Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Per Aagaard Nielsen er með 130 kúa lífrænt vottað kúabú.
Per Aagaard Nielsen er með 130 kúa lífrænt vottað kúabú.
Fræðsluhornið 29. júní 2022

Fagþing nautgriparæktarinnar í Danmörku – Fyrsti hluti

Höfundur: Snorri Sigurðsson

Nýverið var haldið hið árlega Fagþing Nautgriparæktarinnar í Danmörku, eða „Kvægkongres“, en þeir sem til þekkja vita að þetta er einn helsti vettvangur þekkingarmiðlunar varðandi naut - griparækt í norðanverðri Evrópu.

Á fagþinginu koma ávallt fram margs konar gagnlegar upplýsingar, aðallega fyrir bændur, ráðunauta og dýralækna, sem vert er að gefa gaum. Venju samkvæmt voru þar flutt mörg áhugaverð og framsækin erindi og þó svo að mörg þeirra lúti sér í lagi að danskri nautgriparækt og eigi þar með ekki beint erindi til íslenskra bænda og fræðafólks, þá eru alltaf margir fyrirlestrar sem eiga ekki síður erindi við alla þá sem stunda nautgriparækt hér á landi.

Alls voru flutt 70 erindi að þessu sinni í 11 málstofum og verður hér gerð grein fyrir nokkrum af þeim fróðlegu erindum sem flutt voru í einni málstofunni.

Kraftmikill rekstur – fyrsta málstofa

Öll erindin 10 í þessari málstofu, sem var langumsvifamest á þessu fagþingi, fjölluðu um rekstur kúabúa með einum eða öðrum hætti. Í Danmörku, og reyndar öllu Evrópusambandinu, er nú gríðarlega mikil áhersla lögð á umhverfismál og að landbúnaðurinn sé starfræktur í sátt við þjóðina og því hafa verið sett af stað nokkur verkefni sem taka á þessum þáttum.

Þetta verkefni tengist beint við ESG skýrslugerð búa en skammstöfunin stendur fyrir Environmental, Social and Gover- enance þ.e. Umhverfis-, félags- og stjórnskipulagsmál en í fáum orðum snýst verkefnið um það að hver rekstraraðili útbýr skýrslu sem fjallar um þessi þrjú meginatriði. Hingað til hafa það fyrst og fremst verið stórfyrirtæki sem hafa verið að gera svona skýrslur fyrir rekstur sinn en nú eru bæði stærri og minni búin í Danmörku farin að gera svona skýrslu um rekstur sinn.

Þetta er ekki enn orðin krafa fyrir bú í Danmörku en flestir gera ráð fyrir því að svo verði innan fárra ára.

Erfitt að breyta hefðum

Per Aagaard Nielsen er með 130 kúa lífrænt vottað kúabú.
Það þarf mikið til að breyta venjum og hefðum í landbúnaði, það hefur m.a. komið í ljós að margir danskir bændur virðast eiga erfitt með að breyta sínum háttum hvað varðar umhverfismálin.

Þannig hafa margir danskra bænda bara helst viljað halda sínu striki með sama hætti og gert hefur verið jafnvel í áratugi á viðkomandi búi. Til þess að ná tökum á þessu eru því nú í gangi margs konar verkefni til þess að vekja danska bændur til meðvitundar um mikilvægi þess að horfa í auknum mæli til umhverfisins þegar búskapur er annars vegar. Að því koma stjórnvöld, félagasamtök, bankar og fleiri fagaðilar og var m.a. komið inn á þetta áhugaverða samstarf í þessari málstofu.

Þannig hafa t.d. fjármálastofnanir stutt við þróunarvinnu við umhverfisreiknilíkön og stutt við námskeiðahald svo bændurnir geti endurmenntað sig á þessu sviði og fræðst um það hvernig breyta megi á búunum án þess að það bitni á afkomunni.

Þá er áhugavert hvernig fjármálastofnanir eru einnig að mennta sitt eigið starfsfólk í umhverfismálum og sjálfbærni í þeim eina tilgangi að gera það betur hæft í því að meta rekstrarforsendur búa í dönskum landbúnaði.

Þá hefur danska lánastofnunin Nykredit ákveðið að fyrir árslok næsta árs þá muni stofnunin reikna út sótspor allra lántakenda og birta með ársuppgjöri sínu, en Poul Erik Jørgensen, framkvæmdastjóri landbúnaðardeildarinnar, flutti einmitt erindi í málstofunni!

