Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 mánaða.
Pálmahúsið hýsir plöntur sem upprunnar eru í hitabeltinu. Húsið, sem er í Viktoríustíl, var reist á árunum milli 1844 og 1848.
Pálmahúsið hýsir plöntur sem upprunnar eru í hitabeltinu. Húsið, sem er í Viktoríustíl, var reist á árunum milli 1844 og 1848.
Mynd / VH
Fræðsluhornið 3. október 2022

Grænni framtíð með Kew

Höfundur: Vilmundur Hansen

Grasagarðurinn í Kew var formlega settur á stofn árið 1840 en þar hafði verið einkagarður fyrir með miklu plöntusafni. Í dag er Kew einn af fallegustu og virtustu grasagörðum í heimi.

Wollemia nobilis er ein af sjaldgæfustu trjátegundum í heimi. Tegundin er í gjörgæslu og fjölgað í Kew. Sama tré 2011 og 2022 og það hefur þrefaldast í hæð.

Auk garðsins sjálfs, sem er opinn almenningi, er unnið í tengslum við hann gríðarlegt vísindastarf sem felst meðal annars í greiningu og varðveislu erfðaefnis plantna í útrýmingarhættu og nytjaplantna.

Markmið Kew er að auka skilning manna á gróðri og sveppum og á sama tíma að vernda líffræðilega fjölbreytni í náttúrunni og vera safn og sýningarsvæði fyrir plöntur.

Garðurinn, sem heitir fullu nafni Royal Botanic Gardens, Kew, er 120 hektarar að stærð og staðsettur í Richmond upon Thames í suðvesturhluta London. Í honum er að finna yfir fimmtíu þúsund mismunandi tegundir plantna auk fjölda ólíkra yrkja og afbrigða. Garðurinn er eitt stærsta og fjölbreyttasta safn lifandi gróðurs í heiminum.

Til að skilja umfang starfsemi garðsins í Kew þá starfa við hann rúmlega 500 manns og þar af 150 garðyrkjufræðingar og 350 sérfræðingar sem sinna rannsóknum og flokkun. Vísindasvið garðsins heldur úti meistara- og doktorsnámi í grasafræði og þar er einnig garðyrkjuskóli. Auk stjórnunar-, skrifstofu- og starfsfólks í þjónustu við veitingasölu og verslun garðsins og ekki má gleyma ógrynni af sjálfboðaliðum við leiðsögn og umhirðu blómabeða. Árlega heimsækja garðinn meira en 1,4 milljónir gesta.

Wakehurst í Sussex

Grasagarðurinn við Wakehurst í Sussex er rekinn undir stjórn Konunglega grasagarðsins í Kew. Fyrstu kæligeymslurnar þar fyrir fræ voru byggðar árið 1978. Þar er varðveitt fræsafn Kew, Milleninum Seed Bank, sem hýsir fræ um 75.000 tegunda sem er nærri 25% allra þekktra plantna í heiminum.

Garður á gömlum grunni

Fyrtu heimildir um búsetu háaðalsins í Richmond upon Thames eru frá 1299 þegar Edvarð I flutti hirð sína í sveitasetur sem hann byggði þar. Hinrik VII bætti um betur og létt byggja þar höll 1501 og gerða að fastabústað sínum og þar bjó Mary Tudor eða Blóð-María Bretlandsdrottning um tíma. Umhverfis höllina voru lendur Kew.

Upphaf ræktunar á landinu þar sem Kew er í dag er rakið aftur til Henry Capell baróns sem var uppi á sautjándu öld. Capell, sem átti þar 132 hektara, var mikill plöntusafnari líkt og margir aðalsmenn á þeim tíma og ræktuðu garðyrkjumenn hans sjaldgæfar plöntur undir berum himni og í gróðurhúsum úr gleri.

Árið 1731 keyptu Frederick Louis og Ágústa af Saxe-Gotha, prinsinn og prinssessan af Wales, landið og héldu ræktunarstarfinu áfram. Frederick lést skyndilega 1751 en ekkjan hélt sínu striki og árið 1759 opnaði hún átta hektara grasa- og skemmtigarð fyrir gestum af aðals- og hefðarstétt.

