Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Því betur sem bændur hlúa að kvígunum og kúnum síðustu vikurnar fyrir burð, því meiri eru líkurnar á því að gripirnir verði hraustir og skili auk þess góðum afurðum.
Því betur sem bændur hlúa að kvígunum og kúnum síðustu vikurnar fyrir burð, því meiri eru líkurnar á því að gripirnir verði hraustir og skili auk þess góðum afurðum.
Mynd / HKr
Á faglegum nótum 27. febrúar 2020

Geldstaðan er upphaf mjaltaskeiðsins

Höfundur: Snorri Sigurðsson - snorri.sigurdsson@outlook.com
Þó svo að flestir kúabændur líti á burð sem upphaf mjaltaskeiðs, má færa góð rök fyrir því að í raun hefjist nýtt mjaltaskeið með geldstöðunni. Á þessu tímabili er júgurvefurinn undirbúinn undir komandi framleiðslutímabil og hér þarf ótal margt að ganga upp, svo vel eigi að vera. 
 
Það mætti bera saman upphaf mjólkurframleiðsluferilsins við prentun Bændablaðsins, en þegar komið er að prentuninni sjálfri liggur að baki mikil vinna við greinaskrif, uppsetningu og annað sem þarf svo blaðið standi undir nafni. Sama á við um mjólkurframleiðsluna en þegar hún hefst hefur júgurvefurinn og kýrin sjálf staðið að undirbúningi í margar vikur. Svo allt gangi vel upp, þarf að undirbúa málið vel og koma framleiðsluferlinu í réttan farveg.
 
Þetta gildir ekki einungis um kýr heldur svo sannarlega kvígur líka og því betur sem bændur hlúa að kvígunum og kúnum síðustu vikurnar fyrir burð, því meiri eru líkurnar á því að gripirnir verði hraustir og skili auk þess góðum afurðum.
 
Því er afar mikilvægt einmitt á þessu tímabili að tryggja kvígum og kúm gott rými og næði svo þær geti étið það sem við ætlumst til að þær geri.
 
Kvígum þarf að sinna
 
Of víða eru kvígurnar látnar vera út af fyrir sig allt fram að burði og margir sem líta ekki á tímabilið með kvígurnar síðustu 6 vikurnar fyrir burð með sama hætti og geldar kýr, en þær hafa í raun sömu þarfir og því á að meðhöndla þær eins og geldar kýr. Það er þó vandmeðfarið að sinna þeim vel því reynslan sýnir að best er að hafa þær ekki með kúnum vegna vandamála með virðingarröðina og t.d. á stærri búum, þar sem hægt er að hafa kvígurnar í sér hópi á fyrsta mjaltaskeiði, þá skila þær mun meiri afurðum en séu þær hafðar saman við hóp eldri kúa. 
 
Þetta skýrist af eineltistilburðum sem sjást hjá eldri kúm, sem oft hefur þau áhrif að kvígur éta hreinlega minna og hvílast minna en hinar sem eldri eru. Til þess að geta útbúið almennilegt skipulag fyrir kvígurnar síðustu vikurnar fyrir burð þá segir sig sjálft að nauðsynlegt er að hafa vitneskju um daginn sem þær festa fang sem er lítið mál séu þær sæddar en getur verið vandasamara, en vissulega hægt líka, sé þarfanaut notað.
 
Að gelda upp
 
Hér áður fyrr voru kýr oftast geldar upp þegar lítið var í þeim en í dag er mun algengara að gelda þarf kýr upp sem eru enn í töluverðri framleiðslu og jafnvel í tug lítra framleiðslu á dag. Fyrst ætti alltaf að senda sýni í PCR greiningu áður en kýrin fer í geldstöðu, svo hægt sé að meðhöndla mögulega sýkingu í geldstöðunni með réttum lyfjum.
 
