Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Noregur og Ísland tróna efst Norðurlanda í hlutfallslegum fjölda kúabúa með mjaltaþjón. Þar hefur Ísland átt óopinbert heimsmet, en nú er hlutfallið í Noregi orðið 0,3 prósentustigum hærra. Ísland er með 60,3%, en Noregur 60,6%.
Noregur og Ísland tróna efst Norðurlanda í hlutfallslegum fjölda kúabúa með mjaltaþjón. Þar hefur Ísland átt óopinbert heimsmet, en nú er hlutfallið í Noregi orðið 0,3 prósentustigum hærra. Ísland er með 60,3%, en Noregur 60,6%.
Mynd / HKr.
Fræðsluhornið 1. desember 2021

Fjöldi mjaltaþjóna nálgast 10.000

Höfundur: Snorri Sigurðsson - snorri.sigurdsson@outlook.com

Á hverju ári taka NMSM samtökin, sem eru samstarfsvettvangur Norðurlandanna um ýmis málefni sem snerta mjólkurframleiðslu, saman margvíslegar áhugaverðar upplýsingar sem tengjast þróun mjólkurframleiðslu Norður­landanna.

Helstu upplýsingar má sjá hér í meðfylgjandi töflu en þar kemur m.a. fram að mjólkurframleiðsla Norðurlandanna jókst á milli ára um 1,3% og var alls 12,4 milljarðar kílóa. Á sama tímabili, þ.e. frá árinu 2019 til 2020, fækkaði kúabúum landanna fimm um 804 bú, eða um 4,1%, og var fjöldi þeirra í árslok 2020 kominn í 18.833.

Ísland eina landið með minni framleiðslu

Líkt og undanfarin ár þá er danska mjólkurframleiðslan lang­umsvifamest innan Norður­landanna en dönsku kúabúin framleiddu í fyrra 5,7 milljarða kílóa, eða um 46% allrar mjólkur þessara fimm landa. Landsframleiðsla mjólkur jókst þó mest í Svíþjóð síðasta ár, eða um 68 milljónir kílóa, en sú danska um 57 milljónir kílóa, og þá bættu Finnland og Noregur við sína framleiðslu um alls 41 milljón kílóa. Ísland var eina Norðurlandið þar sem varð framleiðslusamdráttur á síðasta ári.

72,3 kýr að meðaltali

Undanfarin ár hefur meðalbústærð á Norðurlöndunum aukist jafnt og þétt og virðist á engan hátt vera að hægjast á þeirri þróun. Um síðustu áramót var meðalbúið komið í 72,3 kýr og jókst bústærðin á milli ára um 4,3%, eða um 3 kýr að meðaltali. Breytingin innan Norðurlandanna er þó gjörólík og bæði á Íslandi og í Noregi breyttist meðalbústærðin mun hægar en hjá hinum löndunum þremur. Ekkert land kemst þó nærri hinni geysihröðu þróun sem á sér stað í Danmörku. Þar stækkaði meðalbúið um 11,1 kú að meðaltali og voru búin þar með 212,7 kýr um áramótin.

Þess má geta að þegar þetta er skrifað, í nóvember 2021, er bústærðin í Danmörku komin yfir 220 kýr! Næststærstu búin eru svo sem fyrr í Svíþjóð en í fyrsta skipti í sögunni er meðalbústærðin þar komin yfir 100 kýr. Sem fyrr eru minnstu búin í Noregi en þar voru 28,8 kýr að jafnaði í árslok 2020.

Meðalbúið að framleiða 656 tonn

Ársframleiðsla norrænu kúabúanna er auðvitað nátengd bústærðinni en að jafnaði lagði hvert bú inn 656 þúsund kíló á síðasta ári, sem er aukning um 35 þúsund kíló á einu ári. Rétt eins og undanfarin ár bera dönsku búin höfuð og herðar yfir önnur bú á Norðurlöndunum og raunar í allri Evrópu. Þar var hvert bú að leggja inn að jafnaði 2,1 milljón kílóa sem er nærri 11-föld meðalframleiðsla norskra kúabúa eins og sjá má við lestur töflunnar. Næstafurðamestu búin eru í Svíþjóð, þar sem meðalinnleggið nam 917 þúsund kílóum.

