Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Fyrstu skref Ferguson á Íslandi
Á faglegum nótum 23. febrúar 2016

Fyrstu skref Ferguson á Íslandi

Höfundur: Sigurður Skarphéðinsson
Sigurður Skarphéðinsson var einn aðalviðgerðarmaður fyrir Fergusonvélar á árum áður og fór vítt og breitt um landið í viðgerðarferðir. Á vefsíðu Ferguson-félagsins hefur hann birt grein um uppruna Ferguson-dráttarvéla á Íslandi og þróun Dráttarvéla hf. sem var fyrsti innflutningsaðili þessara tækja hérlendis. Hér birtist grein Sigurðar óbreytt.
 
Það var vorið 1949 sem fyrstu Ferguson dráttarvélarnar komu til landsins. Innflutningsaðilinn var fyrirtækið Dráttarvélar hf. sem var stofnað á útmánuðum það ár eingöngu í þeim tilgangi að flytja inn Ferguson dráttarvélarnar. Til að stjórna fyrirtækinu var ráðinn Hjalti nokkur Pálsson sem hafði numið búvélaverkfræði í Bandaríkjunum á árunum 1943–1947. Hjalta var strax í upphafi umhugað um að eigendur og notendur Ferguson dráttarvélanna nytu fræðslu um notkun og umhirðu vélanna. 
 
Fékk hann Þórð Runólfsson véltæknifræðing til að semja leiðarvísi á íslensku um meðferð Ferguson dráttarvélanna. Þetta var í samræmi við vilja ráðamanna Harry Ferguson Ltd. Brá Hjalti á það ráð að gangast fyrir námskeiðum fyrir starfsmenn kaupfélaganna um meðferð og hirðingu. 
 
Einnig voru menn sendir á námskeið til höfuðstöðva Ferguson í Conventry á Englandi eins og kemur fram í frétt í Tímanum í mars 1957. Í þessari sömu frétt í Tímanum segir að Ferguson dráttarvélarnar séu orðnar hátt á annað þúsund í landinu og átti þeim eftir að fjölga mikið á næstu árum. Var innflutningur Ferguson og síðar Massey Ferguson í miklum meirihluta innfluttra dráttarvéla á þessum árum.
 
Hvenær hófst viðgerðarþjónustan?
 
Nýráðinn framkvæmdastjóri Dráttarvéla hf. 1960 var Baldur Tryggvason. Var honum hugleikin hverskonar fræðsla varðandi notkun og viðhald ekki síður en Hjalta Pálssyni enda í samræmi við áherslu ráðamanna í höfuðstöðvum MF. Hjalti er þegar þarna er komið stjórnarformaður fyrirtækisins. Þó hann væri ekki lengur við stjórnvöl Dráttarvéla hf í daglegum rekstri lét hann sig varða framgang þess sem stjórnarformaður. Eftir því sem vélunum fjölgaði sá hann að þáttur viðhalds varð meira áríðandi, en þekking til sveita í þá átt af skornum skammti. Því var það að Hjalti hittir árið 1959 ungan mann Kristján Hannesson frá Víðigerði í Eyjafirði sem var nýkominn frá Bandaríkjunum þar sem hann hafði unnið hjá John Deer umboðsaðila við viðgerðir dráttarvéla og landbúnaðartækja um eins árs skeið.  Hjalti falaðist þá eftir kröftum hans til að ferðast um landið og annast viðhald og viðgerðir Ferguson og Massey Ferguson dráttarvéla. 
 
Varð að ráði að Kristján færi út til Coventry á námskeið í viðhaldi og viðgerðum á þessum vélum. Í framhaldi af því var keyptur sendibíll af Chevrolet gerð og hann búinn nauðsynlegustu handverkfærum. Var merki MF og nafn Dráttarvéla hf. málað á hliðar bílsins. Þessi þjónusta byrjaði í maí 1960 með því að til landsins kom þjónustumaður frá Massey Ferguson, Stanley Williams að nafni. Var hann með Kristjáni fyrstu tvær vikurnar. 
 
Fast verð fyrir hverja skoðun
 
Var tekið fast verð fyrir skoðun á hverri dráttarvél, kr. 475 fyrir bensín dráttarvél en kr. 545 fyrir díselvél. Skoðunin fólst í því að skipt var um kerti og platínur í bensínvélunum og stilltur blöndungur og ventlar en á díselvélunum voru spíssar teknir úr og stilltir ásamt ventlum. Ennfremur var kúpling stillt og bremsur. Ef um bilun var að ræða var gert við það sem bilaða var, ef aðstæður leyfðu.
 