Oft eru kýrnar þá settar á létt fóður, svo framleiðslan minnki og séu kýrnar hraustar þola þær vel að hætt sé að mjólka þær bratt, jafnvel þó þær séu í mikilli nyt. Skýringin felst í því að mjólkurframleiðslan er hormónatengd og þegar hætt er að mjólka kúna, bregst líkaminn hratt við. Það getur þó verið kostur að létta á mjólkurþrýstingnum eftir 1–2 daga ef sérstök ástæða þykir til þess.
 
Í þessum hluta geldstöðunnar eru kýrnar viðkvæmar fyrir júgurbólgu og við mælum oftast með því að þær séu spenadýfðar í a.m.k. eina viku eftir upphaf geldstöðunnar, til að gefa þeim meðbyr að takast á við umhverfisbakteríur. Það gerir líka það að verkum að það verður fylgst sérlega vel með kúnum þessa fyrstu viku, sem einmitt er mikilvægt ef upp koma vandamál. Í upphafi geldstöðunnar myndast keratín-tappinn í spenagöngunum en hann gegnir því hlutverki að loka spenanum á meðan geldstaðan stendur yfir. Það er misjafnt hvað þessir tappar myndast hratt og því er spenadýfan góður kostur á meðan þetta gerist.
 
Í raun þarf að þrískipta fóðri í geldstöðunni. Fyrsta fóðurgerðin er gefin þegar kýrnar eru að geldast upp, önnur fóðurgerðin á fyrri hluta geldstöðunnar og svo þriðja fóðurgerðin á síðari hluta geldstöðunnar. Mynd / HKr.
 
Gefa þeim pláss
 
Eitt af því sem við sjáum of víða í heiminum er að það rými sem kvígum, sem komnar eru undir burð, og geldum kúm er ætlað er alls ekki nógu gott. Í raun ætti að nýta bestu aðstöðuna einmitt fyrir geldar kýr og kvígur en þeirra þarfir eru nokkuð einfaldar: þær vilja hreint rými, mjúkt og þurrt, hafa aðgengi að góðu vatni og fóðri auk þess að hafa næði og rými til að hvílast. Tilfellið er hins vegar að oft eru nýtt einhvers konar afgangsrými fyrir þessa gripi og mjög oft er rýmið takmarkað, en eins og hér að framan segir er það einkar óheppilegt vegna virðingarraðarinnar.
 
Þar sem fæstir eru með það stóra hjörð að hægt sé að hafa kvígur og geldar kýr hvorar í sínum hópnum svo vel eigi að vera, þarf meira rými en ella svo óþarfa árekstrar milli kvíga og eldri gripa séu lágmarkaðir. Þá þarf einnig að vera gott pláss við fóðurganginn þar sem átgetan fellur síðustu þrjár vikurnar í geldstöðunni. Því er afar mikilvægt einmitt á þessu tímabili að tryggja kvígum og kúm gott rými og næði svo þær geti étið það sem við ætlumst til að þær geri. Þær eru líka á þessu tímabili orðnar miklar um sig og þurfa því rúmgóða legubása.
 
Oft of feitar
 
Annað vandamál sem sést víða er ólag á fóðrun kvíganna þegar líður á seinni hluta meðgöngunnar og kúnna á síðari hluta mjaltaskeiðs. Á þessu tímabili eykst oft fitusöfnunin og séu t.d. kýrnar þegar orðnar feitar í upphafi geldstöðunnar, er orðið of seint að bregðast við. Þá er svo sem hægt að halda í horfinu en í raun of seint að draga úr holdastigi þeirra. 
 
Þegar komið er að þessum tímapunkti ætti holdastigið að vera um 3,00–3,25 og ekki hærra en 3,50 en ef kvígur eða kýr holdastigast allt of hátt getur það leitt til allskonar vandamála þegar komið er að burði og eftir burðinn. Þetta er vandamál sem við sjáum á kúabúum um allan heim og skýrist auðvitað af gríðarlega breyttri fóðurþörf samhliða mikilli átgetu á síðari hluta meðgöngunnar.
 