Kúm Norðurlandanna fjölgaði!

Þrátt fyrir að kúabúum Norður­landanna hafi fækkað um 804 þá fækkaði kúnum ekki. Þetta hefur ekki gerst í mörg ár og oftast hefur kúnum fækkað nokkuð jafnt og þétt samhliða fækkun kúabúanna. Mikil eftirspurn eftir mjólk, og aukning heildarframleiðslu Norðurlandanna, gæti skýrt þessa þróun en fjöldi kúnna í árslok síðasta árs var 1.362 þúsund sem er þó ekki nema 0,1% aukning á milli ára.

Meðalkýrin að skila 9.074 kg í afurðastöð

Þegar horft er til afurðasemi kúnna á milli landanna er staðan nokkuð ólík eftir því hvaða land á í hlut enda hefur þar áhrif bæði kúakynið sem er notað við framleiðsluna og það umhverfi sem kúabúin starfa við. Oftast er það svo að þegar meðalafurðir eru metnar, er oft notast við skráðar skýrsluhaldsafurðir, þ.e. uppgefnar afurðir búa sem taka þátt í skýrsluhaldi. Þá er ekki tekið tillit til heimanota á mjólk eða mögulegra áfalla vegna sjúkdómameðhöndlunar svo dæmi sé tekið. Í samanburði tæknihóps NMSM er hins vegar notast við upplýsingar um alla innvegna mjólk til afurðastöðvanna í löndunum og svo heildarfjölda skráðra mjólkurkúa í löndunum. Þegar þetta er reiknað þannig út kemur í ljós að sem fyrr eru mestar afurðir að finna í Danmörku, þar sem hver kýr er að skila að jafnaði 9.970 kg mjólkur í afurðastöð og þar á eftir koma finnsku kýrnar með 9.241 kg og þá þær sænsku 9.139 kíló. Norsku kýrnar eru þær fjórðu afurðamestu með 6.727 kíló og lækkar þar innvegið mjólkurmagn á hverja kú annað árið í röð. Líkt og áður reka íslensku kýrnar lestina og eiga enn nokkuð í land með að ná hinum með 5.779 kíló innlagða mjólk að jafnaði á hverja kú.

Mjaltaþjónabúum fjölgaði um 4,2%

Það virðist vera lítið lát á fjölgun mjaltaþjónabúa á Norður­lönd­unum og var fjöldi þeirra kominn í 5.797 í lok síðasta árs og hafði þeim fjölgað um 232 bú, eða um 4,2% á milli ára. Þróunin hefur þó verið ólík á milli landanna (sjá bæði mynd og töflu) og sýna gögnin sem fyrr að þar sem meðalbúastærðin er að jafnaði minni hefur mjaltaþjónabúum fjölgað nokkuð ört, en þessi þróun er mun hægari í Svíþjóð og í Danmörku fækkar þessari tegund búa, að líkindum vegna allt annarrar bústærðar þar en á hinum Norðurlöndunum (sjá síðar). Í árslok síðasta árs voru mjaltaþjónar á nærri þriðja hverju kúabúi Norðurlandanna (30,8%) en hæsta hlutfallið var hér á landi en um síðustu áramót var þessi mjaltatækni á 42,2% af kúabúum landsins.

9.260 mjaltaþjónar

Fjöldi mjaltaþjóna á Norðurlönd­unum stefnir hraðbyri í 10.000 en undanfarin ár hefur orðið mest fjölgun á þeim annars vegar í Noregi og hins vegar í Finnlandi. Í gögnum ársins 2019 reyndist talning á mjaltaþjónum í Noregi byggja á heildarfjölda mjaltaþjóna í landinu við áramót en ekki á fjölda mjaltaþjóna í notkun eins og venjan er að gera. Þessi mistök voru svo leiðrétt í tölunum fyrir árið 2020 en gefur því ekki rétta mynd af hlutfallslegri aukningu á mjaltaþjónum enda sýna tölurnar að mjaltaþjónabúum hafi fjölgað um 232 en mjaltaþjónum ekki um nema 214 og þar af um einungis 13 í Noregi árið 2020. Þetta á sér sem sagt skýringar í villu í gögnum ársins 2019.

