Breski togaranum Artic Cavalier HZ04 frá Hull á Austfjarðamiðum. Myndin er tekin úr flugvél Landhelgisgæslunnar þann 30. ágúst 1972.Mynd / Morgunblaðið Ólafur K. Magnússon
Fræðsluhornið 25. nóvember 2019

Erlend skip tóku jafnvirði 80 milljarða á ári við Ísland

Guðjón Einarsson

Á tímabilinu 1905 til 1978 veiddu erlend fiskiskip tæplega helming af öllum botnfiskafla við Ísland, eða liðlega 18 milljónir tonna. Aflaverðmæti þess reiknað til núvirðis er um 5 þúsund milljarðar króna. Það gera 80 milljarðar að meðaltali á hverju einasta ári, ef styrjaldarárin eru undanskilin.

Íslandsmið voru sannkölluð gullkista fyrir erlend veiðiskip ekki síður en íslensk á 20. öldinni og raunar löngu fyrr. Lítið dró úr afla helstu fiskveiðiþjóðanna, Breta og Þjóðverja, þótt fiskveiðilögsagan við Ísland væri ítrekað færð út á ofanverðri 20. öld, fyrst úr 3 sjómílum í 4 sjómílur árið 1952, síðan í 12 mílur árið 1958 og svo í 50 mílur árið 1972. Það var ekki fyrr en með útfærslunni í 200 sjómílur árið 1975 að Íslendingum tókst loksins að reka útlendingana af höndum sér.

Útlendingar með nær helming aflans

En hversu mikið veiddu útlendingar á Íslandsmiðum á 20. öldinni og hversu mikið var verðmæti þess afla? Höfundur þessarar greinar gerði úttekt á málinu og birti niðurstöðurnar í Fiskifréttum fyrir nokkrum árum.

Í Hagskinnu, riti Hagstofu Íslands, er að finna tölur um árlegan afla útlendinga við Ísland allt frá árinu 1905. Með því að leggja saman aflatölur á tímabilinu 1905 til 1978 (þegar helstu erlendu veiðiþjóðirnar voru endanlega horfnar héðan) kemur í ljós, að af tæplega 38 milljóna tonna heildarafla þessa tímabils á Íslandsmiðum hafi Íslendingar veitt 19,5 milljónir tonna en erlend veiðiskip 18,2 milljónir tonna. Lengi framan af öldinni var árlegur heildarafli útlendinga yfirleitt meiri en Íslendinga (ef tímabil tveggja heimstyrjalda eru undanskilin) en undir það síðasta fór dæmið að snúast við.

Fimm þúsund milljarðar

Ljóst er að erlendar þjóðir hafa sótt gríðarleg verðmæti á Íslandsmið. Ekki liggur fyrir nein samantekt um það svo vitað sé, en til gamans og fróðleiks reiknaði greinarhöfundur út aflaverðmæti þeirra rúmlega 18,2 milljóna tonna sem útlendingar veiddu á árabilinu 1905-1978 fært til núvirðis. Ef reiknað er með 275 krónum á kílóið sem er vel undir fiskmarkaðsverði á þorski og ýsu í dag, var heildaraflaverðmæti erlendra veiðiskipa á tímabilinu um 5 þúsund milljarðar króna. Það jafngildir 80 milljörðum króna á ári, ef undan eru skilin heimstyrjaldaárin þegar erlendu skipin hurfu að mestu af Íslandsmiðum.

Samanburður

Fimm þúsund milljarðar króna er fjárhæð sem venjulegt fólk á erfitt með að ná utan um. Til að nálgast málið má nefna til samanburðar að þetta jafngildir heildarútgjöldum íslenska ríkisins síðustu sex árin samanlagt. Eða sem svarar fasteignamatsverði alls íbúðarhúsnæðis á Íslandi í dag. Auðveldara er að gera sér í hugarlund hve mikil verðmæti 80 milljarðar króna eru, en það var meðalaflaverðmæti erlendu skipanna á ári hverju á núvirði eins og áður sagði. Þessi fjárhæð samsvarar rúmlega tvöföldu framlagi ríkisins til háskólastigsins á Íslandi á þessu ári. Eða er andvirði 16 þúsund bíla á 5 milljónir hver. Eða samsvarar andvirði 1.600 íbúða þar sem meðalverð er 50 milljónir.
Bretar atkvæðamestir

