu í leit að fæðu og skjóli. Hún þekkist af því að hún lætur flest hrossin éta á undan sér, ef lítið er um mat, en nýtur samt fyllstu virðingar allra hrossanna í stóðinu. Hún fer fyrir hópnum og velur bestu og öruggustu leiðina milli beitarsvæða.

Þegar stóð hvílast er að jafnaði einn eða tveir hestar sem standa og halda vörð fyrir rándýrum. Hestar geta sofið standandi en gera það yfirleitt ekki nema á daginn og í stutta stund í einu. Á næturnar sofa þeir liggjandi. Hestur í afslöppun einkennist af því að ef hann stendur hvílir hann gjarnan aðra afturlöppina og neðri flipinn hangir slakur. Auk þess eru augun lokuð.

Merar kasta yfirleitt á vorin og er meðganga þeirra um ellefu mánuðir. Yfirleitt fæða þær einu folaldi í kasti, tvífyl eru afar óalgeng, og kallast þau merfolald og hestfolald eftir kynjum. Merar geta gengið lengur með ef hart er í ári og allt að 365 daga. Slíkt er algengt á kaldari svæðum á jörðinni, eins og á Íslandi, vegna þess hve vorhret eru algeng.

Lífaldur hests fer eftir kyni, umhverfi og erfðum. Í dag lifa hestar gjarnan til 25 til 30 ára aldurs en hestar í villtum stóðum lifa yfirleitt skemur. Elsti hesturinn sem vitað er um kallaðist Old Billy og lifði hann í 62 ár.

Að jafnaði eru 250 bein í beinagrind hesta.

Skynjun

Augu hesta eru stór og staðsett á hliðum höfuðsins. Staðsetning augna veldur því að sjónsvið þeirra er vítt og allt að 350° auk þess sem þeir sjá vel í myrkri. Eyru hesta geta snúist um 180° og heyrn þeirra er góð. Lyktarskyn hesta er einnig mjög gott.

Rannsóknir og reynsla sýna að hestar eiga auðvelt með að læra og muna og fara eftir skipunum.

Þróun og nytjar

Talið er að fyrstu hófdýrin hafi komið fram á sjónarsviðið fyrir um 40 til 50 milljón árum. Hesturinn þróaðist frá því að vera með fimm tær eða klaufir á hverjum fæti niður í einn hóf á hverjum fæti.

Á ríflega tuttugu þúsund ára gömlum hellaristum í Lascaux í Frakklandi má sjá hesta og menn veiða hesta sér til matar.

Vísbendingar eru um að hestar hafi verið tamdir í Mið-Asíu, Úkraínu og Kasakstan um 4000 árum fyrir Krist og að nytjar á honum, önnur en sem fæða, hafi verið almenn þar 3000 árum fyrir upphaf okkar tímatals. Frá Mið-Asíu bárust hestar til Evrópu og annarra heimsálfa.

Hestar voru útdauðir og óþekktir í Norður- og Suður-Ameríku áður en Kólumbus og kónar hans römbuðu á Nýja heiminn 1492.

Hestar voru helstu vopn herja fyrir iðnbyltinguna. Einnig eftirlíkingar eins og Trójuhesturinn sem sagt er frá í Ilíonskviðu að Grikkir hafi smíðað í Trójustríðinu.

Í dag er hesturinn húsdýr og tómstundagaman á Vesturlöndum en í þriðja heiminum er hann notaður við ýmis störf, sérstaklega í landbúnaði. Hestaíþróttir eru vinsælt tómstundagaman og keppt er á þeim í ýmsum flokkum eins og hindrunarstökki, fimi og veðhlaupum. Keppnisgreinar fyrir íslensk hross eru nánast allar gangtegundakeppnir; til dæmis töltkeppnir, fjórgangs- og fimmgangsgreinar og  skeiðkappreiðar. Þolreiðar er einnig vinsælt sport víða um heim.