35% kúanna mjólkaðar með mjaltaþjónum

Líkt og hér að framan greinir voru 9.260 mjaltaþjónar á 5.797 búum sem gerir að jafnaði 1,6 mjaltaþjóna á hverju búi. Þessi bú eru stærri að jafnaði en önnur bú og hefur tæknihópur NMSM metið það svo að af um 1,4 milljónum kúa á Norðurlöndunum séu 35% þeirra mjólkaðar með mjaltaþjónum. Sem fyrr eru það dönsku kúabúin sem eru að meðaltali stærst en þar voru að jafnaði 3,3 mjaltaþjónar á hverju búi í lok síðasta árs. Sænsku búin voru svo næststærst með 1,9 mjaltaþjóna en norsku búin minnst, með 1 mjaltaþjón að jafnaði hvert.

Ísland og Noregur í sérflokki

Undanfarin ár hefur reiknað hlutfall mjólkur frá mjaltaþjónabúum aukist jafnt og þétt á milli ára og er nú svo komið að bæði á Íslandi og í Noregi er þetta hlutfall komið yfir 60%, 60,3% á Íslandi og 60,6% í Noregi. Þar á eftir koma finnsk bú með 46,4%, þá sænsk með 43,7% en reiknað hlutfall mjaltaþjónamjólkur er lægst í Danmörku þar sem ætlað er að 24,9% mjólkurinnar komi frá mjaltaþjónabúum. Vegna mikillar mjólkurframleiðslu danskra kúabúa er reiknað heildarmeðaltal mjaltaþjónamjólkur Norðurlandanna 37,7%.

Byggt á fréttatilkynningu
frá tæknihópi NMSM.

Skylt efni: mjaltaþjónar

Herbarium Islandicum
Fræðsluhornið 20. janúar 2022

Herbarium Islandicum

Þegar talað er um þurrkuð plöntusöfn getur verið um að ræða plöntu­hluta eða hei...

 Yfirlit ætternis Litlu hafmeyjunnar
Fræðsluhornið 17. janúar 2022

Yfirlit ætternis Litlu hafmeyjunnar

Litla hafmeyjan, eitt af þjóðar­táknum Danaveldis og sögu­persóna hins kunna ævi...

Betri nýting áburðar – betri afkoma
Fræðsluhornið 17. janúar 2022

Betri nýting áburðar – betri afkoma

Nú liggur fyrir að mikil hækkun er á áburðarverði milli ára. Kaup á tilbúnum ábu...

Vetrarumhirða pottaplantnanna
Fræðsluhornið 17. janúar 2022

Vetrarumhirða pottaplantnanna

Í skammdeginu þarf að huga séstaklega að vellíðan pottablómanna okkar, því það g...

Mannlaus mjólkurframleiðsla
Fræðsluhornið 10. janúar 2022

Mannlaus mjólkurframleiðsla

Bændur sem byggja fjós nú til dags, í norðurhluta Evrópu og helstu löndum þar se...

Nýr Mitsubishi Eclipse Cross
Fræðsluhornið 7. janúar 2022

Nýr Mitsubishi Eclipse Cross

Laugardaginn 4. desember kynnti Hekla h/f við Laugaveg nýjan Mitsubishi Eclipse ...

Frá nútíð til framtíðar
Fræðsluhornið 6. janúar 2022

Frá nútíð til framtíðar

Í jarðumbrotum fyrir hundrað milljónum ára reis fjallið Fanjin frá hafsbotninum....

Íslenskir bændur og alþjóðlegir vísindamenn vinna saman
Fræðsluhornið 3. janúar 2022

Íslenskir bændur og alþjóðlegir vísindamenn vinna saman

„Riðurannsóknin mikla“ – hér eru íslenskir sauðfjárbændur og riðusérfræðingar fr...