Mynd/SEGES Í dag bjóða flestir vélaframleiðendur upp á NIR búnað við rauntímamælingar á uppskeru.
Fræðsluhornið 30. apríl 2020

Fagþing nautgriparæktarinnar í Danmörku 2020 – annar hluti

Snorri Sigurðsson - snorri.sigurdsson@outlook.com
Hið árlega og þekkta danska fagþing nautgriparæktarinnar „Kvægkongres“ var haldið á dögunum og venju samkvæmt voru þar flutt mörg áhugaverð og framsækin erindi og þó svo að mörg þeirra lúti sér í lagi að danskri nautgriparækt eru alltaf margir fyrirlestrar sem eiga ekki síður erindi við alla þá sem stunda nautgriparækt í Evrópu.
 
Að þessu sinni voru erindin alls 68 talsins í tíu ólíkum málstofum. Í þessari grein verður haldið áfram umfjöllun um nokkur af hinum fróðlegu erindum sem flutt voru en fyrsti hluti umfjöllunarinnar um fagþingið var birtur í síðasta Bændablaði. Nú verður vikið að málstofunni sem fjallaði um fóður og fóðrun.
 
3. Fóður og fóðrun
 
Í þessari málstofu voru flutt átta erindi og eiga sum þeirra ekki beint erindi við íslenska bændur eins og t.d. varðandi hagkvæmni maísræktunar svo dæmi sé tekið. Það voru þó mörg áhugaverð erindi flutt í málstofunni og verður hér vikið að nokkrum þeirra. Í Danmörku er afar algengt að notaðar séu smárablöndur í grasrækt, til að geta dregið úr notkun á köfnunarefnisáburði en samhliða að fá próteinríka uppskeru. Danskir bændur hafa verið að ná betri og betri tökum á því að hámarka uppskeruna af þessum túnum en vandamálið er þó að smárablöndurnar, bæði hvít- og rauðsmári, hopa í ræktuninni eftir því sem árin líða en sér í lagi með vaxandi áburðargjöf.
 
Þegar NIR mælibúnaðurinn er notaður fær ökumaður tækisins upplýsingar um uppskeruna um leið og gróffóðrið er tekið upp af spildunni. Mynd / Jesper Mortensen
 
Mikið köfnunarefni borið á
 
Hingað til hefur vantað betri leiðbeiningar um áburðargjöfina einmitt við mismunandi útbreiðslu á smára í túnunum og inn á þetta atriði kom Torben Spangaard Frandsen, sem vinnur sem ráðgjafi á þróunarsviði jarðræktar hjá SEGES. SEGES stóð fyrir áburðartilraunum árin 2018 og 2019 á smárablönduðum spildum sem sáð var í árið 2017. Fram kom að í tilraunareitum þar sem mikið var borið á snarminnkaði hlutfallið af smáranum en gerð var tilraun með engan áburð, 60 kg, 120 kg, 240 kg, 360 kg og 480 kg á hektarann. Þetta eru hraustlegar tölur svona á íslenskan mælikvarða, en rétt er að taka fram að dönsku túnin bera fimm slætti á uppskerutímanum svo þau þurfa töluverða næringu.
Búfjáráburður hentar vel
 
Í tilraununum var bæði notaður tilbúinn áburður og mykja og sýndu niðurstöðurnar að uppskerumagnið og próteinmagnið af túnunum var jafn mikið eða jafnvel enn betra ef notuð var mykja í stað tilbúins áburðar. Þá kom einnig fram að hvítsmárinn hopaði nokkuð jafnt óháð því hvor tegundin af áburði var notuð og að rauðsmárinn þolir mun meiri köfnunarefnisáburð en sér í lagi ef búfjáráburður er eingöngu notaður en ekki tilbúinn áburður. Niðurstöðurnar sýndu að með því að breyta áburðargjöfinni í hlutfalli við mat á útbreiðslu á smáranum, þá verða túnin arðsamari þ.e. gefa hagkvæmara fóður. Torben dró niðurstöðurnar saman í þrjú einföld ráð:
 
  • Ef hlutfall smára er minna en 15% þá er bændum ráðlagt að bera tilbúinn áburð og búfjár­áburð á túnin eins og um venjulegt tún væri að ræða.
  • Ef hlutfall smára er 15–30% er bændum ráðlagt að bera á túnin bæði tilbúinn áburð og búfjáráburð en miða við lágmarks gildi.
  • Ef hlutfall smára er meira en 30% er bændum ráðlagt að bera einungis búfjáráburð á túnin.