Margar atvinnugreinar vinna við eða nota hesta við vinnu sína. Ef frátaldir eru tamningamenn, þjálfarar og dýralæknar nota lögreglan og aðrir hesta við störf sín. Í fátækari ríkjum heims eru hestar enn mikið notaðir við landbúnað og við önnur störf.

Aðrar nytjar hrossa eru kjöt, kaplamjólk, skinn og húðir. Kaplamjólk og hrossablóð er notað við matargerð í Mongólíu. Blóð úr fylfullum hryssum og fylsugum, hryssum sem hafa folald á spena, er notað í frjósemislyf. Taglhár eru notuð í boga fyrir ýmis hljóðfæri og skrautmuni. Hyrni hófanna er notað í hóflím til að laga sprungur og holur í hófum lifandi hrossa. Skinn og húðir eru nýtt í klæði og muni úr leðri.

Gangtegundir

Eitt af því sem þykir eftirsóknarvert við hesta er fjölbreyttur gangur. Almennt er talað um fimm gangtegundir; grunngangtegundirnar sem allir hestar búa yfir kallast fet, brokk og stökk. Ganghestakyn búa þar að auki yfir skeiði og eða tölti og er mismunandi milli kynja hversu margar gangtegundir þau hafa. Íslenski hesturinn getur búið yfir þeim öllum.

Fet er fjórtakta sviflaus gangtegund og eru tveir eða þrír fætur samtímis á jörðu. Brokk er tvítakta skástæð gangtegund með svifi þar sem tveir fætur koma niður samtímis. Hægt stökk er þrítakta gangtegund með svifi og hratt stökk er fjórtakta gangtegund með svifi. Skeið er tvítakta yfirferðargangtegund með svifi, þar sem hliðstæðir fætur hreyfast nánast saman fram og aftur. Tölt er fjórtakta gangtegund í reglulegum hrynjanda og jafnt tímabil skal vera á milli niðurkomu allra fjögurra fóta. Tölt er sviflaus gangtegund en þó er um hálfsvif að ræða bæði að framan og aftan og er því um hlaupandi gangtegund að ræða. Ýmist er um einstuðning eða tvístuðning fóta að ræða í heilu skrefi.

Litir, litasamsetningar og önnur útlitseinkenni

Litarhaft hrossa er margbreytilegt og í íslenska stofninum er að finna yfir 40 liti og 100 litaafbrigði.

Grunnlitir í hrossum eru rauður, brúnn og jarpur. Brún hross eru brún á búk með brúnt fax og tagl. Bæði fax og búkur geta upplitast af sól. Svört hross hins vegar eru tinnusvört og upplitast ekki. Gráir hestar fæðast í grunnlitum en lýsast svo með aldrinum vegna ríkjandi erfðavísis sem veldur gránun. Mjög dökkgráir hestar með hringamynstur kallast stein- eða apalgráir en mjög ljósir hvítir eða gráir. Jarpt hross er með rauð- eða brúnleitan búk og svart fax og tagl. Búkurinn getur verið annaðhvort bronslitur og kallast liturinn þá rauðjarpur, eða verið brúnn og kallast þá ýmist korgjarpur eða dökkjarpur. Leirljós hestur er ljós á búk og með samlitt fax eða jafnvel ljósara og hefur yfir sé gyltan blæ. Litförótt lýsir sér þannig að hrossið hefur sinn tiltekna grunnlit en verður árstíðabundið grár því undirhárin eru grá en vindhárin í grunnlit hestsins. Moldóttur hestur er með gulbrúnan búk og svart fax og mön á baki að auki. Mjög dökkir moldóttir hestar kallast draugmoldóttir. Móálóttir hestar eru með silfurgráan búk og svart fax og tagl. Í faxinu getur verið eitthvað um ljósbrún hár. Rauður hestur er með rauðleitan búk, jafnvel mjög ljósan eða dökkan. Ef hesturinn hefur ljóst fax að auki kallast faxið glófext.