Fyrsti viðkomustaðurinn var að Brekku í Norðurárdal í Borgarfirði. Þegar skoðaðar höfðu verið vélar í Norðurárdal var haldið vestur á Mýrar.
 
Eftir þriggja ára þjónustu var farið að horfa til stærri bíls. Stærð Chevroletsins takmarkaði magn verkfæra sem hægt var að hafa meðferðis. Það sýndi sig að verkfæraskortur kom í veg fyrir að hægt væri að framkvæma allar þær viðgerðir sem um var beðið.
 
Var því árið 1963 ráðist í að útbúa stærri viðgerðarbíl sem væri búinn betri tækjakosti. Fyrir valinu varð notaður mjólkurbíll frá Vík í Mýrdal af Henchel gerð, en Dráttarvélar hf. voru með umboð fyrir þessa tegund bíla. Á bílinn var sett hús af langferðabíl í stað vörupalls. Húsið var sænsk smíðað og kom af langferðabíl Sæmundar og Valdimars í Borgarnesi, M 505. 
 
Ásetningu hússins og innréttingu önnuðust smiðjur Kaupfélags Árnesinga á Selfossi. 
Mun bíllinn hafa verið tekinn í notkun vorið 1964. Í dagblaðinu Tímanum þ. 22. janúar 1965 er frétt á baksíðu um viðgerðaþjónustu Dráttarvéla hf. sem ber yfirskriftina: „Veita viðgerðar- þjónustu á afskekktustu stöðum“.  Þar segir m.a.
„Dráttarvélar hf hafa frá því á árinu 1960 rekið viðgerðaþjónustu fyrir Massey Ferguson  dráttarvélar sem þeir selja og hefur Kristján Hannesson ferðast um þvert og endilangt landið síðan til þess að gera við og líta eftir hinum fjölmörgu Ferguson og Massey Ferguson dráttarvélum sem íslenskir bændur eiga. Þess má geta hér að í landinu eru Massey Ferguson vélarnar lang flestar, eða meira en helmingur.“
 
Í frétt Tímans segir að Baldur Tryggvason, framkvæmdastjóri Dráttarvéla hf., og Kristján Hannesson hafi sýnt fréttamanni Tímans bílinn. Þar segir áfram:
„Þar hefur verið innréttað heilt verkstæði með tilheyrandi vélum svo sem rennibekk, borvél, ventlaslípivél, smergelskífu o.fl. þ.h. Auk þess er þar mikið af handverkfærum og allskonar sérverkfærum til notkunar við viðgerðir á Massey Ferguson til þess að geta veitt sem besta þjónustu. Þá má ekki gleyma bókasafni verkstæðisins, en þar er að finna allskonar bækur, teikningar og leiðarvísa yfir vélarnar. Aftast í húsinu hefur verið innréttað herbergi fyrir tvo viðgerðarmenn, þar sem þeir geta haldið til á sumrin.“
 
Vel búinn viðgerðarbíll
 
Í bílnum voru einnig logsuðu og rafsuðutæki. Þá var í bílnum 1,2 kw rafstöð af Onan gerð, þannig að hann var ekki háður veiturafmagni. Þegar fengið var veiturafmagn frá bændum eða öðrum þar sem bíllinn var staðsettur, var rafmagnið tekið í gegnum mæli svo hægt væri að greiða fyrir fengið rafmagn.
 
Þá er sagt í fréttinni „að þessi bíll væri einkum ætlaður til þess að veita viðgerðarþjónustu á þeim svæðum þar sem erfitt væri með viðgerðarmenn og verkstæði, því þar kæmi hann að helstum notum“. 
 