ESG skýrslugerð

Eins og oft er með opinberar kröfur, og mögulega sérstaklega þegar gerð er krafa um skýrslugerð, þá hafa margir bændur sett sig upp á móti þessari þróun í átt að ESG skýrslugerð búa. Það eru þó ekki allir sem það hafa gert og sumir bændur hafa tekið ESG skýrslugerðina föstum tökum og fagnað henni.

Kúabóndinn Per Aagaard Nielsen er einn þeirra. Hann greindi frá því hvernig hann lítur á verkefnið fyrst og fremst sem tæki til að efla búskapinn með því að fara í alvarlega skoðun á því hvernig hann rekur búið og stýrir því.

Hann fékk ráðgjafarfyrirtækið SEGES í lið með sér og útbjó fyrstu ESG skýrslu kúabús síns og sagði í erindi sínu að skýrslan væri mjög góður grunnur fyrir framtíðina, því með því að gera hana árlega fæst yfirsýn yfir stöðu mála eins og t.d. ætlað sótspor við framleiðsluna sem hjá Per eru 1,11 kg CO2 ígilda á hvert framleitt kíló mjólkur og 7,50 kg CO2 ígilda á hvert framleitt kíló af kjöti. Þá gefur skýrslan einnig yfirlit yfir uppgufun ammoníaks frá ábornum ökrum og fjósunum og hver fosfórstaða búsins er.

Margt annað áhugavert er í þessari skýrslu, eins og yfirlit um dauðfædda gripi, neyðarslátrun, bráðadauða, nýgengi júgurbólusmita og margt fleira mætti nefna.

Greinarhöfundur, sem þekkir allvel til mála í Danmörku, getur fullyrt að þetta er í fyrsta skipti sem danskir kúabændur hafa getað fengið jafn gott yfirlit yfir bú sín og nú með þessari skýrslugerð sem um leið gefur afar mikilvægar upplýsingar um m.a. umhverfismál.

Ekki þarf að koma á óvart að gerð verði svipuð krafa á Íslandi á komandi tímum þ.e. að allir sem stunda landbúnað þurfi að gera svona ESG-skýrslu árlega.

Hópfjármögnun kúabúa?

Af annars mörgum fínum erindum í þessari málstofu var erindið um hópfjármögnun (e. crowd funding) kúabúa einkar áhugavert.

Það hafa líklega margir Íslendingar heyrt um hópfjármögnun en vita mögulega ekki alveg hvernig hún virkar. Þetta er í raun leið fyrir einkafjárfesta til þess að lána fjármagn í samkeppni við banka og fjármálastofnanir!

Nú hefur verið komið upp sérstakri leið til hópfjármögnunar í dönskum landbúnaði og það er danska þróunarfyrirtækið SEGES sem stendur fyrir þessu. Vettvangurinn heitir InGreen og er hægt að skoða nánar á vefsvæðinu ingreen.dk. Þar geta einstaklingar einfaldlega farið inn og lánað peninga eða óskað eftir láni og er fyrirfram gefið hve mikla vexti hægt er að fá fyrir peningana, eftir áhættunni sem felst í láninu.

Sé lánað með minnstri áhættu fást 1-3% í vexti en svo hækka þeir jafnt og þétt eftir áhættunni og fara mest í 7-10%! Að sama skapi borgar lántakinn lága vexti ef lánið tengist ekki mikilli áhættu en eftir því sem óvissan eykst hækka vextirnir. Einkar áhugavert í alla staði.

InGreen er sérstök heimasíða fyrir hópfjármögnun í landbúnaði.

Lítil aukning heimsframleiðslu mjólkur

Enn eitt áhugavert erindi í málstofunni var flutt af fulltrúum greiningardeildar hollenska landbúnaðarbankans Rabobank.

Þar kom m.a. fram að bankinn spáir einungis lítilli aukningu á heimsframleiðslu mjólkur á þessu ári, nokkuð sem hefur ekki gerst áður. Skýringin felst fyrst og fremst í óhagstæðri þróun veðurs í Eyjaálfu sem hefur haft bein áhrif á mjólkurframleiðsluna í Nýja-Sjálandi og Ástralíu en bæði lönd vega þungt þegar horft er til heimsframleiðslu mjólkur.

Þá hafa kúabú í Bandaríkjunum einnig dregið saman seglin og þrátt fyrir að afurðastöðvaverð hafi aldrei verið hærra í flestum löndum Evrópu þá hefur hækkandi verð á aðföngum haft þau áhrif að bændur í löndum Evrópusambandsins hafa einnig haldið aftur af framleiðslunni.