Skjóttir litir fyrirfinnast í öllum grunnlitum. Þeir stafa af því að litarefni vantar í frumurnar á þeim skellum sem eru hvítar. Algengast eru rauð- og brúnskjótt hross.

Önnur einkenni hrossa eru hvít rönd í andliti sem nær frá enni niður á snoppu og kallast blesa. Sé blesan mjög breið er hesturinn breiðblesóttur og jafnvel glámblesóttur ef hvíti liturinn nær út fyrir augun og augun eru annaðhvort blá eða með vagli. Hosa er hvít skella á fæti en nær lengra upp en sokkur, jafnvel upp fyrir hné/hækil. Leisti er stutt hvít skella á fæti, nær ekki upp fyrir kjúku. Sokkóttur, leistóttur eða hosóttur hestur er með hvítan sokk neðst á fæti sem nær mislangt upp á miðjan fótlegginn. Stjarna er hvítur hringur eða stjarna í enni. Bletturinn getur verið ýmist stór eða lítill, reglulegur eða óreglulegur að lögun. Sé mjó rönd niður úr stjörnunni kallast hún halastjarna. Tvístjarna er þegar stjarna í enni og önnur á snoppu koma saman. Jafnvel er til þrístjörnótt en það er sjaldgæfara og vagl í auga er lítil hvít skella í auga hests.

Hringeygðir kallast hestar, þegar hvítur hringur af sinuhimnunni sést í kringum sjáaldrið og þeir eru glaseygð ef öll lithimnan ljós nema augasteinninn sjálfur, það gerist oftast hjá hjálmskjóttum hrossum og hvítingjum.

Frægir hestar

Af frægum hestum má nefna einhyrninga, vængjaða hestinn Pegasus í grískum goðsögum, Búkífalos sem var hestur Alexanders mikla, El Morzillo, hest Hernando Cortésar hershöfðingja og Marengo, hest Napóleons.

Gerðar hafa verið kvikmyndir um kappreiðahestana Seabiscuit og Secretariat og myndin Harry and the Snowman fjallar um hindrunarstökkshestinn Snowman sem var keyptur á slikk á uppboði en margfaldaði verðgildi sitt í keppnum.

Fagri Blakkur er úr samnefndri skáldsögu. Uppáhaldshestur Calígúla Rómarkeisara kallaðist Incitatus, hesturinn hans Lukku Láka kallast Léttfeti og hestur Línu Langsokks Lille gubben. Ekki má svo gleyma Trigger hans Roy Rogers, hinum áttfætta Sleipni sem Óðinn á, Sörla 71 frá Svaðastöðum, Síðu frá Sauðárkróki, Orra frá Þúfu, Óðu-Rauðku og Faxa frá Árnanesi.

Rómantísk náttúrufræði

Átrúnaður á hesta, hvort sem það eru venjulegir eða kynjahestar er þekktur í sögu flestra menningarsamfélaga og trúarbragða, grískrómverskum, hindúisma, íslam og norrænni goðafræði.
Hesturinn er eitt af tólf dýrum kínverska dýrahringsins. Þeir sem fæddir eru á ári hestsins eru sagðir jákvæðir, hæglátir og hjartahlýir en jafnframt kjaftaglaðir og eyðslusamir.

Einhyrningar eru goðsögulegt dýr sem líkjast hestum með langt og snúið horn sem stendur út úr enninu á þeim. Einhyrningar eru nánast undantekningalaust hvítir og tákna eitthvað gott.

Nykur er íslenskt þjóðsagnadýr sem líkist hesti og er að finna í ám og vötnum um allt land. Hann er oftast steingrár eða apalgrár að lit en aðaleinkenni nykursins eru að hófarnir snúa aftur og hófskeggin fram. Nykur er nefndur ýmsum nöfnum á íslensku svo sem nennir, nóni, vatnaskratti, kumbur eða vatnahestur. Nykurinn á sér hliðstæðu í þjóðtrú Noregs og Orkneyja.