Á þessum árum eða frá 1958 urðu díseldráttarvélar næstum allsráðandi í innflutningi dráttarvéla. Um og upp úr 1960 var í nokkur ár flutt inn mikið að notuðum dísildráttarvélum frá Englandi og Skotlandi. Voru þær seldar ýmist uppgerðar að öllu leyti, að hluta til eða óuppgerðar að öllu leyti. Salan á óuppgerðum dráttarvélum varð ekki síður til að auka þörfina fyrir þjónustu sem þessa. Á afskekktustu stöðum voru verkstæði ekki til staðar. Þar að auki var þekking á dísilvélum víða á verkstæðum af skornum skammti og sérhæfð tæki t.d. til stillingar spíssa ekki fyrir hendi. Þess vegna var tilkoma verkstæðisbílsins kærkomin.
Í viðtali við Ólaf Ólafsson, kaupfélagsstjóra í Króksfjarðarnesi, í sömu frétt í Tímanum sagði hann að bændur á hans félagssvæði hefðu verið ánægðir með þessa viðgerðaþjónustu þegar bíllinn var þar á ferð „og talið það mikils virði að fá viðgerðar og eftirlitsmann svona heim í hlað“ eins og sagði í frétt Tímans.
Í febrúarhefti Samvinnunnar sama ár er sagt frá þessum verkstæðisbíl. Sagt er að Dráttarvélar hf. sé eina fyrirtækið sem „rekur verkstæði á hjólum“.  Þar segir einnig: „Hefur rekstur  bíls þessa verið einn vinsælasti þátturinn í starfsemi fyrirtækisins, því viðgerðir þær sem framkvæmdar hafa verið fyrir tilstilli hans, hafa reynst stórum kostnaðarminni fyrir bændur en þær, er framkvæmdar eru á venjulegum verkstæðum. Veldur þar miklu um sérmenntun manns þess, er með bílinn fer, en hann hefur að sjálfsögðu nákvæma þekkingu á vélum þeim, er um er að ræða.“ 
 
Í lok fréttar Tímans 22. janúar 1965 sagði að annar viðgerðarmaður hafi að undanförnu ferðast um landið á vegum Dráttarvéla hf. og haft það verkefni að líta eftir dráttarvélum sem væru nýkeyptar og í ábyrgð. Sennilega er þar átt við Björgvin Einarsson frá Kárastöðum í Þingvallasveit, kennara við Iðnskólann í Reykjavík. Hann fór um landið nokkur sumur fyrir Dráttarvélar hf. og herti upp nýjar MF vélar.
 
Viðgerðir undir beru lofti
 
Kristján Hannesson hætti störfum fyrir Dráttarvélar hf. 1967 er hann hóf búskap á Kaupangi í Eyjafirði. Við starfi hans á verkstæðisbílnum tók Karl Sighvatsson frá Brekku í Lóni en hann hafði einnig farið til Ferguson-verksmiðjanna á námskeið í Ferguson-viðgerðum og starfað með Kristjáni síðasta sumarið. Rak hann verkstæðisbílinn til ársins 1972 er þessi þjónusta var lögð niður. Hafði þá verkstæðum fjölgað og þekking og tækjakostur heimamanna aukist.
 
Viðgerðirnar fóru oft og tíðum fram undir beru lofti eða í óupphituðum skemmum heima hjá bændum. Stundum lögðu kaupfélögin til skemmur sem þá voru oftast óupphitaðar. Einnig var sums staðar unnið í húsakynnum sláturhúsa sem yfirleitt stóðu ónotuð utan sláturtíðar. Má þar t.d. nefna sláturhús í Leirhöfn, Þórshöfn og Egilsstöðum. Gefur því að skilja að þessa þjónustu var ekki hægt að inna af hendi yfir vetrarmánuðina. 
 
Við hvað var gert?
 
Áður en komið var á staðinn auglýsti viðkomandi kaupfélag væntanlega komu viðgerðabílsins og tók við pöntunum hjá bændum um viðgerð á Ferguson og Massey Ferguson. Lá því fyrir listi yfir þá traktora sem til stóð að gera við þegar komið var á staðinn. Ekki er svo að skilja að eingöngu hafi verið gert við Ferguson og Massey Ferguson traktora. En þar sem þetta var auglýst sem viðgerðarþjónusta fyrir Ferguson og Massey Ferguson kom lítið af öðrum tegundum til viðgerðar. Ef beðið var um viðgerð á öðrum tegundum var hún unnin. Hjálpaði þar til að varahlutir voru oft þeir sömu og í Ferguson t.d. í International og Fordson Major, þá aðallega í rafkerfið.
 
Það var fátt sem var látið ógert ef til kom. Það voru gerðir upp mótorar, gírkassar, vökvadælur, startarar, dýnamóar, og spíssar gerðir upp og/eða stilltir. Og það var gert við bogna og brotna hluti. Í rennibekknum lagaðir öxlar og renndar fóðringar.
 