Frá þeim tíma hafa margir merkismenn komið að uppbyggingu garðsins. Árið 1762 hannaði William Chambers lávarður, og lét byggja, pagóðu í garðinum sem gjöf til Ágústu prinsessu. Pagóðan stendur enn og var á sínum tíma einn besti úrsýnisstaðurinn í London.

Japanskt pagóðutré, Styphnolobium japonicum, gróðursett í Kew 1762. Öldungur sem þarf stuðning.

Joseph Banks, sem ferðaðist um Ísland 1772, sendi fyrstur manna fræ frá fjarlægum löndum til Kew árið 1768 þegar hann var náttúrufræðingur um borð þegar Cook sigldi Endeavor fyrir Hornhöfða Suður-Ameríku og þaðan til Ástralíu og Nýja-Sjálands og fyrir suðurodda Afríku heim til Bretlands. Eftir heimkomuna var Banks útnefndur fyrsti forstöðumaður garðsins og sérstakur ráðgjafi Georgs III Bretakonungs við Kew. Banks var ekki bara duglegur að safna plöntum sjálfur fyrir garðinn því hann sendi áhugasama grasafræðinga út um allan heim til að safna plöntum. Sagan segir að fyrir hans tilstuðlan hafi borist í garðinn um 30 þúsund plöntur sem flestar voru óþekktar í Evrópu á þeim tíma. Banks er sagður eiga mesta heiðurinn af því að byggja grunninn að gróðurfjölbreytni Kew og því vísindastarfi sem þar fer fram í dag.

Skoski grasafræðingurinn Francis Masson, sem dvaldi í Suður-Afríku við gróðurrannsóknir frá 1773 til 1775, sendi hátt í þúsund sýni af fræjum, lifandi og þurrkuðum plöntum til Kew. Masson sendi árið 1175 til Bretlands kögurpálma, Encephalartos altensteinii.

Árið 1848 var planta flutt í pálmahús Kew og er plantan enn og telst vera elsta pottaplanta í heimi.

Köngulpálmategundin, Encephalartos altensteinii, í Pálmahúsinu er elsta planta í heimi sem vitað er um að sé ræktuð í potti.

Í Kew er gróðurhús sem var byggt 1852 eingöngu til að rækta risavatnaliljur.
Kew formlega grasagarður

William Hooker, lávarður og Íslandsferðalangur, tók við af Banks sem forstöðumaður Kew 1840. Sama ár er grasagarðurinn í Kew formlega settur á laggirnar og garðurinn opnaður fyrir almenningi.

Ári seinna færði sonur hans og Joseph Hooker garðinum að gjöf plöntur frá Falklandseyjum sem voru fluttar yfir hafið í Wardian-kassa. Einfaldri uppfinningu sem breytti sögu grasafræðinnar.

Næstu áratugina var mikil uppbygging í garðinum. Hitabeltis- eða pálmahúsið og gróðurhús fyrir plöntur frá tempruðu beltunum eru reistar og reist er sérstök bygging til að hýsa þurrkaðar plöntur.

Þegar Hooker eldri lést árið 1865 tók Joseph sonur hans við sem forstöðumaður en steig til hliðar í því starfi 1885. Í hans tíð var stofnsett við garðinn Jodrell rannsóknamiðstöðin sem á þeim tíma lagði áherslu á rannsóknir á plöntusjúkdómum og frumum plantna sem framleiða gúmmí. Árið 1894 var kona í fyrsta sinn ráðin til starfa við garðinn.

Tuttugasta öldin í Kew

Heimsstyrjaldirnar tvær drógu mikinn þrótt úr starfsemi grasagarðsins. Árið 1930 voru rannsóknir á sveppum settar undir vísindasvið Kew. Garðurinn var leiðandi í Dig for Victory! verkefninu með kennslu á og ræktun matjurta og lækningaplantna sem sett var á laggirnar 1939 sem viðleitni Breta til sjálfbærni í seinni heimsstyrjöldinni.

Íbúar Bresku Kolumbíu í Kanada færði Kew rétt tæplega 69 metra háa flaggstöng árið 1952. Flaggstöngin var einn bolur af stranddegli, Pseudotsuga menziesii, og stóð í garðinum til 2007 en þá hafði veður og spætur gengið svo nærri henni að hún var fjarlægð í öryggisskyni.

Árið 1987 gekk gríðarlegt óveður yfir Bretlandseyjar og í því veðri féllu mörg gömul tré í garðinum með þeim afleiðingum að það varð að fjarlægja þau.