Því stærri sem búin eru, því auðveldara er yfirleitt að leysa þetta vandamál en þá eru búnir til nokkrir mismunandi fóðrunarhópar þar sem holdafarinu er stýrt nokkuð stíft. Á minni búum er fjöldi gripa einfaldlega ekki nógu mikill til þess að það sé mögulegt eða hagkvæmt að búa til mismunandi fóðrunarhópa. Á móti kemur að þá er hægt að taka gripi í einstaklingsmeðferð og forðast því þannig að fá alltof feita gripi.
 
Tvö tímabil í geldstöðunni
 
Geldstaðan er talin vera hæfilega löng ef hún er 45–60 dagar, en tilraunir hafa sýnt að sá tími hentar júgurvefnum best til að undirbúa sig undir komandi mjólkurframleiðslutímabil. Erlendis er oftast í dag miðað við 6–7 vikur í geldstöðu og raunar ekki lengur talað um geldstöðu sem slíka yfir allt tímabilið heldur nú orðið talað um tímabilin allt að 3 vikum fyrir burð og svo 3 vikum fyrir burð og að burði. Þessi tvö tímabil kallast á ensku „far-off“ sem kalla mætti fyrri hluta geldstöðu og svo „close-up“ sem er þá síðari hluti geldstöðu. Ástæða þess að þessi tvö tímabil eru höfð aðskilin í geldstöðunni, er breyting á fóðrun og ástandi bæði kvígna og kúa.
 
Fyrri hluti geldstöðunnar
 
Á þessu tímabili fara þær á hefð­bundið geldstöðufóður, sem er töluvert orkulægra í styrk en þegar kemur að síðari hluta geldstöðunnar.
 
Síðari hluti geldstöðunnar
 
Á þessu tímabili er fósturvöxturinn á sínu lokastigi og orkuþörf kúnna og kvíganna mikil en samtímis er átgetan minni og minnkar oft enn frekar þegar líður að burði. Þetta er óheppilegt í alla staði enda eiga kýrnar helst ekki að vera í of miklu neikvæðu orkujafnvægi fyrir burðinn. Af þessum sökum er fóðruninni breytt á þessu tímabili og orkustig þess hækkað en þó ekki meira en svo að gripirnir séu rétt undir orkujafnvæginu því þá örvast brennsla á fituforða sem er mikilvægt ferli þegar mjólkurmyndunin er komin í fullan gang.
 
Viku fyrir burð mælum við einnig með því að sett sé góð joðdýfa á spenana bæði á kvígunum og kúnum svo minnka megi líkurnar á því að þær fái júgurbólu um eða eftir burðinn. Þessa síðustu viku er líkaminn undir miklu álagi og mótstöðuaflið er í ójafnvægi, m.a. vegna breytinga á hormónastarfseminni. Á sama tíma er júgurvefurinn að hefja framleiðslu sína og oft losnar um keratín-tappana í spenaendunum samhliða. Þá geta bakteríur komist inn í spenann og júgurholið og samtímis eru möguleg áhrif lang-virkra geldstöðulyfja, hafi þau verið notuð, orðin hverfandi og því hamla þau ekki lengur fjölgun á bakteríum. Með því að hlífa spenaendunum með góðri dýfu er hins vegar hægt að draga verulega úr líkunum á því að þetta gerist.
 
Fóðrunargæðin
 
Í raun þarf að þrískipta fóðri í geldstöðunni. Fyrsta fóðurgerðin er gefin þegar kýrnar eru að geldast upp, önnur fóðurgerðin á fyrri hluta geldstöðunnar og svo þriðja fóðurgerðin á síðari hluta geldstöðunnar. Hvernig fóðrið á að vera samsett er auðvitað háð því hvaða fóðurgæði eru í boði hverju sinni á viðkomandi búi en hafa þarf sérstaklega í huga orkustig fóðursins eins og hér að framan segir, en einnig að bæði steinefni og vítamín séu í samræmi við þarfirnar. Rétt er að benda á að alltaf er mælt með því að fóðuráætlun sé gerð af fagfólki með sérmenntun á þessu sviði.

Skylt efni: geldstaða | mjaltaskeið

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...