Einnig var borað og snittað fyrir hitakertum í heddum á 23C Standard díselvélunum í MF 35 sem var mikið nákvæmnisverk. Árgerðirnar 1957 og 1958 fengust ekki til Íslands með hitakertum. Talið er að sett hafi verið hitakerti í um 100 hedd í verkstæðisbílnum.
 
Þegar farið var á afskekkta staði varð að hafa með sér allar olíur. Voru margar 200 L tunnur í 6 tonna traktorskerru aftan í verkstæðisbílnum. Þá var með í för langur Land Rover fyrir starfsmenn. Var einnig farið á honum heim til bænda í uppherslur og minni viðgerðir út frá verkstæðisbílnum.
 
Sem gefur að skilja voru öflugustu verkstæðin ekki hrifin af komu verkstæðisbílsins á þeirra þjónustusvæði, sem var helst snemma hausts og snemma vors áður en hægt var að fara á afskekktari staði vegna færðar. Verkstæðin voru flest í eigu kaupfélaganna, en bændurnir sem voru eigendur kaupfélaganna vildu njóta þessarar þjónustu þar sem þeir vissu að þeir fengju betri og ódýrari viðgerðir vegna sérþekkingar starfsmanna á bílnum. Má því segja að kaupfélagsstjórarnir hafi stundum verið á milli tveggja elda. Oftast voru það bændurnir sem höfðu vinninginn.
 
 
Starfsmenn gistu í bílnum
 
Starfsmenn voru 2–5 með bílnum. Tveir gátu sofið í klefa fyrir aftan verkstæðið. Þurftu því aðrir starfsmenn, ef fleiri voru, að gista annars staðar. Var það annaðhvort hjá viðkomandi bónda eða kaupa þurfti gistingu á nærliggjandi greiðasölu. Oftast var verið í fæði hjá bóndanum ef verið var þar heima við. Ef starfsstaðurinn var hjá kaupfélaginu eða í sláturhúsi varð að kaupa fæði og gistingu af nærliggjandi greiðasölu. 
 
Í febrúarhefti Freys 1968 kemur fram í grein um viðgerðarþjónustuna  „að höfuðvandamál við rekstur þjónustunnar að uppihaldskostnaður viðgerðarmanna er mjög hár, en þó nokkuð mismunandi eftir landshlutum“.
 
Úthald gat orðið nokkuð langt yfir sumartímann, allt upp í mánuð enda starfsmenn víðs vegar af landinu. Aldrei var þó unnið á sunnudögum. Oft var farið á böll á laugardagskvöldum enda allir ungir menn og ólofaðir. Fór svo að a.m.k. tveir náðu sér í konu í þessum ferðum, Karl í sína í Fljótunum og Guðmundur Ragnar í Hamarsfirðinum. 
 
Aðeins hefur hafist upp á einum starfsmanni sem vann með Kristjáni Hannessyni auk Karls Sighvatssonar. Sá er Ingólfur Kristmundsson vélfræðingur.  Starfsmenn sem komu við sögu hjá Karli í viðgerðarþjónustunni voru m.a. Bjarni bróðir hans, Arnar Bjarnason frá Viðborðsseli á Mýrum austur, síðar hjá Vélsmiðju Hornafjarðar, Guðmundur Ragnar Eiðsson úr Reykjavík, síðar bóndi á Bragðavöllum í Hamarsfirði (náði sér í heimasætuna þar), Árni Karlsson frá Kambsseli í Álftafirði, látinn, Björn Björgvinsson úr Vopnafirði, látinn, Karl Sveinsson úr Fljótum, Árni Ingimundarson frá Drangsnesi og Sigurður Skarphéðinsson úr Mosfellssveit.
 
Umsjón:
Erla Hjördís Gunnarsdóttir
 
Samantekt:
Sigurður Skarphéðinsson
 
Heimildir:
Dagblaðið Tíminn, Tímaritið Samvinnan, Búnaðarblaðið Freyr, Bókin „...og svo kom Ferguson"
 
Viðtöl við:
Kristján Hannesson,
Karl Sighvatsson,
Guðmund Ragnar Eiðsson, Arnar Bjarnason,
Karl Sveinsson og
Ingólf Kristmundsson.

4 myndir:

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...