Með því að nota smára í tún er hægt að draga verulega úr áburðarþörf vegna köfnunarefnisbindingar smárans. Mynd / SEGES

Vilja draga úr umhverfisáhrifum

Annað áhugavert erindi sem einnig sneri að köfnunarefnisnotkun var flutt af Chris Reynolds frá háskólanum í Reading í Englandi. Þar í landi, rétt eins og víða annars staðar, hefur mikið verið horft til þess hvað hægt er að gera til að draga úr umhverfisáhrifum mjólkurframleiðslunnar og kvaðir á búgreinarnar varðandi áburðargjöf hafa verið hertar vegna þessa. 
 
Eitt af því sem Bretar hafa verið að horfa til er að draga úr próteinfóðrun kúnna til þess að nýta betur köfnunarefnið! Hljómar undarlega en vísindafólk hefur verið að gera tilraunir á kúm og skoðað sérstaklega hringrás köfnunarefnis og hvernig megi hámarka nýtingu þess og m.a. komist að því að draga megi úr próteingjöfinni án þess að það dragi úr hagkvæmninni.
 
Framleiðsla á tilbúnum áburði orkufrek
 
Í erindinu kom fram að í Englandi þá geta smárablönduð tún bundið um 200 kíló af köfnunarefni á ári en ef framleiða ætti það magn af tilbúnum áburði þurfi til mikla orku sem oft er framleidd með óumhverfisvænum hætti. En með því að draga úr köfnunarefnisgjöfinni er hætt við að bónd-inn fái minni uppskeru eins og fram kom hér að framan og þá sér í lagi uppskeru með lægra próteininnihaldi. Rick sagði þó að það þyrfti ekki að vera of neikvætt því þó að það gæti dregið úr afurðasemi kúnna þá sýndu rannsóknir háskólans að á bak við hvern framleiddan lítra af mjólk, þrátt fyrir minni afurðir kúnna, væri minna magn af köfnunarefni. Þá bentu niðurstöður rannsókna til þess að kýrnar verði frjósamari og þörf fyrir endurnýjun kúa væri minni. Á móti kæmi áðurnefnt afurðatap og möguleg áhrif þess á hagkvæmni kúabúskaparins.
 
Niðurstöðurnar bentu jafnframt til þess að teknu tilliti til allra þátta væri hagkvæmast að fara einhverskonar milliveg og nú er verið að vinna að því að endurmeta fóðurleiðbeiningar svo bændur geti nýtt sér þessa þekkingu.
 
Skiptu kúnum í tvo hópa
 
Ráðunautarnir Henrik Martinus­sen og Anne Mette Kjeldsen frá SEGES eru sérfræðingar í fóðrun og fóru þau yfir tilraun með hópa­skiptingu á kúm eftir stöðu á mjaltaskeiði. Á stærri kúabúum, þar sem kýrnar skipta etv. einhverjum þúsundum, er kúnum í dag nánast undantekningarlaust skipt í marga mismunandi hópa eftir því hve gamlar þær eru, hve mikið þær mjólka og hvar þær eru staddar á mjaltaskeiðinu. Þessir hópar eru oft 8 á hverju búi auk hópskiptra geldkúa og kvígna og á þessum búum er því verið að búa til 10-12 mismunandi heilfóðurblöndur á hverjum degi! Þetta er auðvitað algjörlega óraunhæft á minni búum en sumir danskir bændur hafa verið að fikra sig áfram við að skoða aðlögun að þessum hópaskiptingum og kynntu þau Henrik og Anne Mette niðurstöður tilraunar með tvískiptingu á kúnum þ.e. eftir stöðu á mjaltaskeiði.
 