Kew var sett á Heimsminjaskrá Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, sem sameiginleg menningararfleifð alls mannkyns árið 2003.

Á síðari hluta síðustu aldar var aðstaða til erfðafræðirannsókna efld við garðinn auk þess sem lögð hefur verið aukin áhersla á fræðslu til almennings í garðinum sjálfum.

Koparbeyki, Fagus sylvatica 'Purpurea'. Tréð var gróðursett í Kew um miðja átjándu öld sem hluti af trjásafninu sem fyrstu forstöðumaður garðsins var að byggja upp.
Öldungarnir fimm

Í trjásafni Kew eru yfir 14 þúsund tré sem setja sterkan svip á garðinn. Trén eru af tvö þúsund ólíkum tegundum og þar er að finna fjölda gamalla yrkja og afbrigða sem ekki finnast annars staðar. Hæsta tréð er er ríflega 40 metra hár strandrauðaviður, Sequoia sempervirens, auk þess sem þar má skoða spænskættaða eik, Quercus x hispanica 'Lucombeana', sem er 30 metrar að hæð og með bol sem er 30 metrar að ummáli.

Vitað er að fimm tré í Kew hafa verið þar frá 1762 og kallast þau ljónin fimm. Þetta eru ginkgotré, Ginkgo biloba, pagóðatré Styphnolobium japonicum, austurlenskur platnaviður, Platanus orientalis, falskt akasíutré, Robinia pseudoacacia, og kákasuselmi Zelkova carpinifolia.

Vetur, sumar, vor og haust

Fyrir áhugafólk um gróður og reyndar alla aðra er alveg sama á hvaða árstíma garðurinn er heimsóttur. Gróðurinn og garðurinn er síbreytilegur og þar er alltaf hægt að finna eitthvað áhugavert að skoða.

Á vorin blómstra hundruð þúsunda litríkra vorblóma eins og krókusar, vetrargosar og hátíðarliljur í beðum og um allan garðinn eru kirsuberjatrén og magnolíurnar í fullum blóma. Þegar líður að og inn í sumarið er garðurinn í fullum skrúða og rósagarðurinn upp á sitt besta og ilmurinn yndislegur. Lauf trjánna marglaga, marglit og mikilfengleg. Þegar haustar taka laufblöð ólíkra trjáa á sig rauða og gula haustliti og ólíkar og marglaga fræhirslur blómanna verða sýnilegri. Þá er líka uppskerutími í matjurtagarðinum og gaman að skoða úrvalið. Sígrænar plöntur setja mikinn svip á garðinn á veturna og þá er forvitnilegt að skoða fjölbreytilegan börk ólíkra trjátegunda. Veturinn er líka upplagður tími til að skoða gróðurinn í gróðurhúsunum.

Höll úr gleri

Fljótlega eftir að Pálmahúsið, frægasta gróðurhúsið og helsta kennileiti Kew, var reist var farið að kalla það glerhöllina. Húsið, sem er í Viktoríustíl, reist á árunum milli 1844 og 1848, var glæsilegasta gróðurhús í heimi þegar það var byggt.

Tilgangurinn með húsinu var að hýsa sívaxandi safn garðsins af plöntum úr hitabeltinu sem það gerir enn.

Bygging hússins var mikið afrek á sínum tíma. Grindin er gerð úr pottjárni og húsið 110 metra langt, 30 metrar að breidd og 19 metrar þar sem það er hæst og glerjað með 16 þúsund rúðum. Talsverðar endurbætur voru gerðar á húsinu og það styrkt á árunum 1984 til 1988 og tóku þær jafnlangan tíma og bygging hússins hundrað árum fyrr. Innandyra er heitt og rakt eins og í regnskógunum og gróðurinn einkennist af pálmum, gúmmítrjám og kögurpálmum og margs konar klifurplöntum. Þar má skoða kakótré, piparplöntur, risabambus, kaffitré og sykurreyr svo fátt eitt sé nefnt.

Tempraða gróðurhúsið

Gróðurinn í tempraða gróðurhúsinu einkennist af plöntum frá heittempruðum svæðum í Afríku, Ástralíu, Asíu og Ameríku eins og próterum, terunna, djúprauðum Cliantus maximus og pálmum. Samkvæmt plöntulista hússins eru þar um 1500 ólíkar tegundir.