Það eru sérstaklega Frakkland, Þýskaland, Belgía og Holland sem draga niður meðaltal Evrópu en tölur frá öllum þessum löndum framan af þessu ári benda til samdráttar og þau vega þungt vegna umsvifa sinna þegar kemur að mjólkurframleiðslu.

Önnur lönd annaðhvort standa í stað eða auka aðeins við sig en ekki nóg til að vega upp á móti samdrættinum í fyrrnefndum löndum.

Spá meiri verðhækkunum

Það skýrist m.a. af því að uppskera þessa árs, sem hafi fengið miklu dýrari tilbúinn áburð en í fyrra, sé fyrst að koma í hús nú í sumar og fari ekki á markað fyrr en í haust. Það kom einnig fram í erindinu frá Rabobank að óvíða í heiminum séu raunveruleg áhrif af hækkun aðfanga komin fram í verðlagi til neytenda.

Sama má segja um kjötið en raunhækkun sé varla komin fram nema í kjúklingum og hugsanlega svínum þar sem eldistíminn er stuttur. Raunhækkun nautakjöts eigi t.d. eftir að koma fram síðar.

Þannig er í spá Rabobank, sem fullyrða má að sé ein virtasta stofnun heims þegar kemur að fjármálum í landbúnaði, gert ráð fyrir hækkun afurðastöðvaverðs á helstu framleiðslueiningum í landbúnaði síðar á þessu ári!

Mynd frá Rabobank sem sýnir með appelsínugulu þau lönd þar sem mjólkurframleiðslan er að dragast saman í löndum Evrópusambandsins, gráu þar sem hún stendur í stað og með grænu þar sem hún er að aukast.

Spá Rabobank

Lokaorðin hjá fulltrúum Rabobank voru sérlega áhugaverð og viðeigandi að enda þessa stuttu yfirferð um þessa málstofu á þeim.

„Búist er við þessu:

  • Verðbólga mun haldast há
  • Orkuverð mun haldast hátt
  • Matarverð mun haldast hátt
  • Flutningskostnaður mun haldast hár
  • Órói á vinnumarkaði mun aukast
  • Popúlismi mun aukast
  • Spenna á milli landa mun aukast
  • Aukin áhersla verður á framleiðslu og sölu innan hvers lands og gengi ólíkra gjaldmiðla mun breyta neysluhegðun.“

Í næsta Bændablaði verður haldið áfram umfjöllun um þetta áhugaverða fagþing en þess má geta að hægt er að skoða og hlaða niður öllum erindum af fagþinginu með því að nota eftirfarandi hlekk: https:// www.tilmeld.dk/kvaegkongres2022/ praesentationer

Skylt efni: nautgriparækt

Fýll
Fræðsluhornið 27. júlí 2022

Fýll

Fýll eða múkki, besti vinur sjómannsins, er stór og gráleitur sjófugl. Han...

Gulvíðir
Fræðsluhornið 27. júlí 2022

Gulvíðir

Ástæða er til að telja gulvíði (Salix phylicifolia) til innlendra trjátegunda...

Fagþing nautgriparæktarinnar í Danmörku – annar hluti
Fræðsluhornið 19. júlí 2022

Fagþing nautgriparæktarinnar í Danmörku – annar hluti

Nýverið var haldið hið árlega Fagþing nautgriparæktarinnar í Danmörku, eða „...

Falsfréttir af Galla frá Hesti og fénu í Botnum
Fræðsluhornið 15. júlí 2022

Falsfréttir af Galla frá Hesti og fénu í Botnum

Það er allavega eitt sem sæðingastöðvahrúturinn Galli frá Hesti á sameiginle...

Rafmagnaður sendibíll - Prufuakstur á Toyota Proace Electric
Fræðsluhornið 14. júlí 2022

Rafmagnaður sendibíll - Prufuakstur á Toyota Proace Electric

Að þessu sinni var rafmagnaði sendibíllinn Toyota Proace Electric,sem Toyota um...

Blæösp
Fræðsluhornið 13. júlí 2022

Blæösp

Blæösp (Populus tremula) hefur vaxið á Íslandi frá alda öðli og telst því ...

Sendlingur
Fræðsluhornið 11. júlí 2022

Sendlingur

Sendlingur er gæfur og félagslyndur vaðfugl. Hann er lítill, frekar dökkur, l...

Krydd í tilveruna - seinni hluti
Fræðsluhornið 11. júlí 2022

Krydd í tilveruna - seinni hluti

Fáum sögum fer af kryddi í íslenskum fornsögum og ritum fram eftir öldum. ...