Tvær heilfóðurgerðir
 
Heilfóður er í dag langalgengasta fóðurgerðin í Danmörku og víðar en gallinn við heilfóðurgjöfina er sá að þá er oftast búin til ein alhliða fóðurblanda fyrir kýrnar og er þá yfirleitt reynt að útbúa blönduna þannig að hún henti fyrir kýr á fyrri hluta mjaltaskeiðsins en fyrir vikið er hún of næringarefnarík fyrir kýr á síðari hluta mjaltaskeiðsins. 
 
Hingað til hefur þó verið talið betra að gera bara eina blöndu, vinnulega séð, fyrir allar kýrnar jafnvel þó svo að þá sé verið að sóa næringarefnum í nytlægri kýrnar. Auk þess sem þá þarf ekki að skipta kúnum í hópa. Í dag eru dönsk kúa-bú hins vegar að jafnaði með um 210 árskýr og bústærðin því orðin slík að það er talinn raunhæfur möguleiki á því að hópaskipta kúnum og fóðra þær því með tveimur mismunandi heilfóðurtegundum eftir því hvort þær séu á fyrri hluta mjaltaskeiðs eða síðari hluta. Sumir danskir bændur hafa þegar farið þessa leið en svo virðist sem vísindin geti ekki stutt við þessa þróun því niðurstöður Henrik og Anne Mette voru á þá leið að við það eitt að skipta kúm í hópa og færa kýr á milli hópa þá verður svo mikil ókyrrð í hópnum að nytin fellur meira en svo að lægri fóður-kostnaður borgi upp muninn. Það var með öðrum orðum óhagkvæmt að skipta kúnum í hópa.
 
Kúabóndinn á öðru máli
 
Þó svo að niðurstaðan hafi verið sú að hópaskiptingin hafi ekki skilað gróða í krónum og aurum byggt á fóðurkostnaði og tekjum vegna mjólkurframleiðslu þá sagði kúabóndinn Rik Kool, sem næstur fór í pontu, að reynsla hans af hópaskiptingu væri afar góð. Eftir að hann fór að skipta kúnum í hópa hafi yfirsýn hans orðið betri enda með viðkvæmari kýrnar, þessar á fyrri hluta mjaltaskeiðsins, saman í einum hóp. Hann vildi því meina að skoða þurfi langtímaáhrif þess að hópaskipta og hvort bætt bústjórn vegi ekki upp á móti því tekjutapi sem verður þegar kýr er flutt á milli hópa. Áhugavert sjónarmið og rétt að minna á að þó svo að hér á landi séu í dag ekki mörg bú sem eru svona stór, þá má í raun nokkuð auðveldlega, með aðstoð tæknilegra lausna sem notkun mjaltaþjóna gefur möguleika á, hópaskipta kúm jafnvel þó svo að hjarðirnar séu mun minni.
 
Fitusýrumælingar á mjólk
 
Með áhugaverðari erindum á fagþinginu að þessu sinni var klárlega erindi fyrrgreinds Henrik Martinussen og Morten Kargo sem einnig er ráðunautur en sem starfar einnig hjá háskólanum í Aarhus. Þeir fjölluðu um fitusýrumælingar á mjólk en danskir bændur fá með kýrsýnaniðurstöðum upplýsingar um flokkun á fitusýrum mjólkursýnanna. Í dag er Danmörk eina landið í heiminum þar sem öll kýrsýni eru greind með þessum hætti en fleiri og fleiri lönd eru nú að taka upp þessa mælingu þar sem reynslan af þessum mælingum frá Danmörku er einkar áhugaverð. Mjólkurfita stjórnast af þremur aðskildum þáttum þ.e. fóðruninni, erfðum og umhverfinu og með því að vita hvernig fitusýruflokkun mjólkursýnanna er má segja töluvert mikið til um bústjórnina!
 
15 milljón sýni!
 
Fitusýrumælingar á mjólk, eins og gert er amk. í Danmörku, byggja á því að mæla lengd fitusýrukeðjanna sjálfra. Niðurstöðurnar eru flokkaðar í þrjá flokka:
  • Fitusýrur sem myndast í júgurvef (De Novo).
  • Fitusýrur sem koma frá fóðri og umbreyttri líkamsfitu (Preformed).
  • Fitusýrur sem myndast með báðum framangreindum aðferðir (Mixed).