Forminjar benda til að hestar hafi verið taldir guðlegar verur eða tengjast þeim allt aftur til bronsaldar og að þeir hafi verið tákn um styrk, hraða og sigur. Það að fórna hesti var ein stærsta gjöf sem hægt var að færa nokkrum guði. Dýrkun af svipuðum meiði þekkist enn í dag hjá fylgjendum ákveðinnar greinar hindúisma í Indusdalnum, sem liggur um Afganistan gegnum Pakistan og til Indlands.

Hestar eru í miklum metum hjá Aröbum og í eini af súrum Kóransins er óður til hestsins.

Á miðri járnöld tóku Keltar á Bretlandseyjum sig til og flettu torfi af krítarklettum og bjuggu þannig til risastórar myndir í landslagið. Frægust þessara mynda er í Uffington og er af hesti. Hesturinn er 110 metrar á lengd frá snoppu að taglenda og hæðin er 36.5 metrar frá eyra að hófa. Munnmæli herma, að hermenn Alfreds konungs hafi gert myndina til minningar um orrustuna hjá Ashdown 871, þar sem Alfred vann sigur á norrænum víkingum, er höfðu náð undir sig Uffington kastala. Greinilegt er að hvíti hesturinn hjá Uffington naut friðhelgi og þjóðtrúin verndað hann, vegna þess að enginn hefur nokkru sinni dirfst að breyta honum. Lítil hæð fyrir neðan hestmyndina, er kölluð Drekahæð og segja munnmælin að heilagur Georg hafi drepið drekka þar og brennt.

Ævaforn venja er að hreinsa hvíta hestinn í Uffington sjöunda hvert ár.

Í grískri goðafræði ferðast sjávarguðinn Póseidon um á vagni sem dreginn er af hesti. Grískur sjófarendur fórnuðu hestur með drekkingu Póseidon til heiðurs til að tryggja öryggi sjóferða.

Samkvæmt norrænni goðafræði breyti Loki sér í meri sem kastaði hinum átfætta Sleipni sem sagður er standa öllum öðrum hestum framar.

Víða um heim tíðkaðist að heygja hesta með konungum og stríðsmönnum og hafa slíkir haugar fundist allt frá Skandínavíu til Kína.

Hestar á Íslandi

Fyrstu hestarnir bárust til Íslands með landnámsmönnum fyrir rúmum 1100 árum.

Fyrstu hrossin sem nafngreind er í íslenskum heimildum er að finna í Landnámu. Þar segir frá merinni Flugu og stóðhestinum Eiðfaxa. Samkvæmt Landnámu kom skip að landi við Kolbeinsárós í Skagafirði. Þar munu hafa verið á ferð gripakaupmenn og merin Fluga um borð. Fluga mun hafa sloppið úr haldi og týnst í Brimnesskógum. Þórir dúfunef sem var fyrrum þræll keypti merina í þerri von að hann mundi finna hana sem hann og gerði. Það er Þórir sem gefur henni nafnið Fluga og að hann hafi nefnt bæ sinn Flugmýri í Skagafirði eftir henni.

Eitt sinn þegar Þórir var á ferð yfir Kjöl hitti hann Örn, landshornamann og veðjuðu þeir um hver yrði fljótari ákveðna leið. Fluga var skjótari en vegna mæðis varð Þórir að skilja hana eftir. Á heimleiðinni þegar hann náði í Flugu var hjá henni grár hestur sem hafði fyljað hana. Undan þeim kom hesturinn Eiðfaxi sem var fluttur utan og varð sjö manna bani. Sagt er að Fluga hafi drukknað í feni í Flugumýri, svokölluðu Flugufeni.