Bygging hússins hófst 1860 en vegna fjárskort tók 38 ár að klára það. Tempraða húsið var tekið í notkun í áföngum og ekki fullbúið fyrr en 1898. Húsið var allt gert upp á síðasta áratug og meðan á þeim framkvæmdum stóð voru allar plönturnar í því fluttar annað til geymslu. Heildarkostnaður við uppgerð gróðurhússins var 41 milljón pund, 6,6 milljarðar íslenskra króna á núverandi gengi, og það var aftur opnað almenningi 2018.

Háfjallagróðurhúsið er nýjasta og jafnframt minnsta gróðurhúsið í Kew. Húsið er hannað með þarfir kuldaþolins háfjallagróðurs í huga.

Gróðurhús prinsins af Wales

Eins og góðum konungi sæmir færði Karl III garðinum fullkomin gróðurhús að gjöf árið 1987 á meðan hann var prinsinn af Wales og krúnuerfingi. Húsið er þannig hannað að í því er hægt að ganga á milli tíu veðrabelta og skoða einkennisgróður hvers beltis fyrir sig. Hvort sem það eru kaktusar eða þykkblöðungar eyðimarkanna eða ásætur úr regnskógunum.

Eitt af fjölmörgum plöntuundrum í gróðurhúsinu er hræblómið, Amorphophallus titanum, sem blómstraði fyrst í gróðurhúsi í garðinum árið 1889. Helsta sérkenni plöntunnar, sem er upprunnin á eyjunni Súmötru, er að hún blómstrar gríðarlega stóru blómi og lyktar eins og vel rotnað hræ af stórgrip og laðar þannig að sér frjóbera.

Gróðurhúsið sem Karl III gaf Kew þegar hann var enn krúnuerfingi. Í húsinu er hægt að ganga á milli tíu veðrabelta og skoða einkennisgróður hvers beltis fyrir sig.

Vísindastarfið í Kew

Auk þess að vera fallegur garður með ótrúlega fjölbreyttu úrvali plantna frá öllum heimshornum er Kew ein virtasta miðstöð plöntuvísinda í heiminum. Kew er með á sínum snærum sérfræðinga á flestum sviðum grasafræðinnar. Hvort sem það er plöntulíffræði eða erfðafræði, flóra ákveðinna heimsálfa, plöntutegunda, greining plantna, varðveisla þurrkaðra planta, sveppa og garðyrkju, og á góðum degi er í Kew töluð meiri latína en í Vatíkaninu.

Sérfræðingar Kew eru í samstarfi við hátt á fimmta hundrað vísindastofnanir í yfir hundrað löndum og hafa ákveðin landsvæði og jafnvel lönd undir smásjá, þar sem lögð er áhersla á að skrá og safna sýnishornum af plöntum sem eru í útrýningarhættu vegna eyðingu búsvæða þeirra.

Sem dæmi er í gangi verkefni í Kenía sem fest í því að vernda villt afbrigði af bönunum og annað í Eþíópíu sem vinnur rannsókn á villtum kaffiafbrigðum. Í Ástralíu, Alpafjöllum Evrópu og í ríkjum Kákasusfjalla Georgíu, Armeníu og Aserbaídsjan er safnað fræjum af villtum plöntum sem einungis finnast á þeim svæðum og í Indónesíu og Papúa Nýju-Geníu er unnið að verndun gróðursvæða sem þykja einkennandi eða sérstæð. Auk þess sem 40 manns starfa á Madagaskar við gróðurrannsóknir á vegum Kew.

Nafneintak úr plöntusafni Kew grasagarðsins. Charles Darwin þurrkaði og setti plöntuna upp í ferð sinni til Galapagoseyja árið 1835.
Þurrkaða plöntu- og sveppasafnið

Í Kew er varðveitt eitt stærsta vísindasafn í heimi af þurrkuðum plöntum og sveppum. Plöntusýnishornin í safninu eru um átta milljón og koma frá öllum heimshornum og um 20 þúsund eintök bætast við á hverju ári. Í sveppasafninu eru varðveitt hátt í 500 þúsund sýni.

Gríðarleg vinna liggur að baki góðu vísindalegu sveppa- og plöntusafni, söfnun, greining, þurrkun og uppsetning, auk þess sem geymsla á stórum söfnum er plássfrek og þarfnast sérstaks húsnæðis ef vel á að vera.

