Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Hækkum rána í íslensku kynbótastarfi
Á faglegum nótum 3. janúar 2022

Hækkum rána í íslensku kynbótastarfi

Höfundur: Herdís Magna Gunnarsdóttir formaður kúabænda

Um nokkurt skeið hafa íslenskir kúabændur tekist nokkuð á um hvernig skuli lækka framleiðslukostnað í íslenskri mjólkurframleiðslu.

Helst var rætt um hvort flytja ætti inn erlent kúakyn, kynbótastarf víða erlendis var komið nokkru lengra en hérlendis og meðalafurðir íslenskra mjólkurkúa voru jafnan lakari en hjá stöllum þeirra t.d. í nágrannalöndum okkar. Eftir margra ára umræður sættust bændur á að halda í íslenska kúakynið en fullljóst var að gefa þurfti verulega í í innlenda kynbótastarfinu.

Skipulagt kynbótastarf, bætt þekking og aðbúnaður hafa skilað framförum en framleiðsla íslensku meðalkýrinnar hefur tvöfaldast á síðustu 30 árum, en betur má ef duga skal. Stærsta stökk íslenska kynbótastarfsins hingað til hefur að öllum líkindum verið þegar sæðingastarfsemi hófst á Íslandi um miðja síðustu öld. Næsta stóra stökk í kynbótastarfi íslenskrar nautgriparæktar er handan við hornið þar sem að grillir í að erfðamengisúrval verði að veruleika. 

Erfðamengisúrval tekið upp

Talsverð reynsla er komin á erfðamengisúrval erlendis á öðrum kúakynjum og er reynslan sú að aðferðin skilar gríðarlegum erfðaframförum. Öryggi kynbótamats eykst með erfðamengisúrvali og framfarirnar gerast hraðar þar sem að ættliðabilið styttist verulega og fer t.d. ættliðabil nautsfeðra mögulega niður í 2 ár ef vel til tekst en það er um 6-7 ár í dag. Talið er að miðað við núverandi skipulag geti þessi aðferð skilað verulegri aukningu á erfðaframförum, mismiklum eftir eiginleikum. Framkvæmd verkefnisins felur í sér aukinn kostnað en ávinningur af erfðaframförunum verður gríðarlegur. Þegar heildardæmið er reiknað, ávinningur og kostnaður, er talið að ávinningurinn nemi um 40 milljónum króna á ári í minnkuðum framleiðslukostnaði fyrir mjólkuriðnaðinn í heild.

En íslenskar rannsóknir sýna að aukning á öryggi kynbótamats skilar sér ekki í gripum sem ekki hafa verið arfgreindir og því er nauðsynlegt að allir gripir sem á að reikna erfðamengiskynbótamat fyrir verði arfgreindir. Til að viðhalda öryggi og marktækni erfðamatsins er nauðsynlegt að halda áfram að framkvæma arfgerðargreiningar og því er stefnt að því að arfgreina allar ásettar kvígur. 

Sýnatökur í höndum bænda

Stefnt er að því í upphafi nýs árs að hefja sýnatökur úr öllum kvígum og að bændur framkvæmi sýnatökuna um leið og kvígukálfar eru einstaklingsmerktir. Gefn­ar verða út greinargóðar leið­beiningar og reynt verður að hafa framkvæmdina sem einfaldasta fyrir bændur. Við merk­ingu á kvígum verða notuð eyrnamerki með sýnatökuglösum sem verða merkt sama númeri og eyrnamerkið. Box ætluð til að safna sýnum í verða send til bænda bráðlega. Boxin á að festa upp í mjólkurhúsi þar sem að mjólkurbílstjórar munu safna sýnunum um leið og þeir ná í mjólk á kúabú landsins og koma þeim svo áfram í arfgerðargreiningu. 

Við stöndum á spennandi tímamótum en erfðamengisúrval er eitthvert stærsta framfarastökk sem íslensk nautgriparækt mun taka. Ég gleðst mjög yfir að verkefnið sé loks að verða að veruleika en öll greinin hefur unnið saman að verkefninu; bændur, RML, fagráð í nautgriparækt, LK, BÍ og mjólkuriðnaðurinn. Nú megum við bændur ekkert gefa eftir.

Hækkum rána 

Ávinningurinn verður meiri því betri sem þátttakan verður. Til þess að hámarka árangur nýs kynbótaskipulags þurfum við að bæta okkur á fleiri vígstöðum, auka þarf notkun sæðinga með því að minnka heimanautanotkun og bæta má þátttöku í skýrsluhaldi.  Ég hvet alla kúabændur til að taka þessum breytingum vel og taka þátt í sýnatöku. Framfarir mjólkurframleiðslunnar hafa verið miklar á Íslandi undanfarin ár en fljótlega fáum við nýtt verkfæri í hendurnar sem gerir okkur kleift að sækja lengra í kynbótaframförum íslenska kúastofnsins. Ef allir leggja hönd á plóg getum við farið að segja þetta gott í hástökkinu, hækkað rána og farið að reyna við stangastökk í íslensku kynbótastarfi um leið og við fáum verkfærið í hendurnar.

 

Herdís Magna Gunnarsdóttir
formaður kúabænda

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...