Íslenski hesturinn er kominn af Nordland-hestinum í Noregi. Talið er að fyrstu hross á landinu hafi verið úrval gæðinga, því að landnámsmenn hafa vafalaust tekið bestu hestana sína með sér. Einnig er talið að hingað hafi verið fluttir hestar frá Skotlandi. Þótt ótrúlegt sé hefur lítið sem ekkert verið flutt af hestum til landsins frá landnámi. Íslenska hrossakynið hefur því ræktast og þróast án blöndunar við önnur kyn í þúsund ár.

Ef horft lengra aftur í tímann og hægt að rekja uppruna norska Nordland-hestsins til Asíu sem og Mongólahestakyns sem er fjarskyldur Arabíska hestinum.

Hrossakjötsát

Eftir að kristni var lögtekin á 10. öld var lagt bann við að borða hrossakjöt og bannið notað til að greina í sundur heiðna menn og kristna. Þó voru einstaka fátæklingar sem notuðu það til matar og hirtu ekki um bannið í harðærum en þeir voru oft fyrirlitnir fyrir vikið og kallaðir hrossaketsætur og var hið mesta skammyrði. Það var líka talað um hrossakjötslykt af slíku fólki og menn trúðu að það yrði skammlífara en aðrir.

Í bókinni Mannfækkun af hallærum nefnir Hannes Finnsson Skálholtsbiskup dæmi um hrossakjötsát landsmanna og í sömu andrá getur um fjölgun þjófnaða. Þrátt fyrir neyð almennings var andúðin á hrossakjötsáti það sterk og neysla þess talin svo stór siðferðisbrestur að mörgum prestum landsins stóð ekki á sama.

Þykkbæingum mun helst hafa verið fundið það til foráttu að þeir átu hrossakjöt. Nágrannar þeirra hneyksluðust mjög á hrossakjötsátinu og töldu þá ókirkjuhæfa vegna þess. Bændur í nágrannasveitarfélögunum létu þó hneykslun sína ekki aftra sér frá því að reka heilu stóðin til slátrunar í Þykkvabæ. Heimamenn máttu hirða af þeim allt nema hárnar. Svo mikið af hrossakjöti safnaðist á suma bæi að það skorti salt til að geyma það. Megn ýldulykt var því oft í kotunum og settist hún í föt og sagt er að fólk í Þykkvabæ hafi neytt kjötsins eins lengi og það hafði nokkra lyst á því.

Gjafir til höfðingja

Hestar voru taldir meðal veglegustu gjafa og er þess víða getið að íslenskir gæðingar hafi verið sendir frá Íslandi til Noregs og annarra landa sem gjafir til konunga og fleiri fyrirmanna. Samkvæmt elstu lögbók Íslands, Grágás, var skógargangssök að stela hesti.

Margrét Danadrottning fékk hryssurnar Perlu og Stjörnu í brúðargjöf frá íslenska ríkinu árið 1967.

Hestaat

Í Íslendingasögunum eru frásagnir af hestaati þar sem tveir stóðhesta etja kapp saman samkvæmt ákveðnum reglum og menn höfðu mikla skemmtun af. Oftast lauk hestavígum með því að annar hesturinn drapst í átökunum eða var mikið særður. Sá sem bar sigur úr bítum fékk sæmd og virðing sem skipti miklu í samfélagi þess tíma.

Breyttir tímar

Hestar voru lengi áburðar- og reiðdýr en hestvögnum fór ekki að bregða fyrir hér á landi fyrr en á 20. öld. Hestar voru notaðir hér til landbúnaðar fram yfir síðari heimsstyrjöldina og beitt fyrir sláttuvél og áburðardreifara. Langt fram á okkar dag, eftir að véltækni tók við, var talað um hestburði af heyi þegar borið var í hlöðu.

Á okkar dögum eru hestarnir ekki lengur nauðsynlegir hér á landi til landbúnaðar og samgangna og einungis notaðir til útreiða og afþreyingar. Auk þess sem þeir eru dýr útflutningsvara þar sem dýrustu hestarnir eru seldur fyrir tugi milljóna króna.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...