Safnið er einnig með í sinni vörslu ríflega 175.000 þúsund myndir, teikningar og málverk af plöntum.

Elsti hluti plöntusafnsins er í húsi sem byggt var sérstaklega undir það árið 1852, síðan hafa geymslur safnsins verið stækkaðar fimm sinnum og nýjar geymslur aðlagaðar kröfum samtímans.

Elstu plönturnar í safninu eru frá 1696 og komnar frá lækninum og grasafræðingnum Samuel Brow sem starfaði á Indlandi.

Meðal annarra dýrgripa í safninu eru plöntur sem Charles Darwin þurrkaði og setti upp í ferð sinni með Beagle til Suður-Ameríku og Galapagoseyja árið 1835.

Bókasafn Kew, stærsta plöntubókasafn í heimi, er í samliggjandi húsi við plöntusafnið og geymir rúmlega 500 þúsund bækur, skjöl, handrit, tímarit og kort sem tengjast grasafræði.

Munir úr plöntum

Í Economic botany safninu í Kew eru varðveittir yfir eitt hundrað þúsund munir úr plöntum og um 500 úr sveppum sem tengjast efnahag, verslun og viðskipum og einnig talsvert af listmunum.

Þar er að finna einn af fáum upprunalegum Wardian-kössunum sem til eru, klæðnað, byggingarefni, kanóna, eitur í flöskum, sýnishorn af margs konar tei, mínatúr með íslensku brennivíni, leikföng, skartgripi og ótal margt fleira.

Wardian-kassi í vörslu Economic botany safnsins. Einföld uppfinning sem breytti sögu grasafræðinnar.

Þreyttir fætur

Eftir langan dag og mikla göngu í garðinum er gott að geta sest niður á öðru af tveimur veitingahúsunum í Kew og fá sér kaffi eða bjór og létta máltíð.

Annað kaffihúsið er í gamla appelsínuhúsinu eða Oranseríinu en samhliða Pavilion greiðasölunni er gjafavöruverslun og ágætis bókabúð sem sérhæfir sig í plöntum og ræktun auk bóka sem Kew gefur út.

Skylt efni: grasagarður

Margar nýjungar á EuroTier 2022
Fræðsluhornið 2. desember 2022

Margar nýjungar á EuroTier 2022

Hin heimsfræga þýska landbúnaðarsýning, EuroTier, var haldin um miðjan nóvember ...

Hvað getum við öll lagt af mörkum?
Fræðsluhornið 1. desember 2022

Hvað getum við öll lagt af mörkum?

Í tilefni nýliðinnar vitundarviku um skynsamlega notkun sýklalyfja 18.-24. nóvem...

Bovine Parainfluensa 3 vírus greinist í fyrsta sinn hér á landi
Fræðsluhornið 30. nóvember 2022

Bovine Parainfluensa 3 vírus greinist í fyrsta sinn hér á landi

Nýverið greind­ist Bovine Para­influenza Virus 3 (BPIV3) í fyrsta skipti hér á l...

Samvinnufélög bænda að gefa eftir á heimsmarkaði
Fræðsluhornið 29. nóvember 2022

Samvinnufélög bænda að gefa eftir á heimsmarkaði

Hollenski landbúnaðarbankinn Rabobank gefur árlega út lista yfir stærstu afurðaf...

Varnir gegn landbroti
Fræðsluhornið 28. nóvember 2022

Varnir gegn landbroti

Landgræðslan hefur það hlutverk skv. lögum um landgræðslu (lög nr. 155/2018) að ...

Goðsögnin um fiskát Íslendinga
Fræðsluhornið 25. nóvember 2022

Goðsögnin um fiskát Íslendinga

Í alþjóðlegum samanburði, sem Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna ...

Sjúkdómar í trjáplöntum
Fræðsluhornið 25. nóvember 2022

Sjúkdómar í trjáplöntum

Pöddur, sjúkdómar og sveppir eru yfirleitt óvelkomnir gestir í garð- og skógrækt...

Huga þarf betur að pökkun grænmetis
Fræðsluhornið 23. nóvember 2022

Huga þarf betur að pökkun grænmetis

Frá síðasta hausti hefur verið unnið að verkefnum hjá Matís, sem hafa það að mar...