Bretar voru langatkvæðamestir í botnfiskveiðum við Ísland á 20. öld og nam afli þeirra 9,4 milljónum tonna að aflaverðmæti 2.580 milljarðar króna miðað við áðurnefndar reikniforsendur. Á annað hundrað breskir togarar sóttu Íslandsmið lengst af og var ársafli þeirra iðulega á bilinu 150-200 þúsund tonn af botnfiski, aðallega þorski. Þjóðverjar fiskuðu tæplega 5,6 milljónir tonna að aflaverðmæti 1.535 milljarða króna. Næstir á eftir komu Færeyingar með 1,4 milljónir tonna (aflaverðmæti 395 milljarðar), Frakkar með 366 þúsund tonn (100 milljarðar) og aðrar þjóðir, svo sem Belgar, Hollendingar, Norðmenn og Sovétmenn, mun minna.  Í ljósi þeirra verðmæta sem veiðarnar við Ísland skópu er ekki að undra að þjóð eins og Bretar hafi verið treg til þess að gefa þær eftir.

Fjárhagslegur skaði?

Í ljósi þess sem að framan greinir verður sú spurning áleitin að hve miklu leyti Íslendingar hafi borið fjárhagslegan skaða af þessum miklu veiðum útlendinga á Íslandsmiðum. Þekkt er að eftir að bresku togararnir fóru að venja komur sínar hingað til lands kom ítrekað til árekstra við heimamenn sem sökuðu aðkomumennina um að eyðileggja fiskimið sín og veiðarfæri. Auk þess má almennt álíta að Íslendingum hafi seint og snemma þótt samkeppnin um fiskinn við útlendinga á hefðbundnum fiskimiðum rýra sinn hlut.

Jón Þ. Þór sagnfræðingur, sem ritað hefur ítarlega um þetta tímabil, telur að þótt sóknin í þorskstofninn hafi stóraukist með komu erlendu skipanna hafi ekki verið um ofveiði að ræða á tímabilinu fram að fyrri heimstyrjöld og heldur ekki á millistríðsárunum, en með stóraukinni sókn eftir síðari heimstyrjöld hafi fiskistofnunum farið að hraka.

Heildaraflinn hefur stórminnkað

Það er svo umhugsunarefni hvers vegna heildarbotnfiskaflinn á Íslandsmiðum er miklu minni nú en hann var stærstan hluta þess tíma sem við deildum fiskimiðunum með útlendingum á 20. öldinni. Allt frá árinu 1950 og þar til 200 mílna fiskveiðilögsagan var viðurkennd árið 1976 fór botnfiskaflinn í heild aldrei niður fyrir 600 þúsund tonn og var iðulega um og yfir 800 þúsund tonn.

Ein meginforsenda Íslendinga fyrir útfærslu landhelginnar var sú að hin mikla sókn á Íslandsmið væri að ganga að fiskistofnunum dauðum. Létta yrði á veiðiálaginu með því að losna við erlendu veiðiskipin. Eftir 200 mílna útfærsluna dró hins vegar ekkert úr aflanum því íslensku skipin bættu einfaldlega við sig þeim afla sem útlendingarnir höfðu áður tekið. Botnfiskaflinn var því áfram 600-800 þúsund tonn á ári. Á seinni árum hefur aflinn hins vegar minnkað verulega og á síðasta ári var hann til dæmis aðeins 480 þúsund tonn. Helsta skýringin sem vísindamenn hafa gefið á minnkandi afrakstursgetu þorskstofnsins á síðari tímum er sú að náttúruleg skilyrði hafi breyst til hins verra. Kólnandi sjór leiddi meðan annars til þess að þorskstofnar við Grænland hrundu og göngur þorsks frá Grænlandi til Íslands lögðust af, en þær voru oft mikil inn spýting í þorskgengdina hér við land.

Ljóst er af framansögðu að út­færsla fiskveiðilögsögunnar í 200 sjómílur árið 1975 var mikið heillaspor og mátti vart seinna verða svo fiskimiðunum yrði bjargað til framtíðar.

Erlent