Þeir félagarnir notuðu niðurstöður 15 milljón sýna, sem tekin voru á tímabilinu frá maí 2015 til desember 2017 og báru saman við ótal upplýsingar úr skýrsluhaldinu og komust að því að niðurstöður um fitusýrugerð kýrsýna gefa ýmsar áhugaverðar upplýsingar sem má nýta við bústjórn. Þannig kom m.a. fram að bú þar sem hlutfall af fitusýrum sem myndast í júgurvef var almennt hátt gefa yfirleitt minna af fitu í fóðri, eru almennt með nákvæmari fóðrun, fóðra oftar og hafa rúmbetri fjós! Þá fundu þeir að þar sem þessi fitusýrugerð var algengari var frumutalan almennt lægri og kýrnar entust einnig betur í þessum fjósum. Samantekið komust þeir að því að ef hlutfall stuttra fitusýrukeðja var hátt, þá benti það til þess að kýrnar hefðu það fóðrunarlega gott og að bústjórnin væri í lagi. Afar gagnlegar niðurstöður sem munu geta nýst um allan heim.
 
Með rannsóknarstofuna í traktornum
 
Síðasta erindið sem greint verður frá úr þessari afar faglega sterku málstofu er erindi ráðunautanna Peter Hvid Laursen og Niels Bastian Kristensen, en báðir starfa hjá SEGES. Þeir fjölluðu um notkun á stafrænni tækni til þess að meta fóður og fóðurgæði en í dag eru til ótrúlega fjöbreytt mælitæki sem ætlað er að einfalda bændum að meta fóður nautgripa. 
 
Einna áhugaverðust er notkun á NIR mælibúnaði (Nær innrauð litrófsgreining) en með þeirri tækni er unnt að mæla efnasamsetningu fóðurs á fljótlegan og einfaldan hátt og engrar sýnameðhöndlunar er krafist og því sérlega hentugt til notkunar. Í dag er hægt að fá svona búnað settan beint á t.d. heyhleðsluvagninn og mæla þannig fóðurgæðin um leið og hirt er og bjóða líklega flestir vélaframleiðendur einhverskonar NIR lausnir í dag. Sögðu þeir Peter og Niels að tæknin væri orðin all góð í dag en þó væri ákveðin óvissa fyrir hendi þar sem stilla þurfi tækin rétt af miðað við uppskerugæðin. Það væri þó alltaf að safnast í gagnagrunninn sem bætir stöðugt öryggi tækninnar.
 
Mæla af nákvæmni
 
Þó nokkur munur sé á NIR mælunum kom fram að þeir sem standa sig best eru á pari við það sem fæst frá rannsóknarstofum en gerðar hafa verið margar samanburðarmælingar. Þannig nær besti búnaðurinn að meta þurrefni, hráprótein og sykurinnihald uppskerunnar af mikilli nákvæmni. Með svona vitneskju um fóðrið, strax þegar það er sett í geymslu, fást einstakar upplýsingar sem geta bætt bústjórnina. Þá aflast mikilvægar upplýsingar á staðnum af hverri einustu spildu ekki bara um uppskerumagn heldur einnig gæði uppskerunnar og því hægt að taka ákvörðun nánast á staðnum um að fara í endurræktun á viðkomandi spildu ef uppskerutölurnar eru slakar.
 
Í næsta Bændablaði verður lokið við umfjöllun um þetta áhugaverða fagþing. Þess má þó geta að hægt er að skoða og hlaða niður öllum erindum af fagþinginu með því að fara inn á upplýsingasíðu danska landbúnaðarins www.landbrugsinfo.dk. Þar þarf svo að velja „Kvæg“ (þ.e. nautgriparækt) og þar undir „Kvægkongressen“ og þá opnast heimasíða fagþingsins þar sem hægt er að skoða öll erindin með því að smella á „Præsentationer fra kongressen 2020“.